Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Karl Sigurbjörnsson

Skrifað í sandinn

19. júní 2005

Snemma morguns kom hann aftur í helgidóminn, og allur lýður kom til hans, en hann settist og tók að kenna þeim. Farísear og fræðimenn koma með konu, staðna að hórdómi, létu hana standa mitt á meðal þeirra og sögðu við hann: Meistari, kona þessi var staðin að verki, þar sem hún var að drýgja hór. Móse bauð oss í lögmálinu að grýta slíkar konur. Hvað segir þú nú? Þetta sögðu þeir til að reyna hann, svo þeir hefðu eitthvað að ákæra hann fyrir. En Jesús laut niður og skrifaði með fingrinum á jörðina.

Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann, rétti hann sig upp og sagði við þá: Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana. Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina. Þegar þeir heyrðu þetta, fóru þeir burt, einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Jesús var einn eftir, og konan stóð í sömu sporum. Hann rétti sig upp og sagði við hana: Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?

En hún sagði: Enginn, herra.

Jesús mælti: Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar. (Jh. 8.2-11)

Það var snemma morguns í musterinu í Jerúsalem. Fólkið þyrpist að Jesú, til að hlýða á hann kenna. Þá koma þeir með konuna. Þetta voru farisear og fræðimenn, sérfræðingar í siðgæði og trú. Hefði konan komið sjálfviljug inn í helgidóminn, hefðu þeir refsað henni harðlega fyrir það, konum var gert að halda sig á sérstökum stað í musterinu, forgarði kvennanna. Nema ef draga þurfti þær fyrir dóm. Þá máttu þær koma inn í helgidóminn sjálfan. Nú koma þeir með þessa konu, draga hana fram fyrir Jesú. Hún er skelfingu lostin á svip. Fyrirlitningin og heiftin leynir sér ekki í fasi og framkomu þeirra er þeir hrinda henni að fótum Jesú. Hún hafði verið staðin að verki, hórsek kona, og þá dauðasek samkvæmt lögmáli Móse. Sigri hrósandi hrópa þeir til Jesú: „Þessa konu ber að grýta, það segir lögmálið, hvað segir þú?” Þeir ætluðu sér að leiða hann í gildru, þeir voru að safna saman ákæruatriðum gegn Jesú, í þá megin ákæru að hann hvetti til óhlýðni við lögmálið og Guðs vilja. Þá væri hann dauðasekur, eins og hún.

Það er sem morgunsólin standi kyrr, og allt dettur í dúnalogn á musterissvæðinu, ysinn og skvaldrið og sköllin hljóðna. Hverju svarar hann, meistarinn frá Nasaret?

Hann segir ekkert. Hann beygir sig niður og skrifar í sandinn, og segir síðan hljóðlega, milt, en orð hans voru öflug eins og landskjálfti: „Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum.” Þeir glúpnuðu og gengu sneyptir burt. Hann leit á hana og sagði: „Sakfelldi enginn þig? Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú og syndga ekki framar!”

Hún er fræg þessi saga, og oft til hennar vitnað, og það er gott, við megum aldrei gleyma henni. Hún er dæmigerð fyrir Jesú frá Nasaret. Augun hans mættu þeim sem enginn sá og enginn vildi af vita, og orð hans máttug, mild og hlý gáfu þeim nýja reisn og nýjan þrótt, nýtt líf, eins og vorsól sem laðar fram líf og yl, þar sem áður var allt kalt og dautt

Þessi umhyggja, kærleikur án skilyrða, miskunnsemi, fyrirgefning syndanna, NÁÐ. Þvílík kraftaverk! Við þekkjum það vafalaust öll, undur og kraftaverk ástar, náðar, fyrirgefningar - sem læknar og gerir heilt hið brotna og sjúka í samskiptum fólks. Og þó er okkur svo gjarnt að gleyma. Jesús tók sér stöðu við hlið hins dæmda syndara. Þar vildi hann vera, og hann vék ekki þaðan, allt til enda. Þó að leiðin lægi upp á Hausaskeljastað, og niður til heljar. Já, og allt til þessa dags.

Þetta er fagnaðarerindið. Hin dýrmæta gjöf kristinnar kirkju til menningar og samfélags. Fagnaðarerindið um Jesú, um fyrirgefningu syndanna, friðþæging, fyrir krossdauða hans og upprisu frá dauðum. Af rótum þess hafa þeir ávextir sprottið sem dýrmætastir eru í okkar siðmenningu.

• • •

Ég hef lesið skelfilegar lýsingar fólks sem orðið hefur vitni að opinberum aftökum og refsingum í löndum þar sem lögmálið forna ræður för. Í Saudi Arabíu, Afganistan, og öðrum löndum múslima. Konur grýttar á þorpstorginu, karlar hýddir og limlestir og hengdir á íþróttaleikvöllum. Þetta er samtíðin í heiminum okkar. Og víst er það að ekki er svo ýkja langt síðan að þvílíkt þótti nú nokkuð góð latína í okkar landi. Langalangamma mín var ung hýdd á vorþingi austur í Meðallandi fyrir miðja nítjándu öld fyrir hórdómsbrot. Karlskepnan, húsbóndi hennar sem misnotaði hana, var sektaður um einn ríkisdal. Það er nú ekki lengra síðan. Ekki úr vegi að minna á það í dag þegar minnst er níutíu ára afmælis kosningaréttar kvenna á Íslandi. Og fáninn okkar er jafngamall. Fáninn okkar, himinblái með krossinum hvíta og rauða, tákni Krists, meistara kærleikans, mildinnar, miskunnseminnar. Ég bið þess og vona að hann megi ætíð blakta yfir landi og þjóð sem virðir þau gildi og byggir á þeim.

Hún Guðný sáluga Gilsdóttir var merk kona, ógleymanleg, kraftmikil og einarðleg kristin kona, hún kenndi mér vísu, sem ég held hún hafi ort sjálf:

„Viljirðu líkjast lífi hans,
sem læknaði dýpstu meinin,
ritaðu´ í sandinn misgjörð manns,
meitlaðu´hið góða í steininn.”

• • •

Við höfum mikið lært og tileinkað okkur af hinum góða boðskap fagnaðarerindisins, og þó eigum við mikið ólært. Opinberar refsingar, hvað þá aftökur, tíðkast hér ekki. Nema þá í annarri mynd. Og fátt er til varnar þegar ákæra, dómsuppkvaðning og aftaka fer fram á forsíðu dagblaðs eða í helstinu. Mörgum blöskar það miskunnarleysi sem í vaxandi mæli tíðkast í fréttamiðlum. Myndbirtingar og nafnbirtingar sem afhjúpa algjört virðingarleysi fyrir mannhelgi og virðingu sem manneskju, jafnvel sekum manni ber. Mörgum blöskar sú nauðsyn sem rekur fréttamiðla til dæmis til að rekja málsatvik svona ítarlega sem einatt gerist í fréttaflutningi af kynferðisglæpum gegn börnum, og öðrum voðaverkum. Hvers vegna þarf að lýsa svona nákvæmlega í hverju brotin hafi verið fólgin? Hvaða tilgangi þjóna þessar nákvæmu lýsingar? Hér er iðulega farið gróflega yfir velsæmismörk. Í vetur ákvað hin virta fréttastofa BBC að birta ekki myndir og áköll gísla hermdarverkamanna. Það minnir á að þrátt fyrir ágenga kröfu ýmissa afla um rétt almennings að fá að sjá og heyra þá eru mörk virðingar og velsæmis sem almenningur á ekki síður rétt á að séu virt.

Sem betur fer er enn til það fólk sem blöskrar og er ófeimið að láta það í ljósi. Sem blöskrar sú þróun fjölmiðlunar sem birtist í vaxandi mætti auglýsinga og þungvægara sölugildi mannlegra harma og óhamingju. Og vandlætingarsemi sjálfsskipaðra siðapostula sem þjóna fýsnum sínum og lund með því að gleðjast yfir óförum og reyna að selja óhamingju annarra. Hér verður að sporna við og andæva. Sagt hefur verið að mest af því sem flokkast undir spámannlega prédikun og móralisma og vandlætingarsemi í siðgæðisefnum sé innibyrgð reiði. Það má vel vera. Og í þeim efnum eru hvorki klerkar né fjölmiðlamenn með hreinan skjöld. Við lærðum sem börn að ekki sé ráðlegt að kasta steinum úr glerhúsi. En ef til vill ættum við einmitt að snúa því við og gera þá kröfu að enginn kasti steini nema úr glerhúsi, vitandi af því að það getur hitt mann sjálfan fyrir. Tókstu eftir orðum pistilsins:„ Fyrir því hefur þú, maður, sem dæmir, hver sem þú ert, enga afsökun. Um leið og þú dæmir annan, dæmir þú sjálfan þig.” (Róm.2.1-4) Eða eins og einn hinn fornu kirkjufeðra sagði:„Það er hættulegt að dæma aðra, ekki svo mjög sakir þess að þér geti skjátlast heldur af hinu að þú kannt þá að leiða í ljós sannleikann um sjálfan þig.”

Við erum lítið samfélag á Íslandi, kunningjasamfélag, þar sem gjarnan er sagt og með þó nokkrum sanni að allir þekki alla. Þess vegna ættum við að hafa tækifæri til að sýna meiri aðgát og virðingu gagnvart þessum hlutum en það sem tíðkast í sorppressum og skólpveitum fjölmiðlunar stórþjóðanna. Við höfum mikið lært og tileinkað okkur hinum góða boðskap og heilnæmu áhrifum frelsarans. En við verðum að gæta að. Það er sótt að hinum kristnu áhrifum, hinum kristna anda, og miðlun hinnar kristnu sögu til uppvaxandi kynslóðar! Það er gjarna gert í nafni frelsis og mannréttinda, en ég hygg að oftast sé það af hvötum blindrar mannhyggju og markaðshyggju þar sem ekkert er heilagt nema rétturinn að græða. Guði er rýmt út, og troðið á manneskjunni, og öllum þeim gildum sem ekki er beinlínis hægt að græða á. Það er ekki geðsleg framtíðarsýn ef þau viðhorf ná yfirhöndinni.

• • •

Saga er sögð af presti sem kom nýr í söfnuð og var sagt frá gamalli konu sem væri svo umtalsfróm og góðhjörtuð að hún fyndi jafnan eitthvað til málsbótar, jafnvel landsþekktum skúrkum og skíthælum. Prestur taldi sig veraldarvanari en svo að hann gæti lagt trúnað á annað eins, svo hann afréð að prófa kellu. Hann gerði sér ferð til hennar, og sem þau sátu þar yfir kaffibolla ræddi hann um menn og málefni vítt og breytt og nefndi til sögunnar hvern skuggabaldurinn eftir annan. Það var segin sagan, alltaf hafði hún eitthvað jákvætt um hvern þeirra að segja. Uns prestur var mát og sagði: „En hvað segirðu þá um þann vonda sjálfan og athæfi hans og verk?” Sú gamla þagði við en sagði svo með festu:„Ja, ef sumir aðrir væru eins iðnir og hann, þá væri eitt og annað með betra móti í veröldinni!”

• • •

Kirkju Krists er ætlað að iðin í þágu hins góða. Hún á að vera griðland og athvarf miskunnseminnar. Og heilsulind, heiminum til lífs og lækningar. Heilsulind þar sem áhrif og andi miskunnsemi og friðar og fyrirgefningar syndanna á sér skjól. Og er iðkað með orði og athöfn og helgum hefðum sem laða fram hið góða og fagra í mannlífi og samfélagi. Grafarvogskirkja á fimm ára vígsluafmæli í dag. Fögur, ríkulega búin, með frábært fólk, fjóta presta í fremstu röð, sóknarnefnd og starfsfólk, kirkjukóra og tónlistarfólk, (- sem við höfum fengið að njóta hér nú) - fólk sem heldur uppi fjölbreyttu og glæsilegu safnaðarstarfi. Liðsandinn í Grafarvogskirkju er til fyrirmyndar, hlýtt og gott viðmót og það samfélag í trú og gleði sem hér má reyna og sjá. Til hamingju, allir sem Grafarvogskirkju unna og þjóna. Hún á að vera heilsulind, opin, sem laði unga sem gamla að altari Krists. Að þeim stað þar sem hann réttir út faðm sinn, og ritar í sandinn sýknudóm sinn, að altarinu þar sem fyrirbænin er iðkuð og sú athöfn er miðlar fyrirgefningu syndanna.

Vertu líka órög, Grafarvogskirkja, að sækja fram sem biðjandi, boðandi og þjónandi kirkja. Órög að fara á nýjar slóðir til að ná til fólks með fagnaðarerindið og laða það að því heilaga. Laða það að þeim lindum þar sem fyrirgefning syndanna er í boði. Og láttu ekki fjötra þig innan veggja þessa helgidóms, svo fagur og dýrmætur sem hann er. Sæktu líka út til unga fólksins, ungu foreldranna sem eru að koma sér fyrir hér í nýbyggðahverfunum sem spretta upp. Láttu það finna að hagur þess og andleg velferð kemur kirkjunni við. Settu upp útstöðvar hér í nýjustu hverfunum, kirkjusel, með reglulegum messum, þar sem helgin fær mál og lotningin rúm, og þar sem sagan af Jesú er sögð, þar sem fyrirbænin er iðkuð, með biblíulestrum og fræðslu þar sem fólk fær tækifæri að fræðast um grundvallaratriði trúar og bænar, þar sem ungu foreldrarnir fá stuðning við að miðla börnum sínum því sem dýrmætast er: sögunni af Jesú, bæn og trú. Það sem mun valda úrslitum fyrir gæfu og gengi okkar þjóðar er fagnaðarerindi frelsarans, orðið sem blessar og reisir. Bara að það fái að móta nýja kynslóð. Guð gefi að kirkjan, að við, berum gæfu til að leggja nýrri kynslóð „Faðir vor“ á tungu og frelsarans mynd á hjarta.

• • •

Niðurlagsorð guðspjallsins skulum við festa í minni. Jesús rétti sig upp og leit á hana og sagði: „Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig? Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú og syndga ekki framar!”

Með þau orð í hjarta skulum við fara héðan í dag. Vitandi það að við höfum mætt augliti hans í orði hans og við borðið hans, orðið sem sýknar og náðar, og hönd hans sem leiða vill út og inn….

Grafarvogskirkja 4.sunnudag eftir trinitatis, 19. júní 2005.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 6359.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar