Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Hjálmar Jónsson

Höfum jól allt árið

24. desember 2005

En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Ágústus keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gjörð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs,að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni, sem var þunguð. En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari.Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi. En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar.Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir, en engillinn sagði við þá: Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu.

Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu:

Dýrð sé Guði í upphæðum,
og friður á jörðu með mönnum,
sem hann hefur velþóknun á. Lk.2.1-14

Allt er breytt

Jólin eru komin. Nú er allt breytt, ekkert er lengur hversdagslegt. Við stígum inn í veruleika jólanna. Þau hafa opnað fyrir okkur, við eigum þennan samastað í tilverunni. Ysinn þagnar, við taka sálmarnir: Í Betlehem, Í dag er glatt, Heims um ból.

Þannig koma jólin, svo sjálfsögð, svo örugg og árviss. Hvað sem þú ert búin(n) að afreka á aðventunni, hvort sem þú hefur gert mikið eða lítið, þá eru jólin þín í kvöld. Hversu ólík sem við erum, hverjar sem ytri aðstæðurnar eru í tilveru okkar, þá er orðið heilagt. Jólin eru komin með gleði sína. Við leyfum okkar að verða einlægari og viðkvæmari en venjulega.

Sjálfsagt gæti það orðið verðugt og merkilegt rannsóknarefni hvers vegna jólahátíðin hefur svona sterk og mikil áhrif. Hvernig hún sameinar þjóð sem keppist stundum við það að vera ósammála. Nú erum við ekki að hugsa um slíkt. Nú eru jól og við fögnum þeim saman. Gagnstæðir kraftar leggjast saman, allt leggst á eitt. Enginn lifir í eigin heimi heldur lifum við öll í sama heimi.

„Svona á þér að líða„

“Jólin eru sá tími þegar Guð og mennirnir skilja hvorir aðra”, sagði Kaj Munk.
Gegnum það sem er að gerast í jólunum, allt sem á sér stað beint og óbeint, leynt og ljóst, er Kristur að senda þér orð: Svona á þér alltaf að líða. Svona vil ég að heimurinn þinn sé. Þú ert nær Guði nú en nokkurn tíma annars í lífi þínu. Heimur þinn er nú í bestu samræmi við markmið Guðs með þig og veröld þína. Þetta er lífið sem hann vill gefa, þetta er hugarfarið sem er drifkraftur kristninnar.

Í jólunum er sá heimur sem Guð væntir að við sköpum ásamt honum í samfélaginu í kirkjunni, á heimilunum, í skólunum, vinnustöðunum. Á vettvangi daglegrar tilveru. Hann kemur til lífs í þessum ófullkomna heimi, lifir hér og hrærist sem hver annar, sem barn, unglingur, fullorðinn. Hann gleðst og hryggist, hann tengir örlög sín og áhuga sinn allan við okkur.

Og eftir upprisuna er hann áfram einn af okkur. Alltaf til staðar, alltaf með okkur, okkar megin í baráttu lífsins. Guð sjálfur snertir við okkur, gefur okkur líf af sínu lífi, ljós af sínu ljósi. Ég get ekki útskýrt jólin betur en svona, en ég hef fengið að lifa þau oftar en 50 sinnum. Alltaf kemur þessi einstaka tilfinning með jólunum, alltaf eru þau svona ólýsanlega gefandi fyrir líf og sál.

Er nokkuð sannara en jólin?

Er annars nokkuð að gerast merkilegra í heiminum en það sem kristin trú boðar? Eru nokkur skærari vonarljós tendruð, bjartari hugsjónir vaktar en þær sem eru kjarninn í kristinni trú ? Er nokkuð til sannara en jólin?

Hvenær ert þú sannari, heilli, betri?

Satt? Auðvitað eru jólin sönn. Hvernig sem það nákvæmlega gerðist eða nákvæmlega hvenær. Mennirnir búa ekki til svona sögu, þvílíkt skáldverk: Það fæðist barn. Alltaf eru að fæðast börn. Það er lífsins saga - og sérhver barnsfæðing er einstök og gleðileg. Og þó fylgja áhyggjur, kvíði, þegar líður að fæðingu. Það þekkja mæðurnar svo vel, foreldrarnir – og lifa líka gleðina yfir því þegar barn er fætt. Til hamingju þið, ungu fjölskyldur, heima í kvöld með börnin ykkar. Til hamingju öll þið sem fagnið saman í kvöld.

En sértu ein eða einn, saknirðu samfélags við ástvini, vegna þess að eitthvað hefur breyst í kringum þig – sjáðu og finndu það að við erum öll saman, öll sama hugar og hvert hjá öðru. Líf okkar allra á sama snertiflötinn í kvöld.

Í kvöld snertir okkur djúpt söknuður þeirra sem hafa misst kæran vin, sem ekkert kemur í staðinn fyrir. Þótt við fögnum jólum við góðar aðstæður flest, þá vitum við það ekkert síður að skuggalaust, áreynslulaust líf er ekki til. Alltaf er við margt að fást, það er ekki sífelldur dans á rósum, þetta líf.

Jólin eru hátíðin sem breytir heiminum – af því að þau breyta okkur.

Í kvöld og nótt finnum við okkur í náinni snertingu við það sem er svo mikilvægt, svo gott, ekta og satt. Við sjáum heiminn í annars konar ljósi. Og svona ætti það alltaf að vera. Það er alltaf pláss fyrir góðar tilfinningar.

Verðum ekki strax aftur upptekin af nærtækum markmiðum og stundlegum viðhorfum. Birtan og gleðin þarf ekki að fjara út á skömmum tíma. Við eigum aftur stefnumót við jólin þegar líður á næsta ár. Við förum aftur að hlakka til og fyllumst eftirvæntingu, gleði og góðum tilfinningum. Aftur tökum við langt tilhlaup og svífum inn í jólin.

Höfum jól allt árið

Ég er með tillögu, dálítið djarfa tillögu! Og hún er þessi: Höfum jól allt árið.
Kristur er hérna hvort sem er, með okkur alla daga. Hann stígur út úr jólamyndinni inn í heiminn okkar. Svo elskaði Guð heiminn að hann sendi Krist til að vera hér. Það sem vantar á stöðug jól er það að við þurfum að hafa opið fyrir honum, fyrir trúnni, voninni, kærleikanum. Vita af Jesú Kristi, heilsa honum í bæn á morgnana. Aukaafurð af þessu verður sú að andrúmsloftið verður innilegt áfram. Sífelld jól þurfa ekkert að kosta. Þau eru trú og traust og bæn. Og það er eins og segir í 118: “Ekkert gjald er tekið á meðan beðið er.” En kærleikur Krists mun snerta okkur, auðvelda alla daga lífs okkar, bara ef við erum móttækileg.

Líf okkar er sífelld snerting við líf annarra. Stundum rekumst við harkalega á annað fólk, stundum er allt létt og gott. Við komum hvert öðru við, erum á sömu leiðinni, sama höfundar, með lík markmið og þrár.

Höfum það alltaf svona notalegt, leysum mál okkar með meiri friði, meiri skynsemi. Þú átt enga óvini. Eins og hæstaréttardómari einn hefur að máltæki: “Betri er mögur sátt en feitur dómur.” Því að sáttargjörðin er alltaf betri. Báðir aðilar ganga uppréttir frá borði.

Markmið trúarinnar er líf í kærleika, í sátt og friði. Jólin vilja skila því til þín að Guð er sáttur við þig.

Hvað sem er á undan gengið í þínu lífi, - vertu viss um að Guð hefur engar sakir á hendur þér. Þú ert hans elskað barn, hann gerir engan fyrirvara, setur engin skilyrði. Þú þarft ekki að draga með þér þungar byrðar, - ekki eftirsjá, ekki harm, engar brostnar vonir. Þú átt framtíð fyrir þér, vegur þinn er greiður. Og framtíðin er hafin. Gleðileg jól öll í Jesú nafni.

AMEN.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3241.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar