Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Gunnar Jóhannesson

Vegurinn, sannleikurinn og lífið

17. apríl 2005

Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo, hefði ég þá sagt yður, að ég færi burt að búa yður stað? Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað, kem ég aftur og tek yður til mín, svo að þér séuð einnig þar sem ég er. Veginn þangað, sem ég fer, þekkið þér. Tómas segir við hann: Herra, vér vitum ekki, hvert þú ferð, hvernig getum vér þá þekkt veginn? Jesús segir við hann: Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig. Ef þér hafið þekkt mig, munuð þér og þekkja föður minn. Héðan af þekkið þér hann og hafið séð hann. Filippus segir við hann: Herra, sýn þú oss föðurinn. Það nægir oss. Jesús svaraði: Ég hef verið með yður allan þennan tíma, og þú þekkir mig ekki, Filippus? Sá sem hefur séð mig, hefur séð föðurinn. Hvernig segir þú þá: Sýn þú oss föðurinn? Trúir þú ekki, að ég er í föðurnum og faðirinn í mér? Orðin, sem ég segi við yður, tala ég ekki af sjálfum mér. Faðirinn, sem í mér er, vinnur sín verk. Trúið mér, að ég er í föðurnum og faðirinn í mér. Ef þér gerið það ekki, trúið þá vegna sjálfra verkanna. Jh 14. 1 – 11

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

„Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig.“ Þannig hefst guðspjall dagsins. Þetta eru orð sem ná manni og segja í einfaldleika sínum margt og þau kalla djúpt inn í sál þess sem heyrir.

Þannig hóf Jesús ræðu til lærisveina sinna í láreistum sal í Jerúsalem að kvöldi skírdags þegar hann neytti með þeim sína síðustu kvöldmáltíð, skömmu áður en hann var handtekin og leiddur til dauða á krossi. Hann vissi að tími hans með lærisveinum sínum væri senn á enda komin. Þetta var skilnaðarræða hans til þeirra, til vina sinna. Jesús vissi að hann var á förum og hann vildi hughreista lærisveina sína og búa þá undir þá erfiðu tíma sem hann vissi að væri í vændum fyrir þá, þegar þeir stæðu einir eftir frammi fyrir því erfiða verki að halda áfram því starfi sem hann hafði byrjað og flytja heiminum boðskap hans. Þetta voru erfiðir tímar og ógnvænlegir. Lærisveinarnir voru uggandi um framtíðina eins og fram kemur í orðum Tómasar. Tómas óttaðist komandi tíma og horfði ekki björtum augum fram á veginn og viðurkenndi blátt áfram að sá vegur væri sér hulinn. Og hann var að líkindum ekki einn um það. Hvað verður um okkur, spurðu þeir, þegar þú ert farinn? Þeir vissu mæta vel að ráðamenn og fylgismenn þeirra vildu ekkert fremur en ganga milli bols og höfuðs á þeim sem fylgdu Jesú frá Nasaret að málum. Og þeir voru réttilega uggandi um hag sinn, það vissi og skildi Jesús sjálfur manna best.

Játning Tómasar er ekkert einsdæmi og margir hafa komið á eftir honum, allt fram til þessa dags, og horft vonlausum augum fram á veginn og fundið kreppt að trú sinni með margvíslegum hætti. Á öllum öldum hafa ýmis öfl reynt að kæfa og afmá orð Jesú frá Nasaret og reynt að hrekja kristna trú út í ystu myrkur, gera hana ósýnilega mannlegu samfélagi, tortryggilega og jafnvel hættulega. Og þannig var málum háttað fyrstu aldir kristindómsins, og á hverjum tíma hefur kristin kirkja og kristið fólk þurft að þola ásókn fjandsamlegra niðurrifsafla.

Ég fór fyrir skemmstu til Rómarborgar ásamt nokkrum prestum héðan úr prófastsdæminu og var það eftirminnileg ferð og mikil upplifum, sérstaklega fyrir þær sakir að útför Jóhannesar Páls páfa annars fór fram meðan við dvöldum þar og gerði það ferðina afar sérstaka. Eins og nærri má geta var geysilega margt að skoða í Róm enda er þar að finna þær rætur sem hinn kristna kirkja er m.a. sprottin af. Það var mikilfenglegt að sjá Kólóseum, þar sem kristnir menn börðust fyrir lífi sínu og trú, Vatíkanið og allar hinar mörgu og fögru kirkjur sem eru í borginni. En mesta upplifunin var að heimsækja katakomburnar. Þangað þurftu kristnir menn að flýja fyrstu aldirnar eftir Krist, niður í jörðina þar sem þeir sáust ekki. Þar leyndust þeir fyrir fjandsamlegum umheimi sem ofsótti þá.

Katakomburnar eru grafreitir tugi metra fyrir neðan yfirborð jarðar og samanstanda af ótal göngum og ranghölum sem kristnir menn grófu sér. Þar jörðuðu hinir kristnu sína eigin í litlum hólfum í berginu, hundruðir þúsunda, börn, konur og karla, og þar leyndust þeir og komu saman til tilbeiðslu og lofgjörðar og neyttu brauðs og víns við veikburða skin kertaljóss. Það er ákaflega sterk trúarvitund sem kemur upp þegar maður fetar sig áfram um þrönga ganga katakombanna á 40 metra dýpi í jörðinni. Í katakombunum má sjá ummerki hins ofsótta kristna safnaðar, ótal kristnar helgimyndir og nöfn hinna látnu, þeirra sem voru myrtir af ógnaröflum samtímans og létu lífið fyrir trú sína. Nöfn hinna látnu voru greypt í marmarahellur sem settar voru fyrir hólfin sem þeir voru lagðir í til hinstu hvíldar. Eftirminnlegt var að lesa áletrun ungs manns sem myrtur var 28 gamall. Það sagði meðal annars: „Hér hvílir hann, óhultur og í friði hjá Guði sínum.“ Orð Jesú Krists fá alveg sérstakan hljóm þegar hlustað er eftir þeim í ljósi aðstæðna og örlaga alls þessa fólks. „Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. Í húsi föður míns eru magrar vistarverur.“

Katakomburnar standa fyrir ákveðinn veruleika sem ekki má horfa framhjá og það er langt í frá að sá veruleiki heyri sögunni til. Það er sótt að kristindóminum úr mörgum áttum enn í dag og engu líkara en að tiltekin öfl keppist um að búa kristindóminum sínar nútímalegu katakombur og vilji helst af öllu hrekja hann af sjónarsviði samfélagsins og kasta út í ystu myrkur. Kristin trú er af mörgum talin óþolandi og ógnandi veruleiki sem leitist við að þrengja sér upp á samfélagið, samfélag sem einkennist af vaxandi margbreytileika sem beri að halda í heiðri. Þetta sýnir m.a. hin umfangsmikla umræða um kristinfræðikennslu í grunnskólum landsins síðustu misserin. Þar heyrast fáar en háværar raddir sem krefjast þess í krafti trúfrelsis og fjölmenningar að kristinni trú sé skipaður afmarkaður bás fjarri hinu opinbera lífi; að hún sé meðhöndluð, liggur mér við að segja, sem einkamál sem hver þurfi að sinna í leynum og skömm og ætti helst ekki að hafa hátt um það. Sjaldan hefur kveðið jafn rammt að þessum háværu röddum og kirkjan og kristið fólk má ekki láta daufheyrast. Kirkjan má ekki láta þagga niður í sér. Kristið fólk verður sem aldrei fyrr að taka höndum saman og standa vörð um hin kristnu gildi sem henni ber að miðla áfram. Þó kristin boðun eigi að sjálfsögðu að vera bundin við kirkjuna er það mikill miskilningur, eins og bent hefur verið á, að fjölmenning feli í sér að öll gildi séu brotin niður og öll mæri þurrkuð út, heldur miklu fremur að mismunandi straumar og stefnur fái að dafna og njóta sín hlið við hlið og njóti sama tilverugrundvölls innan samfélagsins og sömu tækifæra til að miðla erindi sínu til þess.

Fjölmenningarlegir straumar blása köldu víða um lönd Evrópu og það gnauðar í mörgum kirkjum. Það er staðreynd. Í Danmörku hefur í alvöru verið rætt um sölu margra kirkna svo unnt sé að halda þar úti kirkjulegu starfi yfirleitt. Það var dapurlegt að lesa frétt um daginn sem sagði frá fækkun skírna í söfnuðum þjóðkirkjunnar um 13% frá árinu 1997 fram til ársins 2004. Ef rétt sé hlýtur það að vera kirkjunni og okkur öllum mikið áhyggjuefni og sýna fram á nauðsyn þess að kirkjan og allt kristið fólk haldi vöku sinni og brýni raust sína. Kirkjunni ber að láta rödd umburðarlyndis berast um innviði hins fjölmenningarlega samfélags og heim vaxandi efasemda, rödd Krists sem kallar alla óháð stöðu en þvingar engan; henni ber að miðla áfram kærleiksboðskap hans, kærleikanum sem umber allt og vonar allt.

Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið, segir Jesús Kristur. Kirkjan má ekki hvika frá þeim vegi sem Kristur varðaði, jafnvel þó að hann sé misjafnlega greiðfær. Jesús vissi að svo mundi verða. Hann veit að okkur verður fótaskortur, að við lýjumst á leiðinni og örmögnumst jafnvel. „Hvernig getum vér þá þekkt veginn“ er ætíð holl spurning og mikilvæg hverjum kristnum manni. Jesús hvetur alla til þess að spyrja þeirrar spurningar. Hann hvetur þig til þess að kallast á við sannfæringu þína og trú, brýna hana og halda henni lifandi. En hann vill líka tala til þín og svara spurningum þínum, slá á efasemdirnar, kyrra hug þinn og friða sál þína. „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið“, segir hann. Sá vegur sem Jesús varðar og vill leiða þig á er vegur friðar og einingar, samhugs og kærleika, þolgæðis, fyrirgefningar og sáttfýsi. Hann vill mæta þér á þeirri vegferð, opna augu þín og taka burtu skuggana sem byrgja þér sýn; vera lifandi veruleiki í þínu lífi og auðga það í stóru og smáu. Það er orð sannleikans sem hann talar til þín á þessari stundu.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Þriðji sunnudagur eftir páska. Guðsþjónusta í Hóladómkirkju. 17. apríl 2005.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 4539.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar