Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Örn Bárður Jónsson

Dæmdir dómarar

19. júní 2005

Snemma morguns kom hann aftur í helgidóminn, og allur lýður kom til hans, en hann settist og tók að kenna þeim. Farísear og fræðimenn koma með konu, staðna að hórdómi, létu hana standa mitt á meðal þeirra og sögðu við hann: Meistari, kona þessi var staðin að verki, þar sem hún var að drýgja hór. Móse bauð oss í lögmálinu að grýta slíkar konur. Hvað segir þú nú? Þetta sögðu þeir til að reyna hann, svo þeir hefðu eitthvað að ákæra hann fyrir. En Jesús laut niður og skrifaði með fingrinum á jörðina.

Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann, rétti hann sig upp og sagði við þá: Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana. Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina. Þegar þeir heyrðu þetta, fóru þeir burt, einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Jesús var einn eftir, og konan stóð í sömu sporum. Hann rétti sig upp og sagði við hana: Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?

En hún sagði: Enginn, herra.

Jesús mælti: Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar. (Jh. 8.2-11)

Þau eru mörg álitamálin í þjóðfélaginu. Á útvarpsrásunum skrafar ört vaxandi hópur manna í þjóðfélaginu, svonefndir álitsgjafar, í umræðuþáttum og fréttum. Um sjónvarp gildir það sama. Álitsgjafar eru á hverju strái með skoðanir sínar undir kastljósi þar sem spyrlar draga fram álit þeirra á hverju málefninu á fætur öðru. Og dagblöðin eru barmafull af ritglöðum álitsgjöfum. Þá eru ótaldar samræður á heimilum og vinnustöðum þar sem hver keppir við annan í að segja kost og löst á málefnum líðandi stundar. Álitsgjafar og reyndar við öll sitjum jafnan í dómarasæti og fellum dóma á báðar hendur eins og unnið sé í akkorði við að salta síld eða flaka þorsk. Það er kallað og hrópað og allir hafa vit á öllu. Og svo eru það öll þessi mál sem sífellt verður að bera undir lögfræðinga. Ég heyrði lögfræðiprófessor flytja erindi á dögunum sem finnst orðið nóg um alla þessa eftirspurn eftir álitsgerðum löglærðra manna. Það er eins og enginn geti lengur snúið sér við í þjóðfélaginu án álitsgerðar þeirra. Dómstólar bólgna út og málin hrannast upp hvort sem er hér á landi að ekki sé nú talað um Evrópudómstólinn sem sér aldrei fram úr verkefnum sínum. Þvílíkir staflar af dómsmálum, þvílíkur Alpafjallgarður af óútkljáðum málum! Álit og dómar út um allt, minnisblöð og lagasetningar. Við erum dómglatt fólk.

En þannig er lífið einu sinni í framkvæmd, það snýst um lög og rétt. Gamla testamentið er að hluta til eintómt lögmál, leiðbeiningar um rétt og rangt. Um aldir hafa verið til sérfræðingar í lögmáli Gyðinga en sá trúflokkur á sér langa hefð í því að ganga til fundar við kennimenn, rabbía og spyrja ráða um allt milli himins og jarðar. Þannig var það á dögum Jesú. Sama hefð birtist í kátbroslegri mynd í bókum Isaacs Bashevis Singer sem hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels fyrir skrif sín um þennan sérstaka heim Gyðinga.

Við komumst aldrei hjá því að dæma eða hafa álit á hlutum en okkur er hollt að muna að með þeim dómi sem við dæmum munum við dæmd verða. Við erum öll dæmdir dómarar.

Merkasti álitsgjafi sögunnar
Í dag eru liðin 90 ár frá því að konur fengu kosningarrétt. Guðspjall dagsins á einkar vel við á þessum degi, 19. júní, þegar konur og karlar fagna þessum tímamótum en dagurinn er haldinn árlega til að minna á réttindabaráttu kvenna. Guðspjallið sýnir annars vegar visku Krists andspænis lögum og dómsýki samtímans þar sem hann tekur málstað konunnar og bjargar beinlínis lífi hennar. En hins vegar birtist einnig í þessari frásögu mikil mismunun því hvergi er minnst á karlinn sem óhjákvæmilega hefur leikið hitt aðalhlutverkið í verknaðinum sem konan var dauðasek fyrir að drýgja. Hann er ekki einu sinni nefndur til sögunnar og var líklega laus allra mála, lögmálið dæmdi hann ekki, aðeins konuna, en konur á þessum tíma áttu sér varla tilvistargrundvöll nema sem giftar konur og mæður. Þegar Jesús er beðinn um álit á alvarlegu máli horfir hann til þess sammannlega, til samsektar allra manna. Þar með sýndi hann hvernig lögmálið getur orðið miskunnarlaust og hart. Hann setur kærleikann ofar öllu án þess að samþykkja verknað konunnar. Þessi saga er undursamleg og hrífandi. Hins vegar er varla hægt að byggja réttarkerfi á niðurstöðu Jesú og yfirfæra dóm hans á almenn hegningarlagabrot hér á landi og slepp öllum við sektir og fangelsi. Hins vegar boðar sagan miskunn og að við öll setjum okkur jafnan í spor annarra.

Á undan sinni samtíð og okkar tíð líka
Guðspjallsfrásagan birtir niðurstöðu álitsgjafa sem var ljósárum á undan sinni samtíð og talaði fyrir jöfnuði fyrir tvö þúsund árum sem þjóðfélag okkar hefur ekki enn náð að lifa eftir. Samt var gyðinglegt samfélag á þeim tíma langt á undan mörgum öðrum samfélögum hvað varðar þjóðfélagslegt réttlæti. Lexían og pistillinn sem ekki heyrðust hér í dag, þar sem skírnartextarnir voru lesnir í þeirra stað, boða réttlæti og miskunn. Annars vegar er það texti úr Sakaría þar sem kallað er eftir réttlátum dómum og hins vegar orð Páls postula úr Rómverjabréfinu um að gleyma því ekki að með því að dæma aðra dæmum við okkur sjálf. Umræða um réttlæti og þjóðmál, pólitík og réttindi almennings eru ríkur þáttur í hinni helgu bók. Kollega minn hlustaði nýlega á erlendan fræðimann og prófessor í Vínarborg halda fyrirlestur þar sem hann las saman annarsvegar lögmál Gyðinga í Gamla testamentinu og hins vegar Mannréttindasáttmála SÞ og kom þá í ljós að harla fátt var nýtt í hinum merka mannréttindasáttmála 20. aldar. Á því sannast að margar fegurstu hugsjónir samtímans eiga sér rætur í gyðing-kristnum trúararfi.

Vandsetnir stólar
Umræða um íslenska dómstóla hefur verið nokkur á liðnum misserum. Þrískipting valdsins í löggjafarvald, dómsvald og framkvæmdavald er ofarlega á baugi umræðu samtímans og þykir mörgum sem mörkin þar á milli séu ekki nógu skýr þar sem framkvæmdavaldið sé full frekt til síns valds og flæði yfir allar girðingar í fyrirferð sinni. Og svo hefur mörgu fólki þótt refsingar í fjölda dómsmála ekki í takt við brot og hefur þetta einkum verið umdeilt þegar um hefur verið að ræða brot gegn konum og börnum í svo nefndum kynferðisafbrotamálum. Í mörgum tilfellum hafa menn fengið tiltölulega væga dóma eftir að hafa skaðað einstaklinga sem bíða þess jafnvel aldrei bætur. Og smákrimmar sem stunda fíkniefnabrot og öðrum sem verður á í auðgunarbrotum af minna tagi er refsað harðlega meðan svo nefndir hvítflibbakrimmar sleppa auðveldlega og sitja af sér dóma nánast í vellystingum. Hvar er réttlætið? Hvernig getum við byggt upp réttlátt þjóðfélag? Ég hef ekki neitt einhlýtt svar við þeim spurningum en einu trúi ég staðfastlega: að kristin trú og afstaða til manneskjunnar og lífsins í heild sé sú stefna sem fleytt hefur þjóðum lengst í átt til réttlætis, jafnréttis og hamingju.

Á að kasta því besta?
Nú er rætt um stjórnarskrána og nefnd á vegum ríkisins hefur þegar haldið fund með fulltrúum samtaka og félaga sem gefið var tækifæri til að tjá sig um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins. Þjóðin á þar vandasamt verk fyrir höndum og mikilvægt er að gefa almenningi ríkan þátt og aðkomu að því verki. Á liðnum misserum hefur þeirri skoðun ítrekað verið haldið á lofti að aðskilja beri ríki og kirkju á Íslandi en í Stjórnarskránni er einmitt kveðið á um stuðning ríkisvaldsins við Þjóðkirkjuna. Í þeirri umræðu gleymist oft að það fyrirkomulag sem hér er við lýði er um margt áþekkt þeirri skipan sem komið var á fót í Svíþjóð árið 2000 og kallast þar í landi aðskilnaður ríkis og kirkju. Við erum kristin þjóð og spyrja verður hvort ekki eigi að standa í stjórnarskrá okkar eitthvað sem kveður á um hinn kristna siðagrundvöll þjóðarinnar. Á siðagrundvöllur þjóðarinnar að vera kristinn í nýrri stjórnarskrá eða einhver allt annar? Hvað á að standa í stjórnarskránni? Eigum við að taka upp einhverja guðlausa stefnu eða vísa til einhverra framandi trúarbragða í ljósi þess að fleiri og fleiri útlendingar af framandi menningu og trú setjist hér að? Nei, að mínu viti erum við kristin þjóð og eigum auðvitað að byggja stjórnarskrána á kristnum grunni. Allir sem hér setjast að eiga að heyra það skýrt og skorinort að við byggjum á kristnum arfi. Hvers vegna byggir Mannréttindasáttmáli SÞ á gyðing-kristnum gildum? Vegna þess að það er ekki öðrum betri gildum til að dreifa. Við Íslendingar þykjumst geta flest og stundum teljum við okkur best í öllu. Oflátungsháttur Íslendinga gæti hugsanlega leitt okkur til þess að saga undan okkur trjágreinina ef við höldum okkur geta gert betur og kastað á glæ öllum þeim gildum sem fegurst þykja og dýrmætust í heimi hér.

Betur en danskan
Pistlahöfundurinn Jón Gnarr er oft hnyttinn í skrifum sínum. Hann ritaði í Fréttablaðið í mars 2005 um kristnifræði í skólum og sagði þar m.a.:

Hvað skaðar það manninn að læra kristin fræði? Hvað getur það hugsanlega gert manni illt? Hefur einhver farið illa út úr því? Man ekki eftir að hafa séð mynd af ólánssömum manni framan á DV undir fyrirsögninni: KRISTINFRÆÐI EYÐILAGÐI LÍF MITT . . . Ingólfur Jónsson frá Prestbakka kenndi mér kristinfræði. Amma mín kenndi mér að biðja. Ég er þeim báðum ævinlega þakklátur. Það sem ég lærði hjá þeim hefur komið mér að góðum notum síðan. Ég held að ég geti fullyrt að ég hafi oftar notað bænina en ég hef notað dönsku. Og bænin hefur gagnast mér betur en danskan. Guð skilur bænirnar mínar en Danir skilja ekki dönskuna mína.

Í lausu lofti eða á föstum grunni?
Alla daga er rætt um réttlæti: á heimilum, vinnustöðum, á Alþingi, í fjölmiðlum og um gjörvallt þjóðfélagið. Á hverju byggjum við skoðanir okkar? Hanga þær í lausu lofti eða eru þær byggðar á traustum grunni og vitrænum þar sem elskan er í fyrirrúmi? Ef grundvöllur einstaklinga og þjóðar er og verður kristinn þurfum við engu að kvíða. Betri grundvöll getur enginn lagt en þann sem Kristur er. Sagan af áliti hans á örlögum konunnar í guðspjalli dagsins ber vott um visku sem okkur er þörf á að efla með okkur í öllu þjóðlífi. Við þurfum ekki að leita um allan heiminn eftir nýjum tískustraumum í hugmyndafræði og siðfræði. Við eigum enn langt í land með að tileinka okkur það besta sem mælt hefur verið á jörðu. Við komumst aldrei til botns í kristinni kærleikshugsun. Einsetjum okkur að stórefla umræðu um kristin gildi og lífsstíl í landinu og þá munu hugsjónir þeirra sem meta inntak hátíðardagsins 19. júní og tilefni hans, verða að veruleika, báðum kynjum til heilla og þjóðinni allri til blessunar.

Það sem eftir stendur
Á kvenréttindadegi minnumst við þess að karlarnir, fræðimennirnir og farísearnir, fóru allir í burtu sneyptir og hugsi yfir eigin gjörðum og tilvist andspænis visku og kærleika Guðs.

Jesús var einn eftir, og konan stóð í sömu sporum. Hann rétti sig upp og sagði við hana: Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig? En hún svaraði: Enginn, herra. Jesús mælti: Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar.

Þetta er saga um kærleika sem meira að segja bræðir hjörtu dómsjúkra karla, saga sem eykur okkur tiltrú á bæði karla og konur í samfélagi kærleikans.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 4171.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar