Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Gunnar Jóhannesson

Með þeim mæli, sem þér mælið

19. júní 2005

Snemma morguns kom hann aftur í helgidóminn, og allur lýður kom til hans, en hann settist og tók að kenna þeim. Farísear og fræðimenn koma með konu, staðna að hórdómi, létu hana standa mitt á meðal þeirra og sögðu við hann: Meistari, kona þessi var staðin að verki, þar sem hún var að drýgja hór. Móse bauð oss í lögmálinu að grýta slíkar konur. Hvað segir þú nú? Þetta sögðu þeir til að reyna hann, svo þeir hefðu eitthvað að ákæra hann fyrir. En Jesús laut niður og skrifaði með fingrinum á jörðina. Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann, rétti hann sig upp og sagði við þá: Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana. Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina. Þegar þeir heyrðu þetta, fóru þeir burt, einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Jesús var einn eftir, og konan stóð í sömu sporum. Hann rétti sig upp og sagði við hana: Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig? En hún sagði: Enginn, herra. Jesús mælti: Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar. (Jh 8.2-11)

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Ég vil byrja á því að óska ykkur til hamingju með nýliðinn þjóðhátíðardag. Ég vona að hann hafi verið ykkur ánægjulegur.

Það er svo að saga daganna er með ýmsu móti og sjálfir eru þeir hverjum öðrum ólíkir. Allir bera þó með sér merkilega sögu þegar grannt er skoðað, fjarlæga eða nálæga, persónulega eða alþýðlega, eða hvort tveggja í senn. Einn hátíðisdagur líður hjá og annar rennur upp. Það er hátíð hjá okkur í dag. Það er gott að fá að koma til kirkju og hlýða á orð Guðs, það er mikil hátíðisstund og helg að fá að tala við hann og njóta samfélags við hann og alla þá sem til kirkju koma. Og ekki er það lítilsvert að fá að vera í Hóladómkirkju, þessari fallegu kirkju, hér á þessum fallega og sögufræga stað. Hér er allt þrungið sögu, hvert sem litið er. Einhvers er að minnast á hverjum degi og dagurinn í dag er ekki undantekning, enda enn einn hátíðisdagurinn.

Dagurinn í dag er minnisverður fyrir margar sakir. Þó rís hann eflaust hærra í sögunni fyrir þær sakir að á þessum degi fyrir níutíu árum hlutu íslenskar konur kosningarrétt og kjörgengi til alþingis. Ég óska öllum konum nær og fjær til hamningju með daginn og þessi tímamót. Níutíu ár eru ekki ýkja langur tími þegar til þess er hugsað hversu sjálfsögð réttindi um er að ræða. Hiklaust má þó segja að með því skrefi sem stigið var fyrir níutíu árum hafi verið lagður hornsteinn að því samfélagi sem við viljum byggja, þó þess hafi verið lengi að bíða, réttlátu samfélagi þar sem enginn ber skarðan hlut frá borði heldur hefur jafnan möguleika á framgangi og hver annar.

Um leið og maður tekur svo til orða minnist maður þess þó að enn er mikil vinna fyrir höndum í jafnréttis- og jafnræðismálum hér á landi. Ójöfnuður og óréttlæti er við lýði og fyrirfinnst alltof víða. Margt er óunnið og því er nauðsynlegt að nota dag sem þennan til áminningar einmitt um það. Allir landsmenn, bæði karlar og konur, verða að standa saman að því að varðveita það jafnrétti og þau sjálfsögðu réttindi sem áunnist hafa og koma þeim á þar sem þeim er ábótavant, og miðla áfram til æskulýðsins þeim arfi sem kvenréttindabaráttan hefur skilið eftir sig og þeim hugsjónum sem knúðu áfram baráttu þeirra kvenna sem fremstar fóru – og þeim hugsjónum sem enn leitast við að berja á bak aftur hvers kyns óréttlæti og ójöfnuð í samfélaginu.

Það hefur ekki alltaf verið skilningur á réttindabaráttu kvenna, hvorki á hinu opinbera sviði né hinu einslega. Og sama má segja um baráttu annarra minnihlutahópa. Sú staðreynd hefur staðið mörgum brýnum réttindamálum fyrir þrifum. Baráttumál dagsins í dag eru jafn brýn og þau sem hæst fóru fyrir níutíu árum. Það er barist gegn samfélagi sem dæmir fólk ranglega og leggur því á herðar helsi samfélagslegrar útskúfunar í krafti kreddubundins meirihlutaálits og lögmálshelgaðrar hrænsni.

Ég vona að þeir sem málum ráða í samfélaginu, stofnanir og fyrirtæki, taki höndum saman sem aldrei fyrr og leitist við að koma á réttlátara samfélagsskipan og jafnari, þar sem hver og einn getur sótt sér þau samfélagslegu gæði sem sjálfsögð eru og hverjum og einum ber, milliliða- og haftalaust, óháð kynferði og stöðu eða nokkru öðru: Samfélagi án allra mæra, kynbundinna, menningarlegra, trúarlegra. Ég bið þess hér að við gerum kröfuna um réttlátt samfélag að bænarefni okkar í dag, um leið og við minnumst og þökkum öllum þeim konum sem lögðu lóð sín á vogarskálarnar með óbilandi trú og elju, og alls þess fólks sem leitast við að raungera það mannlega samfélag sem allir eiga rétt á.

Guðspjallstexti dagsins og varnaðarorð frelsarans geta verið okkur leiðarljós í þessum efnum. Hin myndræna frásögn um hórseku konuna er ein hinna áhrifameiri í Nýja testamentinu. Hún fjallar um þá dóma sem við fellum hvort um annað og hvort yfir öðru, á hverju við byggjum þá og hvað þeir hafa að segja.

Farísear og fræðimenn færa til Jesú konu sem þeir saka um hórdóm. Þeir koma kotrosknir og veifa lagabókstaf þar sem kveðið er á um dauðasekt yfir hverjum þeim sem staðin er að verki við að drýgja hór. En við vitum það líka, að þeir höfðu annað tilefni til upphlaupsins en að fá lögmálinu einu fullnægt. Þeir vildu finna sök hjá Jesú svo þeir gætu handtekið hann.

Jesús fór ekki troðnar slóðir í boðun sinni, eins og við vitum, og túlkaði hann allflest sem viðtekið var í nýju ljósi. Hann lét ekki siði og venjur, kennisetningar eða lagabókstaf standa kærleikanum fyrir þrifum, sem hann boðaði frá Guði, og kröfuna um réttlæti öllum til handa. Hann lét það ekki trufla sig að hann gengi þvert á samfélagslegar og trúarlegar reglur og kenningar. Ekkert mátti standa í vegi fyrir kærleikanum sem okkur ber að auðsýna hvort öðru. En það truflaði aðra. Já. Þetta vissu farísearnir og fræðimennirnir um Jesú. Þeir þóttust því vissir um að nú næðu þeir taki á honum: Hvað á að gera við konuna, spurðu þeir. Hvað segir þú?

Og nú ert þú spurður hins sama! Hvar í flokki stendur þú?

Ég leyfi mér að segja – allavegana fyrir mína parta – að öll getum við fundið okkur stað á meðal farísea og fræðimanna í þessum efnum, þegar skyggnst er innst í eigin barm. Við fellum dóma öllum stundum. Við erum sífellt að leggja mat á náunga okkar, mynda okkur skoðun á öllu mögulegu og ætla fólki alla mögulega og ómögulega hluti. Og þegar komið er á þær brautir mannlegs eðlis er svo oft auðveldara og þægilegra að sjá flísina í auga náunga síns en bjálkann í sínu eigin, það er jafnvel fýsilegra og oft gagnlegra.

Þetta veit Jesús. Hann sér. Jesús vill ná inn fyrir, þangað sem við viljum ekki fara. Hann vill sjá það sem við viljum ekki kannast við né þekkjast. Og hann vill draga fram í dagsljósið það sem eitrar og spillir: Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana.

Látum gjörðir konunnar liggja á milli hluta. Jesús leggur ekki blessun sína yfir breytni hennar, en hann mætir henni þar sem hún er, tekur í hönd hennar og mælir til hennar frelsandi orð: Sakfelldi enginn þig? Enginn, herra. Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar.

Á ég til þessi orð, þetta hugarfar, þessa líkn.

Jesús gengur gegn almenningsáliti og venjum og siðum sem helgaðir eru af lögmáli. Hann snýr við taflinu. Í einu vetfangi máir hann út öll mæri, ryður burt öllum hindrunum, líkt og með striki sem hann skrifar í sandinn. Hann segir okkur að vega hluti með öðrum hætti og skoða þá í öðru ljósi, nefnilega í ljósi kærleikans. Gerum við það sjáum við eitthvað nýtt. Jesús vill lyfta af okkur hlekkjum samfélagslegs ranglætis. Jesús hafði kveðið upp úr með það, að hann var ekki kominn til þess að dæma heiminn, heldur til að frelsa hann. Hann grundvallaði ekki boðskap sinn á dómi heldur fyrirgefningu og miskunnsemi. Það er fagnaðarerindið. Þess vegna getur Jesús ekki fellt sig við orðin ,þú skalt ekki‛. Til viðbótar þeim verður að koma ,þú skalt‛. Þú skalt elska. Elska Drottin Guð þinn af öllu hjarta þínu og náunga þinn eins og sjálfan þig. Þá verður allt nýtt, hið gamla umbreytist í eitthvað annað. Kærleikurinn og réttlætið heyrir saman. Ef annað fylgir ekki með takmarkar það hitt. Án kærleikans er réttlætið blint og íþyngjandi, harkalegt og dæmandi. Án réttlætisins er kærleikurinn ekki fullkominn. En sé kærleikurinn hafður að leiðarljósi verður réttlætið sá frelsandi veruleiki sem því er ætlað að vera. Jesús leitaðist ekki bara við að kalla hórseku konuna til iðrunar með því að auðsýna henni miskunn, heldur og faríseana og fræðimennina sem sökuðu hana, með því sýna þeim fram á eigin bresti. Og höfum það hugfast að það voru þeir sem harðast héldu fram siðum, hefðum og kenningum samtíma síns og stærðu sig af því og þóttust menn að meiri fyrir vikið. Þeir voru siðgæðisverðirnir og töldu sig standa feti framar en aðrir: Þeir vildu reyna Jesú og freista, en Jesús vildi sannfæra þá og umbreyta þeim.

Þess vegna er okkur hollt, þegar við göngum út á eftir, að líta vandlega í eigin barm, við sem teljum okkur hæf til að fella dóm yfir annarri manneskju. Um leið og þú dæmir annan, dæmir þú sjálfan þig, því að þú, sem dæmir, fremur hið sama. Það er réttilega mælt hjá Páli postula. Af dómhörku er nóg í þessum heimi. Ef við nú leyfum okkur að beina henni í rétta átt, inn á við, til okkar sjálfra, þá eigum við von um réttlátari heim og betra og mannbætandi samfélag. Eða hvað heimtar Drottinn annað af þér en að gjöra rétt, ástunda kærleika og fram ganga í lítillæti fyrir Guði þínum?

Honum sé dýrð, Guði föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verða mun um aldir alda. Amen.

4. sunnudag eftir þrenningarhátíð - Jh 8. 2 – 11. Guðsþjónusta í Hóladómkirkju og Fellskirkju 19. júní 2005.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3539.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar