Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Sigurður Pálsson

Farísear og skækjur

9. október 2005

Hvað virðist yður? Maður nokkur átti tvo sonu. Hann gekk til hins fyrra og sagði: Sonur minn, far þú og vinn í dag í víngarði mínum. Hann svaraði: Það vil ég ekki. En eftir á sá hann sig um hönd og fór. Þá gekk hann til hins síðara og mælti á sömu leið. Hann svaraði: Já, herra, en fór hvergi. Hvor þeirra tveggja gjörði vilja föðurins?

Þeir svara: Sá fyrri.

Þá mælti Jesús: Sannlega segi ég yður: Tollheimtumenn og skækjur verða á undan yður inn í Guðs ríki. Því að Jóhannes kom til yðar og vísaði veg réttlætis, og þér trúðuð honum ekki, en tollheimtumenn og skækjur trúðu honum. Það sáuð þér, en snerust samt ekki síðar og trúðuð honum. Matt 21.28-32

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Tollheimtumenn og skækjur verða á undan yður inn í Guðs ríki.
Hvers konar forgangaröðun er þetta eiginlega? Eiga tollheimtumenn og skækjur greiðari aðgang að Guðs ríki en fómar manneskjur sem ekki mega vamm sitt vita? Hvers konar skilaboð eru þetta?

Jesús gekk í helgidóminn til að kenna. Verndurum trúarinnar þótti þetta einum of mikið yfirlæti af þessum farandprédikara. Æðstu prestarnir og öldungar lýðsins skunduðu á vettvang. Minna mátti það ekki vera enda lá mikið við. Þeir reigðu sig eins og sá sem valdið hefur og spurðu: Með hvaða valdi gjörir þú þetta? Hver gaf þér þetta vald? Þeir töldu sig hafa mátað hann. Annað hvort mundi hann svara með því að guðlasta eða með því að mála sig út í horn. Jesús taldi sjálfsagt að svara ef þeir svöruðu fyrst spurningu hans: Hvaðan var skírn Jóhannesar? Frá himni eða frá mönnum? Þeir áttu ekki von á þessu og skutu á samráðsfundi. Niðurstaða þeirra var þessi: Ef við segjum frá himni, þá spyr hann hvers vegna við höfum ekki trúað Jóhannesi og ef við segjum frá mönnum snýst lýðurinn gegn okkur. Fundinum lauk með því að þeir sögðust ekki geta svarað. Þar með sagðist Jesús heldur ekki svara spurningu þeirra.

Þeim féll ekki prédikun hans. Þeim féll ekki hvernig hann hafði blygðunalaust samneyti við tollheimtumenn, syndara og skækjur. Maðurinn var dómgreindarlaus, hann saurgaði sig trúarlega. Svo mikið var víst að spámaður var hann ekki. Hann ógnaði viðteknum venjum og trúarlegum viðhorfum með hátterni sínu. En fólkið flykktist að honum, hlýddi á hann og fylgi honum.

Oftast nær þegar Jesús átti í orðasennum við leiðtoga lýðsins, æðstu prestana, öldungana og faríseana var það vegna þss að þeim þótti prédikun hans og hátterni óhafandi. Þetta fagnaðarerindi, þessi skilyrðislausa fyrirgefning, þessi fyrirvaralausa vinátta við dreggjar þjóðfélagsins var hneyksli.

Í þetta sinn sagði hann trúarleiðtogunum dæmisögu af tveimur bræðrum. Faðirinn óskaði að þeir færu á akurinn og tækju til hendinni. Hinn fyrri sagði: Það vil ég ekki.
Síðan snerist honum hugur og hann fór. Hinn síðari svaraði: Já, herra,  og fór hvergi.  Hvor gerði vilja föðurins? spurði Jesús andmælendur sína. Þessu gátu þeir svarað. Hinn fyrri, auðvitað.
Þá hlýtur að hafa rekið í rogastans þegar Jesús leyfði sér að segja: Tollheimtumenn og skækjur verða á undan yður inn í Guðs ríki.
Hvers vegna? Vegna þess að þeir höfðu sagt já við vilja Guðs en fylgdu honum ekki. Hinir höfðu sagt nei, en snúist hugur, tekið upp nýja háttu og kusu að ganga á Guðs vegum.

Þetta var harkaleg niðurstaða fyrir þessa frómu góðborgara og trúarleiðtoga lýðsins. Í Þessum kafla Matteusarguðspjalls eru fleiri dæmisögur af sama toga. Og kaflanum lýkur á þessum orðum: Þegar æðstu prestarnir og farísearnir heyrðu dæmisögur hans, skildu þeir að hann átti við þá. Þeir vildu taka hann höndum, en óttuðust fólkið, þar eð menn töldu hann vera spámann.

Hann talaði og það sveið undan því. Hann talaði við skinhelgina, sjálfsréttlætinguna, hið trúarlega yfirlæti.

Hvernig á að heimfæra þennan texta á samtímann. Hvar eru þeir sem sýna trúarlegt yfirlæti og eru fullir sjálfsrétlætingar. Eru það kannski þeir sem telja sig hafa lagt eyrun að orðum Jesú og boðskap hans, en hunsa fyrirmæli hans um að elska og umbera náungann? Eru það kannski þeir sem hafa skákað Guði úr hjarta sínu og sett sjálfa sig þar í staðinn? Eru það kannski þeir sem líta á þá sem aumingja sem orðið hafa undir í samfélaginu, vegna siðferðisbrests, vegna félagslegs arfs síns, vegna vanheilsu á líkama og geði? Eru það kannski þeir sem telja að þessu fólki hæfi að lepja dauðann úr skel meðan þeir sjálfir verða að sitja uppi í rúminu vegna þess að peningapyngjan undir koddanum verður sífellt fyrirferðameiri? Er þetta trúarlegt yfirlæti? Já, það er trúarlegt yfirlæti að telja sig ekki vera bundna af kærleiksboðskap Jesú Krists.

Finnum við trúarlegt yfirlæti í kirkjunni? Án efa. Við fyllum vísast mörg, frá einum tíma til annars, flokk þeirra sem hugsa: Ég þakka þér Guð að ég er ekki eins og aðrir menn, eins og t.d. þessi eða hinn.
Ég hef nú svo lengi verið undir áhrifum Guðs orðs að ég veit nákvæmlega hvað Guði er þóknanlegt, þótt öðrum vrði hált á svellinu.

Það er líka trúarlegt yfirlæti þegar Guðs orð er notað til að berja fólk í höfuðið í stað þess að rétta því hönd. Það er trúarlegt yfirlæti þegar prédikun lögmálsins drekkir fagnaðarerindinu um fyrirgefningu og elsku Guðs.  Þeir kunnu lögmálið, farísearnir, og leituðust við að halda það. En þeim stóð uggur af fagnaðarerindinu.

Ég las mér til gleði frétt í dagblöðunum fyrir helgi að Öldungadeild Bandaríkjaþings hefði samþykkt með 90 atkvæðum gegn níu að setja nýjar og skýrari reglur um hvernig fara skuli með fanga sem eru í vörslu Bandaríkjastjórnar. Þetta er gert í framhaldi af fréttum um smánarlega meðferð fanga í Írak og víðar. Forystumaður í þessu máli var Öldungardeildarþingmaður í flokki forsetans. En ég las framhald fréttarinnar með skelfingu. Þau boð komu úr Hvíta húsinu að forsetinn mundi líklega beita neitunarvaldi sínu svo þetta yrði ekki að lögum, vegna þess að það mundi hamla baráttunni við hryðjuverkamenn. McCain, sem hafði forystu um þessa lagasetningu sagði m.a.: „Óvinirnir sem við berjumst gegn bera enga virðingu fyrir lífinu og réttindum manna. Þeir eiga enga samúð skilda. Þetta snýst þó ekki um það hverjir þeir eru. Þetta snýst um það hverjir við erum. Um það sem skilur okkur frá þeim.“ Þetta eru vísdómsorð. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins segir af þessu tilefni: „Hvernig er hægt að verja málstað með því að grafa undan honum. Verða mannréttindi varin með því að brjóta þau? Hvernig geta Bnandaríkjamenn kinnroðalaust gagnrýnt aðra fyrir mennréttindabrot þegar þeir stunda þau sjálfir?“

Er afstaða Bandaríkjaforseta hræsni. Er þetta fariseismi, að beita megi andstyggilegum meðulum í nafni réttlætis, lýðræðis og mannréttinda. Að telja sig svo yfir aðra hafinn að telja sig geta valið að eigin vild meðulin, ef tilgangurinn er góður. Þetta er þeim mun skelfilegra þegar þess er gætt að forseeti Bandaríkjanna sækir drjúgan hluta fylgis síns til þess hóps í Bandaríkjunum sem telur sig öðrum fremur vera málsvara kristinna gilda og telur sig ráða yfir réttari túlkun Biblíunnar en aðrir. Er þetta faríseismi? Er þetta hræsni?

Öldungardeildarþingmaðurinn McCain hitti naglann á höfuðið með því að segja: „Þetta snýst þó ekki um það sem þeir eru. Þetta snýst um það hverjir við erum.“

Þetta er sterk áminning til allra farísea á öllum tímum. Staðhæfingin: „Þetta snýst um það hver við erum“, er öflugt vopn í baráttunni gegn faríseanum í okkur öllum.

Jesús áminnir. Ekki til að við förum að leita í huganum eftir þeim sem áminningarnar gætu átt við, heldur til að við spyrjum hvort áminningarnar eigi erindi til okkar sjálfra. Leiði þær til þess að við tökum þær til okkar og breytum eftir þeim, getum við gengið að fyrirgefningunni vísri og vænst þess að fá að ganga við hlið tollheimtumanna og skækja inn í Guðs ríki.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda svo sem var íi upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3558.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar