Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Karl Sigurbjörnsson

Sameinumst, hjálpum þeim!

27. nóvember 2005

Hlusta á þessa ræðuHlusta á þessa prédikun

Þegar þeir nálguðust Jerúsalem og komu til Betfage við Olíufjallið, sendi Jesús tvo lærisveina og sagði við þá: Farið í þorpið hér framundan ykkur, og jafnskjótt munuð þið finna ösnu bundna og fola hjá henni. Leysið þau og færið mér. Ef einhver hefur orð um, þá svarið: Herrann þarf þeirra við, og mun hann jafnskjótt senda þau.

Þetta varð, svo að rættist það, sem sagt er fyrir munn spámannsins:

Segið dótturinni Síon:
Sjá, konungur þinn kemur til þín,
hógvær er hann og ríður asna,
fola undan áburðargrip.

Lærisveinarnir fóru og gjörðu sem Jesús hafði boðið þeim, komu með ösnuna og folann og lögðu á þau klæði sín, en hann steig á bak. Fjöldamargir breiddu klæði sín á veginn, en aðrir hjuggu lim af trjánum og stráðu á veginn. Og múgur sá, sem á undan fór og eftir fylgdi, hrópaði: Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur, í nafni Drottins! Hósanna í hæstum hæðum! Matt 21.1-9

Amen. Kom þú, Drottinn Jesús. Náðin Drottins Jesú sé með öllum. Amen.

Gleðilegt nýtt kirkjuár! Fyrsti sunnudagur í aðventu og jólafasta gengur í garð.

Guðspjallið segir frá innreið Jesú í Jerúsalem. Hann kom ríðandi á asna ofan Olíufjallið umkringdur örfáum fylgismönnum. Framundan var borgin helga, varnarvirkin vörpuðu dimmum skuggum, gullin hvolfþök musterisins glitruðu í sólinni. Börn sungu og dönsuðu og veifuðu pálmagreinum, meðan vopnaðir, rómverskir hermenn horfðu áhugalausir á, og gátu engan veginn skilið það, sem börnin skynjuðu og sáu og sungu. Og svo fjölgaði í göngunni og brátt endurómaði söngurinn um götur og torg: „Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins.” Sigursöngur manna, sigurför meistarans, sigurför Guðs. Þó var það nú svo að nokkrum dögum síðar var sá söngur þagnaður, en sama fólk hrópaði í uppnámi: “Krossfestu! Krossfestu hann!” Sama fólkið.

Hér í kirkjunni, eins og í öðrum sóknarkirkjum landsins syngjum við í hverri messu: „Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins. Hósíanna í upphæðum” Við syngjum eins og við værum þarna við götuna í borgarhliðum Jerúsalem þar sem Jesús kemur ríðandi á asnanum smáa. Og við trúum því og játum það að hann sé í raun og veru að koma, nú, eins og þá. Heimurinn horfir áhugalaus og skilningsvana á, en Jesús heldur ótrauður sína leið. Þeir sem eiga hina barnslegu sýn trúarinnar skynja það og hefja á loft með söng og iðkun, merki og minningu þess sem er innsti kjarni, mark og mið alls lífs og heims: Jesús er nafn hans og ásjóna. Læknismáttur miskunnsemi og fyrirgefningar er boðskapur hans og gjöf. Það er aðventa, það að játa, að Jesús, í vanmætti sínum og mildi, er Drottinn vor og frelsari, að koma til að skapa nýjan himinn og nýja jörð þar sem réttlætið býr. Það slær gullnum ljóma vonarinnar yfir dimman heim.

• • •

En þjáningin varpar líka löngum skugga. Þjáning, illska, synd. Hin umtalaða bók, „Myndin af pabba,” eftir þær Gerði Kristnýju og Telmu Ásdísardóttur, minnir á það. Hún gefur innsýn inn í skugga ólýsanlegra skelfinga barna sem búa við misnotkun. Ótrúlega áhrifarík frásögn, sem lætur engan ósnortinn. Og hefur enda haft áhrif, allt inn á borð ríkisstjórnar Íslands, og leitt til sérstakra aðgerða gegn ofbeldi gegn börnum, ofbeldi gegn konum, heimilisofbeldi af ýmsu tagi. Það er vel, því mikil nauðsyn er viðhorfsvakningar í þessum efnum. Þjóðkirkjan er aðili að alþjóðlegu átaki UNIFEM gegn kynbundnu ofbeld, og að stefnumörkun alþjóða kirknasamtaka í þessum efnum. Stefna og starfsáherslur þjóðkirkjunnar hvetur söfnuði og samfélag til að gefa þessu gaum og fylgja eftir. Átakið “Verndum bernskunnar” er liður í þessu. Fylgjum því eftir!

Thelma Ásdísardóttir ætti að vera “maður ársins” vegna hugrekkis síns að segja sögu sína, sögu af ólýsanlegum hryllingi bernsku sinnar, misnotkun, ofbeldi. Og það sem er svo skelfilegt, allir vissu það, eða grunuðu að ekki væri allt með felldu á heimilinu. Þar voru lítil börn misnotuð, og móðir þeirra lamin og kúguð af heimilisföðurnum. En enginn gat gert neitt. Allt brást. Í hlut átti sjúkur maður, en líka hópur siðlausra manna sem notfærðu sér sjúkleika hans og siðblindu til að svala hneigðum sínum og keyptu aðgang að dætrum hans. Þetta er óhugnanlegra en orð fá lýst. Maður fylltist viðbjóði, en líka smán. Við erum sek. Við létum þetta viðgangast, og látum viðgangast, svo allt of oft látum við ofbeldið og viðurstyggðina viðgangast, horfum sljó og vanmegna á. Lítum öll í eigin barm, og opnum augun fyrir því sem er að gerast í kringum okkur! Gefum náunganum gaum, börnunum sem líða, einmana fólki, utangarðsfólki, fólki sem er á götunni, hér okkar á meðal, gamla fólkinu sem þjáist í einsemd sinni, skuggabörnunum á refilstigum vímunnar í klóm eiturbyrlaranna. Það á við um okkur sem vitur maður sagði eitt sinn á viðsjálverðum tímum: “Hið óttalegasta var ekki grimmd hinna illu, heldur afskiptaleysi hinna góðu.” Þökk sé þeim mörgu sem sjá, sem láta sér ekki á sama standa, sem halda vöku sinni, og leitast við að sýna umhyggju og veita hjálp.

Þó að maður fyllist hvað eftir annað reiði, viðbjóði og skelfingu við lestur ofannefndrar bókar, þá er það ekki það sem eftir situr. Heldur sigur kærleika og fyrirgefningar. Áhrifarík er frásögnin af því þegar Thelma vitjar föður síns og fyrirgefur honum. Þá er það hún sem er hin sterka. Þetta er sannkölluð píslarsaga, en geymir líka upprisu og von. Hún minnir á að það er unnt að sigrast á ömurlegustu aðstæðum, og rísa upp úr dýpstu örvænting. Og það er boðskapurinn sem er í innsta grunni okkar kristnu trúar, saga og boðskapur Jesú. Krossinn og upprisan, fyrirgefning syndanna, náð og friður. Afl þess er svo víða að verki í mannlífinu. Þann boðskap ber sérhver sunnudagur þér, laðan þess máttar sem vill lækna líf og heim með mætti kærleika og fyrirgefningar. Náðin, það sem Guð gefur svo kærleikurinn geti unnið sitt verk, getur jafnvel veitt breyskum jarðarbörnum styrk og náð að snúa harmi upp í sigur, eða amk í eitthvað sem er ekki eins dimmt og vonlaust og fyrr.

• • •

Manneskjan, eðli hennar og vera, er aldrei svart-hvít. Hið illa afl og vilji vinna hervirki sín, en ást og umhyggja, mildin og miskunnsemin eru líka að verki. Það birtist á vettvangi hinnar stóru sögu á vettvangi dagsins og heimsins, og í hinum smærri sögum okkar eigin lífs og daga. Þar er okkur ljóst að við, hvert og eitt, erum í senn myrkur og ljós, góðvild og illska. Við erum öll fær um að syngja Guði lof og snúa við honum baki, hvert og eitt okkar er fært um að hrópa hósíanna í hrifningu og trú, en æpa skömmu síðar: krossfestu! ef svo ber undir. Blessunin og bölvunin búa einatt innra með okkur.

Um þessar mundir eru tuttugu ár síðan að íslenskir popptónlistarmenn tóku sig saman og fluttu lagið: “Hjálpum þeim!” til ágóða fyrir Hjálparstarf kirkjunnar. Það voru þeir Axel Einarsson, sem samdi lagið, og Jóhann G. Jóhannson sem gerði textann.

Þetta hrífandi lag og texti hafði mikil áhrif þá, og lengi síðan. Nú tekur landslið íslenskra popptónlistarmanna aftur höndum saman um endurútgáfu þessa lags til ágóða fyrir Hjálparstarfið í Pakistan og annars staðar þar sem leitast er við að mæta hinni gleymdu neyð á okkar hrjáðu jörð. Mikið eigum við þessu góða fólki að þakka, sem enn og aftur gefur af sér til góðs, án þess að krefjast neins fyrir sinn snúð.

Sagt hefur verið að ákveðin “samúðarþurrð” ríki gagnvart hinni hrikalegu neyð í Pakistan. Önnur hörmungarsvæði hafa líka horfið fljótt af sjónarsviði fjölmiðlanna og út úr meðvitund okkar. En þar eru samt hjálparstarfsmenn að verki, við að koma til hjálpar og styðja til sjálfshjálpar. “Sameinumst, hjálpum þeim!” Látum enga “samúðarþurrð” á okkur sannast! “Hjálpum þeim!” er ákallið sem berst til okkar í upphafi jólasöfnunar Hjálparstarfs kirkjunnar. Hjálpum þeim sem eru í kapphlaupi við tímann að koma hjálp til þúsunda sem enn eru bjargarlaus í fjöllum Pakistan! Þar á jarðskjálftasvæðunum hefur alþjóðlegri neyðarhjálp kirkna, sem Hjálparstarf kirkjunnar okkar á aðilda að, verið falið að stjórna hjálparstarfi frjálsra félagasamtaka vegna langrar reynslu hjálparsamtaka kirkjunnar á þessum slóðum. Hjálpum þeim! Og hjálpum annars staðar þar sem hin gleymda neyð ríkir. Hjálpum þeim til að grafa brunna! Hjálpum þeim til að gera áveitur! Hjálpum þeim til þess að rækta útsæði og auka öryggi í fæðuöflun! Hjálpum þeim til að komast í skóla! Hjálpum þeim til þess að byggja upp eftir jarðskjálfta og skriðuföll! Hjálpum þeim til sjálfshjálpar!
“Gleymdu ekki þínum minnsta bróður, þó höf og álfur skilji að!” Hver og einn skiptir máli! Öll höfum við einhverju að miðla í þágu hjálparstarfs eins og tónlistarfólkið og söngvararnir sem nú sameinast við hljóðnemann að nýju til þess “að eyða myrkri og vekja von og trú”, eins og segir í söngnum. Krakkarnir með tombólurnar, fermingarbörnin í árlegri söfnun, sjálfboðaliðar, talsmenn, sérfræðingar, hvarvetna er að finna hæfileika og dugnað, sem nýtast í hjálparstarfi. Það er svo margt hægt að gera, og það er svo undur margt að gerast til að lina þrautir og lækna mein hinna hrjáðu jarðarbarna.

Margt bendir sem betur fer til að nokkur bati verði á næstum árum vegna aukinna framlaga til þróunarmála og niðurskurðar á skuldum fátækra ríkja. En samt er auðvelt að verða hugsjúkur og reiður eins og Bob Geldof, rokksöngvarinn sem skipulagði “Live Aid,” þegar hugsað er til þess að á næsta ári munu fleiri farast úr hungri í Afríku en þeir sem þar eru líklegir til þess að deyja úr margvíslegum farsóttum og láta lífið í stríðsátökum í hinni fögru en hrjáðu álfu. Þar búa 900 milljónir manna og helmingur þeirra er undir 16 ára aldri. Mikill meirihluti þeirra mun ganga svangur til hvílu á hverju einasta kvöldi 365 daga á árinu 2006. Hjálpum þeim! Og við getum hjálpað!

“Búum til betri heim” syngja tónlistarmennirnir okkar. Hjálparstarf kirkjunnar hefur sett sér það markmið, sem nýtur stuðnings Kirkjuþings og Þjóðkirkjunnar allrar, að þrefalda söfnunarfé næstu fimm árin. Það dugir ekkert minna en að allir setji sér svipuð markmið. Það dugir ekkert minna ef markmiðin sem þjóðir heims settu sér um árþúsundamótin - um helmingun sárustu fátæktar, grunnskóla fyrir öll börn, útrýmingu farsótta og réttindi kvenna - eiga að nást árið 2015. Það er skynsamlegt að gefa þannig að við finnum fyrir því. Við fáum það ríkulega launað í betri og öruggari heimi. Það er skynsamlegt að lækka verndar- og tollmúra um markaði ríku landanna til þess að veita framleiðendum í fátæku löndunum aðgang að þeim. Við hjálpum okkur best sjálf og tryggjum best öryggi barna okkar með því að búa til betri heim, með því “að sameinast og hjálpa þeim sem minna mega sín”.

• • •

Jafnvel hér í ofgnóttinni á Íslandi er fólk sem býr við kröpp kjör og á við margvíslega erfiðleika að etja. Ég vil sérstaklega fagna því á þessum stað að Mæðrastyrksnefnd í Reykjavík og Hjálparstarf kirkjunnar hafa í fyrsta sinn tekið höndum saman um jólaaðstoð til þurfandi. Konurnar í Mæðrastyrksnefndum landsins hafa áratugum saman unnið sitt fórnfúsa sjálfboðastarf og notið til þess góðs atfylgis í samfélaginu. Þegar Mæðrastyrksnefnd og Hjálparstarfið taka höndum saman er þess vænst að hægt verði að veita aðstoðina við góðar aðstæður og með myndarlegum hætti. Jólaaðstoðin nýtur einnig stuðnings frá Reykjavíkurdeild Rauða krossins, Öryrkjabandalagi Íslands og Velferðarsjóði barna. Samstarf hjálparstofnana af því tagi, sem hér hefur tekist, tel ég vera til fyrirmyndar og ég þykist þess fullviss að fyrirtæki og einstaklingar muni styðja vel við bakið á jólaaðstoðinni, sem Hjálparstarf kirkjunnar sinnir um land allt.

Fyrir heilli kynslóð Íslendinga hefur jólasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar verið dýrmætur þáttur í aðventu og jólaundirbúningnum. Munum eftir gíróseðlunum sem sendir eru út og söfnunarbaukunum sem liggja frammi í kirkjum landsins. Á hvert heimili er einnig sendur glitrandi vatnsdropi sem nota má til að skreyta heimilið og minna fjölskylduna um leið á Hjálparstarf kirkjunnar sem farveg fyrir framlög til bágstaddra. Sameinumst, hjálpum þeim!

Hér í kirkjunni á eftir verða körfur látnar ganga milli, þar sem söfnuðurinn fær að leggja fram gjafir til Hjálparstarfs kirkjunnar. Það er ekki krafa, heldur tilboð. Í bæninni munum við líka biðja fyrir þeim gjöfum sem berast munu í jólasöfnun hjálparstarfsins, þeim sem njóta munu, og þeim sem láta gjafir af hendi rakna til góðs.

Jesús kemur til borgar sinnar. Hann er enn á ferð, þó að fáir sjái og færri skilji. Það er svo margt sem við vildum spyrja hann. Hann spyr einatt á móti. Það er svo margt sem við vildum að hann færði í lag, í okkar heimi. En hann kallar á okkar viðbrögð, okkar samhug, gjafmildi, kærleika. Við spyrjum um hinstu rök þjáningar, syndar og dauða. Hann bendir á sármerkin sín. Söngvarinn, Bono, í hljómsveitinni U2 orðar þetta svo:“Margir segja: Eftir hverju er Guð að bíða ? …. Af hverju grípur Guð ekki inn í? Ég held að Guð bíði eftir því að VIÐ grípum inn í. Ég held að hann falli á kné frammi fyrir fólkinu, kirkju sinni: Að við látum af þessu aðgerðaleysi. Við verðum að sjá að við erum náungar hvert annars. … Orðin “elska skaltu náungann” eru ekki heilræði. Þau eru skipun.”

Jesús kemur og er krossfestur enn og aftur í heimi sem enn og aftur hafnar ljósinu og náðinni. En samt eru þau enn til sem skynja leyndardóm fagnaðarerindisins, þau sem í barnslegri einlægni trúarinnar sjá og skynja návist hins góða. Þau eru enn til sem sjá að hatrið og illskan, synd og dauði hafa ekki síðasta orðið. Lífið nýja, lífið þar sem umhyggjan og fyrirgefningin ræður för, réttlætið og friðurinn sigra, það er flestum hulið. En við væntum þess. Það er aðventa: Eftirvænting þess að Guð kemur til að hugga lýð sinn, og það að leitast við að koma auga á hann í hinum minnsta bróður. Um um síðir mun sigur hans verða öllum ljós.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda um aldir alda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 6281.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar