Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Karl Sigurbjörnsson

Að allir megi heyra og þiggja

24. desember 2003

En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Ágústus keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gjörð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs,að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni, sem var þunguð. En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari.Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi. En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar.Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir, en engillinn sagði við þá: Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu.

Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu:

Dýrð sé Guði í upphæðum,
og friður á jörðu með mönnum,
sem hann hefur velþóknun á. Lúk 2.1-14

Blessa Drottinn jólafögnuð og jólafrið, og signdu jólasorg og söknuð barna þinna, í Jesú nafni. Amen.

Guð gefi þér gleðileg jól!

Bessastaðakirkja er umgjörð jólamessu sjónvarpsins að þessu sinni. Ég þakka þeim sem hér halda uppi söng og helgri iðkun í kvöld og endranær, og eins þeim fjölmörgu um land allt sem leggja fram góða krafta að til að bera ljós og orð og hljóma helgra jóla inn í hjörtu landsins barna.

Einn nágranna Bessastaðakirkju, þjóðskáldið Hannes Pétursson, orti eftirfarandi:

Jólanótt – og ég kveikti
á kerti rétt eins og forðum
litlu kerti.
Það logar á borði mínu
unir þar sínu lífi
slær ljóma á þögnina.

Og bíð þess að ég finni
sem forðum að glaðir hljómar
séu lagðir af stað
út úr lágum turnunum
að ég heyri þá svífa
yfir hvítt landið og stefna
hærra, hærra!

Eins og hyggist þeir setjast
á sjálfar stjörnurnar
svo ljós og hljómar
geti hafið í einingu saman
af himnum gegnum loftin
sína heilögu ferð.

Bessastaðakirkja er ein elsta kirkja þessa lands. Um aldir hafa glaðir hljómar ómað úr hér úr turni og svifið yfir landið og signt líf og land, hús og hjörtu hinni heilögu ferð sem jólahátíðin vitnar um.

Hér áðan heyrðum við forsetafrúna okkar, frú Dorrit Moussaieff, lesa lexíu jólanætur.Hún las orð Jesaja spámanns um ljósið sem skín af því barni sem er oss fætt og er friðarhöfðinginn. Hún er hér fulltrúi þeirra mörgu Íslendinga sem hingað hafa flust af framandi löndum og menningarheimum, og auðga okkar þjóðlíf svo margvíslega. Megi það finna sig velkomið hér, okkar á meðal. Því miður er oft misbrestur á því, og grunnt á fordómum og þröngsýni. Vinnum gegn slíku! Stuðlum að því að Ísland verði ætíð gestrisið eins og trú okkar og siður kennir. Frú Moussaief er Gyðingur. Jesajabók sem textinn er úr, er einnig í biblíu Gyðinga. Þótt kristnir menn lesi Jesaja og aðrar bækur Gamlatestamentisins á annan hátt en Gyðingar, þá byggjum við þó, kristnir menn og Gyðingar, á sama grunni. Trú Abrahams, Ísaks og Jakobs er okkar sameiginlegi arfur. Gamlatestamentið var biblía frelsarans, orðin sem hann lærði af móðurvörum sem barn, bænaorðin, siðaboðin, leiðsögnin um líf og heim, guð og mann. Sjálfur sagðist hann vera uppfylling lögmálsins og spámannanna. Þess vegna lesa kristnir menn Biblíuna alla, fyrirheit hennar, fyrirmæli og boðskap, í ljósinu frá Betlehem, í ljósi krossins og upprisunnar. Við sjáum þar ljúkast upp leyndardómana duldu, mynstrið hulda og myndina stígur fram. Jesús er uppfylling lögmálsins, já, og draumar mannkyns um ljós og frið, rætast í honum.

Látum það nú vera bæn okkar allra á helgum jólum að allir megi heyra og þiggja gjöf jólanna, boðskapinn um frið, frið í hjarta, frið í sál, frið á milli manna og þjóða og trúarbragða. Biðjum þess að læknandi máttur hans sem í Betlehem fæddist megi komast að í heiminum okkar, opna augun, lækna meinin, þerra tárin, vekja frið og sátt, von og gleði. Og biðjum sérstaklega fyrir Gyðingum og öllum íbúum og niðjum landsins sem við köllum hið helga. Biðjum þess að trúin sem leiddi Abraham, forföður okkar allra í trúnni, Gyðinga, kristinna manna og múslima, sameini, fremur en sundri, verði það afl sáttar og friðar sem Guð ætlast til. Að múrarnir falli, og vopnaskakið hljóðni og morðæðinu linni. Iðulega eru átökin í landinu helga réttlætt með trúarlegum rökum um helgan rétt og helga staði. En í ljósi jólanna vitum við að allt það sem heilagt er og standa vill vörð um trú og helga minningu, um siðgæðið, og hinn mikla, máttuga Guð, verður að prófast við mælikvarða miskunnseminnar. Biðjum þess að Gyðingar og múslimar og kristið fólk finni þann sameiginlega grundvöll að standa á sem er miskunnsemin, mildin og fyrirgefningin. Og megi á þeim grundvelli virða hvert annað og leita heilla hvers annars og landsins, lífsins, heimsins, sem Guð elskar.

Jólin eru hátíð hjartans, hughrifa og tilfinninga, en fögnuðurinn sem jólin boða er meir en hughrif og tilfinningar. Hughrif eru hverful. En gleðin sem jólaguðspjallið boðar og jólasálmarnir tjá er meir en hverfult andartak. Jólasorgin og jólakvíðinn og jólasöknuðurinn og jólaeinsemdin rúmast líka þar. Gleðin og sorgin eru systur sem gjarna fylgjast að. Jólin faðma þær báðar. Þú sem finnur þig í skugga um þessi jól. Mundu: Mátturinn æðsti sem birti sjálfan sig í barninu í Betlehem þekkir það sem íþyngir þér. Trúin sem hann leitar og gefur er leggja sig í hans hönd. Sú trú er máttur Guðs í vanmætti manna.

Taktu eftir altaristöflunni hér í Bessastaðakirkju. Það er hrífandi og áleitin mynd. Verk listamannsins ástsæla Muggs, sem lést langt um aldur fram. Berklarnir felldu hann, hinn hvíti dauði, sem snemma á síðustu öld óð yfir landið, ægilegur faraldur, hliðstæður því sem alnæmið er nú víða um heim. Listamaðurinn ungi málar þessa mynd af lækninum Jesú. Taktu eftir því að Jesús er sýndur sem fölur og veiklulegur, ungur maður. Ég held að listamaðurinn sé að segja með því: Jesús þekkir kjör hinna þjáðu og veiku, sjúkdóma og sorgir mannanna tók hann á sig. Sárin þín, sorg og mein þekkir hann, skilur og metur allt rétt.

Ásýnd hinns unga Krists ber vott um hreinleika, sannleik og umfram allt mildi. Blindur maður krýpur fyrir honum. Kristur teygir höndina til hans og snertir hann. Fólk mænir til læknisins í trú og lotningu. Nei, ekki allir! Við sjáum líka hneykslun, vandlætingu og reiði Sjáðu þessa til hliðar, þeir stinga saman nefjum, baktala, rægja, formæla. Vantrúin og ofstækið, heiftin og hatrið sá sínum beisku fræjum sem brátt munu bera ávöxt í bræði og fordæming mannfjöldans sem heimtaði að Jesús yrði krossfestur. Það er gömul saga og ný.

Hann sem er Kristur Drottinn, frelsari heimsins, er ljós lífsins og læknir allra meina. Hann mætir myrkri heimsins, blindu mannanna, það er synd, miskunnarleysi, fordómum og hatri. Ljósið skín í myrkrinu. „Hið sanna ljós sem upplýsir hvern mann kom nú í heiminn, en heimurinn þekkti hann ekki.“ Það segir Jóhannes í jólaguðspjalli sínu. Og jólaguðspjall Lúkasar, sem við heyrðum áðan, segir það sama með því að lýsa því hvernig þeim Jósef og Maríu var úthýst í Betlehem og urðu að láta fyrirberast í fjárhúsinu. “Það er nú heimsins þrautarmein að þekkja hann ei sem bæri” sungum við hér með orðum séra Einars frá Eydölum. Og það er svo satt!

Jólaguðspjallið talar beint inn í okkar samtíð og veruleika. Það segir okkur sannleikann um Guð og mann, líf og heim. Öll þráum við lækningu og frelsi og frið. Við þráum heim þar sem ljósið lýsir og ummyndar allt, heim miskunnsemi, góðvildar og gestrisni, þar sem vígvélar og morðtól eru ekki lengur til, þar sem ofbeldi og yfirgangur líðst ekki, þar sem réttlætið ríkir, lífið fagnar. Um þessar mundir virðist það fjarlægara en oft áður. En fyrirheit spámannsins sem við heyrðum áðan um að “öll harkmikil hermannastígvél og allar blóðstokknar skikkjur skulu brenndar og verða eldsmatur…” er þó enn í gildi. Barnið sem fæddist í Betlehem í nótt er friðarhöfðinginn. Hann mun færa frið á jörðu. Ljósið hans lýsir, líknarhönd hans er að verki. Von og þrá mannkyns og fyrirheit spámannanna um frið, rætast, ef andi barnsins frá Betlehem fær að komast að, ef læknandi höndin hans fær að snerta blind augun og blind hjörtun, og leysa fjötra óttans og fordómanna, og fyrirgefning hans fær að rjúfa vítahring hatursins og fella varnamúra ofstækisins. Hann megnar að leysa upp lögmál frumskógarins að hagsmunir og réttur hins sterka og auðuga vegi þyngra en hagur hins smáa og veika. Hann ógildir lögmál hefndanna og nemur þyngdarlögmál sjálfselskunnar úr gildi. Hann gefur elsku sem rekur út óttann. Hann kemur á sátt þar sem óvildin ríkir, læknar og sameinar rofin tengsl og sundraðar fjölskyldur, hann leggur smyrsl á lífsins sár og líknarmund yfir beiskju og hatur. Friðarhöfðinginn. Frelsarinn, Kristur Drottinn, hann sem spámennirnir boðuðu og englarnir sungu um og hirðarnir lutu, hann er ekki þátíð, og ekki heldur draumsýn um fjarlæga framtíð. Hann er að verki hér og nú, í þessum dimma, kalda, friðvana heimi.

Um það vitna ljós og hljómar helgrar jólanætur. Opnaðu hjarta þinn fyrir því. Þú sem ert Guðs barn og bróðir hans, barn ljóssins og dagsins, sem friðarhöfðinginn kallar til fylgdar í sína heilögu ferð. Guð blessi þig og gefi gleðileg jól.

Karl Sigurbjörnsson er biskup Íslands. Þessi prédikun var flutt í jólamessu sjónvarpsins 2003. Hún var tekin var upp í Bessastaðakirkju.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3026.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar