Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Árni Svanur Danielsson

Sorgarljósadagur

6. nóvember 2005

Hlusta á þessa ræðuHlusta á þessa prédikun

Þér eruð ljós heimsins. […] Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna, að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar, sem er á himnum. Mt 5.13-16

I Dagur sorgarinnar

„Enginn sagði mér að sorgin væri svona lík óttanum. Ég er ekki hræddur, en tilfinningin er sú sama. Fiðrildi í maganum, eirðarleysi, geispar. Ég get ekki hætt að kyngja. […] Það er eins og ósýnilegt teppi sé milli heimsins og mín.“

Þannig lýsir breski rithöfundurinn og trúvarnarmaðurinn C. S. Lewis glímu sinni við sorgina. Hann skrifar þetta í bók sem á íslensku gæti kallast Sorgarlýsing (á ensku heitir hún A Grief Observed). Þar lýsir hann glímunni við sorgina eftir sviplegt fráfall eiginkonu sinnar. Ótti og eirðarleysi, þrá eftir nærveru og nánd, einbeitingarskortur og lystarleysi eru einkenni á ástandinu hins sorgmædda Lewis. Hafa margir syrgjendur ekki upplifað eitthvað svipað?

Í dag höldum við allra heilagra messu. Þau sem hafa misst á árinu eru boðin sérstaklega velkomin, við kveikjum á kertum, minnumst látinna - sorgin fær sitt rými á þessum degi. Allra heilagra messa er reyndar hvort tveggja í senn, dagur sorgar og fagnaðar. Hún er dagur sorgar því að við minnumst þeirra sem eru horfnir. Hún er dagur fagnaðar því við megum hvíla í þeirri vissu að þau öll sem yfirgefið hafa þennan heim hvíla nú hjá Guði.

II Sorgarvandi

Ég hef velt því fyrir mér upp á síðkastið hver sé staða sorgarinnar í samfélaginu okkar? Er hún viðurkennd? Er gefinn nægur tími eða rými fyrir hana? Hvernig búum við að syrgjendum? Mín tilfinning hefur verið sú að við séum býsna dugleg fyrst um sinn, fyrstu dagana og jafnvel vikurnar eftir andlát er mikið hringt, huggað. Syrgjandanum er vel sinnt. En svo fækkar símtölunum, færri spyrja hvernig líðanin sé. Og það læðist að manni sá grunur að nú eigi sorgarferlið að hafa runnið sitt skeið á enda.

Og hvað með hina opinberu umgjörð? Fær fólk almennt frí frá vinnu við andlát maka, barns eða foreldris? Er það alfarið undir vinnuveitanda eða fyrirtæki komið? Fyrr á þessu ári spjallaði ég við stúlku sem vinnur í Skotlandi. Þar í landi er gert ráð fyrir sorginni í kjarasamningum. Þegar afi hennar dó fékk hún sjálfkrafa vikufrí til að koma heim, vera við útförina, sinna fjölskyldunni, meðtaka áfallið. Sorgarfríið var þótti sjálfsagt mál og var hluti af hinni opinberu umgjörð hins vinnandi manns.

Hér á landi búum við prýðilega að foreldrum barna. Fæðingarorlofið okkar er til fyrirmyndar miðað við mörg önnur lönd og við megum sannarlega vera stolt af því. En þarf ekki að búa betur að þeim sem verða fyrir missi? Mætti ekki hugsa sér einhverra vikna eða mánaðar frí (ef frí skyldi kalla) við andlát náins fjölskyldumeðlims? Náðartíma til að jafna sig eftir áfallið og púsla veröldinni aftur saman? Uppbyggingartíma. Sorgin tekur nefnilega tíma og hún klárast ekki á einni viku, einum mánuði eða jafnvel einu ári.

Marjorie Pizer lýsir sorgartímanum og sorgarferlinu vel í ljóði. Hún skrifar:

Ég taldi að dauði þinn
væri eyðing og eyðilegging,
sársaukafull sorg sem ég fékk vart afborið.
Smátt og smátt lærist mér
að líf þitt var gjöf og vöxtur
og kærleikur sem lifir með mér.
Örvænting dauðans
réðist að kærleikanum.
En þótt dauðinn sé staðreynd
fær hann ekki eytt því sem þegar hefur verið gefið.
Með tímanum læri ég að líta aftur til lífs þíns
í stað dauða þíns og brottfarar.

„Smátt og smátt lærist mér,“ skrifar hún. Með tímanum lærist okkur að horfa á lífið fremur en dauðann, vera þakklát fyrir það sem þegið var meðan okkur auðnaðist að ganga saman fremur en bitur yfir því sem aldrei varð. Kannski er það stærsta lexía þess sem fetar sig eftir stíg sorgarinnar og í því eygjum við ef til vill takmark þessa ferils.

III Vitjaðu og vertu ljós

Og inn í þetta ferli koma dagar eins og Allra heilagra messa og þeir geta gagnast okkur svo vel. Því þá mætum við sársaukanum og dauðanum. Auðvitað er þetta tvennt - sársauki og dauði - alltaf hluti af lífinu. Flest höfum við misst einhvern, vin eða ættingja. En í dag, einmitt þennan dag, er talað opinskátt um það sem er erfitt. Við tölum, syngjum og biðjum. Sársaukinn hættir að vera innibyrgður og dulinn, hann er tjáður og verður opinber. Við deilum honum með öðrum, finnum að við erum ekki ein. Og allt verður agnarögn léttara. Dagar sem þessi geta hjálpað okkur að stíga eitt skref áfram í sorgarvinnunni.

Þetta getum við tengt við guðspjall dagsins þar sem talað er um ljósið. Jesús segir: „Þér eruð ljós heimsins. […] Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna, að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar, sem er á himnum.„ (Mt 5.13-16) Það má kannski segja að meginboðskapur allra heilagra messu sé ljósaboðskapur. Við eigum að kveikja ljós og vera ljós.

Við ykkur sem syrgið vil ég segja þetta: Vitjið um leiði ástvina ykkar, dyttið að þeim, kveikið þar kertaljós og skiljið eftir, biðjið stutta bæn. Og njótið þess hversu vel upplýstir kirkjugarðar landsins eru þennan dag. Ótal lítil ljós, eitt eða fleiri á hverju leiði, lýsa upp skammdegismyrkrið. Vitna um sorg og söknuð, ást og hlýju, góðar minningar og fjölda bæna. Og þegar horft er á öll þessi litlu ljós kemur stór sannleikur í ljós: Við erum ekki ein í sorginni!

Takið líka daginn frá, hyggið að ykkur sjálfum. Tjáið sársaukann. Heima má kannski taka fram mynd af hinum látna, setja hana á góðan stað, tendra ljós á kerti, rifja upp sögur - deila þeim með börnum og barnabörnum þar sem færi gefst. Látið hugann dvelja við góðar stundir úr fortíðinni, íhugið hvernig þau voru ykkur ljós sem lýsti á lífsins göngu. Staldrið við ástina og lífið en ekki dauðann og brottförina.

Við ykkur hin sem þekkið einhvern sem hefur misst vil ég segja: Verið ljós þeim sem eru syrgjendur. Vitjið um þau og hlúið að þeim. Spyrjið til tilbreytingar - þótt kannski séu liðnir margir mánuðir eða jafnvel nokkur ár: Hvernig líður þér? Er sorgin enn sár? Er söknuðurinn enn mikill? Hvernig hefur gengið að byggja upp lífið? Hvernig get ég reynst þér vel á þessum degi?

Rifjið upp góðar stundir, hlustið, verið!

„Þér eruð ljós heimsins,“ segir Jesús í guðspjalli dagsins. Lýsum þennan dag, sem ljós af ljósi Guðs, ekki til að dylja sorgina heldur til að helga hana!

Guð leiði okkur áfram og styrki til ljóssins verka, þennan dag og alla daga.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 4780.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar