Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Hjálmar Jónsson

Andinn og trúin

15. maí 2005

Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín. Ég mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu, anda sannleikans, sem heimurinn getur ekki tekið á móti, því hann sér hann ekki né þekkir. Þér þekkið hann, því hann er hjá yður og verður í yður. Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlausa. Ég kem til yðar. Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar. Þér munuð sjá mig, því ég lifi og þér munuð lifa. Á þeim degi munuð þér skilja, að ég er í föður mínum og þér í mér og ég í yður. Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau, hann er sá sem elskar mig. En sá sem elskar mig, mun elskaður verða af föður mínum, og ég mun elska hann og birta honum sjálfan mig. (Jóh. 14. 15-21)

Þig vantar hvergi vegi,
þig vantar aldrei mátt,
þín bjargráð bregðast eigi
til bóta á einhvern hátt.
Þitt starf ei nemur staðar,
þín stöðvar enginn spor,
af himni er þú þér hraðar
með hjálp og líkn til vor.

Gleðilega hátíðina þegar gróandinn er allt um kring. Þegar svo auðvelt er að taka dæmi af umhverfinu og segja: Trúarlífið þitt á að vera svona. Safnaðarlífið á að vera gróskumikið vegna þess að heilagur andi starfar í kirkjunni og laðar fram trúarþelið, já trúarhitann.

Kristur, sem fór til himins á uppstigningardag kom aftur í anda sínum til að vera hjá mönnum og mannkyni. Þess vegna getum við bæði sagt, að hann sé á himnum við hægri hönd Guðs föður, - og að hann sé mitt á meðal okkar. Hvort tveggja sagði hann: Ég fer upp til Guðs míns og Guðs yðar, - og einnig: Ég er með yður alla daga, allt til enda veraldar.

Hvítasunnuhátíðin er uppfylling á því fyrirheiti. Og hún er staðfesting þess að Kristur starfar í heiminum.

Enskt skáld hefur samið leikrit um krossfestingu Krists. Þar er kona Pílatusar látin ræða við hundraðshöfðingjann, sem stjórnaði krossfestingunni á Golgata. Hún spyr hann hvernig Jesús þessi frá Nazaret hafi orðið við dauða sínum. Hann svara hálfundarlega að henni finnst svo að hún spyr: Heldurðu þá að hann sé ekki dáinn? Nei, svarar hann, ég held hann sé ekki dáinn. Hann gengur laus, hann gengur laus í heiminum og enginn gyðingur eða Rómverji getur heft eða hindrað sannleik hans.
Þetta, sem skáldið skrifar svo, er staðreynd í heimi okkar. Jesús Kristur lifir. Það er ekki hægt að hefta sannleik hans eða kveða hann niður. Þótt her heimsveldis hafi forðum verið beitt til að láta hann hverfa þá gekk það ekki.

Löngu síðar, - á okkar öld hefur verið reynt að hindra sannleik hans, eins og á öðrum öldum. Herir heimsveldis voru t.a.m. kvaddir til. Kirkjur og trúariðkun hefur verið bönnuð í sumum heimshlutum. En það hefur enginn getað stöðvað hann. Hann er með mannkyni, - mitt á meðal okkar í þesum heimi og að eilífu. Hann sagði það forðum daga, - og hann stendur við orð sín.
Hann lofaði að koma aftur með nýjum hætti, - í anda sínum. Það gerðist á hvítasunnunni. Hann var nú ekki háður því lengur að vera í einu landi á einum stað. Hann kom aftur frjáls og sterkur í eilífum anda sínum.

Eilíf nærvera við hann hefst í þessum heimi. Það segir hvítasunnan. Hún er síðust en ekki síst stórhátíðanna þriggja. Þær eru ein heild og bregða ljósi Guðs yfir mannlegt líf og tilveru. Engin þeirra getur án hinna verið.

Það er andi Guðs sem vekur til trúar. Gegnum hann skynjum við nánd Guðs. Að öðrum kosti, ef andinn lífgar okkur ekki trúarlega, þá valda jól og páskar aðeins stundlegum hughrifum. Hversu gleðirík sem jólahátíðin er, þá gefur hún ekki varanlega gleði og hamingju nema andinn lífgi. Andinn lífgar og vekur mönnum áhuga og eldmóð.

Þegar þessi saga gerðist í upphafi þá var millibilsástand hjá lærisveinum Krists á jörðinni. Hann hafði birst þeim upprisinn, verið hjá þeim, búið þá undir að bera sér vitni og þar með sannleikanum. Þeir biðu nú eftir því að íklæðast krafti frá hæðum. Fram til hvítasunnudags voru þeir óráðnir og hikandi. Þeir höfðu öðlast þekkingu á frelsaranum Jesú Kristi. Þeim var nú margt ljóst um eðli og eigindir Guðs ríkis. En þeir höfðu ekki andann, eldmóðinn, sem við vitum að einkenndi þá síðar. Þeir eru ekki ennþá vissir um framgöngu sannleikans í þessum heimi. Þeir bíða átekta, á báðum áttum, þangað til upp er runninn hvítasunnudagurinn. Þá gerðust undur og stórmerki, sem þeir gátu ekki útskýrt, en voru til marks um að Kristur uppfyllti fyrirheit sitt. Andi hans gefur okkur af nægtum sínum. Kristur gefur það sem heimurinn getur ekki gefið. Hann gefur frið. „Frið læt ég yður eftir. Minn frið gef ég yður.“

Hvernig verður nú andans vart á okkar dögum? Forðum varð gnýr af himni, eldtungur birtust og menn fóru að tala tungum. Slíkt gerist ekki á okkar hvítasunnu. Og yfirleitt ekki í okkar kirkjum. Stundum verður að vísu svolítill eldur, þegar menn taka að þjarka um guðfræðikenningar en það er ekki gnýr af himni.

Þetta voru tákn forðum, sem við eigum ekki að taka þannig að hægt sé að kalla þau fram, endurtaka þau eins og vísindalegar tilraunir. Þau voru til þess að vekja athygli og spurningar og umhugsun fyrir þessum 2000 árum.

Við höfum margfalt meira undur fyrir augum á okkar dögum. Sú kirkja sem fæddist á hvítasunnudag er ennþá til. Engin stofnun, engin hreyfing eða mannlegt fyrirtæki annað á sér nándar nærri svo langa sögu. Orð Krists er flutt á öllum þjóðtungum heimsins. Fólk lofar Drottin á eigin tungu sinni. Táknið um tungutalið var e.k. sýn fram til þess, að allir heyrðu talað á sinni eigin tungu um Jesú Krist. Það varð. Þetta er staðreynd núna þótt jafnvel megi telja það undur. Sjálfur sagði Kristur hver leyndardómurinn væri.

Hver sem elskar mig mun varðveita orð mitt og faðir minn mun elska hann og til hans munum við koma og gera okkur bústað hjá honum.

Og sælir eru þeir sem heyra orð Guðs og varðveita það, því að andi Guðs býr í þeim. Með orði Drottins kemur andi hans.

Biblían, jafnvel kirkjubiblían á altarinu, er nákvæmlega jafn líflaus og aðrir dauðir hlutir. En boðskapur hennar getur lifnað. Hann lifir í fólki, sem heyrir orðið, boðskapinn, hann lifir og lífgar það fólk sem Guð hefur hellt anda sínum yfir.

Hver maður er musteri anda Guðs. Hann gerir sér bústað í hjörtum mannanna. Við erum hans öll sem eitt, því að við erum öll eitt í Drottni. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3231.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar