Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Kom og sjá!

25. desember 2004

Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Lk. 2.9

Kæri söfnuður
Það er kominn sá tími nætur þegar við göngum hægt um gáttir.
Í kyrrðinni hugleiðum við undur jólanna.
Í fæðingu frelsarans steig Guð sjálfur niður til jarðarinnar.
Í kærleika.
Af kærleika.

Himininn var opinn. Himininn var á jörðu.
Guð býr meðal barna sinna. Hann er hér.

Hirðarnir reyndu það og síðan allir aðrir.
Hinn huldi Guð verður sýnilegur.
Sá Guð sem öll á himins hnoss,
varð hold á jörð og býr með oss.

Á Betlehemsvöllum, í hópi hirðanna, ljómaði dýrð Drottins. Þeir heyrðu engil mæla og englakóra syngja og nóttin varð björt sem dagur, fyrir augum þeirra.
Þeir fóru eftir orðum engilsins og sáu. Þeir sáu barnið í jötunni og Maríu móður þess og þeir þekktu það. Og þó var það bara nýfætt barn vafið reifum og hvorki á því né á móðurinni nokkurn geislabaug að sjá fyrir venjuleg augu.
En dýrð Drottins ljómaði fyrir augum hirðanna. Og með dýrðina í augunum sögðu þeir Maríu frá því sem þeir höfðu séð, og hún geymdi öll þau orð í hjarta sér.

Við sem komum saman hér í kirkjunni vitum og þekkjum að þetta er einmitt frásögn til að geyma í hjarta sér. Hún er full af leyndardómum, til að geyma í hjartanu. Eins og ástin. Ekki bara í huganum, heldur í hjartanu. Það er einn leyndardómur hennar.

Hirðarnir hlupu út í myrkrið með jólaboðskapinn.
Þeir sögðu frá, þeir töluðu við hjörtun.
Leyndardómurinn um elsku Guðs til mannanna verður ekki sagður með öðrum hætti.

Þessvegna segjum við hvert öðru enn þessa sömu sögu.
Hvert með sínum hætti. Og í því og með því að við tjáum kærleika okkar til annarra.

Þessi atburður er ekki fjarlægur og ekki bundinn neinum þeim veruleika sem er frábrugðinn okkar eigin, hverjar svo sem kringumstæður okkar eru, hið ytra eða innra.
Engillinn kallar okkur til að koma og sjá og trúa í sömu einlægni og einfeldni og barn. Þess vegna og þá ljómar dýrð Drottins einnig í kringum þig og mig á þessum jólum. Þess vegna er Betlehem einnig hér.

Og við göngum fram og framkvæmum þessa predikun, með því að syngja sálminn Nóttin var sú ágæt ein og við sækjum ljósið hér við þessa jötu, tökum það upp og berum það af stað út . Til að lýsa myrkrið. Því að við erum send í fylgd hans, til þjónustu við lífið.

Frelsari heimsins er fæddur. Hann sem frelsar frá dauðanum , frelsar frá myrkrinu, frelsar frá ranglætinu, frelsar frá illu.
Og hann frelsar til lífs. Hann frelsar til upprisunnar frá dauðum, frelsar til eilífs lífs á himnum, og frelsar til friðar á jörðu

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2616.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar