Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Halldór Elías Guðmundsson

Hver ertu eiginlega?

11. desember 2005

Jóhannes heyrði í fangelsinu um verk Krists. Þá sendi hann honum orð með lærisveinum sínum og spurði: Ert þú sá, sem koma skal, eða eigum vér að vænta annars?

Jesús svaraði þeim: Farið og kunngjörið Jóhannesi það, sem þér heyrið og sjáið: Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp, og fátækum er flutt fagnaðarerindi. Og sæll er sá, sem hneykslast ekki á mér.

Þegar þeir voru farnir, tók Jesús að tala til mannfjöldans um Jóhannes: Hvað fóruð þér að sjá í óbyggðum? Reyr af vindi skekinn? Hvað fóruð þér að sjá? Prúðbúinn mann? Nei, prúðbúna menn er að finna í sölum konunga. Til hvers fóruð þér? Að sjá spámann? Já, segi ég yður, og það meira en spámann. Hann er sá, sem um er ritað:

Sjá, ég sendi sendiboða minn á undan þér,
er greiða mun veg þinn fyrir þér.

Sannlega segi ég yður: Enginn er sá af konu fæddur, sem meiri sé en Jóhannes skírari. En hinn minnsti í himnaríki er honum meiri. Matt 11.2-11

Lærisveinar Jóhannesar skírara voru sendir af stað til Jesú með spurningu, einfalda en jafnt svo flókna. Hver ertu? Ert þú sá, sem koma skal, eða eigum vér að vænta annars?
Jóhannes og Jesús höfðu hist fyrr. Sjálfsagt hefur Elísabet móðir Jóhannesar sagt honum frá því þegar hún mætti Maríu, þegar báðar voru með barni. Sagt honum frá því að hann hafi hreyft sig ógurlega í móðurkviði þegar María kom til hennar.

Jóhannes mætti síðar Jesú við ánna Jórdan. Jóhannes taldi sig þekkja mátt og mikilvægi Jesú en samt gerði Jesú kröfu um að fá skírn. Eflaust mundi Jóhannes þegar himnarnir opnuðust og rödd heyrðist: Þetta er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.
Auðmýkt Jesú og krafa um réttlæti til handa öllum, virðist samt koma Jóhannesi í opna skjöldu. Hvernig fer saman að vera sonur hins alvalda Guðs og vera um leið auðmjúkur maður.

Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Jóhannes sendi lærisveina sína með spurningu til Jesú.
“Hví föstum vér og farísear, en þínir lærisveinar fasta ekki?” Var spurningin í hitt skiptið.
Jóhannes vissi að það var eitthvað við þennan Jesú, “there was something about this Jesus”. En þetta var um leið svo skrítið. Þetta virtist ekki ganga upp.

Skilningur Jesú á lögmálinu var öðruvísi en Jóhannes átti að venjast, viðhorf Jesú til fátæklinga, kvenna og þeirra sem liðu var ekki viðhorf sem þekktist meðal höfðingja, vilji Jesú til að taka þátt í iðrunarathöfn niðurdýfingarskírnarinnar var ekki atferli fyrirmanna og þeirra sem valdið hafði. Þeir sem réðu þurftu ekki að iðrast neins á þessum tíma. Þó stundum virðist það í tísku nú á dögum.

Hver ertu eiginlega?

Það er ekki nema von að Jóhannes spyrji. Það voru fleiri sem spurðu. Síðar í guðspjallinu spyrja farísearnir. Hver þykistu eiginlega vera? Bæði Jóhannes og farísearnir biðu frelsara, einhvers sem myndi leysa gyðingþjóðina undan oki og kúgun nýlenduherranna frá Róm. Frelsara sem spámenn Gamla Testamentisins höfðu lofað að kæmi.

Sjálfsagt hafa væntingarnar verið um konung líkt og Davíð sem sameinaði Ísraelsríkið og gerði það öflugra en nokkru sinni fyrr eða síðar. Konung sem hafði djörfung til að mæta risanum í orrustu eða leiðtoga eins og Móse, sem leiddi þjóð sína úr Egyptalandi og bauð Faraó byrginn.

En Jesú virtist ekki vera slíkur leiðtogi, hann gaf sér tíma með þeim sem minna máttu sín, hann ræddi við rómverska hermenn og tollheimtumenn sem voru hlutgerving kúgaranna, hann hélt uppi vörnum fyrir skækjur, gaf sér tíma fyrir fátæklinga og fatlaða.
Það er ósköp eðlileg spurning af vörum Jóhannesar, hver ertu eiginlega?

Ég er sá sem ég er!

Guð mætti Móse með orðunum “ég er sá sem ég er!” Lexian í dag felur í sér hina klassísku leit að lífstilgangi. Við sjáum þessa leit víða. Í Biblíunni er hún e.t.v. hvað mest áberandi í Jobsbók og Prédikaranum. Svar Jesaja í lexíunni, líkt og svar Prédikarans vísar til orðs Guðs. Það er þar sem við getum fundið okkar lífsmarkmið. Orð Jesaja, minna okkur á að Guð er eilífur, hann er handan tímans, hann er sá sem hann er. I. Pétursbréfi er vísað til orða Jesaja og sagt:

Allt hold er sem gras
og öll vegsemd þess sem blóm á grasi;
grasið skrælnar og blómið fellur.
En orð Drottins varir að eilífu.
Og þetta orð er fagnaðarerindið, sem yður hefur verið boðað.

En orð Drottins, fagnaðarerindið, sá Guð sem er, eru ekki aðeins fallegir stafir í góðri bók. Svar Jesú við spurningu Jóhannesar: hver ertu eiginlega? felur ekki í sér hugmyndafræðilegt svar um helstu kenningar og guðfræðilega útskýringu á eskatalógískri birtingarmynd frumorsakar tilveru okkar.

Svar Jesús er endurómur orða Jesaja spámanns. Jesús minnir á að endurlausnarinn, sá sem frelsar Ísraelsþjóðina í spádómum Jesaja er ekki höfðingi sem ríkir yfir þjóðum og stjórnar þúsundunum með valdi heldur þjónn sem tekur sér stöðu með þeim þjáðu og leiðir til betra lífs. Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp og fátækum er flutt fagnaðarerindið.

Hver ertu eiginlega?

Pistill dagsins birtir okkur síðan aðra mynd á spurningu Jóhannesar skírara. Þar erum við sjálf kölluð til að leita svars við spurningunni. Páll postuli kallar okkur til að vera þjónar Krists og ráðsmenn Guðs. Hann kallar okkur til að vera ábyrg gagnvart skapara okkar og sköpun hans.

Ég las áhugaverðan texta fyrir tveimur vikum þar sem minnt var á að Jesú hefði (ef hann hafi yfirleitt verið til), örugglega ekki fæðst á jólum. Þannig væru kristnir menn einfaldlega að stela miklu eldri hátið og gera að sinni, bara til að halda upp á afmæli sem hvort eð er væri örugglega ekki á þessum tíma. Textanum fylgdi hvatning til að losa sig undan afmælisbyrðunum, sleppa Jesú úr myndinni, fagna með fjölskyldu og vinum og njóta þess besta sem manns nánustu geta boðið.

Sjálfsagt ekki óalgeng hugsun um jólin, frítími með þeim sem maður elskar, fjarri ys og þys. Laus frá áhyggjum hversdagsins og hörmulegum fréttum. Í þessum anda syngja bresku tónlistarmennirnir um börnin í Afríku: “Well tonight thank God it’s them instead of you”, eða á íslensku: Þakkaðu Guði í kvöld að það eru þau en ekki þú [sem þjást].

Það er oft talað á tyllidögum um stress jólanna, við horfum á fólk á hlaupum á Þorláksmessukvöld og flest okkar segja eins og tónlistarmennirnir, þakka þér Guð að ég er ekki eins og þessi stressuðu (Lk 18.11). Við förum jafnvel á námskeið til að verða ekki stressuð. Það er í tísku að ráðast að stressinu, segja fólki að njóta jólanna áhyggjulaust og hamingjusamt, það eina sem skipti máli sé það sjálft og vellíðan þess og þeirra nánustu.

En Fagnaðarerindið er ekki innhverft á þennan hátt, hlutverk okkar er að vera ábyrg gagnvart skaparanum og sköpun hans. Auðvitað er mikilvægt að gefa sér tíma til uppbyggingar, líkt og Jesús og lærisveinarnir gerðu þegar þeir gengu upp á fjallið og báðust fyrir, en við eigum ekki að setjast að í sælunni, þó þar sé gott að vera. Við eigum að fara niður af fjallinu og þjóna náunga okkar. Boðskapur jólanna er ekki, et, drekk og ver glaðr.
Sjálfhverfa jólanna er alvarlegasta ógnin við fagnaðarerindi Jesú Krists. Krafan um að fá að eiga, gera, vera sjálfur og án tillits til annarra.

Smá innlegg úr heimilislífinu

Það var sagt við mig fyrir tveimur árum að rannsóknir konunnar minnar á stofnstærð rjúpunnar hefðu meiri áhrif á jólahald landsmanna en störf mín hjá kirkjunni. Það hvað ÉG fæ að borða á jólunum að ÉG fái mitt sé eitt megininntak hátíðarinnar hjá svo mörgum. Það voru ófáir sem töluðu um að það yrðu enginn jól án rjúpu. Óhætt er að segja að þá ráði á ný hinn heiðni siður sem kallar á það eitt að eta, drekka og vera glaður í sjálfum sér og með sínum nánustu. Það er e.t.v. ekki tilviljun að Hegranesgoðinn á Alþingi, fulltrúi hins heiðna siðar, skuli hafa verið hvað háværastur af þingmönnum í deilunum um rjúpuveiðar.

Hver ertu eiginlega?

Þriðja kertið hér á aðventukransinum heitir hirðakerti. Í texta guðfræðingsins Max Lucado, segir að englarnir hafi komið fyrst til hirðanna á Betlehemsvöllum vegna þess að þeir spurðu ekki Guð hvort hann væri viss um hvað hann væri að gera. Hefði engillinn komið til guðfræðinga hefðu þeir byrjað á að rannsaka guðfræðilegar forsendur atburðarins. Hefði engillinn komið til fræga fólksins, hefðu allir beðið og séð hvernig hinir tækju fréttunum. Hefði engillinn komið til þeirra ríku og mikilvægu hefðu þeir kíkt í dagbókina sína.

Af þeim sökum fór engillinn til hirðanna, segir Max Lucado. Þeirra sem þurftu ekki að passa upp á mannorð sitt eða frama, Þurftu ekki að gera eitthvað annað „mikilvægara“ fyrst. Hann fór til þeirra sem „vissu“ ekki nægilega mikið í guðfræði til að geta sagt Guði að englar hafi ekki samskipti við hirða og frelsarinn myndi aldrei vera lagður í jötu heldur konunglegt rúm.
Ráðsmennskuhlutverk okkar, kallar okkur til ábyrgðar gagnvart Guði. Okkur ber að gefa af okkur, leitast við að gera heiminn, sköpunarverk Guðs, að betri stað. Hafna sjálfhverfunni, óttanum við að missa af einhverju, hafna hræðslunni við hvað öðrum kynni að finnast og leitast við að þjóna öðrum, svo blindir fái sýn og haltir gangi, líkþráir hreinsist og daufir heyri, dauðir rísi upp og fátækum sé flutt fagnaðarerindið.

Hver ertu eiginlega?

Svar Jesú til Jóhannesar, vísar til spádóma Jesaja, vísar til vonarinnar sem gyðingþjóðin bar í brjósti. Svar Jesú felur í sér von um betri heim.

Orð Páls í I Korintubréfi kalla okkur til að vera með í þessu verki Krists, vera hendur hans hér á jörðu, ganga fram í auðmýkt og kærleika, veita af alnægtum okkar þeim sem búa við skort (af hvaða tagi sem hann kann svo að vera).

Guð gefi okkur að heyra svar Jesú Krists og bregðast við því á þann hátt sem okkur er ætlað.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 4277.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar