Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Siðbótardagur við ysta haf

30. október 2005

Þá sagði Jesús við Gyðingana, sem tekið höfðu trú á hann: Ef þér eruð stöðugir í orði mínu, eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.

Þeir svöruðu honum: Vér erum niðjar Abrahams og höfum aldrei verið nokkurs manns þrælar. Hvernig getur þú þá sagt: Þér munuð verða frjálsir?

Jesús svaraði þeim: Sannlega, sannlega segi ég yður: Hver sem syndina drýgir, er þræll syndarinnar. En þrællinn dvelst ekki um aldur í húsinu, sonurinn dvelst þar um aldur og ævi. Ef sonurinn gjörir yður frjálsa, munuð þér sannarlega verða frjálsir. Jóh. 8. 31-36

Kominn er veturinn.
Kærasti faðir á hæðum,
kvíða vér mættum,
ef ei undir vernd þinni stæðum.
Hvað erum vér?
Hjálpræði vort er hjá þér,
öllum sem útbýtir gæðum.

Gjör við oss, faðir,
sem gæska þín hollast oss metur,
gef oss upp sakir
og hjálpa’ oss að þóknast þér betur.
Að þér oss tak,
yfir oss hverja stund vak,
blessa hinn byrjaða vetur.

Sb 484, Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Kæri söfnuður.

Þegar við komum saman hér í helgidóminum í dag þá eru tilefnin mörg sem minnast má og minnast má á. Ef við myndum reyna að finna samnefnara fyrir það allt þá er hann að finna í guðspjalli dagsins. Samnefnarinn er sannleikurinn sem geymir í sér frelsið og er frelsið.

Textar dagsins tilheyra siðbótardeginum. Það er vegna þess að í dag er þess minnst þegar Marteinn Lúther negldi upp athugasemdir sínar við kenningar og starfsemi kirkjunnar. Eftir tíu ár héðan í frá verður hægt að halda upp á fimmhundruð ára afmæli þess atburðar.
Lúther var knúinn áfram af sannleikanum. Hann valdi dag sem var í sjálfu sér ekki merkilegri en aðrir, enda var hann ekki að hugsa um hann, heldur næsta dag, hann vildi að athugasemdirnar yrðu komnar upp á kirkjuhurðina á áberandi stað næsta dag á eftir, sem hann vissi að yrði dagur fjölmennis í kirkjunni. Það er Allraheilagramessa þegar fólkið þyrptist í kirkju til að minnast látinna ástvina sinna, og leita sannleikans um þá.
Með vissum hætti má segja að allar ferðir til kirkju séu í þeim tilgangi. Stefnumót við sannleikann.

Við sem stundum eða stunduðum nám við Guðfræðideild Háskóla Íslands höfum sífellt fyrir augum þá setningu sem er lykilsetning guðspjallsins, þegar við eigum leið inn í kapellu Háskólans: Sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.
Þessi lína er rituð á altarið. Og á síðari árum hefur síðasta a- ið í línunni orðið dálítið lasið, og dettur oft af, svona til að minna á að hér er rætt um sannleika sem gerir okkur öll frjáls.
Við þurfum ekki að spyrja eins og Pílatus: Hvað er sannleikur? Sá sannleikur sem hér um ræðir er Jesús Kristur, hann sem segir um sjálfan sig: Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.
Þann sannleika getum við ekki höndlað. Sá sannleikur höndlar okkur.
Í sömu merkingu eins og Ólafía Jóhannsdóttir, trúkona og bjargvættur, segir frá:
Ég áttaði mig á því að það var ekki ég sem hélt í Guð, það var hann sem hélt í mig.

Kæri söfnuður.
Hér kemur smá millikafli í þessa predikun, sem reyndar er óleyfilegt að hafa í alvöru predikunum, vegna þess að predikarar eiga ekki að tala um sjálfa sig.
Fyrir þrjátíu árum kom ég hér yfir sléttuna að kvöldlagi á lánuðum jeppa. Mér var dáltíð undarlega innanbrjósts, en veðrið var fallegt og himininn stjörnubjartur og ég vissi að Guð var yfir mér og hjá mér, en það vissi jeppinn ekki. Honum leist hreint ekki á og neitaði að fara lengra. Og ég varð að skilja við hann og labba af stað, án þess að hafa hugmynd um hvað væri langt eftir.

Sem betur fer kom þar að frelsandi engill og tók mig með á leiðarenda. Ég var að reyna að rifja upp hver það var, en ég man það ekki. Kannski hjálpar mér einhver.
Þetta var í október 1974.

Að þrjátíu árum liðnum heldur maður enn áfram og veit ekki heldur hvað er langt eftir. Maður heldur áfram, allt þangað til farartækið nemur staðar og vill ekki lengra,
og svo kemur engillinn og tekur mann með á leiðarenda.

Við komum saman hér í dag í aðdraganda allraheilagramessu, við glímum við spurningar um kirkjuna, sum okkar að minnsta kosti, og söfnuðinn og minnumst þeirra sem farin eru á undan okkur heim til himna.

Þannig er það þegar maður kemur aftur eftir langan tíma. Maður gleðst yfir andlitunum sem maður þekkir. Það er svo gott að sjá þau aftur. Og svo hugsar maður um þau öll sem eru farin og þakkar fyrir þau. Í þriðja lagi horfir maður fast í andlit þeirra sem maður ekki þekkir af því að þau hafa bæst við síðan, eða fullorðnast síðan, og reynir að þekkja svipinn.

Kæri söfnuður, það var stórkostlegt ævintýri að koma hingað fyrir þrjátíu árum algjörlega nýbakaður prestur og fá þær móttökur sem ég fékk. Ég segi gjarna nemendum mínum frá því að þá hafi ég loksins skilið sálminn :
Kirkjan er oss kristnum móðir.

Að vera þjónn kirkjunnar og koma á nokkuð ókunnan stað og mæta viðmóti sem er fullt af hlýju og skilningi og samstarfsvilja , er eins og móðurfaðmur.
Þú veist að þú ert kominn heim.
Það er sannleikur, fæddur af heinum eina sannleika.
Kæri söfnuður, það er kominn fyrsti sunnudagur í vetri.
Við horfum fram til tíma vaxandi myrkrurs og kannski kulda og kannski hríða og frosts og hálku.
Einhversstaðar lengra framundan grillir í jólin og þar grillir í nýja birtu og yl.
Ef við horfum aðeins lengra þá sjáum við framúr.

Vorið kemur aftur, og það verður aftur sumar.
Þannig er hrynjandi lífsins.
Árstíðirnar.
Stundir dagsins.
Atvik ævinnar.
Lífið hefur margar myndir.
Ævin er samfella þeirra, röð þeirra.

Sumum finnst haustið fallegasta árstíðin, öðrum vorið.
Sumum finnst bara gaman að vera til. Og það er ekki vegna þess að það er haust og enn langt til jóla og enn lengra til næsta vors. Það vegna þess að við erum venjulegt fólk með tilfinningar, langanir og þrár, og erum stundum glöð og stundum leið og stundum mitt á milli.
Og stundum fer það eftir því hvort við erum ein eða í hóp, með vini eða vinum eða án.
Við erum kirkja á ferð. Kennd við guðspjallið. Kennd við evangelíið frekar en Lúther, þótt við heitum evangelisk- lúthersk.

Við erum fólk í förum og það er spurt um leiðina, um áfangastaði og leiðarlok.
Svo er spurt um vinnulag.
Hvert er hlutverk okkar á jörðu ? Hvernig er vinnulag guðsríkisins?
Hvað bíður okkar þegar þessari ferð á jörðu lýkur?

Við erum fólk í förum,
ef ferðin er erfið og löng,
við setjumst við læki og lindar
og leitum þín Guð, í söng.

Við erum fólk í förum,
á flótta, í óró og nauð,
og leitum að sátt þegar saman
er safnast um vín og brauð.

Við erum fólk í förum
og færumst í trúnni æ nær
því heima sem heimfús leitar,
og himininn okkur ljær.

Og nú höfum komið til kirkju. Við eigum það sameiginlegt. Við höfum gengið inn til fundar við Drottinn. Inn til guðsþjónustu í þessu fagra Guðs húsi.
Og Jesús kemur sjálfur til fundar við okkur hér í orði sínu. Eins og ævinlega.
Í guðspjallinu.
Hann kallar þá til alla sín og gefur þeim þá lexíu sem kristin kirkja er alltaf að reyna að muna, og er alltaf kölluð til að muna. Verið sannleikans megin. Þjónið sannleikanum.
Kirkjan er minnt á það á siðbótardaginn að hún á að vera í sífelldri endurbót, því að hún er sífellt kölluð til baka til sannleikans

Siðbótin er ekki atburður eða stefnumörkun á tilteknum tíma á 16.öld. Siðbótin er lifandi hreyfing fólks á ferð í þjónustu Krists. Siðbótin er áminning um að halda sig við Krist, erindi hans og Orð.
Samhengið á milli þessa guðspjalls og þeirrar meginstefnu, liggur í boðskap Jesú : Þið skulið ekki hafa það eins og hin veraldlegu yfirvöld og stjórna hvert öðru með valdboði. Hjá ykkur á að ríkja samábyrgð hinnar þjónandi elsku.

Og að vera tilbúinn til þjónustu samkvæmt því, án fyrirvara og án eftirmála, án útreikninga um ávinning eða tap, er einkenni kristins manns og kristinnar kirkju.

Við erum fólk á ferð og berum ábyrgð hvert á öðru.
Við skulum því þjóna hvert öðru í kærleika, daga og stundir, á hverri tíð og nú á nýjum vetri. Í daglegri endurnýjun trúarinnar því aðsiðbótin stendur alltaf yfir. Ríki jarðar eru ekki á leiðinni að verða Guðsríki. En Guðsríki er þar. Mitt á meðal þeirra.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2814.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar