Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Karl Sigurbjörnsson

Í þágu lífsins

6. júní 2004

Nú fór hann í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum.
Þá gjörði svo mikið veður á vatninu, að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf.

Þeir fara til, vekja hann og segja: Herra, bjarga þú, vér förumst.

Hann sagði við þá: Hví eruð þér hræddir, þér trúlitlir? Síðan reis hann upp og hastaði á vindinn og vatnið, og varð stillilogn.

Mennirnir undruðust og sögðu: Hvílíkur maður er þetta?
Jafnvel vindar og vatn hlýða honum. Matt. 8. 23-27

Guðspjall sjómannadagsins, frásagan sem er af því er Jesús kyrrir vind og sjó, endurómar söguna á fyrstu blaðsíðum Biblíunnar. Þar er viðlagið: „Guð sagði. Það varð. Guð sá að það var gott. Og Guð blessaði það.“ Guðspjallið ítrekar boðskap hinnar fornu sögu, eða lofsöngs, sem gjarna kallast „sköpunarsagan,“ sem sé að Guð setur hinu illa mörk, og þau mörk, þær skorður bresta ekki.

Ég veit að margir munu geta sett sig í spor bátsverjanna sem skelfingu lostnir hrópuðu á hjálp þegar bylgjurnar risu og stormurinn hvein og bátskelin kastaðist til og frá eins og fis í heljartökum hamstola náttúruafla: „Herra, bjarga þú!“ Hrópa þeir. Við þekkjum öll þá lamandi skelfingartilfinningu þegar okkur finnst sem grunnstoðir lífs og tilveru séu að bresta. Það er ekki bara á sjó, augliti til auglitis við heljarhramm hafsins. Nei, það gerist líka í hinum smáa hversdagsheimi. Jafnvel þegar öldurnar rísa hátt í stjónmálunum og fólki finnst sem öryggi og festu þjóðarskútunnar sé ógnað. Og hvað þá þegar ógnin dynur yfir okkur sjálf eða okkar nánustu, eða harmur slær samfélagið, hörmungafréttir berast, slys, áfall, heilsubrestur, auðnubrigði. Hvert leitum við þá? Við tökum utan um hvert annað, og biðjum fyrir og með hvert öðru. Þreifum við ekki á því enn og aftur þegar í nauðir rekur að það sem heldur er kærleikurinn, umhyggjan, bænin og trúin? Guðspjallið fjallar um það. Guðspjallið er fagnaðarerindið um það að á bak við handtak umhyggjunnar og bæn og trú er innistæða, sem gildir: hið milda vald og líknandi máttur sem Jesús birtir og boðar. Grunnstoðirnar bresta ekki. Þótt mannanna stoð og styrkur bregðist. Og það þurfum við öll að heyra. Og trúa.

Það er regla á lífinu. Hið góða, fagra, fullkomna. Ljós og líf, von og gleði, það er gott. Hið illa er undantekningin. Þess vegna er það líka fréttnæmt. Hið illa er undantekningin í þessum heimi sem Guð skapar og elskar. „Guð sá að það var gott.“ Það er viðlag sköpunarsögunnar, og tóntegundin sem lífið er sett við. Gleymum því ekki! Konan sem fæðir finnur þegar hvað henni ber að gera sem móðir. Afl umhyggjunnar knýr hana í þágu lífsins.„Í þágu lífsins“ - það ætti að móta allt okkar líf og viðbrögð. Í þágu lífsins og alls sem lífið eflir og bætir.

Til er saga af rabbía nokkrum sem bað til Guðs af ákafa og sagði:„Allt er gott. Allt er gott. Já, góði Guð, allt sem þú skapar er gott.“ Svo leit hann upp eftir andartaksþögn og sagði:„Já, en Guð, fyrst þetta allt er gott, af hverju er það þá ekki í lagi?“

Nei, það er ekki allt í lagi í Guðs góðu sköpun og fögru veröld.

Átök milli kynþátta og þjóða og trúarbragða ógna heilum heimshlutum. Við erum agndofa og harmi lostin yfir hörmungum hervirkja og hermdarverka í landinu helga og í Írak. Hryðjuverk og sjálfsmorðsárásir, ofstopi og ógnir virðast engan enda taka. Einhvern vegin hefur okkur reynst auðvelt að afgreiða það sem brjálsemi pólitískra og trúarlegra ofsatrúarmanna. Við viljum engan hlut eiga með þeim. En myndirnar og fréttirnar af misþyrmingum fanga af hendi innrásarliðsins í Írak, hvað með þær? Við sáum fulltrúa voldugastu hervelda hins kristna heimshluta og menningar standa fyrir viðbjóðslegustu illvirkjum, misþyrmingum og niðurlægingu stríðsfanga. Allt siðað fólk hlýtur að fordæma það. Við sem þekkjum boðskap frelsarans heyrum hann segja: „Í fangelsi var ég og þér misþyrmduð mér og niðurlægðuð mig. Allt sem þér gjörið einu þessara minna minnstu systkina það gjörðuð þér mér. “ Við hljótum að blygðast okkar því hér er að verki okkar fólk, sem teljast viljum kyndilberar frelsis og réttlætis og mannúðar í heiminum. Þarna er vitanlega brenglað fólk að verki. Það er samt allt of mikil einföldun að afgreiða það svo. Þetta viðbjóðslega athæfi birtir óhugnanlega sýn á raunveruleika stríðsins og þau dýrslegu – nei, við gerum blessuðum málleysingjunum rangt til með því að líkja þessu við eðli þeirra -, nei, öllu heldur demónísku öfl sem það leysir einatt úr læðingi. Við erum samábyrg, okkar þjóð sem „þekkir hvorki sverð né blóð“ eins og sungið var á Þingvöllum fyrir sextíu árum. Það er ekki satt, við þekkjum það betur en við vildum vera láta. Við erum ekkert betri né heldur verri en aðrar þjóðir - Fyrirgef oss vorar skuldir!

„Herra, bjarga þú!“ kölluðu lærisveinarnir á bátnum forðum. Og fengu svarið: „Hví eruð þér hræddir, þér trúlitlir?“ Og það erum við. Við erum einatt óttaslegin og öryggislaus, hrædd og trúlítil. Það eru ekki náttúruöflin sem óttalegust eru. Það er hið illa innra með okkur sjálfum. Syndin, kaldhæðnin, kærleiksleysið, og óttinn. Það aflagar allt, afbakar allt, spillir, eyðir.

Við þekkjum öll grundvallarkröfu umhyggju og kærleika, en það dugar oft ekki til. Við erum flest og viljum vera góðar manneskjur. En samt breytum við iðulega gegn betri vitund, bregðumst, föllum. Og svo er það nú þannig í þessum heimi að engar hreinar línur eru milli góða liðsins og hins illa. Í okkur blundar í senn engill og ári, demón og dýrlingur. Illgresið og hveitið vaxa saman á akri mannlífsins og í hverri sál. Regla og upplausn, blessun og bölvun, siðaður maður og siðlaust þjóðfélag eru samofin. Saga manns er saga ósigra, mistaka, syndar, og endurreisnar, saga ófyrirsjáanlegra atvika og auðnubrigða - og upprisu. „Sérhver dýrlingur á sér fortíð og sérhver syndari sér framtíð,“ segir orðtakið. Trúin er ekki einangrandi „teflon“ húð gegn hinu illa. – Nei, því miður, en hún er að þiggja boð um návist og handleiðslu á lífsins vegi. Orð hljómar og hönd er rétt fram í dimmunni og iðuköstunum. Að trúa er að grípa þá hönd og reiða sig á það orð. „Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig!“

Áberandi er þegar Jesús er spurður beint um siðgæði og trú og ráðgátur lífsins svarar hann með því að spyrja á móti: „Hvað finnst þér?” „Hvernig lest þú?“ Hann gefur ekki formúlur og einföld svör. Máske vildi Jesús einmitt að við værum í vafa. Til eru þær aðstæður sem eru flóknari en svo að við þeim séu skýr og einföld svör. Og ef til vill ættum við ávallt að vera á varðbergi gagnvart einföldum, skjótum svörum og formúlum. Oft eru tárin ein, iðrunin og umhyggjan eina svarið sem svalar og sefar. „Guð er meiri en hjarta vort og þekkir alla hluti.“ segir í orðinu helga. Um góðvild hans og kærleika þurfum við aldrei að efast.

„Herra, bjarga þú, vér förumst!“

Jesús er skorinorður gegn hvers konar spillingu og synd, hroka og hræsni, græðgi og grimmd. En hann kemur alltaf fram eins og faðir eða móðir sem elskar barn sitt þótt svo að val þess og ákvörðun sé því á móti skapi. Guð virðir val mannsins, jafnvel þótt það valdi honum sársauka og sorg. Og föðurfaðmur hans stendur opinn öllum sem snúa við, það er iðrast. Í orðum og verkum og dæmisögum, svo sem um „týnda soninn,“ lýsir Jesús hvað í því felst og boðar afl fyrirgefningarinnar og upprisunnar. Engar aðstæður eru vonlausar, engin útlegð, engin svínastía vonlaus. Maður getur alltaf gjört iðrun, það er, staðið upp og snúið heim. Föðurfaðmurinn er ávallt opinn þeim sem snýr sér til hans í iðrun og trú.

Jesús boðar líka að viðleitni til að láta gott af sér leiða sé aldrei til einskis. Það sé aldrei til einskis að ganga erinda friðar og mannúðar og fyrirgefningar. Afl og áhrifamáttur hins góða er að verki í lífinu. Á það minnir sérhver kristinn helgidómur, helgidagarnir sem varða dagleiðir okkar, helgar athafnir sem marka eyktir mannlífsins. Það allt segir og játar: Lífið er gott, hið góða sigrar um síðir. Vilji Guðs verður á jörðu sem á himni. Í öllu litrófi sköpunarinnar og mannlífsins er Guð að verki í þágu lífsins. Guðs ríki er í nánd. Það er innra með þér sem trúir og elskar og leyfir vilja Guðs að verða hjá þér. Það birtist í góðvild, umhyggju, gæsku og mildi góðs fólks sem réttir fram hendur í þágu lífsins og beinir á veg hins góða.

Það er lífsnauðsyn að mannkyn endurheimti vitundina fyrir algildum forsendum siðferðisins, endurheimti hinn siðgæðislega áttavita og innri staðsetningartæki. Ástæða er til að hafa áhyggjur af því hve virðing fyrir mannréttindum og manngildi hefur átt undir högg að sækja í skugga stríðsins gegn hryðjuverkum.

Allir, trúað fólk og guðleysingjar, sannfærðir sem og hikandi og hálfvolgir af öllu tagi, kristnir menn, gyðingar og muslimar, já, allir menn eiga sér sameiginlegan grundvöll sem er öllum gefið að þekkja aftur og leita og finna, öllum sem yfirleitt eru gæddir heilbrigðri skynsemi og samvisku. Vísindin og viðskiptin, trúarbrögðin, fjármálin, fjölmiðlarnir, stjórnmálin, dómsmál og réttarkerfið, heimilislífið, þetta eru ekki aðskildir heimar sem lúta eigin siðaforsendum. Heimurinn er einn, mannkynið er eitt, á sömu jörð, undir sama himni. Og Guð er einn, viljinn góði, valdið milda kærleikans sem kallar okkur og alla menn til að lifa í trú, von og kærleika – þágu lífsins.

„Herra, bjarga þú, vér förumst!“

Á sjómannadegi flytjum við, íslenska þjóðin, sem „Föðurland vort hálft er hafið,“ þakkargjörð fyrir sjómennina okkar og framlag þeirra í sögu og samtíð. Sjómannadagurinn snertir Íslendinga með sérstökum hætti, vegna þess að hann minnir okkur á hve hagsæld okkar er dýru verði goldin. Og við biðjum fyrir sjómönnunum og fjölskyldum þeirra. Héðan úr Dómkirkjunni í Reykjavík sendum við kveðjur til sjómanna um land allt. Og eins skulum við minnast í þökk og fyrirbæn björgunarsveita sem leggja fram sína góðu krafta til bjargar mannslífum, Landhelgisgæslunnar, og þeirra sem sinna slysavörnum og öryggismálum til sjós og lands, við erum þakklát fyrir þann hetjuher í þágu lífsins. Og við hugsum til allra þeirra sem leggja sig fram um að reynast öðrum vel, vera vinir í raun og vá. Guð launi og blessi það allt eilífri blessun sinni.

• • •

Hér í Dómkirkjunni er í dag, á sjómannadegi fáni með einni stjörnu, einn maður drukknaði á sjó á umliðnu ári. Nafn hans og líf er geymt í föðurhjarta Drottins. Við sameinumst í bæn fyrir honum og ástvinum hans og sendum hugheilar samúðarkveðjur þeim og öllum sem syrgja og sakna.

Á þessari stundu verður lagður blómsveigur að minnisvarða óþekkta sjómannsins í Fossvogskirkjugarði í virðingu, þökk og samúð. Rísið úr sætum og við lútum höfðum í þögn.

• • •

Veit þeim, ó Drottinn, þína eilífu hvíld, og lát þitt eilífa ljós lýsa þeim. Þeir hvíli í þínum friði. Hugga þau sem eiga um sárt að binda, signdu hverja minningu, varðveit hverja von, þerra hvert tár.

Í Jesú náðar nafni. Amen.

Sjómannadagur 2004

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3265.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar