Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Bjarni Karlsson

Friður

25. desember 2005

Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð.Hann var í upphafi hjá Guði.Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekki neitt, sem til er.Í honum var líf, og lífið var ljós mannanna.Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því.

Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes.Hann kom til vitnisburðar, til að vitna um ljósið, svo að allir skyldu trúa fyrir hann.Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið.

Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn.Hann var í heiminum, og heimurinn var orðinn til fyrir hann, en heimurinn þekkti hann ekki.Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum.En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans.Þeir eru ekki af blóði bornir, ekki að holds vild né manns vilja, heldur af Guði fæddir.

Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð, sem sonurinn eini á frá föðurnum. Jh.1.1-14

Náð og friður frá Guði sé með okkur öllum. Amen.

Enn ganga jól yfir heiminn. Enn berst hinn máttugi boðskapur um veröldina. Boðskapur friðar og líknar. Og sálir manna standa hljóðar úti í Betlehemsnóttinni og heyra englasöng: “Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.” Enn fer fögnuður himins um vitund okkar, fögnður þess sem veit sig elskaðan, sá feginleiki að Guð skuli horfa með velþóknun til okkar og alls sem lifir. En því bjartar sem ljós jólanna skín í sálinni því þungbærari verður manni grátur barnsins í jötunni. Þetta barn, jólabarnið, - sjálft lífið í veröldinni, réttlætið í heiminum, sannleikurinn í samskiptum manna og náttúru,- hve sárt það grætur í dimmri nóttinni. Já, því ljósar sem hjarta þitt nemur englasöng jólanætur því óbærilegri verður grátur barnsins, og þú veist að þú ert kallaður, þú ert kölluð til að sefa þennan grát.

“Öll sköpunin stynur” skrifar Páll postuli í Rómverjabréfinu. “Öll sköpunin stynur og hefur fæðingarhríðir allt til þessa.” Það ríkir þjáning í veröldinni en postuli trúarinnar fullyrðir að hún sé ekki merkingarlaus. Hann líkir þjáningum sköpunarinnar ekki við pyndingar heldur fæðingarhríðir. Engin þjáning er harðari, og þó ber hún fögnuðinn í sér. Lífið skal fæðast, það skal umbreytast, fæðast að nýju og sigra. Þessa von eigum við í Jesú Kristi frelsara okkar.

Kristin kirkja stendur með lífinu. Hún trúir lífinu, trúir góðu fregnunum, trúir friðarboðum Guðs.

Já, friður er djúpt hugtak í Biblíulegri hugsun. Friður, Shalom, táknar það ástand, þegar lífið hefur vaxtarskilyrði. Shalom merkir jafnvægi í náttúrunni, réttlæti milli manna, gæftir til lands og sjávar og gleði í sál og sinni.

Það ár sem brátt er að baki hefur einkennst af ójafnvægi í veröldinni á svo mörgum sviðum. Náttúran hefur farið hamförum með mjög ögrandi hætti. Það hlýnar á hnettinum, og okkur grunar að vestræn neyslumenning eigi þar stóran hlut að máli. Miklar viðsjár eru líka í samskiptum manna og þjóða á ýmsum stöðum. Aldrei hefur misskipting verið meiri í veröldinni, aldrei hafa fleiri börn verið foreldralaus, einkum er það alnæmisfaraldurinn sem því veldur auk annars, og aldrei var fleira fólk á vergangi vegna náttúruhamfara og styrjalda en nú. Trúin á barnið sem fæddist svo að þjáning veraldar mætti öðlast merkingu, verður að steini í maganum þegar um þetta er hugsað. Er einhver endir á andhverfu friðarins? Eru það e.t.v. óreiðuöflin sem hafa munu vinninginn á þessum kalda hnetti? Mun grimmdin og græðgin hrósa sigri þegar allt kemur til alls? Nei, segir kristin kirkja um alla veröld. “Ennþá áreiðanlegra er oss því nú hið spámannlega orð,, skrifar Pétur postuli. “Ennþá áreiðanlegra er oss því nú hið spámannlega orð og það er rétt af yður að gefa gaum að því, eins og ljósi sem skín á myrkum stað, uns dagur ljómar og morgunstjarna rennur upp í hjörtum yðar.”(2. Pét.1.19 ) Kristin kirkja ber fram hið spámannlega orð og trúir og treystir, jafnvel þegar ljós réttlætisins bara skín eins og lítil týra á myrkum stað.

Þegar kristin manneskja horfir á þjáningu heimsins þá sér hún ekki bara volaða veröld, heldur veröld sem Guð hefur vitjað í syni sínum af því að hann hefur velþóknun á henni. Og af ásjónu sonarins Jesú skín hvorki uppgjöf né vonleysi heldur staðföst velvild.
Og spádómsorð Jesaja um Messías berast okkur í gegnum árþúsundin:
“Hann mun dæma meðal lýðanna og skera úr málum margra þjóða. Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar. Ættmenn Jakobs, komið, göngum í ljósi Drottins.” (2.4-5)

Hér sjáum við þá vitneskju að ófriður og ranglæti er ekki annað en menning. Menn temja sér hernað. Eins geta menn líka tamið sér frið. “Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar.” Og hér hljómar herkvöð kirkjunnar. “Ættmenn Jakobs, komið, göngum í ljósi Drottins.” Hlutverk Krists og kirkju hans í veröldinni er að innleiða frið á jörð. “Ættmenn Jakobs, komið, göngum í ljósi Drottins.” Og þetta ljós er Jesús Kristur sjálfur. Hann er hið sanna ljós sem upplýsir hvern mann en lögmál Móse og spámenn GT vitna um hann, benda fram til hans.

Í lögmáli Móse má finna stórkostlegar lýsingar á umhyggju Guðs fyrir sköpun sinni. Þar eru boðorðin tíu sem hvetja okkur til sjálfstjórnar og meðvitundar um það að við erum siðferðisverur. Og þar eru hin merku lög um sabbatinn og um sabbatsárið og loks um fagnaðarárið, sem haldið var 50. hvert ár. Hér fáum við stórkostlega og um leið skorinorða innsýn í huga Guðs og vilja, en jafnframt sterka undirstöðu undir friðarboðap kirkjunnar á hverri tíð. Friðarboðskap sem ber með sér þekkingu á eðli friðarins. Shalom.

Eins og við vitum þá hafði hvíldardagurinn það inntak að þá skyldu menn og dýr hvílast, því sjálfur Guð hvíldist á hinum sjöunda degi. Hvíld manna og dýra er, samkvæmt lögmálinu, hluti sköpunarverksins. Án hvíldar er ekkert líf. Hvernig hvílist þú?

Um Sabbatsárið segir í 25. kafla 3. Mósebókar: “Drottinn talaði við Móse á Sínaífjalli og sagði: ‘Tala þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Þegar þér komið í land það, sem ég mun gefa yður, þá skal landið halda Drottni hvíld. Sex ár skalt þú sá akur þinn og sex ár skalt þú sniðla víngarð þinn og safna gróðrinum. En sjöunda árið skal vera helgihvíld fyrir landið” Tökum eftir þessu! Landið á sinn sjálfstæða tilverurétt. Líka landið þarf hvíld frá áreiti manneskjunnar og svo segir: “Gróður landsins um hvíldartímann skal vera yður til fæðu, þér, þræli þínum og ambátt, kaupamanni þínum og útlendum búanda, er hjá þér dvelja. Og fénaði þínum og villidýrunum, sem í landi þínu eru, skal allur gróður þess vera til fæðu.’” (25.1-6)

Þannig tjáir lögmál Móse afstöðu Guðs til landsins og lífsins sem á því þrífst. Auk þess sem landið á sinn sjálfstæða tilverurétt, eiga líka allir jafnan rétt á hinum sjálfsprottnu gæðum þess. Frjálsir menn og þrælar, innfæddir og útlendingar, húsdýr og villidýr. Athyglsvert!

Og áfram segir lögbók Móse, og látum ekki stærðfræðina sem hér kemur rugla okkur neitt, því þetta eru ótrúlega merkilegar hugsanir: “Þú skalt telja sjö hvíldarár, sjö ár sjö sinnum, svo að tími þeirra sjö hvíldarára verði fjörutíu og níu ár. Og þá skaltu… láta hvellilúðurinn gjalla… og boða frelsi í landinu fyrir alla íbúa þess.” (25. 8-10) Og svo er því lýst hvernig aftengja skuli hagkerfið, með því að hver og ein ætt gefi öllum þrælum frelsi og skili til baka því landi sem hún kann að hafa eignast í viðskiptum umliðin fjörutíu og níu ár, nú, eða taki að nýju við landinu sem hún missti einhverra hluta vegna. Og þess er einnig getið að þegar menn kaupa akra þá eru þeir ekki að kaupa akurinn heldur uppskeruna og skuli greitt lægra verð eftir því sem fagnaðarárið nálgast í tíma. En “landið skal eigi selt fyrir fullt og allt, því að landið er mín eign, því að þér eruð dvalarmenn og hjábýlingar hjá mér.” Segir Guð.

Margvíslegar aðrar reglur, smáar sem stórar er að finna í lögmáli Móse, en grunnhugsunin, vitundin sem að baki öllu býr, er sú, að allt sem lifir er á samleið. Allt á upphaf sitt í Guði og allt stefnir til hans með einum eða öðrum hætti. Landið, dýrin og mennirnir, allt er frá Guði og það er mannsins að gæta hófs og virðingar í samskiptum við allt skapað. Enginn getur átt neitt í raun. Allt er að láni og það kemur að skiladegi. “Landið er mín eign, en þér eruð dvalarmenn og hjábýlingar hjá mér.”

Við getum spurt okkur hversu fjarri þessari hugsun hagkerfi okkar er. Við lifum í heimi sem trúir á hagkerfið en ekki á Guð sem gefur lífið. Við þróum menningu sem notar sér jörðina og meðhöndlar hana sem eign og vill helst ekki einu sinni horfa til framtíðar með komandi kynslóðum. Við tilheyrum samfélagi þar sem heilagleika lífsins er hafnað og menn slá eign sinni á hvað sem er.

En lífið er samt heilagt, Guð á þennan heim. Og hversu mjög sem menn vilja breiða úr sér og gera sjálfa sig guði með því að eigna sér jörðina, þá kemur nú bara að því að þeir deyja sjálfir.

Við lifum líka í veröld þar sem manneskjur varpa eign sinni hver á aðra með hræðilegum hætti.

Það virkar óraunverulegt en er samt staðreynd að hundruð þúsunda eru seld mannsali í Evrópu á ári hverju, og svo virðist sem þrælahald sé að festa rætur í okkar þjóðmenningu líka, þótt dulið sé. En í lögmáli Móse segir: “Komist bróðir þinn í fátækt hjá þér og selur sig þér, þá skalt þú ekki láta hann vinna þrælavinnu. Sem kaupamaður, sem hjábýlingur skal hann hjá þér vera. Hann skal vinna hjá þér til fagnaðarárs. En þá skal hann fara frá þér, og börn hans með honum, og hverfa aftur til ættar sinnar, og hann skal hverfa aftur til óðals feðra sinna. Því að þeir eru þjónar mínir, sem ég hefi leitt út af Egypalandi. Eigi skulu þeir seldir mansali. Þú skalt eigi drottna yfir honum með hörku, heldur skalt þú óttast Guð þinn. (25. v. 39 – 43)

Fæðing Jesú, það, að Guð tekur á sig hold, merkir einfaldlega það að réttlætiskrafa Guðs nær til allra manna og tilheyrir ekki lengur Gyðingum einum. Á sama hátt og Guð útskýrir í lögmálinu að Gyðingur megi ekki þrælka samlanda sína vegna þess að þeir séu þjónar hans, sem hann hafi leitt út af Egyptalandi. Þannig gildir nú fæðing Guðs sonar, krossdauði hans og upprisa sem mannréttindayfirlýsing fyrir alla jarðarbúa. Guð gerðist maður í Jesú Kristi fyrir alla. Hann gaf líf sitt fyrir allt fólk og reis frá dauðum svo að veröldin öll megi eiga eilífa von. Í ljósi Kristsatburðarins hefur engin manneskja stöðu yfir annarri manneskju. Í ljósi Kristsaburðarins skal ríkja friður á jörðinni, því Guð hefur velþóknun á mönnum og þ.a.l. á öllu sköpuðu.

Jólabarnið grætur, - sjálft lífið í veröldinni, réttlætið í heiminum, sannleikurinn í samskiptum manna og náttúru,- hve sárt það grætur í myrkri heimsins.
Bræður og systur í trúnni á Jesú! Við eigum hið spámannlega orð, “og það er rétt af yður að gefa gaum að því eins og ljósi sem skín á myrkum stað, uns dagur ljómar og morgunstjarna rennur upp í hjörtum yðar….Ættmenn Jakobs, komið, göngum í ljósi Drottins.”

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3657.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar