Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Karl Sigurbjörnsson

„Sáðmaður gekk út að sá …“

15. febrúar 2004

Nú var mikill fjöldi saman kominn, og menn komu til hans úr hverri borg af annarri. Þá sagði hann þessa dæmisögu: Sáðmaður gekk út að sá sæði sínu. Og þá er hann sáði, féll sumt hjá götunni og varð fótum troðið, og fuglar himins átu það upp. Sumt féll á klöpp. Það spratt, en skrælnaði, af því að það hafði ekki raka. Og sumt féll meðal þyrna, og þyrnarnir spruttu einnig og kæfðu það. En sumt féll í góða jörð, óx upp og bar hundraðfaldan ávöxt. Að svo mæltu hrópaði hann: Hver sem eyru hefur að heyra, hann heyri.

En lærisveinar hans spurðu hann, hvað þessi dæmisaga þýddi. Hann sagði: Yður er gefið að þekkja leynda dóma Guðs ríkis, hinir fá þá í dæmisögum, að sjáandi sjái þeir ekki og heyrandi skilji þeir ekki.

En dæmisagan þýðir þetta: Sæðið er Guðs orð. Það er féll hjá götunni, merkir þá, sem heyra orðið, en síðan kemur djöfullinn og tekur það burt úr hjarta þeirra, til þess að þeir trúi ekki og verði hólpnir. Það er féll á klöppina, merkir þá, sem taka orðinu með fögnuði, er þeir heyra það, en hafa enga rótfestu. Þeir trúa um stund, en falla frá á reynslutíma. Það er féll meðal þyrna, merkir þá er heyra, en kafna síðan undir áhyggjum, auðæfum og nautnum lífsins og bera ekki þroskaðan ávöxt. En það er féll í góða jörð, merkir þá sem heyra orðið og geyma það í göfugu, góðu hjarta og bera ávöxt með stöðuglyndi. Lúkas 8. 4-15

Í dag er Biblíudagurinn. Hátíð heilagrar ritningar í kirkjunni. Vissulega eru allir dagar kirkjunnar Biblíu-dagar, því á grundvelli hennar, á grundvelli orðsins er kirkjan reist, líf hennar og iðkun er vitnisburður um lífsins orð. Guðspjall dagsins er dæmisaga Jesú um sáðmanninn og hina fernskonar sáðjörð. Vart er hægt að hugsa sér betra veganesti á vígsludegi. „Sáðmaður gekk út að sá….“ ég þarf ekki að rekja þessa sögu, við kunnum hana öll, og ef ekki, þá skulum við fletta henni upp og lesa í kvöld. Myndin er svo ljóslifandi. Sáðmaður gekk út að sá.

Oft er prestinum líkt við sáðmann. Á vígsludegi stendur þú, sáðmaður, með pokann þinn, reiðubúin að halda af stað út á akurinn. Akurinn bíður þín, með sín ótal fyrirheit um gleði starfs og þjónustu, akurinn bíður þess að þú komir óhikað út og dreifir korninu yfir jörðina. „Sæðið er Guðs orð,“ Segir Jesús, um fræin sem senn þyrlast út frá höndum þínum út yfir akurinn.

Horfðu í anda á sáðmanninn sem Jesús lýsir.

Öruggum skrefum gengur hann út á akur sinn og stráir gullnu sáðkorninu til beggja handa, stráir þessum auði, þessu undri lífs yfir akurinn …. Veistu -, eiginlega er þetta skrípamynd af bónda sem Jesús dregur upp í dæmisögunni um sáðmanninn. Hvaða bóndi sýnir aðra eins óhagsýni og eyðslusemi að þyrla dýrmætu sáðkorninu út um hvippinn og hvappinn, þannig að ¾ hlutar fari til spillis? Nei, svo lengi sem korni hefur verið sáð á jörðu hafa menn farið vel með útsæðið, gætt þess að undirbúa jarðveginn, týna grjót, hreinsa burt illgresi, þyrna og þistla, bera á, plægja og sá korninu þar sem helst væri von um árangur. Um það snýst þessi iðja, um uppskeru. Uppskera, annað orð yfir það er gróði. Bóndinn sáir í akur sinn af því hann væntir arðs, gróða, ávaxta af sáðinu og iðju sinni. Auðvitað vissi Jesús það, hann sem þekkti af eigin raun líf og kjör fátækrar alþýðu í landi sínu. Þetta er ekkert vit! Það er alveg áreiðanlegt að svona skussaháttur er ólíðandi. Og prestur sem svona hagar sér, sem svona sóar tíma sínum og kröftum án þess að sýna snefil af skynsemi og hagsýni, kemst brátt í þrot! Það getur hver heilvita maður sagt sér. En bíðum aðeins. Það er meir en sýnist. Sjálfur vekur Jesús athygli á því að sagan geymi annað og meir en í fljótu bragði virðist. Hann hrópar til mannfjöldans: „Hver sem eyru hefur að heyra hann heyri!“ Og það skulum við gera.

Með sögu sinni er Jesús að tala um þá guðlegu sóun sem er náð Guðs og kærleikur. Jesús er að lýsa sjálfum sér, orðum sínum og verkum. Menn voru alveg gáttaðir á honum. „Þessi maður tekur að sér syndara og samneytir þeim!“ hrópuðu þeir frómu og guðhræddu í hneykslan. Þeir botnuðu ekkert í þessu, hann nam staðar hjá þeim blinda og líkþráa og utangarðs, í stað þess að halda sér í námunda við viðhorfsmótendurna og þá sem völdin hafa og áhrifin í þjóðfélaginu, hann talaði við konur og bersynduga, en yrti ekki á kónginn! Og þegar fólk þyrptist að honum með börnin sín var lærisveinum hans nóg boðið. Þetta gengur ekki, meistarinn hefur annað og betra við sinn dýrmæta tíma að gera en hjala við börn. En Jesú sárnaði það: „Leyfið börnunum að koma til mín… slíkra er himnaríki.“ Þetta hlýtur að fara illa, sögðu menn, gáttaðir.

Sáðkornið sem Jesús dreifir svona á báðar hendur er Guðs orð. Orðið sem í öndverðu ómaði yfir dauðans djúpi dimma: „VERÐI LJÓS!“ og það varð ljós: „VERÐI LÍF!“ og lífið varð til, þetta undur og kraftaverk, sem birtist í sáðkornunum örsmáu, og brýst fram þar sem síst er að vænta.

Þetta orð birtist hér á jörð í lífi í lífi manns og mætti jarðarbörnum. Mætir sorgum og áhyggjum, miskunnarleysi, léttúð og kæruleysi mannlífsins og þeim illa vilja og valdi sem einatt vill standa í vegi fyrir því að vilji Guðs verði og ríki hans komi. Orð Guðs mætir forherðingu og fjandskap, hatri og rangsleitni og dauða, en samt heldur Guð áfram að láta sitt náðarorð hljóma jafnvel þar sem engra undirtekta er að vænta. Svona elskar Guð heiminn. Hann vill að ALLIR verið hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum í huga hans vakir sú VON að einhversstaðar, jafnvel á ólíklegustu stöðum leyndist jarðvegur er bjóði sáðinu nauðsynleg skilyrði til þroska.

Hann var sjálfur í orði sínu. Sjálfur líkti hann lífi sínu við hveitikornið sem fellur í mold. Og hvað gerist? Það deyr, til að spíra og verða líf og nægtir, mynd, sem við höfum stöðugt fyrir sjónum í kvöldmáltíðinni, þegar við tökum við brauðinu smáa, ávexti frækornsins, þessu undri sköpunarinnar og afurð iðju mannanna. Jesús Kristur er þar sjálfur til staðar til að ganga í lífssamband við þig, láta orð sitt og vilja verða hluti af þér og bera ávöxt í lífi þínu til blessunar. Af því að ÞÚ ert akurinn! Kæri vígsluþegi. Það er nú punkturinn í þessu guðspjalli: Þú ert akurinn, og við öll sem hér eigum þessa stund með þér. Við erum akurinn. Og hér er sáðmaðurinn mitt á meðal okkar. Jesús. Þessi stund, athöfn, iðkun og orð er sáðkorn hans sem hann er að dreifa.

„Sáðmaður gekk út að sá.“

Öruggum skrefum gengur hann út á akurinn og stráir gullnu sáðkorninu til beggja handa. Það þyrlast upp í loftið, gullið kornið og fellur til jarðar. Sumt fellur á götuna, þar sem það treðst undir fótum manna og fuglar eta það upp. Oft er líf mitt eins og gatan. Ys, önn og amstur, ótal áreiti allar stundir, friðleysi, stress. Sumt féll á klöpp. Þar festir ekkert rætur. Þar er alltaf eitthvað nýtt sem grípur athyglina til þess eins að fjúka burt með næsta goluþyt. Og sumt fellur meðal þyrna. Það fær ekki heldur frið, áhyggjur og synd kæfa það. Áhyggjur og unaðssemdir lífsins kefja það, segir Jesús. Allt sem er manni meðal til að drepa tímann og flýja sál sína fremur en að þiggja og gefa öðrum og gleðja.

Áfram gengur sáðmaðurinn yfir akur sinn og stráir gullnu sáðkorninu til beggja handa. Og sumt féll í góða jörð og náði að skjóta rótum og spíra og spretta og bera ávöxt, hundraðfaldan, til saðnings, til gleði, til að gefa nýtt líf og nýja framtíð. Hvaða jarðvegur er það? Það er gott og göfugt hjarta og stöðuglyndi.

Þú, kæra Lena Rós, kirkjan fagnar þér, og gleðst með þér og gleðst yfir þér, samverkamanni á akrinum. Við samgleðjumst Grafarvogssókn sem fær að njóta krafta þinna, og við samfögnum ástvinum þínum, eiginmanni, börnum, foreldrum, þakklát þeim og Guði fyrir þig og við biðjum Guð að styrkja ykkur öll á þessum tímamótum. Og við sem hér afhendum þér hið heilaga hlutverk að hætti postulanna í umboði heilagrar kirkju, treystum um leið okkar vígsluheit og ásetning trúmennsku og heilinda sem boðendur orðsins og samverkamenn að gleði fagnaðarerindisins og jarðvegur þess orð sem blessar, læknar, reisir upp. Við sameinumst í bæninni að orðið helga vinni sitt verk í okkur, nái eyrum okkar og hjörtum, og við mættum með Guðs hjálp bera ávöxt með stöðuglyndi.

Í þeirri bæn og trú skulum við rísa úr sætum og játa heilaga trú: Ég trúi…….

Karl Sigurbjörnsson er biskup Íslands. Flutti við prestsvígslu í Dómkirkjunni, 15. febrúar 2004 þegar Lena Rós Matthíasdóttir var vígð til Grafarvogsprestakalls

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3236.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar