Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Hver er fullkominn?

22. júní 2005

Þér hafið heyrt, að sagt var: Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn.
En ég segi yður: Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður, svo að þér reynist börn föður yðar á himnum, er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta.Þótt þér elskið þá, sem yður elska, hver laun eigið þér fyrir það? Gjöra ekki tollheimtumenn hið sama? Og hvað er það, þótt þér heilsið bræðrum yðar einum. Gjöra heiðnir menn ekki hið sama?
Verið þér því fullkomnir, eins og faðir yðar himneskur er fullkominn. Mt. 5. 43-48

Kæri miðvikudagssöfnuður.
Ég man hve ég var sem barn og unglingur sólginn í ævintýri.
Ég gat lesið þau endalaust.

Ég man þegar skynsemin kom í heimsókn dag nokkurn og sagði mér að þetta væru alltsaman hillingar og draumsýnir og veruleikaflótti, og ég trúði henni.
Þá kom ævintýralausa tímabilið sem var eins og viðvarandi ský á himni nákvæmlega þar sem sólin hefði átt að vera.

En löngu eftir að sólin var komin framhjá skýinu hélt ég áfram að horfa á skýið og halda sólina vera þar.

Kæri söfnuður, ekkert ævintýri í bókum bernsku minnar er eins stórkostlegt eins og það að fá að vera til og lifa hvern dag og mega vera með í þessu stórkostlega ævintýri Guðs, sem heitir lífið.
Verið þér því fullkomnir eins og faðir yðar himneskur er fullkominn.
Maðurinn sem þiggur líf sitt úr hendi Guðs er skapaður í mynd hans. Hann er fullkominn.
Okkur þykja þetta stór orð, og ekki í samræmi við þá reynslu sem við kunnum að hafa okkur sjálfum. En þetta snýst ekki um það.

Maðurinn er fullkominn þegar hann speglar veruleika hins himneska föður.
Hvernig gerist það?

Fullkomleiki Guðs er sýnilegur í óendanlegri og órannsakanlegri miskunnsemi Guðs, sem hann gefur, án skuldbindinginga, öllum mönnum. Hann gefur hana framhjá útreikningum og ígrundunum mannanna, og hann gefur hana alveg jafnt þeim sem stríða gegn honum, þeim sem trúa ekki á hann, og þeim sem lúta honum Við sjáum það best af því að góðir menn og misgóðir, vel heppnaðir og lítt heppnaðir, hatursfullir og ástríkir, eru vermdir jafnt af sólu hans og jafnt vökvaðir og lífgaðir af regni hans.

Lestar þessarar viku eru tengdir guðspjalli sunnudagsins um hórseku konuna. Þar sáum við hvernig fyrirgefningin speglar í miklu ríkara mæli vilja Guðs en dómur lögmálsins.

Við lifum ekki í samræmi við útreiknaða refsingu lögmálsins eða bergmál radda og skoðana sem þrýsta sér inn á okkur, heldur störfum við í konunglegu frelsi í samræmi við lögmál kærleikans.

Það er vegur kristinnar fullkomnunar sem ber mynd Krists í heiminum.

Þessi fullkomleiki barna föðurins er ekki ávöxtur af áreynslu við að halda tiltekin siðaboð, heldur er hann náðargjöf Guðs, sem seður þau sem hungrar eftir réttlæti með því að umbreyta þeim til sinnar eigin myndar.

En það er einmitt hið eina erindi okkar fram fyrir auglit Guðs á þessum morgni eins og hvert sinn sem við leitum hans í helgidóminum.

Hin hæga en örugga umbreyting til myndar Krists.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 4116.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar