Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Karl Sigurbjörnsson

Hjarta yðar skelfist ekki …

17. apríl 2005

Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo, hefði ég þá sagt yður, að ég færi burt að búa yður stað? Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað, kem ég aftur og tek yður til mín, svo að þér séuð einnig þar sem ég er. Veginn þangað, sem ég fer, þekkið þér.

Tómas segir við hann: Herra, vér vitum ekki, hvert þú ferð, hvernig getum vér þá þekkt veginn?

Jesús segir við hann: Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig. Ef þér hafið þekkt mig, munuð þér og þekkja föður minn. Héðan af þekkið þér hann og hafið séð hann.

Filippus segir við hann: Herra, sýn þú oss föðurinn. Það nægir oss.

Jesús svaraði: Ég hef verið með yður allan þennan tíma, og þú þekkir mig ekki, Filippus? Sá sem hefur séð mig, hefur séð föðurinn. Hvernig segir þú þá: Sýn þú oss föðurinn? Trúir þú ekki, að ég er í föðurnum og faðirinn í mér? Orðin, sem ég segi við yður, tala ég ekki af sjálfum mér. Faðirinn, sem í mér er, vinnur sín verk. Trúið mér, að ég er í föðurnum og faðirinn í mér. Ef þér gerið það ekki, trúið þá vegna sjálfra verkanna. (Jóh.14.1-11)

Guðspjall þessa Drottinsdags, þriðja sunnudags eftir páska eru kunnugleg orð Jesú úr 14. kafla Jóhannesarguðspjalls. Þetta eru orð frá kveðjustund, Jesús sat að borði með lærisveinum sínum nóttina sem hann svikinn var. Og mælti þar þessi undursamlegu og huggunarríku orð, sem oft hafa komið til okkar á stundum sorgar og rauna: „Hjarta yðar skelfist ekki, trúið á Guð og trúið á mig. Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið…”

Þessi orð Jesú frá kveðjustundinni urðu brátt eins og hrópleg öfugmæli. Leið þeirra lá út í nóttina og inn í grasgarðinn, þar sem hann tók að skjálfa og láta hugfallast, hann sem skömmu áður hafði sagt í tiginni ró og æðruleysi: „Hjarta yðar skelfist ekki, trúið á Guð og trúið á mig.” Og svo kom varðflokkurinn með blys sín og sverð og svikarann í broddi fylkingar. Og vinirnir horfðu ráðþrota á eftir Jesú er hann var leiddur bundinn burt.

„Trúið á mig,” hafði hann sagt. Hver trúir á fjötraðan frelsara? „Ég er vegurinn,” hafði hann sagt, nú er hann bundinn, hrakinn, af vopnuðum hermönnum, leiddur fyrir dómarann, hvílíkar ógöngur! „Ég er sannleikurinn,” sagði hann og lygin sigraði og rangindin. „Ég er lífið,” sagði hann, og nú engdist hann í hörðu, andstyggilegu helstríði á krossi. Lítils verð virtust þá stóru orðin.

Svo kom páskadagur og ljós upprisunnar féll yfir þessa atburði alla, lýstu upp orðin hans, staðfesti þessar makalausu fullyrðingar: vegurinn blasti við, sannleikurinn laukst upp, lífið var opinberað.

Í birtu þess erum við hér í dag.

„Hjarta yðar skelfist ekki, trúið á Guð og trúið á mig!” Ég þykist vita að þið, kæru vígsluþegar, finnið fyrir örari hjartslætti, kvíða, jafnvel hræðslu á þessari stundu. Við könnumst við það, við sem höfum staðið í sömu sporum og þið, fundið vanmáttinn frammi fyrir þessu stóra og yfirþyrmandi hátíðlega sem hér við blasir. Og svo það að það er margt að skelfast. Lífið á svo oft í vök að verjast gegn dauðanum. Trúin á svo oft í vök að verjast gegn efa og vantrú. En samt hverfur kirkjan enn og aftur til þessara orða lausnarans og sækir þangað huggun og styrk. Og leitast við að bera áfram vitnisburðinn um veginn, sannleikann og lífið, þrátt fyrir allt. Allt atferli kirkjunnar við skírn og altarisgöngu, við helgar athafnir, á bænastund, í sorgaranni, við dánarbeð, allt er það svar við ávarpi hans og endurómur þess: „Hjarta yðar skelfist ekki, trúið á Guð og trúið á mig. Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.”

Nú erum við saman komin til að staðfesta köllun þriggja djákna til helgrar kærleiksþjónustu, og vígja þær Aase, Kristínu og Margréti, það er taka þær frá og senda þær út til að vitna um þennan veg og þetta líf sannleikans.

Biskup nokkur var spurður hvaða mælikvarða væri best að nota til að meta hvort einhver væri góður prestur eða djákni. Og hann svaraði: „Ég leita eftir því hvort viðkomandi sé manneskja sem ég vildi hafa hjá mér og halda í höndina á mér á dauðastundinni. Hefur hann eða hún þann sálarþroska til að bera, heilindi og rótfestu í trúnni að hún hafi eitthvað að gefa í slíkum aðstæðum með návist sinni, athöfn, orði?”

Þetta er umhugsunarvert, vegna þess að oft er það nú presturinn eða djákninn sem koma að dánarbeðnum, mæta neyð og sorg. Góður djákni eða prestur er sá sem veit hvað er hið eina nauðsynlega, sem veit á hvern hann trúir og festir traust sitt á handan tíma og hins áþreifanlega, hefur annað sjónarhorn á lífið en það sem taktur heimsins mælir, og návist hans er borin uppi af því. Hann á ef til vill ekki svör á reiðum höndum við því hvert leiðin liggur, eða hvað sé satt og rétt varðandi efnið, andann, eilífðarmálin, en hann þekkir og elskar hann sem er Vegurinn, sannleikurinn og lifið. Hann sem gekk alla leið í samstöðu kærleikans, til að halda í hönd manns þegar svartast syrti og sárast beit. Og gegnum áfangann hinsta. Með lækningum sínum, kraftaverkum, huggunarorðum og verkum, hóf Jesús upp merki vilja Guðs og möguleika og lét okkur eftir fyrirmynd að feta í hans fótspor. Og svo þegar úrslitastundin var upp runnin hjá honum og Hausaskeljastaður blasti við, þá flýði hann ekki af hólmi. Vegurinn, sannleikurinn og lífið, er ekki greið leið og fyrirhafnarlaus til frama og lífsþæginda. Guðsríki er ekki Disneyland, þykjustuleikur, og gerviveröld. Í öllu sem Jesús sagði og gerði var að finna návist, athygli og umhyggju, samlíðan og hjálpfýsi og mátt sem enn í dag knýr fólk til dáða, fólk sem vinnur með fólki og í þágu fólks, sérílagi þeirra sem sjúkir eru og þjáðir. Í því öllu má sjá tákn um þann Guð sem er uppspretta lífs, lækningar og heilsu, veginn úr ógöngum, sannleikann um líf og heim, Guð og mann, lífið sem sigrar dauðann.

Við samgleðjumst ykkur, kæru djáknar á vígsludegi, og eins samfögnum við þeim sem kallað hafa ykkur til samstarfs. Guð blessi ykkur og þau. Ég þakka þeim stofnunum og kirkjusóknum sem hlut eiga að máli og gleðst fyrir hönd kirkjunnar yfir þeirri hlýju og örvandi samstarfs hönd sem til kirkjunnar er rétt. Ég flyt ykkur sérstakar kveðjur séra Árna Bergs, sóknarprests Áskirkju, sem er á sjúkrahúsi. Við hugsum til hans og berum hann á bænarörmum okkar nú og um ókomna daga. Drottinn gefi honum lækning, styrk og heilsu í frelsarans Jesú nafni.

Djáknum er ætlað að vera tákn kærleikans í kirkju og samfélagi. Tákn er eins og vegamerki, sem vísar til vegar. Ykkur er ætlað að gera það sem í ykkar valdi stendur til að kærleikur, umhyggja, góðvild fái róm og andlit og hlýja hönd. Allt um kring eru tákn og vísbendingar um ólán, ofbeldi og dauða, um óvegi og blindgötur og heljarslóðir, tál og ginningar og ósigra sem ógna heill og framtíð manns og heims. En ykkur er falið að rétta fram hendur umhyggjunnar og mæla orð kærleikans, og bæn trúarinnar og merki vonarinnar. Ekki í eigin mætti, heldur hans. Nafn og ásjóna kærleikans er Jesús Kristur.

Þær stofnanir sem þið starfið við minna hver á sinn hátt á þann trausta og góða vef umhyggju og velferðar sem umlykur líf okkar i þessu landi. Sérhver sóknarkirkja minnir á hvar það allt á uppsprettu sína, á þá lind líknar og náðar sem opin stendur og streymir fram. Sérhver sóknarkirkja á að vera athvarf og áningarstaður og heilsuhæli, þar sem orð og viðmót endurómar rödd frelsarans: Hjarta yðar skelfist ekki, trúið. Þið, Aase, Kristín og Margrét, munuð ganga hér út á eftir og söfnuðurinn fylgir á eftir. Það er táknrænt. Með krossinn í fararbroddi gangið þið út í heiminn, í dagins ys og götunnar glaum og önn og iðju mannlífsins, með tákn lífsins, umhyggjunnar, friðarins.

Og eftir fylgir söfnuðurinn, ekki bara út úr kirkjunni, að baki ykkur í starfi og þjónustu er samfélagið, söfnuðurinn, kristin kirkja. Þið gangið til ólíkra verkefna, í heilsugæslustöð, á hjúkrunarheimili, í sóknarkirkju. En engin ykkar er ein. Við fylgjumst að og bæn og umhyggja heilagrar kirkju umvefur ykkur og ber ykkur uppi og okkur hvert og eitt og það fólk sem þið vinnið með og vinnið fyrir. Mættuð þið jafnan sækja styrk og uppörvun í þá vitund, og sækja til altaris sóknarkirkjunnar og samfélags safnaðarins trúarstyrk og næring sál og anda, ausa þar af lindinni hreinu, lífsins eina, hans sem er vegurinn, sannleikurinn og lífið.

Karl Sigurbjörnsson er biskup Íslands. Flutt við djáknavígslu, 17.apríl 2005. Aase Guttormsen, Kristín Axelsdóttir og Margrét Svavarsdóttir

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 4493.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar