Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.



Leita í pistlum

Vigfús Bjarni Albertsson

Dýrmætar minningar

14. desember 2005

Drottinn Jesús, líf og ljós
oss þín blessuð elska veitir,
öllu stríði loks þú breytir
sæluríkt í sigurhrós.
Mæðu og neyð þín miskunn sefi,
með oss stríði kraftur þinn.
Sigur þinn oss sigur gefi,
sigurhetja, Jesús minn.

Þannig hljómar þriðja versið úr Sigurhátíð sæl og blíð.

Við eigum öll myndir, minningar, af einhverjum sem eru okkur kær. Fólkið í lífi okkar, atburðir í lífi okkar. Myndir á veggjum, myndir á góðum stað, myndir í hugskotum okkar. Dýrmætar minningar um fólkið okkar sem er farið, dýrmætar minningar um þau sem sköpuðu og mótuðu líf okkar í upphafi eða með okkur. Fjársóður sem hjálpar okkur að muna og minnast, en ekki síst til að heiðra þá sem eru farnir. Sumar myndir geta aðrir séð, aðrar minningar er geymdar sem óendanlega dýrmætur fjársóður í hugskotum okkur, hugsanlega er hægt að deila þeim með öðru fólki en stundum ekki. Ástarorð, snerting, sameiginlegir draumar og væntingar, trúnaðarsamtöl og annað sem gerir mannlífið svo ríkulegt og fagurt.

Jólaguðspjallið segir okkur frá ungum hjónum á ferð. Þau vilja tryggja hinu nýja lífi sem þeim hefur verið treyst fyrir öruggt skjól. Okkur er það eðlislægt að vernda lífið, andadráttinn. Við getum auðveldlega sett okkur í spor ungu hjónanna sem halda á von sinni í reifum og leggja í jötu. Ungu hjónin og barnið þeirra eru að kynnast því að hvert andartak lífsins er svo viðkvæmt að í raun má ekkert fara úrskeiðis. Það er staðreynd sem fylgir okkur ætíð. Í raun er okkuð andað því hver er meðvitaður um eigin andadrátt.

Lífið er þó meira en viðkvæmt, það er skapandi og það lætur okkur dreyma og hafa væntingar. Skapandi í því hvernig við tengjumst sjálfum okkur og öðru fólki, sagnamaðurinn Guð er stöðugt að skapa lífssögur þar sem fólk er í aðalhlutverkum í lífi hvers annars og um leið í eigin lífi. Kannski er hvert mannslíf á einhvern hátt boðskapur um Guð? Möguleikana, kærleikann og tækifærin, sátt og fyrirgefningu í lífi okkar annarra.

Hvert og eitt æviskeið okkar á dýrmætar stundir og dýrmætan boðskap. Gleði barnsins mýkir umhverfi sitt, stundum læðist lítill lófi í hönd okkar. Það gleður og stundum verður sorgartund léttbærari fyrir vikið. Guð er stöðugt að skapa með börnunum sínum. Það segir texti jólanna.

Alla ævi okkar erum við hafa áhrif á umhverfi okkar, hvert orð, hver athöfn lifir. Barnið breytist og verður fullveðja. Næsta líf verður til. Af lífi verður til líf. Nýjar tilfinningar verða til, nýjir draumar og væntingar. Ævistarfið verður vettvangur sköpunar og þess að varðveita fjölskyldur. Eldri borgarar varðveita okkur sem yngri eru með visku sinni og reynslu. Samfélagið nýtur góðs af. Guð gleðst yfir þessu öllu saman. Hvert og eitt lífsskeið er afar dýrmætt.

Blessunarlega er dauðinn ekki nærri markmiðum okkar þó að hann í raun sé það ætíð. Í hvert sinn sem hann kemur er ekkert okkar með öllu viðbúið og stundum ættum við alls ekki að þurfa að vera viðbúin því fyrirheit lífsins eru svo mörg. Það er ætíð eitthvað ósagt og það er ætíð eitthvað ógert. Tíminn líður svo hratt og stundum virðist hann líða hraðar hjá sumum okkar. Lífið er ekki svo auðveldlega mælt í tíma, enn síður innihald þess.

Drottinn Guð, ver þú í mér veikum mátttugur.

Leiktjöldin dragast fyrir. Aðalleikari er kallaður af leiksviðinu. Stundum er aðdragandi en stundum ekki. Allt breytist á einhvern hátt. Leikritið, lífið, heldur áfram. Það er þó breyttur tónn í umhverfinu. Leikritið hefur tekið á sig nýja mynd, meiri alvöru og harm. Viðbrögð okkar verða mismunandi, hvort sem við erum aðalleikarar eða áhorfendur. Það klappar enginn en allir eru þó á einhvern hátt að reyna aðlagast því sem breytt er. Nýju hlutverkin eru vandasöm hlutverk. Þögnin, grátur og ýmsar tilfinningar sem eru erfiðar viðureignar, þeim verður ekki alltaf auðveldlega gerð skil og enn síður þannig að við hin sem horfum álengdar skiljum hvað átt er við. Það verður að skrifa lífsleikritið á einhvern annan hátt. Það getur aldrei orðið verk einhvers eins. Jólin kalla okkur til samfylgdar, hvort sem það eru okkar nánustu eða annað fólk. Það voru ókunnugir sem vitjuðu Jesúbarnsins forðum.

Engin hefur lifað þannig að ekki hafi hún eða hann snert líf sinna nánustu. Ekkert líf sem snert hefur annað líf hefur haft lítil áhrif á umhverfi sitt. Þannig orðaði Steingrímur Thorsteinsson minningu um hógværa konu.

“Svo dylst oft lind undir bergi blá,
og brunar tárhrein skugga falin.
Þótt veröld sjái ei vatnslind þá,
í vitund Guðs hver dropi er talinn.”

Hver sál og mannsandi hefur verið í aðalhlutverki leiksviðsins á einhvern hátt. Það gildir um nýfætt barn og það gildir líka um þann sem hefur lifað lengi. Minning þeirra er skapandi. Þau sem eru farin lifa í frásögn okkar hinna. Þannig eru þau sem eru farin enn í aðalhlutverki. Viðkomandi getur ekki yfirgefið minningar okkar, þar lifir hann. Í minningunum er kraftur til að næra okkur og þar er kraftur til að leyfa okkur að finna til. Þið vitið hvað þið hafið misst. Draumarnir okkar eru ekki lengur um það sem gæti orðið, þeir eru meira um það sem var, bæði í svefni og vöku.

Er hægt að halda áfram? Hægt og afar hægt, stundum skref afturábak, sjaldan beint áfram. Líkaminn grær, sálin heldur hægar. Oftast er það fyrst hið smáa sem vekur gleðina fremur en hið stóra. Það vantar of mikið til þess. Gleði barnsins yfir ljósum jóla og glaðningi undir jólatré er eitt af hinu smáa en samt græðandi. Tíminn, einn og sér, læknar engin sár. Það gerir mannsandinn sjálfur og tengslin við alla hina aðalleikarana í lífi okkar. Umhyggjan, þögnin, nærveran eru allt saman ómetanleg meðul en þó ekki síst nærvera þeirra sem vilja skilja.

Litla barnið í jötunni, hefur lifað fram á okkar dag. Það upplifði alla mannlega tilveru, kærleika en einnig óréttlæti og þá staðreynd sem hvílir á okkur öllum, dauðann. Við verðum öll kölluð út af leiksviðinu. Yfir því grét litla barnið, Jesús Kristur, er það stóð hjá gröf vinarins. Síðar varð það hlutskipti litla barnsins í jólagupspjallinu að flytja okkur tíðindi af því að það væri ekki dauði. Hann kom aftur. Ég trúi því þrátt fyrir söknuð okkar að það sé líf hjá Guði. Ég held að minningin um litla barnið í jötunni hafi lifað vegna þeirrar staðreyndar. Það er líf hjá Guði.

Þessa daganna er fögnuður í nánd hjá flestum, tími tilfinninga þar sem fjölskyldan fær aukið vægi, jólin. Á þessum tíma verður aldrei jafn ljóst að það vantar einhvern. Einmanaleikinn er áþreifanlegur hvort sem maður er einn eða fullt er af fólki. Vægi ykkar sem fjölskyldna er aldrei meir en nú.

Ég votta ykkur sem hér eruð samúð mína, Ég þekki ekki nöfn allra sem þið syrgið, það gerið þið. Reynslan af því að missa kallar okkur hér saman. Það er stundum lækning í því að vera með fólki sem þekkir sama sársauka og við. Engin reynsla er þó með öllu eins en í þessu sorgarhúsi á að ríkja skilningur og sú gætni sem er ykkur mikilvæg. Það er vond tilfinningin að upplifa einangrun. Hér minnum við hvert annað á að við erum ekki ein.

Við höfum rifjað upp minningar og séð þá í hugskotum okkar sem eru farnir. Þeir sem eru farnir áttu líka dýrmætar minningar um ykkur í lifanda lífi. Ykkur var gefin ást, en þið gáfuð líka til baka. Tíminn saman var dýrmætur en hann var líka dýrmætur því að þið hjálpuðu þeim sem eru farin að skapa innhaldsríkt og dýrmætt líf. Fólkið sem er farið og þið voruð dýrmætar gjafir til hvers annars.

Ég bið góðan Guð að styrkja ykkur um hátíðarnar og vera ykkur nálægur. Þið sem fjölskyldur lánið, hvert öðru trú og von. Nærveran ein gerir það. Guð varðveiti ykkur og gefi ykkur huggunarrík jól.

Um höfundinn



Allur réttur áskilinn © 2000-2018 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3484.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar