Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Hver stjórnar kirkjunni?

24. apríl 2005

Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hver annan, eins og ég hef elskað yður. Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína. Þér eruð vinir mínir, ef þér gjörið það, sem ég býð yður. Ég kalla yður ekki framar þjóna, því þjónninn veit ekki, hvað herra hans gjörir. En ég kalla yður vini, því ég hef kunngjört yður allt, sem ég heyrði af föður mínum. Þér hafið ekki útvalið mig, heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt, sem varir, svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni. Þetta býð ég yður, að þér elskið hver annan. Jh. 15. 12-17

Skapari himins og jarðar, öll verk þín lofa þig.
Kenndu okkur að standa ekki þögul hjá
þegar öll sköpunin syngur þér lof,
heldur gef af mildi þinni
að líf okkar allt
sé lofsöngur um miskunn þína og máttarverk þín.
Kenndu okkur aftur með nýju sumri
nýtt lag við ljóðið um vonina sem í okkur býr.
Í Jesú nafni. Amen

Náð sé með yður og friður, frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi, Amen.

Gleðilegt sumar!
Dagurinn í dag, 4.sunnudagur eftir páska og fyrsti sunnudagur í sumri, hefur frá fornu fari yfirskrift á latínu. Hún er Kantate!, eða á íslensku: Syngið!
Þegar sá sem hér stendur sér þetta heiti dettur honum alltaf Langholtskirkja í hug, - ekki bara vegna þess að hér laukst upp fyrir honum hvað orðið merkir í alvöru, með því að syngja með í kantötum Jóhanns Seb. Bachs, heldur vegna þess hvernig þetta orð hefur verið eins og starfslýsing safnaðarins í meira en hálfa öld og má gjarna halda því áfram því að það er góð leið til að tjá trúna og dvelja í trúnni að syngja og leika fyrir Drottni.
Yfirskriftin er tekin úr 98 sálmi Davíðs. Það er mikið sumar í þeim sálmi:

Syngið Drottni nýjan söng, því að hann hefir gjört dásemdarverk,
hægri hönd hans hjálpaði honum og hans heilagi armleggur.

Öll endimörk jarðar sáu hjálpræði Guðs vors.
Látið gleðióp gjalla fyrir Drottni, öll lönd,
hefjið gleðisöng, hrópið fagnaðaróp og lofsyngið.
Leikið fyrir Drottni á gígju,
á gígju með lofsöngshljómi,
með lúðrum og básúnuhljómi,
látið gleðióp gjalla fyrir konunginum Drottni.
Hafið drynji og allt sem í því er,
heimurinn og þeir sem í honum lifa.
Fljótin skulu klappa lof í lófa,
fjöllin fagna öll saman
fyrir Drottni sem kemur til að dæma jörðina.
Hann dæmir heiminn með réttlæti og þjóðirnar með réttvísi.

Gleðilegt sumar með mönnum og dýrum og allri sköpuninni.

Kæri söfnuður.
Á undanförnum vikum hefur um allan heim verið óvenju mikið horft til kirkju og kristni. Aldrei áður í sögunni hefur heimsbyggðin getað horft á svo marga stóra kirkjuviðburði í beinni útsendingu. Andlát og útför páfa, gifting Karls og Camillu og svo val nýs páfa og nú síðast innsetning hans á þessum morgni, sem byrjaði kl. 9 að staðartíma, eða kl. 7 í morgun hér hjá okkur, og var að ljúka rétt í þessu. Það voru heldur fleiri til messu þar en hér, eða um það bil fimm hundruð þúsund manns.

Það hefur verið eftirtektarvert að fylgjast með og hlusta á raddir fólks bæði hér heima og erlendis sem hefur tjáð sig í þessu sambandi.
Hvaða lærdóm má af þessu öllu draga?
Hvaða lærdóma er fólk tilbúið að draga af þessum atburðum og innihaldi þeirra fyrir sitt eigið líf? Einhverja ? Eða kannski enga?

Það fer ekki hjá því að spurningar geti vaknað um það hvort eitthvað vanti á aðgreiningu aðalatriða og aukaatriða.
Þannig var þess til dæmis lítið getið hér á landi að áherslan í kirkjuathöfninni við hið konunglega brúðkaup Karls og Camillu var ekki jáyrði eða kossaflens heldur játning og fyrirgefning tveggja syndara. Það var þeim sem hér stendur bæði dramatísk og áhrifamikil stund að heyra brúðhjónin bera fram syndajátningu sína og erkibiskupinn boða þeim orð fyrirgefningarinnar. Um það væri rétt að ræða lengur í annan tíma, og alltaf hollt að hugsa um.

En athyglinni var og er frekar beint að páfanum. Þar hafa líka vaknað spurningar.

Hvaða vald hefur páfinn? Að binda og leysa?
Já, það vald hefur kirkjan öll. Kristur hefur sjálfur falið henni það. Það vald og umboð hafa allir hennar vígðu þjónar, innan þeirra marka sem kirkjan felur þeim. En það vald snýst fyrst og fremst um fyrirgefninguna. Það snýst um það að ná sáttum við Guð. Því lyklavaldi beitti erkibiskupinn af Kantaraborg í beinni útsendingu.
Lyklavaldið snýst alls ekki um vald í veraldlegum skilningi. Ekki heldur hjá páfanum. Það sést best á því að síðustu fjórir páfar hafa hafnað því að taka við hinni veraldlegu kórónu, sem kölluð er tiara, í innsetningarathöfninni. Þeir taka bara við hringnum með tákni Péturs postula, og ullarbandinu hvíta (pallíum) sem minnir á hirðisþjónustuna.

Fjölmiðlar í Vestur Evrópu hafa varið miklum tíma í að fjalla um þessi mál. Fréttaskýringaþættir í sjónvarpi og útvarpi, viðtalsþættir með fræðimönnum, og góðar greinar í dagblöðum hafa verið á hverju strái.
Nema helst hér á Íslandi.

Í umræðum í íslenskum fjölmiðlum hefur ekki aðeins borið á verulega samstæðilegri vanþekkingu á því hvað kristni og kirkja merkja í raun og veru og fyrir hvað kirkjan og kristnin stendur, heldur einnig því að fjölmiðlafólk hefur kallað til einstaklinga sem í oftar en ekki koma fram annað hvort af lítilli þekkingu en stórum orðum, eða af einhverskonar blandi af minnimáttarkennd og hroka gagnvart trú og kristni og heimskulegum sleggjudómum.

Þetta hét í mínu ungdæmi að setja sig á háan hest.
Það sem ég hef heyrt sagt, eða séð skrifað ber vott um dálítið sérstaka afstöðu til trúarinnar, til eigin sjálfs og til annarra.
Ef ég reyni að gera þessar kenningar að mínum, þá myndi ég segja um sjálfan mig eitthvað á þessa leið:

Ég trúi. Ég er meira að segja mjög trúuð manneskja. Ég hef alltaf trúað og trúin gefur mér mikinn styrk, en kirkjan og kirkjukenningarnar eru af allt öðrum toga og passa ekki við mína trú.
Það ber fyrst og fremst vott um valdabrölt einhverra karla, og það er allt saman úrelt, af því það er ekki í takt við tímann.
Ég trúi alveg á Guð, en það er ekki sá Guð sem talað er um í kirkjunni.
Guð er að mínu mati ekki að gera svona eins og sagt er í kirkjunni. Og Jesús Kristur hefur aldrei sagt það sem kirkjan segir að hann hafi sagt , eins og til dæmis sælir eru fátækir. Það er bara gott dæmi um aðferð hinna ríku til að beita fátæka ofbeldi í nafni trúarinnar.

Ég trúi. Ég veit betur en aðrir, mín trú er æðri en trú annarra því að ég er svo auðmjúkur. Alveg sérskalega er mín trú miklu betri en páfans í Róm og ég veit líka miklu betur en hann.
Hann er bara svona valdapersóna sem styður og verndar presta sem eru barnaníðingar og hann ber ábyrgð á glæpaverkum þeirra af því að hann leyfir þeim ekki að giftast, og hann er aðal ástæðan fyrir aukningu kynsjúkdóma í heiminum því að hann er á móti smokkum og getnaðarvörnum yfirleitt, og hann er ábyrgur fyrir þessum mikla ungbarnadauða í þróunarlöndunum því að hann leyfir ekki fóstureyðingar, og hann er ábyrgur fyrir útbreiðslu eyðnifaraldursins í Suður Afríku af því að hann er móti samkynhneigðum og leyfir ekki smokka, og hann er ábyrgur fyrir fátækt og eymd í suðurameríkuríkjum af því að hann er á móti frelsunarguðfræðinni.

Kæri söfnuður.
Biskupinn í Róm, Benedikt 16. páfi, þarf sannarlega að taka til hendinni í kirkju sinni og alveg sérstaklega í Vatikaninu. Um það er ekki deilt, en það er ekki hann sem er ábyrgur fyrir hegðun eða trúrækni sinnar hjarðar, ekki frekar en að Karl Sigurbjörnsson verði ásakaður fyrir það að ég gleymi að fara með bænirnar mínar, stundi óábyrgt kynlíf eða sé fullur á almannafæri.
Eða er það lögreglustjórinn í Reykjavík sem á að tryggja það að ég aki ekki á rauðu ljósi?
Og eru bílframleiðendur ábyrgir fyrir því að ég aki of hratt?
Hversvegna búa þeir til bíla sem komast hraðar en leyfilegt er að aka?
Þetta er náttúulega algjört ábyrgðarleysi af þeim.

Ef það var ekkert vit í því í kirkjunni að kalla sérhvern skírðan einstakling til ábyrgðar þá þarf ég ekki heldur að horfast í augu við nokkra persónulega ábyrgð, þá get ég líka í sönnum og útbólgnum hroka bent á páfann sem orsök alls hins illa og klagað biskupinn fyrir að hafa ekki nógu góða stjórn á kirkju sinni.

Það er auðvelt að áfellast aðra. Það er sannarlega auðvelt að finna atriði í starfsaðferðum kirkjunnar sem má gagnrýna. Líka þeirrar kirkju sem páfinn í Róm leiðir. En þetta hefur nú samt allt saman tvær hliðar.

Það þarf að taka til hendinni í Vatikaninu. Það þarf að brjóta upp stjórnkerfið og hleypa í auknum mæli að nýjum röddum og nýjum fulltrúum kirkjunnar og þar fara fremst í flokki kvenguðfræðingar og yngra fólk.
En það þarf líka að taka til hendinni í okkar eigin kirkjusöfnuði, og það þarf jafnvel að taka til hendinni á okkar eigin heimili, í uppeldi og aga kirkjunnar, safnaðarins og barnanna.

Er það svona alveg víst að það sé best gert með því að fella reglur úr gildi og kasta fyrir róða gömlum gildum?
Er það lausnin að gera kynlíf frjálst bara ef það er til nóg af smokkum?
Er það sjálfsagt að fóstureyðingar eigi að vera frjáls valkostur? Á það líka að gilda þegar getnaður er sameiginleg ósk karls og konu um að eignast barn? En svo slettist upp á vinskap þeirra? Getur barnið gert að því?
Er það ekki umhugsunarefni þegar við ökum í gegnum Kópavogsbæ að það skuli vera búið að eyða jafnmörgum fóstrum og þar búa einstaklingar á lífi, síðan að frelsi fóstureyðinganna var innleitt í þessu landi?
Og er það ekki umhugsunarefni að löggjafinn skuli geta samþykkt lög um þessi efni og þar með skyldað fólk til þess að framkvæma verknað sem það myndi aldrei gera sjálft né geta gert sjálft.
Og fari svo að Alþingi samþykki lög um að stytta megi fólki aldur ef það er ólæknandi, eins og rætt er um hér á Vesturlöndum og getur vel orðið regla innan tíðar, þá verða það ekki þingmenn eða löggjafarvaldið sem fer um og framkvæmir þann verknað.

Mannúð snýst ekki bara um sjúklinga á spítölum. Hún snýst ekki síður um starfsfólkið sem umgengst sjúklingana, annast þá, umber þá og elskar þá. Það er allt í þjónustu lífsins. Líka í dauðanum. Það þarf að geta treyst því að þegar það hlítir lögunum sé það enn í þjónustu lífsins og kærleikans. Og það þarf að geta treyst því að þau sem eru valin til forystu og sitja á þjóðþingum hugsi um þau sem eiga að framkvæma löggerninga þá sem þau samþykkja að lög gildi um.

Kæri söfnuður.

Í garð er runninn fjórði sunnudagur eftir páska. Tíminn milli páska og hvítasunnu - er undirbúningstími heilags anda. Um það vitnar guðspjall dagsins. Það er undirbúningur undir það að hinn upprisni Drottinn Jesús Kristur, leiðtogi kirkjunnar og trúarinnar, hann taki að fullu við stjórnartaumunum í kirkjunni.
Hann gengur með lærisveinum sínum í 40 daga og svo stígur hann upp til himna til þess að koma aftur í undri hvítasunnunnar í heilögum anda.
Og eins og dagarnir 50 frá páskum til hvítasunnu voru þá undirbúningur undir það, er lífið allt, líf kristins manns, undirbúningur undir endi aldanna, í eigin lífi og í lífi allrar kirkjunnar og alls heimsins þegar hann kemur og verður allt í öllu.
Þetta er tíminn þegar við, kirkjan, söfnuðurinn, þegar við endurnýjum heit okkar við hann sem stjórnar, aftur og aftur þangað til hann kemur.
Við endurnýjum heitin við hann. Líka ég og líka páfinn.

Þessi tími, þessi starfstími hefur einkenni sem við skulum hugleiða aðeins nánar. Jesús kynnir þetta einkenni með nýju boðorði í guðspjallinu:
Að við sem erum lærisveinar hans, elskum hvert annað. Ekki eins og þjónustufólk sem elskar húsbónda sinn, heldur eins og vinir.
Þið sjáið muninn. Þjónustufólk og húsbóndi. Hér er bil á milli og aðgreining.
Vinir. Ekkert bil. Hver fyrir sig er einn af hópnum. Hann líka.
Það er vegna þess að við deilum sömu þekkingu sem hann upplýsir okkur með.

Og þó er hann leiðtoginn sem allt snýst um. Það skýrir hann enn þá betur með því að nota líkinguna um vínviðinn og greinarnar. Hann er stofninn, svo koma greinarnar og síðast þrúgurnar. Og þar erum við. Ávöxturinn sjálfur. Og ávöxturinn er vaxinn af því sem þangað berst frá stofninum.
Þið hafið ekki útvalið mig, segir Jesús. Ég hef valið ykkur!

Vínviðurinn, greinarnar og þrúgurnar.
Þannig er kirkjan um allan heim.Hún safnast saman við borð Drottins hér á jörð og neytir máltíðar með honum.

Vínviðargreinar
vér erum börn þín, Drottinn,
vaxin af sama stofni.
Í einum kaleik,
uppskeru þinna þrúgna
safnar þú, Kristur, saman,
því þú ert stofninn
þar sem vér vöxum;
þiggjum líf þitt
í bikar og brauði. Sálmur 713

Við erum tengd saman á einum stofni í einu systkynasamfélagi.
Við erum bundin þeim systkinum okkar sem eru að deyja úr eyðni í Afríku. Heilu kynslóðirnar.
Við erum bundin þeim sem eru kúguð í Suður Ameríku og þarfnast frelsandi guðfræði.
Við erum bundin þeim sem fá ekki leiðsögn í vandræðum ótímabærrar þungunar af því að páfinn lætur loka ráðgjafarstöðvunum.
Við erum bundin þeim sem sett eru út í dimma skotið af því að þau hafa aðra kynhneigð en meirihlutinn.

Við erum þjónar hans og vinir hans og einkenni þeirra er að elska.

Að elska er miklu meira en að bera heitar tilfinningar til einhvers. Hiti getur farið úr tilfinningum og komið kuldi og jafnvel frost í staðinn.
Að elska er þess vegna miklu meira en að vera ástfanginn, vegna þess að sú tilfinning beinist fyrst og fremst að einni manneskju umfram aðrar.
Að elska er miklu stærra, og víðtækara.
Það er hægt að elska aðra manneskju, fjölskylduna, vinahópinn, söfnuðinn, kirkjuna, allan heiminn, af því að elska er að bera önn fyrir þeim sem maður elskar, að bera hag þeirra fyrir brjósti, styðja þau og styrkja hvort sem vægi tilfinninganna gagnvart einstaklingum stendur lágt eða hátt á skalanum.
Ég get elskað manneskju sem ég er ekki ástfanginn af.
Og að elska er að axla ábyrgð á sjálfum sér og á öðrum.
Til þess þarf mikinn kjark.

Versti óvinur kirkjunnar er hennar eigin ótti við að bregðast við þeirri ábyrgð sem henni er falin, vegna þess að hann stendur í vegi fyrir því að vilji Guðs verði meðal barna hans.

Hver sá sem tekur að sér hirðishlutverk í kirkjunni stendur frammi fyrir spurningu Jesú Krists sem hann beindi til Péturs um það að elska. Við þau sem geta svarað spurningunni játandi segir hann :Gæt þú!
Gæt þú lamba minna, hirðir, eins og hann sagði við Pétur, leiðtoga kirkjunnar.
Þetta hirðishlutverk er ekki bara fyrir biskupa og páfa.
Það er fólgið fyrst og fremst í skírninni, og síðan í hverri annarri vígslu og umboði til nýrra verkefna og aukinnar ábyrgðar.
Þú tókst að þér þetta hlutverk í litlum mæli miðað við páfann, en það er samt þitt.
Það gefur þér bæði ábyrgð og umboð.
Þú ræður samt ekki kirkjunni.
Páfinn ekki heldur. En hann tekur við ullarbandinu með krossunum þrem og setur það utan yfir fína gullbrydda hökulinn sinn.Guð gefi honum auðmýkt ullarinnar og leiðsögn hins góða hirðis.

Því að til þess að kirkjan fái að vera kirkja, sem samtök um allan heim og sem einkenni og drifkraftur í lífi einstaklinganna, í mér og í þér,
þarfnast hún aðeins eins,
að það sé Heilagur andi sem ræður.
Ekki með valdi, heldur í anda og sannleika.
Með krafti vorsins.

Um þá stjórn Heilags anda sá Matthías Jochumson dæmi þegar hann fagnaði vorinu og orti:

Kom heitur til míns hjarta blærinn blíði,
Kom blessaður í dásemd þinnar prýði,
Kom lífsins engill, nýr og náðarfagur
í nafni Drottins, - fyrsti sumardagur.

Kom, til að lífga, fjörga, gleðja, fæða
og frelsa, leysa, hugga, sefa, græða.
Í brosi þínu brotnar dauðans vigur
í blíðu þinni kyssir trúna sigur. (Matthias Jochumson)

Dýrð sé Guði, Föður og syni og heilögum anda, um aldir alda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2967.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar