Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Karl Sigurbjörnsson

Því Drottinn er góður

17. júní 2004

Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða.

Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða.

Eða hver er sá maður meðal yðar, sem gefur syni sínum stein, er hann biður um brauð?

Eða höggorm, þegar hann biður um fisk?

Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðir yðar á himnum gefa þeim góðar gjafir, sem biðja hann?

Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Þetta er lögmálið og spámennirnir. Matt.7.7-12

Í hundraðasta Davíðssálmi segir: „Öll veröldin fagni fyrir Drottni! Þjónið Drottni með gleði, komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng! Vitið að Drottinn er Guð, hann hefur skapað oss og hans erum vér, lýður hans og gæsluhjörð. Því Drottinn er góður, miskunn hans varir að eilífu og trúfesti hans frá kyni til kyns.“ Þessi orð tjá vel það sem í dag hrærir innstu hjartastrengi á frelsishátíð.

Gleðilega hátíð, þú frjálsa, farsæla, hamingjusama þjóð! Gleðilega hátíð, lýðveldishátíð, þjóðhátíð. Drottinn blessi það allt sem þessi dagur stendur fyrir í minningu og lífi þjóðar.

Landið góða skín við sólu í fegurstu sumardýrð. Árgæskan einstök. Gróska hvert sem litið er, gróska mannlífs og menningar og jarðargróða. Höfum við Íslendingar nokkurn tímann í sögunni haft það eins gott og nú? Víst er að aldrei hafa Íslendingar auðgast eins gífurlega. Aldrei í ellefu alda sögu hefur auðlegð lands og lýðs verið meiri. Við erum sannkölluð hamingjuþjóð.

Við höfum safnast til þjóðhátíðar. Við minnumst mikilvægra atburða í dag, aldarafmælis heimastjórnar og sextugs afmælis lýðveldisins. Við stóðum áðan við minnisvarða Jóns Sigurðssonar gegnt dyrum Alþingishússins. Sú táknræna athöfn snertir alltaf jafn djúpt dýpstu rætur þjóðarvitundarinnar, þetta þegar blómsveigurinn er lagður að styttu þjóðhetjunnar og fjallkonan stígur fram og flytur sitt ljóð. Með þessari formlegu og fallegu athöfn erum við að minnast þess sem þjóð að frelsi okkar og sjálfstæði er ekki sjálfsagt. Það er í raun ótrúlegt og ævintýri líkast að við skulum vera frjáls þjóð í frjálsu þjóðríki. Það er ekkert sjálfsagt og var ekki fyrirhafnarlaus innlausn áunninna réttinda. Það kostaði átök og fórnir. Flestar þjóðir hafa þurft og þurfa að berjast fyrir frelsi sínu, sækja og verja vopnum. Sú er hamingja okkar mest að við náðum settu marki með baráttu á friðsamlegum vettvangi. Með samræðu og samningum náðist samstaða um meginatriði og grundvallargildi. Því megum við aldrei gleyma. Það ætti ætíð að vera aðalsmerki okkar, virðing fyrir hinni opnu samræðu og friðsamlegum lausnum ágreiningsmála.

Við megum ekki heldur gleyma þeirri ást og trú á landið, og þeirri sannfæringu sem bar uppi frelsisbaráttu þjóðarinnar, virðingu fyrir arfi sínum og sjálfsmynd, sérstöðu menningar sinnar og tungu, óbilandi trú á sjálfa sig og rétt sinn í samfélagi þjóðanna, þjóðfrelsi og réttlæti. Og við megum aldrei gleyma því heldur að við náðum okkar marki vegna skilnings og vináttu systraþjóða og vina. Á öllu þessu þurfum við enn og ætíð að halda.

Af Austurvelli gengum við til kirkju. Hér viljum við eiga viðdvöl í hinni öldnu Dómkirkju. Hvers vegna? Það er ekki til að ganga á vit fortíðar, þess sem til forna mótaði gildismat og viðhorf þjóðarinnar. Nei, það er vegna þess að við sem þjóð viljum minna okkur á að farsæld okkar og frelsi er ekki aðeins fyrir eigið afl og manndáð. Heldur Guðs náð, Guðs gjöf. Guðs góða gjöf til okkar til að njóta og nýta og ávaxta komandi kynslóðum til góða. Það að „Drottinn sem veitti frægð og heill til forna, farsæld og manndáð….“ eins og Hannes ráðherra orðaði það forðum, sá Drottinn er enn Guð vors lands. Guð vors lands er örlátur Guð. Ekki aðeins á gæði lands og sjávar. Náð hans er ný á hverjum morgni. Líf íslenskrar þjóðar er eilíft kraftaverk. Gleymum ekki að þakka það. „Vitið að Drottinn er Guð, hann hefur skapað oss og hans erum vér, lýður hans og gæsluhjörð. Því Drottinn er góður, miskunn Guðs varir að eilífu og trúfesti hans frá kyni til kyns.“

„Kyni til kyns,“ já.

Sagt er að eitt sinn hafi ferðamaður spurt gamla konu austur á Jökuldal: „Hefurðu búið hér alla ævi?“ Og sú gamla svaraði að bragði: „O, ekki ennþá!”

„O, ekki ennþá!”

- Hvað ber framtíðin í skauti sér fyrir íslenska þjóð? Frelsi og sjálfstæði þjóðar er ekki endastöð. Það er ferð og sístætt verkefni.

Við sjáum ýmsar blikur á lofti á tímum vaxandi hnattvæðingar og samruna. Jafnframt því sem upplýsingaflæðið eykst og allar gáttir opnast, þrengir að mannsandanum. Fátt virðist heilagt lengur nema rétturinn að græða og vaxandi þjóðremba, fordómar, ofstopi og ofstæki af öllu tagi lætur allt of víða til sín taka, og ógnar siðmenningunni. Frægð og heill, farsæld og manndáð íslensku þjóðarinnar er andlegur veruleiki, en ekki efnahagslegar stærðir og pólitískur styrkur eingöngu, svo mikilvægt sem það nú er. Og er ekki óþrjótandi innistæða sem við getum gengið að sem gefnu vegna sigra sem eitt sinn unnust, heldur hugsjón, köllun, verkefni sem krefst atbeina hinna mörgu, umhugsunar, ræktar og umhyggju með hverri nýrri kynslóð.

Íslensk þjóð á sér framtíð sem frjáls og sjálfstæð menningarþjóð, ef hún gleymir því ekki að frelsi hennar og sjálfstæði á sér rætur í gildum sem standa djúpum rótum í sál þjóðar og einstaklinganna í þessu landi. Uppistaðan í þjóðararfi okkar, auðnu og auðsæld, er það sem við heyrðum í orðum guðspjallsins hér áðan: Bænin og gullna reglan. Þau góðu gildi sem iðkun og frásögn og uppeldi kristninnar hefur viðhaldið og ræktað frá kyni til kyns í þúsund ár. Þeirri rækt og iðkun má ekki linna! Biðjum þess að sýn okkar til framtíðar verði jafnan borin uppi af heilbrigðri lífssýn og sjálfsmynd, virðingu fyrir samhenginu sem við stöndum í frá kyni til kyns, og lotningu fyrir Guði, ástgjöfum hans og vilja og umhyggjunni um aðra.

Nýlega sá ég mynd utan á blaði sem gefið er hér út fyrir erlenda ferðamenn og sýndi tígulega, fagra konu í skautbúningi. Fjallkona með óvenjulegt yfirbragð, hún var dökk á hörund með afrískan svip. Þessi mynd hefur vakið talsvert umtal og jafnvel hneykslan. Mér fannst hún undursamleg áminning um hið nýja Ísland. Það er fjölbreytt og litríkt. Guði sé lof fyrir það. Hingað sækir fólk af framandi menningarsvæðum og kynþáttum og auðgar okkar þjóðlíf og menningu. Bara að okkur auðnist að mæta þeirri fjölbreytni með virðingu fyrir manneskjunni og því sem eflir lífið. Við Íslendingar höfum ávallt hrósað okkur af því að vera gestrisin þjóð og umburðarlynd. Að því skulum við ætíð keppa. Andmælum hvers konar tilhneigingum til að flokka fólk eftir útliti og kynþætti. „Guð er litblindur,“ allir eru jafnir í augum hans, hvert svo sem þjóðerni og litaraft er. Síst megum við gleyma að okkar smáa en hugumstóra þjóð er þáttur í stóru samhengi mennskunnar. Örlög okkar eru bundin einu bræðralagi og systra. Við erum systkin, börn hins eina Guðs. Frelsi okkar og farsæld er ekki eign sem við eigum fyrir okkur sjálf, hamingja okkar og auðlegð er lán sem við höfum hlotið til ávöxtunar fyrir þann heim sem Guð elskar. Öll erum við kölluð til þess að snúa harmljóðum og sorg okkar særða heims og svívirtu mennsku í lofsöng. Með trú, von og kærleika. „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra,“ segir Kristur.

Og heilagt orð kennir okkur að gæði samfélags og styrkur menningar er metinn út frá því hvernig börnunum farnast, þeim sjúku og fötluðu er sinnt, hvert viðmótið er gagnvart þeim einmana og útlendingnum, og búið að öldruðum.

„Þjónið Drottni með gleði!“

Þetta hús er eins og aðrir kristnir helgidómar, tákn himinsins og beinir sjónum til framtíðarinnar, til þess sem kemur, þess sem verður þegar ríki Guðs kemur og vilji hans verður svo á jörðu sem á himni. „Drottinn sem veitti frægð og heill til forna, frelsi og manndáð…“ er ekki minning um eitthvað sem einu sinni var, heldur afl og máttur sem kemur. Kemur á móti vegfarandanum á ævileið og segir: Kom til mín! Fylg þú mér. Hann kemur eins og þegar sól rís að morgni og hrekur myrkur næturinnar á brott, og ljómi hennar breiðist yfir himininn og glæðir líf og vonir manns. För okkar er stefnt til móts við morgunbirtuna hans. Drottinn elskar þennan heim, ekki aðeins kirkjuna, ekki aðeins þann sem trúir og biður, ekki bara helga menn og engla. Guð elskar alla og þráir að allir verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum. Blessun hans vill umlykja allt sem lifir og vekja lofsönginn og þakkargjörðina: „Því Drottinn er góður, miskunn hans varir að eilífu og trúfesti hans frá kyni til kyns.“ Amen

Karl Sigurbjörnsson er biskup Íslands. Flutt í Dómkirkjunni 17. júní 2004. Lestrar: Sálm. 100, Matt.7.7-12

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2969.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar