Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Árni Svanur Danielsson

Brúarsmíði og almannagjár

13. júní 2004

Einu sinni var maður nokkur ríkur, er klæddist purpura og dýru líni og lifði hvern dag í dýrlegum fagnaði.

En fátækur maður, hlaðinn kaunum, lá fyrir dyrum hans og hét sá Lasarus.

Feginn vildi hann seðja sig á því, er féll af borði ríka mannsins, og jafnvel hundar komu og sleiktu kaun hans.En nú gjörðist það, að fátæki maðurinn dó, og báru hann englar í faðm Abrahams. Ríki maðurinn dó líka og var grafinn.

Og í helju, þar sem hann var í kvölum, hóf hann upp augu sín og sá Abraham í fjarska og Lasarus við brjóst hans.

Þá kallaði hann: Faðir Abraham, miskunna þú mér, og send Lasarus, að hann dýfi fingurgómi sínum í vatn og kæli tungu mína, því ég kvelst í þessum loga.

Abraham sagði: Minnstu þess, barn, að þú hlaust þín gæði, meðan þú lifðir, og Lasarus böl á sama hátt. Nú er hann hér huggaður, en þú kvelst.Auk alls þessa er mikið djúp staðfest milli ! vor og yðar, svo að þeir, er héðan vildu fara yfir til yðar, geti það ekki, og eigi verði heldur komist þaðan yfir til vor.En hann sagði: Þá bið ég þig, faðir, að þú sendir hann í hús föður míns, en ég á fimm bræður, til þess að vara þá við, svo þeir komi ekki líka í þennan kvalastað. En Abraham segir: Þeir hafa Móse og spámennina, hlýði þeir þeim. Hinn svaraði: Nei, faðir Abraham, en ef einhver kæmi til þeirra frá hinum dauðu, mundu þeir gjöra iðrun. En Abraham sagði við hann: Ef þeir hlýða ekki Móse og spámönnunum, láta þeir ekki heldur sannfærast, þótt einhver rísi upp frá dauðum. Lúk 16.19-31

Almannagjá

Í fylgiskjali með frumvarpi til laga um þjóðgarðinn á Þingvöllum sem lagt var fram 1998 er fjallað um staðhætti og landslag hér á svæðinu. Þar segir meðal annars:

Á Þingvöllum birtist fjölskrúðugur sköpunarmáttur jarðarinnar þar sem andstæðurnar mætast. Á Þingvöllum sjáum við hvar Ameríkuflekinn hefst við Almannagjá og Evrasíuflekinn austan Hrafnagjár.

Ég nefni þetta hér vegna þess að dæmisagan í guðspjalli dagsins fjallar öðrum þræði um gjár sem jafnvel mætti kalla almannagjár. Og dæmisagan greinir líka frá andstæðum. Hvort tveggja, gjárnar og andstæðurnar, eru raunar lykilatriði í dæmisögunni. Það er því einkar viðeigandi að við skoðum þær sérstaklega hér á þessum stað í dag.

Í upphafi dæmisögunnar er dregin upp mynd af vellauðugum manni sem lifir í miklum vellystingum. Ríkidæmi hans er undirstrikað með skýrum hætti í sögunni. Hann klæðist purpura og dýru líni, en hvort tveggja gefur til hinna mikið ríkidæmi og gefur til kynna að hann sé hástéttarmaður, jafnvel konungborinn. Og hann heldur stórveislur daglega.

Lasarusi er lýst sem algjörri andstæðu hans. Hann er fátækur, matarlaus, sjúkur. Hann betlar sér til viðurværis, myndi láta sér nægja leifar af gnægtaborði, en fær ekki einu sinni það. Það er gagnlegt að hafa í huga að litið var á betlara sem synduga menn sem Guð væri að refsa með því að láta þá vera í þessari stöðu. Ytri vísbendingar gefa því til kynna að Lasarus njóti nú ekki velvildar hjá Guði.

Svo deyja báðir og allt snýst við. Sá ríki þjáist í helju en Lasarus hvílir í faðmi Abrahams og er þjónað af englum. Aftur er dregin upp mynd af andstæðum. Og enn er gjá á milli mannanna tveggja – raunar enn dýpri gjá en var áður. Sá ríki hefði nefnilega getað látið sér annt um Lasarus meðan þeir voru enn á lífi, en menn fara ekki á milli himins og heljar, ef marka má dæmisöguna.

Brot auðuga mannsins er fólgið í því sem hann lét ógert. Hann sinnti ekki um Lasarus, fátæka mannsinn sem lá við dyr hans, hann opnaði ekki dyrnar, gekk ekki út til að gefa honum með sér, af allsnægtum sínum.[1] Hann lét sér ekki annt um hann.

Brúarsmíði

Dyr skildu að ríka manninn og Lasarus meðan þeir lifðu, en mikið og óyfirstíganlegt djúp aðskildi þá eftir dauðann. Ríki maðurinn vildi ekki að bræður sínir – sem enn voru lifandi – þyrftu að ganga í gegnum það sama og hann. Hann vildi því vara þá við, en fékk ekki. Abraham svaraði beiðni hans með því að vísa á Biblíuna. Hann segir:

„Þeir hafa Móse og spámennina, hlýði þeir þeim.“

Bræðrunum og okkur – sem lesendum dæmisögunnar – er þarna vísað á Biblíuna. Hér er gagnlegt að skoða samhengið í lestrum dagsins. Dæmisagan í guðspjallinu greinir frá rangri hegðun og hún vísar á lexíu og pistil þar sem er að finna eins konar forskrift að því hvernig menn eiga að haga sér í samskiptum við aðra. Skoðum hvort fyrir sig

Í lexíunni í 5. Mósebók segir:

Ef með þér er fátækur maður, einhver af bræðrum þínum, í einhverri af borgum þínum í landi þínu, því er Drottinn Guð þinn gefur þér, þá skalt þú ekki herða hjarta þitt og eigi afturlykja hendi þinni fyrir fátækum bróður þínum, heldur skalt þú upp ljúka hendi þinni fyrir honum og lána honum fúslega það, er nægi til að bæta úr skorti hans.

Og í pistlinum í 1. Jóhannesarbréfi segir:

Ef einhver segir: Ég elska Guð, og hatar bróður sinn, sá er lygari. Því að sá sem elskar ekki bróður sinn, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð, sem hann hefur ekki séð.

Þegar þessir textar eru lesnir í samhengi dæmisögunnar þá eru skilaboðin skýr: Það er ekki nóg að láta aðra vera, við eigum að sinna um þá. Kallað er eftir aðgerðum, ekki aðgerðaleysi. Svipaða hugsun er að finna í útlagningu Marteins Lúthers á boðorðum 5-10 í Fræðunum minni. Hann setur þau í samhengi þjónustunnar við náungann og segir t.a.m. um níunda boðorðið:

„Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns.“

“Vér eigum að óttast og elska Guð, svo að vér eigi sækjumst eftir arfi eða húsi náunga vors með brögðum né drögum oss það með yfirskini réttinda o.s.frv. [bannið] heldur styðjum hann og styrkjum að halda því. [boðið]“

Með öðrum orðum: Það er ekki nóg að láta náungann vera, við eigum að grípa inn í ef við getum, þegar við getum. Að trúa er að elska Guð og elskan til Guðs birtist alltaf í þjónustu við náungann. Jafnt þau sem minna mega sín sem öll hinum – lífið allt, sérhver andardráttur, á að mótast af þessari þjónustu.

Við erum semsagt kölluð til að vera jarðfræðingar, verkfræðingar og brúarsmiðir Guðs. Til að skoða vandlega allar gjárnar í kringum okkur (líka í eigin lífi) og meta það hvernig sé hægt að brúa þær. Kanna hvaða dyr þarf að opna og hvað leynist utan við luktar dyr. Allt til að við getum sinnt öðrum betur. Um leið erum við minnt á að höfundur lífsins er einn og að lífið allt gengur út á samstöðu.

Guð gefi okkur styrk til þessa verks.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Flutt í Þingvallakirkju á 1. sunnudegi eftir þrenningarhátíð, 13. júní 2004. Guðspjall Lúk 16.19-31, lexía 5M 15:7-11 og pistill 1. Jóh. 4. 16b-21

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2664.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar