Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Karl Sigurbjörnsson

Grundvöllur trúarinnar

27. mars 2005

Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina. Þá varð landskjálfti mikill, því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir.

En engillinn mælti við konurnar: Þér skuluð eigi óttast. Ég veit, að þér leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn, þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: Hann er upp risinn frá dauðum, sjá hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann. Þetta hef ég sagt yður.

Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin. Matt 28.1-8

Kristur er upprisinn! Kristur er sannarlega upprisinn! Gleðilega páska í Jesú nafni.

„Þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina,” gröf hins krossfesta ástvinar síns. Þannig hefur Matteus frásögn sína af atburðum páskadags.

Atburðir föstudagsins langa urðu í allra augsýn í Jerúsalem. Opinber, vottfest, skalfest stjórnsýslu -framkvæmd fyrir almennings augum. En allt öðru máli gegnir um atburði páskadagsins. Merkilegt að hugsa til þess. Það sem í dag grípur um hjartastrengi og vekur lofsönginn, vonina og trúna, upprisa frelsarans frá dauðum, það gerðist hulið sjónum manna. Nei, það er ekki alveg rétt, varðmennirnir sáu eitthvað. En þeir geta þó með engu móti talist vitni að einu né neinu, svo skelfingu lostnir voru þeir, og síðan var þeim reyndar mútað til að segja þá sögu sem valdhöfunum hentaði og pólitískur og trúarlegur rétttrúnaður krafðist. Nei, engin vitni voru að atburðum páskadagsmorguns, nema konurnar, sem höfðu staðið við krossinn og vitjuðu nú grafarinnar. Það er reyndar í fyrsta sinni í gjörvallri menningarsögunni að konur eru kallaðar fram til að bera vitni. Guðspjallamennirnir fjórir kalla þær stöllur til vitnis og lýsa ferð þeirra í grasgarðinn þessa morgunstund.

María Magdalena og María hin. Guð blessi þær. Öll guðspjöllin nefna Maríu Magdalenu sem fyrsta vitni upprisunnar. Mikið er á sig lagt í samtíð okkar að lesa meira inn í sögu hennar en heimildir leyfa, og býsna langt seilst. Það sannast nefnilega á okkar samtíð, sem hefur byggt Guði út og afneitað trúnni á opinberun hans, á henni sannast það sem Chesterton gamli sagði forðum:„Sá sem trúir ekki á Guð trúir ekki engu. Nei, hann trúir öllu!” Það sannast á okkar guðvana, auðginntu, auðtrúa og ófrjóu öld. Þar sem hver gervi-fræðin og gervi-vísindin, hvert gervi-kennivaldið eftir annað er grafið upp til að staðfesta þann for-dóm sem tortryggir boðskap Biblíunnar, vitnisburð postulanna og kenningu almennrar kirkju allra alda, af því að hann fyrirlítur trú og tryggð og getur ekki og þolir ekki að gera ráð fyrir Guði, vilja hans og valdi.

María Magdalena og María hin, tvær Gyðingakonur, systur okkar og mæður í trúnni. Í dagrenning hins fyrsta dags vikunnar komu þær að gröf hins krossfesta. Þær voru leiddar áfram af trú og tryggð. Þær vissu ekkert um vopnuðu verðina, þær vissu ekkert um ráðabrugg prestanna og Pílatusar, þær vissu ekkert um innsiglið. Og síst vissu þær um það sem gerðist þrátt fyrir þetta allt, það afl sem braust gegnum allar hindranir, rak varðliðið á flótta, rauf innsiglið, velti steininum frá, kallaði hinn krossfesta út úr gröf sinni. Þær vissu ekkert af þessu. Og þegar engillinn sagði þeim að óttast ekki, hinn krossfesti Jesús væri upprisinn og færi á undan þeim til Galíleu og þar myndu þær sjá hann, þá vissu þær ekki sitt rjúkandi ráð. En þær hlýddu samt.

Þær hlupu af stað með„ótta og mikilli gleði.” Ótta, af því að það sem þær sáu og heyrðu var svo yfirþyrmandi og yfirgengilegt: Allir vita jú að liðið lík rís ekki upp, þessi limlesti, lífvana líkami ástvinar sem þær höfðu sjálfar sveipað líndúk og lagt í gröf undir sólarlag á föstudaginn, nú sagði engillinn hann lifa, og sendi þær með þá furðufrétt til lærisveina hans. Þær hlaupa því ekki aðeins með ótta heldur og mikilli gleði, af því að ef það er satt, hvílík lausn og lækning, staðfesting og sigur málsstaðar hans og lífs! Hafði hann ekki sagt:„ Ég er upprisan og lífið! Ég lifi og þér munuð lifa!”?

Fréttin sem þær María Magdalena og María hin voru sendar til að segja lærisveinunum er grundvöllur kristninnar, trúar og kirkju. Kristindómurinn er afstaða til þess að þær séu trúverðug vitni, að þær sögðu satt. Hinn krossfesti reis af gröf. Grundvallaratriði kristinnar trúar hafa verið þrautprófuð í reynslueldi kynslóðanna, tjáð, þýdd, yfirfærð milli menningarheima, skilgreind, gagnrýnd, vegin og metin á vogum heimspekikerfa og kenninga og heilbrigðrar skynsemi. Þannig hefur hún borið uppi fræði, visku og innsæi í það hvað gott er í mannlegu lífi, um tilgang og markmið lífsins, um manngildi og mannúð, réttlæti, um kynlíf og kynferði, um fjölskyldu, hjónaband, um æsku og elli, um vinnu og peninga, um ást og tryggð, um listir, ljóð og söng. Heimsmenningin hefur notið ávaxta þess ríkulega. En forsendan er það sem sjálfur Guð hefur opinberað, birt, boðað. Það er orð sem varð hold, auglit og ásjóna, orð og verk, maðurinn Jesús, krossfestur, dáinn, grafinn, upprisinn frá dauðum. Þar er mælikvarðinn og umboðið. Kristur Drottinn.

• • •

Jóhannes Páll páfi hefur vakið athygli á og lýst áhyggjum yfir því að kostum kristinnar trúar og kirkju sé um margt þrengt í Evrópu. Kirkjan hopar þar víða, en henni er líka markviss þrengt út úr hinu opinbera rými, þögguð, og fordæmd. Fjölmiðlum, stjórnmálamönnum og öðrum áhrifavöldum samfélagsins sé í mun að halda trúnni innan fjögurra veggja heimila og kirkna, en utan við almannarýmið. Æ fleiri trúaðar, kristnar manneskjur finni sig undir þrýstingi sífellt ágengari trúleysisviðhorfa skoðanamótenda og ímyndarsmiða. Það virðist sem flest viðhorf og skoðanir eigi óhindraðan aðgang, nema hin klassísku kristnu. Fáir dirfast að halda þeim á lofti, þau virðist eiga sér fáa málssvara. Við skulum hlusta eftir varnaðarorðum páfans. Hann veit hvað hann syngur, þekkir af eigin raun þá afarkosti sem alræðissamfélagið setur frjálsri hugsun, frjálsri trú. Hann sér skugga annars konar alræðis leggjast yfir álfuna.

Í fyrra var sagt frá því, að þegar breski forsætisráðherrann, Tony Blair, varð fimmtugur, þá hafi almannatengslafræðingar hans ráðið honum frá því að nefna Guðs nafn opinberlega í þakkarræðum sínum. Og það þrátt fyrir að það er á allra vitorði að hann er trúaður, kristinn maður sem tekur trú sína alvarlega og iðkar hana. Vitnað var í stjórnmálamann einn sem hafði þau orð um þetta, að þetta bæri keim af ótta og vænisýki, allt virtist nú stefna í þá átt að það varðaði við lög að játa opinberlega að Jesús Kristur er frelsari heimsins, það stríddi gegn mannréttindum og trúfrelsi. Hvort tveggja eru vissulega mikilvæg gildi, sem standa verður dyggan vörð um, en virðist snúast í andhverfu sína. Umræðan undanfarið um kristnifræðikennslu í skólum hér hjá okkur er angi af þessum sama meiði. Fámennur þrýstihópur vill rýma fræðslu um þá mikilvægu grunnstoð samfélagsins sem kristni er, út úr skólanum, í nafni mannréttinda og fjölmenningar. Ég treysti yfirvöldum menntamála til að halda vöku sinni í þessum efnum. Meðan níu af hverjum tíu grunnskólabörnum eru skírð, meðan mikill meirihluti foreldra vill viðhalda kristnum hefðum og gildum, þá hlýtur skólinn að sinna fræðsluskyldu sinni. Skólinn á ekki að sinna trúboði. En hann má ekki láta sem trú skipti ekki máli. Hann á að stuðla að þekkingu og menntun, og hamla gegn fordómum og fáfræði ekki síst um þá trú sem mótar menningu okkar og sið.

Aldrei hefur verið mikilvægara en einmitt nú að kristindóms- og trúarbragðafræðslu sé sinnt af kostgæfni. Yfirvöld menntamála þurfa að tryggja að markmiðum námsskrár sé fylgt og að kennarar séu sem best búnir til þess að sinna kristnifræðikennslu af þekkingu og færni. Kristin fræði og trúarbragðafræði ætti að verða skyldugrein í Kennaraháskólanum. Auk þess er brýnt að fræðsla um kristni og önnur trúarbrögð verði meðal kjarnagreina framhaldsskólanna. Ég er sannfærður um að besta framlag okkar til frelsis og mannréttinda, virðingar og umburðarlyndis í heimi vaxandi fjölmenningar, sé að styrkja grundvöll eigin sjálfsmyndar menningar og siðar. Óljós sjálfsmynd veldur öryggisleysi, og öryggisleysi og fáfræði er frjósamasti jarðvegur fordóma.

• • •

„Þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina,”

Gröf hins krossfesta Jesú var tóm. Um það eru vinir Jesú og óvinir sammála. Vantrúnni verður seint skýringa vant, hún finnur sér ætíð bandamenn og verður aldrei rökþrota. Það er gömul saga og ný. En trúin reiðir sig á orð engilsins og vitnisburð Maríu Magdalenu og Maríu hinnar og postulanna. Þeim má treysta. Upprisu hins krossfesta er játað gegnum móðu og mistur tárvotra augna vonbrigða og sorgar, með „ótta og mikilli gleði.” Skuggar efans hafa ætíð fylgt trúnni, afneitunin er aldrei langt undan, efi og vantrú sækja að sérhverjum lifandi huga og hjarta sem tekst á við lífið og heiminn. En trúin á upprisu Krists lifir og vakir með lofgjörðinni, bæninni, kærleikanum. Af því að hún er játning, og játning er alltaf lofgjörð, þökk og bæn í samfélagi frammi fyrir augliti Guðs. Og svo ég vitni aftur í Chesterton, þá sagði hann: „Versta upplifun guðleysingjans er að þegar hjarta hans er barmafullt af gleði og þökk, þá hefur hann engan til að beina þakklæti sínu að!”

Einhver líkti trúnni við fiðlu sem liggur ofan í kassa eða á borði, eða hangir á vegg. Formfagur gripur á að sjá, en hljómlaus, hljóð, þar til boganum er strokið um strengi. Eins sé það með trúna. Það er fyrst þegar boga bænar, þakklætis og kærleika er strokið um strengi orðsins, að hljómurinn fyllir líf og heim.

Það gerist í guðsþjónustu kirkjunnar, við skírnarlaug og máltíð altarisins, það gerist þegar leitast er við á vettvangi dagsins að láta ljós og anda hins krossfesta og upprisna frelsara leiða sig í kærleika, umhyggju og trúfesti. Og það skulum við gera! Við sem höfum svo ótal margt að þakka. Þó að enn sæki þjáningin okkur heim, enn vinni hatrið og dauðinn hervirki sín, enn sé steinum uppgjafar og vonleysis og hjartakulda velt fyrir einum af öðrum, enn séu innsigli vantrúar, hroka og hleypidóma sett fyrir kærleika, trú og von. En Guð er lifandi Guð, hinn krossfesti lifir, og hann er upprisan og lífið.

Oft svarar hann spurningum okkar, en hann setur líka iðulega spurningarmerki við svör okkar. Hann kallar eftir trú okkar, en hann biður líka um að við efumst, að við efumst til dæmis um það sem vantrúin og guðleysið kalda vill halda fram um lífið og heiminn, fæðing og dauða og hin hinstu rök. Og ætíð er hann í nánd með allan mátt og kærleik sinn, „meiri en hjarta vort og þekkir alla hluti.”

Við höldum heilaga páskahátíð ásamt með Maríu Magdalenu og Maríu hinni og öðrum vinum Jesú, systkinum og lærisveinum um heimsbyggðina alla. Og við játum og syngjum með þeim: Kristur er upprisinn! Já, hann er sannarlega upprisinn!

Karl Sigurbjörnsson er biskup Íslands. Flutt í Dómkirkjunni í Reykjavík á páskadegi, 27. mars 2005. Matt. 28. 1-8

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3199.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar