Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Dagurinn eftir afmælið

15. maí 2005

Konan segir við Jesús: Herra, nú sé ég, að þú ert spámaður. Feður vorir hafa tilbeðið Guð á þessu fjalli, en þér segið, að í Jerúsalem sé sá staður, þar sem tilbiðja skuli.
Jesús segir við hana: Trú þú mér, kona. Sú stund kemur, að þér munuð hvorki tilbiðja föðurinn á þessu fjalli né í Jerúsalem. Þér tilbiðjið það, sem þér þekkið ekki. Vér tilbiðjum það, sem vér þekkjum, því hjálpræðið kemur frá Gyðingum. En sú stund kemur, já, hún er nú komin, er hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika. Faðirinn leitar slíkra, er þannig tilbiðja hann. Guð er andi, og þeir, sem tilbiðja hann, eiga að tilbiðja í anda og sannleika.

Konan segir við hann: Ég veit, að Messías kemur það er Kristur. Þegar hann kemur, mun hann kunngjöra oss allt.

Jesús segir við hana: Ég er hann, ég sem við þig tala. (Jh.4.19-26)

Bæn

Andi sannleikans,
þú sem heimurinn fær aldrei skilið,
vek upp hjörtu okkar í ótta við komu þína,
gef okkur þrá eftir friði þínum
og tendra í okkur löngun til að mæla þitt máttuga orð.
Heyr þá bæn í Jesú nafni. Amen.

Náð sé með yður og friður, frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Dagar koma. Þeir koma einn af öðrum í langri röð og mynda vikur og ár og heila ævi.
Í grunninn eru þeir allir eins. Þeir rísa og hníga. Það varð morgunn og það varð kvöld.

En þeir skilja mismikið eftir í minningunni. Ekki fyrir eigin kraft heldur vegna þess að þeir eru vettvangur atburða. Sumra daga væntum við með tilhlökkun, en aðrir vekja kvíða. Allir eiga þeir eitt sameiginlegt : Nýtt stórkostlegt tækifæri!

Þegar Postulasagan greinir frá hvítasunnunni má heyra að mikið er í vændum:
En er nú var kominn hvitasunnudagurinn!
Og með nútíma orðalagi sagt þá stóð hann sannarlega undir væntingum, hvítasunnudagurinn.

Það er kominn annar hvítasunnudagur.
Hver er hann? Er hann litli bróðir gærdagsins, eða kannski bara skugginn af honum?

Hvítasunna. Afmælisdagur kirkjunnar.
Er dagurinn í dag kannski bara dagurinn eftir afmælið.?
Gestirnir eru farnir heim, veisluföngin búin.
Hvað situr eftir?
Öðru megin gleðin yfir hátíðinni, hinummegin Vísaskuldir og timburmenn?

Kæri söfnuður í Hallgrímskirkju.
Svo virðist að kirkjustarfið í borginni á þessum degi bendi ekki til þess að söfnuðirnir geti með nokkrum rétti barist fyrir því að halda þessum degi sem helgidegi nema taka sig á.
Á þessum sama tíma, núna klukkan 11. er messa í Dómkirkjunni. Annars er hvergi messa nema hér.
Í kvöld er guðsþjónusta í Neskirkju. Þá er upptalið.
Það er ekki heldur mikið að gerast í byggðunum í kring. Í fáeinum sveitakirkjum er fermingarguðsþjónusta. Og svo er náttúrulega þýsk messa í Selfosskirkju kl.tvö, en það er eiginlega annað mál.

Svarið: Það er nú meira kirkjustarf en messur, - og : messusókn er ekki mælikvarði á trúarlíf, er í sjálfu sér rétt að vissu marki, en það svar er fyrst og fremst til þess fallið að leiða athyglina frá hinu eiginlega tilefni spurningarinnar.

Hversvegna eru ekki fleiri messur á annan hvítasunnudag hér þar sem langflestir landsmenn búa? Það er að minnsta kosti ekki vegna þess að það vantar presta.

Svar: Það kemur enginn.
Það kemur náttúrulega alveg örugglega enginn ef engin messa er.
Rétt svar er :Það koma fáir.

Hversvegna koma fáir?
Það er skemmtilegra að gera eitthvað annað.
Til dæmis að fara í golf eða í gönguferð, í sund eða fjallgöngu, og það er líka hollara fyrir líkamann.
Við eigum að leita að hreyfingu en ekki kyrrsetu.
Messa er kyrrseta. - Það er ekkert gagn í þessum fáu skiptum sem maður stendur upp og sest, - enda gerir maður það hægt og virðulega, en ekki ótt og títt.
Svo er heldur ekki skemmtilegt að fara til kirkju.
Er það þá leiðinlegt?
Ekki kannski beinlínis.
Er ekki gaman að vera innan um elskulegt fólk?
Ég þekki engan.
Hvernig væri þá að þú tækir með þér einhvern sem þú þekkir?
Ég er alveg viss um að ef ég nefndi við vin minn að koma með mér til kirkju myndi hann halda að ég væri eitthvað bilaður.

Kæri söfnuður.
Þetta er náttúrulega tilbúið samtal, - en það er ekki þar með sagt að það sé ósatt.
En það er annað samtal sem er til umhugsunar á þessum öðrum degi hvítasunnu.
Þar er viðfangsefnið ekki hlutverk og ástand líkamans og þáttur líkamsræktarinnar í daglegu lífi né heldur hluti skemmtana og afþreyingar, né heldur er verið að gera lítið úr þessum tveim mikilvægu þáttum í lífi folks.

Það er bara verið að tala um allt annað.

Jesús kemur vegmóður að brunni.
Hann biður um vatn að drekka. Bón hans er beint að konu sem er útlendingur.

Fyrstu skilaboð guðspjallsins er þá þessi:
Í Guðsríkinu er ekki gerður greinarmunur á konum og körlum, innfæddum eða útlendingum og ætti ekki heldur að vera hjá okkur.

Í samtalinu kemur fram að Jesús veit meira um líf konunnar en henni þykir sjálfri þæglegt.
Skilaboð númer tvö: Ekkert er hulið fyrir augum Guðs. Ekki líf og ævi, ekki það sem við erum stolt af eða það sem við skömmumst okkar fyrir. Ekkert er hulið. Ekki heldur framtíð kirkjunnar.

Og þá, þegar í ljós kemur að Jesús veit og sér, þá segir konan:

Herra, nú sé ég, að þú ert spámaður. Feður vorir hafa tilbeðið Guð á þessu fjalli, en þér segið, að í Jerúsalem sé sá staður, þar sem tilbiðja skuli.

Þetta var auðvitað gamalt þrætuefni milli þessara þjóða. Hliðstæð þrætuefni eru ennþá til og í uppáhaldi hjá þrasgjörnum, og leiða meðal annars til kirkjuklofnings, en Jesús fellir tilefni þess úr gildi.
Þriðju skilaboð: Ekki gleyma þessu!

Jesús segir við konuna:
Trú þú mér, kona. Sú stund kemur, að þér munuð hvorki tilbiðja föðurinn á þessu fjalli né í Jerúsalem.
En sú stund kemur, já, hún er nú komin, er hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika. Faðirinn leitar slíkra, er þannig tilbiðja hann. Guð er andi, og þeir, sem tilbiðja hann, eiga að tilbiðja í anda og sannleika.

Kæri söfnuður.
Við erum ekki að keppa við líkamsræktarstöðvar og golfvelli, og ekki heldur við skemmtihús. Það er okkur öllum ljóst sem hér erum samankomin í Hallgrímskirkju á þessum morgni, - af því að hér er staður til að leita annars.

Og samt erum við í mikilli samkeppni einmitt við þetta.

Þess vegna verðum við að vera duglegri við að láta vita fyrir hvað við stöndum og hversvegna við förum til kirkju. Í okkar eigin vitnisburði í orðum eða í gjörðum, gefum við til kynna fyrir hvað kirkjan stendur, og einnig við sjálf.

Kirkjuganga snýst fyrst og síðast um tilbeiðslu.
Þörfin fyrir tilbeiðslu er mjög rík og mjög almenn.
Ef henni er ekki svalað í trúarlegu samhengi, hvert leitar hún þá?
Ef hin andlegu verðmæti, sem við köllum svo, glatast – er þá ekki bara haldið dauðahaldi í hin jarðnesku?
Ef tengsin við trúarheiminn glatast , koma þá ekki fram tilraunir til að endurskapa trúarheiminn með jarðneskum hætti?
Ef ekki er leitað leiðsagnar í trúarlegu tilliti, en trúarþörfin er til – hvar lendir maður þá?
Ef mynd hinna andlegu verðmæta er óskýr, hvar leita eg þeirra?

Ég hlýt að leita þeirra í því sem ég mæti og að mér berst.
Hvaðan kemur það?
Frá þeim hópi sem ég umgengst mest og úr fjölmiðlum: útvarpi, sjónvarpi, blöðum og tímaritum.

Jesús sest við brunninn og talar við konuna.
Þetta er falleg mynd. En hún er ekki mjög raunveruleg í nútímasamhengi, þegar samskipti heimilisfólks, jafnvel foreldra og barna mælist í fáeinum mínútum á dag, en sjónvarpsáhorf í klukkustundum. Svo er afgangurinn kannski tölvuleikir eða vefráp.

Gamli páfinn, Jóhannes Páll II, hafði að orðtaki: Hafi það ekki komið í sjónvarpinu þá hefur það ekki gerst.

Vægi sjónvarps og útvarps og netmiðla sem aðalviðmælanda einstaklinganna er gífurlegt. Og sumir , - alltof margir eiga engan annan viðmælanda.
Og aðeins fréttir og fréttatengt efni virðist hafa einhverja stýringu. Hitt er tilfallandi.
Það er svo annað mál hvernig stýringu frétta er beitt.
Hver hefur ákveðið það annar en fréttaheimurinn sjálfur að frétt sé einungis það sem segir frá því sem er með einhverjum hætti frábrugðið því venjulega? Það er semsagt nýmæli. Og hver hefur ákveðið hvað er í raun nýmæli?.
Venjulegt líf venjulegs fólks er ekki fréttaefni.
En ef aldrei berast fréttir af þvi til mótvægis?

Hver er þá heimsmynd barnanna okkar , - og hvernig verður hún til?
Það eina sem hugsanlega getur verið mótvægi er heimilislíf þeirra sjálfra og vina þeirra.
Og ef trú og kirkja á þar engan sess nema kanski falinn innan um hátíðahöld í tilefni eyktamarka á æviskeiði, eigum við þá nokkuð að vera hissa þó að það sé ekki fleira fólk í kirkju?

Nei, það skulum við ekki vera.
Við skulum hinsvegar taka saman höndum og breyta þessu.
Við, sem vitum hvert við eigum að leita. Fram fyrir Guð, í tilbeiðslu.
Við væntum ekki lausnar frá jarðneskum fyrirmyndum.
Við væntum þeirra frá Guði sjálfum.
Það er mikil glíma framundan, - hún er ekki minni en sú að baki.
En var það ekki Knut Hamsum sem sagði: Einn með Guði, - það er meirihlutinn.

Jesús sest við brunninn.

Við gerum það líka. Við höfum lært að doka við, spyrja spurninga og leita svara. Vegna þess að við höfum verið smurð með eldi heilags anda í heilagri skírn.?
Hvar er drifkrafturinn í kirkjunni og í trúnni? ´Í kærleikseldi heilags anda,
Við vitum það.
Í honum er kraftur endurnýjunar og uppbyggingar.

Við höfum nýlega verið hér í kirkjunni til að minnast stríðslokanna fyrir 60 árum.
Hver var drifkrafturinn í uppbyggingunni Þýskalandi, í sjálfri öskustó eyðileggingarinnar?
Það var trúin og kirkjan, samábyrgðin og samhjálpin.

Ulrich Wilckens, guðfræðiprófessor og biskup, skrifar um viðbrögð sín og annarra á þeim dögum: Hann segir:
Þó að allt benti til þess að það væri engin leið út, þá fannst okkur, í algjörri andstöðu við það, við vera kölluð til endurnýjunar á öllum sviðum mannlegs lífs.Kjarkurinn til þess kom úr páskaguðspjallinu.

Við fundum að ef það væri yfirleitt nokkur möguleiki á því að til yrði frekari saga Þýskalands sem nú var siðferðilega, stjórnmálalega og efnislega eyðilagt, þá aðeins með hjálp þess Guðs sem getur gefið nýtt líf í dauðanum miðjum.
Kristur, hinn krossfesti og upprisni var hinn eini grundvöllur allrar vonar um líf í frelsi og mannlegri reisn.

Núna, 60 árum síðar hefur drifkrafturinn dofnað. Hvergi fækkar örar í nokkurri evangeliskri kirkju en þeirri þýsku. Uppbyggingin kostaði miklar fórnir og mikla fjármuni. Viðhald uppbyggingarinnar í heimi sem nýtur hennar er ekki síst ástæðan fyrir fækkuninni. Fólk vill ekki leggja til nauðsynlega fjármuni til þess, kirkjan og trúin eru settar til hliðar og það er talið betra að fjárfesta í ferðalögum og sumarhúsum.

Þá vaknar spurningin: Er kirkjan að hrynja að innan vegna þess að of mikið er sett í hið ytra og og lítið í hið innra? Er vonin sem svo mörgum var týnd vegna eyðileggingarinnar fyrir 60 árum aftur týnd? Og hversvegna þá?

Guido Obermann heitir maður sem hefur samið texta sem hann kallar trúarjátningu vonarinnar.
Hann er aðstoðarbiskup í Argentínu en starfstöð hans sem prestur eru götubörnin, sem fæst lifa lengur en 10 til 20 ár vegna eiturs og óþverra sem þau nota til að lifa einn dag í senn. Aðeins fáum er bjargað til fullorðinsára.
Presturinn er fulltrúi vonarinnar meðal þerra. Hann er þjónn hins heilaga anda.

Þess vegna getur hann sagt:

Guð sem sér menguðu fljótin og dauðu fiskana,
sér eiturefnin sem eyðileggja jörðina og setja göt á himininn,
Guð sem sér hvernig framtíðin er fjötruð í veðböndum
og skuld mannanna vex.
Ég trúi á Guð sem sér þetta allt,
og heldur áfram að gráta.
En ég trúi líka á Guð
sem sér móðurina sem fæðir,
sér hvernig lífið fæðist með þraut,
sér tvö börn að leik,
sér útsæði samstöðunnar vaxa,
sér runna blómstra í rústunum,
sér nýtt upphaf,
sér þrjár ruglaðar konur sem hrópa um réttlæti
og eiga sér óskadraum sem aldrei deyr
sér sólina koma upp hvern morgunn
því að núna er tími tækifæranna.

Ég trúi á Guð sem sér þetta allt
og brosir breitt
því að þátt fyrir allt
er von.

Kæri söfnuður.

Skyldi þurfa að stofna embætti sóknarprests eiturlyfjaunglinga á Íslandi?
Til viðbótar við það starf sem nú þegar fer fram?
Með nýja von?
Við þurfum bregðast við. Við þurfum að styrkja innviðina.
Við styrkjum þá ekki með nokkru öðru betur en einlægri, stöðugri tilbeiðslu, svo að Guð megi verða allt í öllu. Tilbeiðsla í anda hvítasunnunnar er ekki innhverf íhugun. Hún er bæn og starf í senn. Og þá verður hvítasunnuundur að nýju.
Markmiðið er að fylla kirkjurnar. Það getum við. En fyllt þær með heilögum anda, það getur Guð einn.
Uppbygging í kirkjunni í viðvarandi gleði yfir hátíð hvítasunnunnar leiðir ekki til visaskulda og timburmanna, vegna þess að hún setur traust sitt á starf og líf en ekki ytri búnað.

Kom andinn heilagi og uppfyll hjörtun með eldi elsku þinnar.
Kom þú Drottinn,Jesús Kristur.

Konan segir við Jesús: Ég veit, að Messías kemur,- það er Kristur.
Þegar hann kemur, mun hann kunngjöra oss allt.
Jesús segir við hana: Ég er hann, ég sem við þig tala.

Dýrð sé Guði, Föður og Syni og Heilögum Anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3337.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar