Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Jesús kemur í heimsókn

4. september 2005

Á ferð þeirra kom Jesús í þorp nokkurt, og kona að nafni Marta bauð honum heim. Hún átti systur, er María hét, og settist hún við fætur Drottins og hlýddi á orð hans. En Marta lagði allan hug á að veita sem mesta þjónustu. Og hún gekk til hans og mælti: Herra, hirðir þú eigi um það, að systir mín lætur mig eina um að þjóna gestum? Seg þú henni að hjálpa mér.

En Drottinn svaraði henni: Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu, en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið. Lúk. 10. 38-42

Vort líf er lán frá þér
ó leið oss hverja stund
og ljá oss kraft að vinna vel
og vaxta gefið pund. (Sb. 344)

Náð sé með yður og friður, frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Guðspjall þessa sunnudags er eitt af þeim guðspjöllum sem láta næsta lítið yfir sér í fyrstu, en reynast svo við nánari skoðun ekki aðeins ríkuleg uppspretta hugsana og leiðsagnar í daglegu lífi, heldur draga þau upp mynd af kirkjunni og af trúarlífi einstaklinga og persónulegu sambandi hins kristna manns við Krist sjálfan.

Við vorum minnt á það fyrr á þessu ári þegar 200 ár voru liðin frá fæðingu H.C Andersen, hversu meistaralega ævintýri hans eru saman sett. Þau hafa yfirleitt alltaf hina ytri einföldu mynd sem gagnast vel sem ævintýri fyrir börn, en einnig hina dýpri merkingu sem er tilefni fullorðinna til margræðra íhugana um lífið og tilveruna.
Hið sama má segja um þetta guðspjall.

Frásagan um systurnar tvær Mörtu og Maríu, og hið eina nauðsynlega er oft lesin í fljótheitum. Þá er líka hætta á að skilningurinn markist af því. Það verður til þess að lesandinn dregur jafnvel þá ályktun að Jesús hafi verið að gera lítið úr Mörtu, sem mæðist í mörgu, og janvel líka gera lítið úr störfum hennar og gestrisni, en hann hrósi Maríu sem velur góða hlutann, að sitja og íhuga í stað þess að hlaupa fram og aftur með brauð og vín.

Niðurstaðan væri þá þessi: Það er betra að sitja við fætur Jesú Krists og læra af honum, heldur en að vera á þönum við að sinna gestum.
Í þessu er sannleikurinn einfaldaður svo mikið að hann hættir að vera sannleikur, vegna þess að hver sem situr við fætur Jesú getur ekki látið vera að sinna gestum.
Þetta má rökstyðja með því að visa í dæmisöguna um miskunnsama samverjann. Þar birtist þjónustan í tvöfaldri mynd, þar sem bæði má líta svo á að í verki hins miskunnsama samverja birtist mynd Krists og þjónustu hans í heiminum og að í hinum særða manni sem liggur við veginn sjáum við Krist sem sagði hvað sem þér gjörið einum minna minnstu bræðra/systra, það gjörið þér mér.
Kristin þjónusta beinist frá Kristi til hinna þurfandi, og hún beinist að Kristi sem er meðal hinna þurfandi.
Umrædd útlegging á Mörtu og Maríu stenst þess vegna ekki.

Reyndar má líka nefna í leiðinni að þótt hér sé um tvær konur að ræða, - og Lasarus bróðir þeirra ekki nefndur að þessu sinni, (hann var allavega ekki að hjálpa Mörtu) þá hefur þessi texti oft verið notaður til þess að gera hina starfandi elsku að annarsflokks þjónustu á eftir hinni spekingslegu íhugun.- og gera annað kvennastörf en hitt karla.
En það er annað mál.

Að þetta séu ályktanir í fljótræði er því megin umhugsunarefni okkar í dag.
En til þess að sjá það þurfum við að lesa textann með alúð og athygli.

• • •

Jesús kemur í hús Mörtu og Maríu.
Hann er ekki einn. Í textanum stendur ekki: Á ferð sinni kom Jesús í þorp nokkurt, heldur: á ferð þeirra.

Marta var semsagt ekki bara að þjóna honum einum, heldur öllum hópnum.
Í því ljósi verður að skilja athugasemd Mörtu, þegar hún kvartar við meistara sinn. Ég er hér að keppast við en María gerir ekki neitt. Hún bara situr þarna og starir.
María valdi góða hlutann, segir Jesús. Hvað þýðir það?

Hvað hefði Jesús sagt, ef það hefði ekki verið Marta heldur María sem klagaði systur sína. Ef María hefði sagt við Jesú:
Er þér virkilega alveg sama um að Marta hamast við að bera inn mat og drykk og gefur sér ekki tíma til að sitja og hlusta á það sem þú segir?

Hvað hefði hann sagt?

Vertu glöð yfir því að hún skuli ekki amast við því að þú situr og hlustar.
Hún hlustar eins og hún getur á meðan hún sinnir gestunum. Eða:
María, ef systir þín væri ekki svona dugleg myndir þú ekki geta setið hér svona róleg.

Um þetta vitum við auðvitað ekki neitt, en það væri ósanngjarnt að draga upp mynd þeirra eins og þær væru andstæðingar, eða að í orðum Jesú fælist einhver endanlegur úrskurður um þjónustu Mörtu andspænis þjónustu Maríu. Viðbrögð hans eru ekki við störfum Mörtu heldur því að hún skuli klaga systur sína. Og að vera tilbúinn til þjónustu samkvæmt því, án fyrirvara og án eftirmála, án útreikninga um ávinning eða tap, er einkenni kristins manns og kristinnar kirkju.
Það er hefð fyrir því að tala um þær systur eins og þær væru fyrirmyndir hinnar tvíþættu þjónustu kirkjunnar sem kennd er við diakoníu og liturgiu, þar sem diakonia stendur fyrir safnaðarþjónustuna, en liturgian fyrir helgiþjónustuna í kirkjunni.

En þetta er ekki heldur hægt. Þessar tvær systur eru eins og tvær hliðar á sama peningi.
Það er ekki hægt að skilja þær að. Þar að auki eru þjónustusysturnar ekki tvær, líturgía og díakonía, heldur þrjár. Sú þriðja heitir Marturia . Það er þjónusta vitnisburðarins, mitt, eða þitt, eigið trúboð til heimsins.

Diakonía er þjónustan sem tekur til starfa, gerir hið nauðsynlega, annast um nauðstadda og þurfandi, sinnir um hina líkamlegu velferð, hún er íhugandi gagnvart orðinu sem hún heyrir. hún tekur við því með eyranu og hjartanu og breytir því í gerðir.

Hún er þess vegna praktísk. Hún er kirkjan í þjónandi kærleika til að gera hið nauðsynlega. En íhugunin, sem snýr inn á við byggir á því að sá sem íhugar verði sjálfur ílát sannleikans og hjálpræðisins.

Þetta eru tvær leiðir. Þær koma til dæmis fram í mismunandi klausturhreyfingum, eða mismundandi leiðum hinnar innri missionar.
Innri missjón beinist bæði að því að starfa meðal þurfandi, og vera alveg á fullu í starfinu þar, sinna um fljóttamenn, sinna neyðaraðstoð, reka súpueldhús, og hún beinist að því
og byggja upp kyrrðarstaði, lofsöngsstaði, tilbeiðslustaði og sálgæslustaði.

Marta fær ekki ávítur fyrir það sem hún er að gera, heldur fyrir það að klaga systur sína.
Að baki leynist hugsunin um að maður verði að vera svo duglegur að maður hafi engan tíma fyrir sjálfan sig, og alls ekki að leggjast í lestur ritningarinnar.
Meistarinn ver Maríu fyrir slíkri ákæru.Hún hefur valið hið góða hlutskiptið.

Góða hlutskiptið. Hvað á hann við?

Þegar orðalagið eitt er skoðað, þá lætur það lítið yfir sér. Það er ekki verið að tala með stórum orðum um það sem skiptir sköpum fyrir allan heiminn, heldur það sem er best fyrir venjulegt fólk eins og þig og mig.
En einmitt það skiptir sköpum fyrir allan heiminn

Og svo er eitt enn í guðspjallinu sem oft gleymist. Það er þetta:

Jesús virðist samkvæmt guðsjöllunum hafa verið heimilislaus maður, frá því að starfstími hans hófst, eða þetta þriggja ára skeið.
Hann vísar einnig til þess sjálfur í orðunum: refar eiga greni en mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla.
Einmitt þess vegna er honum svo mikils virði að eiga vini sem taka við honum í hús sín. Það var mikil vinátta í ljósi þess að hann var mjög umdeildur, og hann var ekki vel séður af mörgum.Það var áhætta að taka við honum.
Þetta var ekkert 85% þjóðkirkjusamfélag.

Fyrsta setningin í þessu guðspjalli myndi þess vegna nægja fyrir langa hugleiðingu um það hvernig heimili og fjölskyldur mættu Kristi sjálfum þegar hann gekk um og gjörði gott, og síðan hvernig þau sem fluttu áfram boðskap hans og kenningu, og breiddu út hina kristnu trú, gátu það einmitt vegna þess að fólk tók við þeim og þar með einnig við Kristi í hús sín, og hvernig trúin á Guðs son varðveittist með þjóðum vegna þess að fólk tekur þannig við Kristi enn í dag, ber börn sín til skírnar og elur þau upp í trú, þannig að Kristur megi sjálfur eiga athvarf hjá þeim og megi halla sér til hvíldar, eins og þegar barnið biður með sínu fólki þegar það gegnur til náða, - og vonandi oftar.

Og þessi heimili þar sem Kristur fær að gista, þau eru mörg og þau hafa mikið gildi, ekki síst með þeim vitnisburði sem þau gefa öðrum þeim sem þangað leita. Þess vegna er nauðsynlegt að hvetja kristið fólk til þess að hafa uppi við á heimili sínu tákn þess að þau eru kristin. Ekkert heimili er svo lítið og þröngt að þar sé ekki pláss fyrir kross og ljós, Biblíu og sálmabók, bænakver og bænastað þar sem trúin er iðkuð.

Jesús kemur í hús Mörtu og Maríu.
Jesús leitar enn uppi þau hús sem taka við honum.
Og hvar sé ég hann?
Þjónustan við þau sem leita skjóls, er í hans nafni.
Sá sem kallar á hjálp, kallar með rödd hans.

Einstaklingar og söfnuðir, heyra þá rödd.
Söfnuður Krists safnast saman á föstum stundum og ákveðnum stöðum.
Hann þarf sitt heimili. Guðsþjónustustaðurinn endurspeglar alla tíma með einhverjum hætti skilning safnaðarins á því hvers eðlis það stefnumót við Krist er sem við köllum guðsþjónustu.

Hér skal það ekki rætt frekar, - en þó má minna á það, að hvorki sú kirkja sem drabbast niður og enginn vitjar, né sú sem vegna stærðar og skuldsetningar sligar söfnuðinn og kirkjuna, ber vitni um einkenni stefnumótsins, þar sem eitt er nauðsynlegra en annað, en þó hvort tveggja nauðsynlegt.

Eitt er nauðsynlegt og það er góða hlutskiptið:

Trú
og líf í trú.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2883.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar