Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Friður og sátt

25. desember 2005

Hvert fátækt hreysi höll nú er,
því Guð er sjálfur gestur hér. (Sb, 73,)
Drottinn Guð, gjafari allra góðra hluta, og upphaf gleðinnar.
Með fæðingu Jesúbarnsins sendir þú bjartan geisla inn í myrkur jarðar.
Gef að það ljós lýsi einnig hjá okkur. Lát það geisla í öllu sem við gerum,
svo að við megum tigna þig og tilbiðja að eilífu.
Amen.

Ritað er í jólaguðspjallinu:

En engillinn sagði við þá: Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu.

Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu:

Dýrð sé Guði í upphæðum,
og friður á jörðu með mönnum,
sem hann hefur velþóknun á.

Kæri söfnuður, í gamla daga var á hátíðum fluttur sérstakur söngur sem kallaður var stólvers, áður en prestur tók til við predikunina. Seinna var það kórinn sem söng eitthvað það sem hann hafði sérstaklega æft fyrir það tilefni. Og þannig verður það einnig nú.

Stólvers: Jól, jól, skínandi skær. Gustav Nordquist / Reynir Guðsteinsson.

Náð sé með yður og friður, frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Gleðilega jólahátíð í Þingvallakirkju.

Það er hátíð í heimi. Fólk streymir til kirkju, um allan heim. inn í háreistar hallir og hriplek skýli, til að koma saman og eiga jólagleðina hvert með öðru í návist frelsarans í stórum faðmi Guðs.

Fólk kemur saman í söddu afskiptaleysi, í glöðu samþykki, og í óttablandinni þrá allt í samræmi við hið ólíka umhverfi kristninnar í heiminum.

Og við sem erum hér erum nánast ein í stórbrotinni náttúru, völdum engri truflun, óttumst ekkert og erum södd og glöð.

Hér stendur hún þessi gamla litla kirkja með háklassísku gullinsniði, í sinni einföldu sviphreinu fegurð, eins og hún hefur gert í hálfa aðra öld, yngst í röð systra sinna í þúsund ár, og þarf ekkert að skammast sín fyrir að vera hluti af ægifegurð Þingvalla, enda sýnileg á svo mörgum myndum héðan frá Þingvöllum að fá hús á Íslandi eru þekktari en hún á erlendri grund, nema þá Þingvallabærinn sjálfur ásamt með henni.

Yfir henni hvílir kyrrð og friður.

Meðan hér var haldið þing, áður en þessi kirkja var reist, var kirkjan gjarna notuð á sérstökum stundum þingsins, ekki síst ef mikið blés og rigndi rétt eins og í dag.

Sú kirkja stóð einnig hér.

Hér á þessum stað hefur því mörg sáttin verið gjörð milli manna.

Hér er sáttastaður.

Og hér er staður fyrir næturró. Hér svaf forðum margur góður gestur, meðan húsrúm var lítið á staðnum. Og ef rétt er hermt svaf hér á sinni tíð konungur Íslands, Kristján IX í ferð sinni með stjórnarskrána 1874.

Það er ekki lítið hús sem rúmar konung.

Jarðneskir konungar eru sem kunnugt er plássfrekari á jörð en hinn himneski sem á hér alltaf heima.

Jóladagur er kirkjudagur og vígsludagur Þingvallakirkju. Eftir fjögur ár verður hér sérstök hátíð og 150 ára vígsluafmæli. En ef okkur leiðist að bíða svo lengi þá eru ekki nema tæp tvö ár í það að halda megi uppá hundrað ára afmæli turnsins og þeirra breytinga sem þá voru gerðar á kirkjunni.

Þessa mun vonandi verða minnst með viðeigandi hætti þegar þar að kemur, og þá mun fólk leita uppi þessa öldnu kirkju sem fyrr og vitja hennar, eins og maðurinn gengur á vit minninga sinna, og aldrei meir en á jólum.

Og við viljum að þau sem leita finni.

Hvers leitar maðurinn hjá kirkjunni, eða í hátíðinni? Hversvegna fara svona margir til kirkju á jólum, en annars sjaldan? Hvers leita þau?

Hvað er eftirsóknarverðara en annað?

Kyrrð og sátt og friður.

Mitt í öllu annríki daganna, spennu og ys og þys leitum við kyrrðar og næðis. Kannski er ekkert annað eftir til þess í okkar venjulegu veröld, en einmitt jólin,

Þessvegna þurfum við að standa vörð um þau.

Hún er líka friðsæl myndin sem mörg jólakortin sýna, og börnin teikna. Þar eru María og Jósef, - englar - hirðar og úlfaldar og vitringar og sauðfénaður. Og svo sjálf Betlehemsstjarnan.

Þetta eru fallegar myndir.

Líklega eru þær samstofna þeim myndum sem við sjálf geymum og varðveitum.

Það er auðvitað eðlilegt og saklaust þegar við reynum að forðast skuggann í jólamyndunum okkar, en slíkar myndir eru auðvitað ófullkomnar og í rauninni ósannar.

Enda vildi kirkjan frá upphafi að næsta dag eftir jóladag skyldum við minnast Stefáns, hins fyrsta sem deyddur var fyrir trú sína. Það var með steinkasti. Hann var grýttur. Mannréttindasamtök heimsins báðu okkur sem tilheyrum kristinni kirkju um það fyrir tveim árum að halda áfram að halda Stefánsdag til að leggja þeim lið við að reyna að stöðva þessa refsingaraðferð sumra samfélaga sem enn iðka hana.

Textar jólanna eru margbrotnir. Þeir spanna lífið allt í trausti og krafti þeirra sem hafa tekið sér stöðu með friði Guðs og í honum miðjum.

„Vér fórum allir villir vega sem sauðir sem engan hirði hafa“. „Sú þjóð sem í myrkri gengur, sér mikið ljós“.

Boð kom frá Ágústusi keisara.

Það er hluti af umgjörðinni. Og boði keisarans fylgdu hermenn sem framfylgja áttu boðinu og halda uppi lögum og reglu.

Friðarhöfðinginn liggur í jötu í hersetnu landi.

En áherslan liggur ekki á því í boðskap jólanna. Að veröldin er full af lygum og svikum og ófriði og níðingsskap er alveg rétt, - en það er ekki boðskapur jólanna. Hann er um allt annað. Hann er um það sem brýtur upp hið illa. Vinnur gegn því og sigrar það.

Á Betlehemsvöllum eru hirðar og gættu um nóttina hjarðar sinnar.

Orðin hljóma kunnuglega og hugljúft, en veruleiki þeirra er harður og óvæginn, starfið hættulegt og erfitt. Hirðarnir voru viðbúnir ýmsu, en ekki því sem varð. Hvernig það varð vitum við ekki heldur. Það sem eftir sat og þeir sögðu frá var að þeim hefðu borist góð tíðindi - gleði tíðindi : Ég boða yður mikinn fögnuð, sagði engillinn, - ykkur sem búið í myrkrinu, ykkur sem sitjið skuggamegin í lífinu, ykkur sem eruð hrædd og slegin ótta - er í dag frelsari fæddur.

Það er frelsari, sem bjargar frá neyðinni. Hann bjargar frá hinni síðustu hyldjúpu neyð, sem allir menn þurfa að mæta, sjálfri ógn dauðans. Hann er frelsari sem bjargar frá myrkrinu og frá óttanum.

Þetta er atburður jólanna, að baki allra erfiðleika, neyðar og sorgar og ótta, birtir af ljósi vonarinnar.

Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hirðsveita.

Boðskapur jólanna um ljósið sem skín í myrkrinu, ljós vonarinnar, ljós kærleikans, ljós friðarins, á misgreiða leið að okkur viðtakendum hans, allt eftir því ljósi sem við sjálf dveljum í.

Englarnir syngja um frið á jörðu.

Það var ekki friður á jörðu þessa nótt fyrir tvö þúsund árum, og það er ekki enn friður á jörðu.

Í borg Davíðs Betlehem hefur þrásinnis á síðustu árum öllu hátíðahaldi verið aflýst um jól. Þetta árið eru gistihúsin tóm en ekki full.

Það er stór jólagjöf að mega búa í þessu landi, þó að myrkt sé stundum, en þakklætið fyrir birtuna og hlýjuna er væntanlega dýpra fyrir vikið.

Við höfum komið saman í þessu aldna kirkjuhúsi til þess að taka undir englasöng næturinnar og til að þakka fyrir gjöfina í jötunni og taka á móti henni fyrir lífið.
Það er stór ljólagjöf að mega það. Hér.

Friður og sátt. Tvö hugtök. Annað meira fyrir heiminn, hitt meira fyrir manninn.

Friðar leitar allur heimur.

Sáttar leita allir menn.

Við horfum til fjarlægðar og nálægðar. Til heimsins og til okkar nánustu.

Sátt er grundvöllur friðar.

Þetta vissi Einar í Heydölum þegar hann orti:

Lofið og dýrð á himnum hátt
honum með englum syngjum þrátt,
friður á jörðu og fengin sátt,
fagni því menn sem bæri.
Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er enn og verður um aldri alda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3462.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar