Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Karl Sigurbjörnsson

Til Guðs þakka

30. nóvember 2003

Þegar þeir nálguðust Jerúsalem og komu til Betfage við Olíufjallið, sendi Jesús tvo lærisveina og sagði við þá: Farið í þorpið hér framundan ykkur, og jafnskjótt munuð þið finna ösnu bundna og fola hjá henni. Leysið þau og færið mér. Ef einhver hefur orð um, þá svarið: Herrann þarf þeirra við, og mun hann jafnskjótt senda þau.

Þetta varð, svo að rættist það, sem sagt er fyrir munn spámannsins:

Segið dótturinni Síon:
Sjá, konungur þinn kemur til þín,
hógvær er hann og ríður asna,
fola undan áburðargrip.

Lærisveinarnir fóru og gjörðu sem Jesús hafði boðið þeim, komu með ösnuna og folann og lögðu á þau klæði sín, en hann steig á bak. Fjöldamargir breiddu klæði sín á veginn, en aðrir hjuggu lim af trjánum og stráðu á veginn. Og múgur sá, sem á undan fór og eftir fylgdi, hrópaði: Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur, í nafni Drottins! Hósanna í hæstum hæðum! Matt.21.1-9

Gleðilegt nýtt kirkjuár!

Fyrsti sunnudagur í aðventu og jólafasta gengur í garð. Guðspjall dagsins er frásögn af konungskomu, innreið Jesú í Jerúsalem. Munum það að aðventu og jólahaldi er ætlað að fagna konungi konunganna, sem allt vald hlýtur um síðir að lúta. Guðspjallið lýsir því er hann kemur til borgar sinnar, ekki í gullvagni og englafylgd, ekki í forstjórajeppa né öðrum stöðutáknum auðs og valda. Hann kemur hógvær og ríðandi á asna.

Og það er tákn. Eins og jólaguðspjallið, jatan í Betlehem, tákn og áminning um það sem máli skiptir, hinn æðsta auð og gæði. Innreið Jesú á asnanum smáa er dómur yfir lífsmáta, þar sem umbúðirnar eru metnar umfram innihald, fjármagn og tæki metið fram yfir fólk, vilja Guðs er storkað, lífið fótum troðið og gælt við dauðann. Jesús kemur á asnanum smáa og smáða, konungurinn sem kemur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds.

Undanfarna daga hefur umræðan í íslensku þjóðfélagi snúist um stöðutákn og heimsins gæði, ofsagróða fjármálastofnana og kaupréttarsamninga forstjóranna. Sjaldan hefur reiði almennings bálast upp eins og í því máli. Sem eðlilegt er, svo víðs fjarri sem þetta er þeim raunveruleika sem blasir við okkur allflestum. Auðvitað blöskrar fólki það gróðaflóð sem við verðum vitni að og sú taumlausa ágirnd og hroki sem virðist ráða för í samfélaginu.

Forsætisráðherra vitnaði í því sambandi í Passíusálmana, “um Júdasar iðrun.” Það var vel til fundið, kröftug orð og þörf og sístæð áminning. Passíusálmarnir hafa verið Íslendingum holl leiðsögn um siðgæði og trú, mælikvarðinn traustur og viðmiðin heil. Hallgrímur kann að orða hlutina tæpitungulaust og af einurð þegar hann átelur synd og lesti. En umfram allt þegar hann vitnar um tilboð Jesú um iðrun og fyrirgefningu og sannar dyggðir. “Gjörið iðrun!” segir Jesús, það merkir snúið við, snúið ykkur til Guðs, “-og trúið fagnaðarerindinu.” Og þess þurfum við með sem einstaklingar og samfélag. Við þurfum að snúa við af braut ágirndar og ófullnægju. Gera iðrun, trúa, vona og elska.

Hvernig væri að fjármálastofnanirnar og gróðafyrirtækin gerðu áheit um að láta hina snauðu okkar á meðal njóta einhvers af ávöxtunum? Ég meina það! Áður fyrr þótti mannsbragur að því að “gefa til Guðs þakka.” Að tjá þakklæti sitt fyrir velsæld og hamingju með því að láta af hendi rakna til þeirra sem líða skort. Þeir eru nefnilega til á meðal okkar, bæði heima og heiman. Í landinu okkar auðuga er til geðfatlað fólk sem er á vergangi, og hér er fólk á meðal okkar sem ekki á í hús að venda, sem brýst í bjargarleysi, fólk sem lendir í vítahring fátæktar, já, líka hér í einu allra ríkasta landi veraldar. Og aðventan og jólin fullyrða, og fastan og páskarnir, já, meginþráður fagnaðarerindisins alls, að Guð gerir málstað þeirra snauðu að sínum, tekur sér stöðu þar, þar sem brotinn berst og breiskur fellur, þar sem synd og sorg og þjáning og neyð er hlutskipti fólks, þar er hann: “Það sem þér gjörið einum þessara minna minnstu systkina, það gjörið þér mér!” segir Kristur.

Bara að aðventan gæti hjálpað okkur að skilja betur í hverju hin sönnu verðmæti eru fólgin. Þau eru umhugsunarverð orð skáldsins Gabriel Garcia Marques sem sagði: “Ég er ekki ríkur. Ég er fátækur maður sem á peninga, en það er ekki sama.” Og löngu, löngu áður sagði annar vitur maður: “Hin sönnu auðævi eru ekki að eiga mikið, heldur þurfa lítið!” Við með allan okkar auð, í öllu peningaflóði okkar daga, við erum svo ótrúlega snauð. Við erum svo furðulega fátæk af tíma – hver hefur tíma til eins eða neins? – örsnauð af umhyggju, fátæk af kyrrð, af friði. Eirðarleysið er hlutskipti okkar, og við virðumst aldrei fá nóg. Við þurfum að hlusta á það sem ljósin og hljómarnir og sögurnar helgu, fornu, sístæðu segja. Og hlusta með hjartanu. Ef aðventa og jól gætu hjálpað okkur að horfa út fyrir hið þrönga svið eiginhagsmunanna. Að við gætum snúið baki við önnum og ærustu og tímaleysi, snúið af vegi síngirni til samhygðar, af vegi grægi til gjafmildi, og eflt þá auðlegð sem er fólgin í því að eiga tíma fyrir það sem máli skiptir í lífinu, umhyggju um sig og sína, börnin, lífið, Guð og náungann.
Fátækt. Ríkidæmi

Á alsherjarþingi lútherska heimssambandsins sl. sumar sat ég við hlið konu frá Malawi, Mabel heitir hún. Hláturmild kona og hlý. Hún sér um barnafræðslu lúthersku kirkjunnar í heimalandi sínu, og hjálparstarf meðal barna. Hún sér um að tugir barna fái mat á hverjum degi, það eru munaðarlaus börn, sem misst hafa foreldra sína úr alnæmi. Mabel sér til þess að þau fái að borða, með hjálp Lútherska heimssambandsins. Hún sér líka um að koma til þeirra nauðsynlegum fatnaði og lyfjum. Alltaf fjölgar börnunum. Er þetta ekki vonlaust verk? Spurði ég. Og hún brosti. Nei, sagði hún svo, ekki meðan hjálp berst að utan. Og ég fékk sting. Við Íslendingar með allan okkar veraldarauð stöndum okkur vægast sagt illa hvað varðar neyðar og þróunarhjálp, þótt margt sé vel gert vissulega. Dag einn kynnti hún mig fyrir kunningjakonu sinni frá Úganda. Hún er ekki síður glaðleg og hress kona. Hún elur önn fyrir tíu ungum börnum til viðbótar við sín eigin fimm. Systir hennar og mágur dóu úr alnæmi, og nágrannakona sömuleiðis og hún bætti á sig börnunum þeirra. Munaði ekki um það. Alnæmið fer yfir álfuna eins og logi yfir akur með ægilegum hörmungum og hryllingi í kjölfarið. Hún sagði mér að í heilu þorpunum væru ekkert vinnufært fólk eftir, aðeins börn og gamalmenni. Og þriðjungur barnanna alnæmissmitaður. Getum við ímyndað okkur? Þetta er svo skelfilegt að maður á engin orð yfir það. En þetta eru nágrannar okkar í heimsþorpinu, systur okkar og bræður. Og við getum hjálpað!

Mér var umhugsunarvert hvernig vonin og gleðin geislaði af þeim stöllum, og þeim sögum sem þær sögðu mér af störfum sínum. Þarna er þrátt fyrir allt sanna auðlegð að finna. Auðævi umhyggju, vonar og trúar. Mitt í allri skelfingunni, þar sem manngildið er fótum troðið og dauðinn virðist hrósa sigri, er þó lækning og líf til staðar þrátt fyrir allt, afl umhyggjunnar sem ummyndar og reisir upp. Það eru manneskjur eins og þær Mabel og vinkona hennar, fólk sem leggur sitt að mörkum að hjálpa, og gerir að verkum að fólk getur þrátt fyrir allt lifað með reisn af því að umhyggjan ræður för, auðugt fólk af von og trú. Ég vissi ekki þá en nú veit ég að fyrr á þessu ári skipti tiltölulega smá fjárupphæð frá Íslandi sköpum þarna til að halda uppi hjálparstarfi meðal barna sem annars væru algjörlega á vonarvöl. Og maður fyllist þökk og gleði yfir því að við, hér á Fróni skulum taka þátt í þessu starfi. Ég þakka fermingarbörnunum um land allt sem nú í haust söfnuðu fjármunum til þessa verks. Ég þakka því góða fólki sem hefur stutt þá söfnun og minnt hina ungu á mikilvægi þess að gefa af tíma sínum og fjármunum til hjálpar öðrum. Og ég þakka Hjálparstarfi kirkjunnar og samstarfsaðilum þess sem kemur gjöfum okkar í hendur fólks sem hefur hjartað á réttum stað lætur fórnfýsi og kærleika stýra huga sínum og höndum. Þar er Kristur á ferð. Þar sem hlý hönd er rétt til hjálpar og huggunar, þar er hann að verki. Þar sem góðvildin og örlætið knýr viðbrögð hugar og hjarta, þar er Kristur að verki og andi hans, konungurinn sem kemur, hógvær, gerðist fátækur vor vegna að vér auðguðumst af fátækt hans.

Fyrir heilli kynslóð Íslendinga hefur jólasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar verið dýrmætur þáttur í aðventu og jólaundirbúningnum. Þar er fólgin dýrmæt tenging milli gjafa í þágu hinna snauðu, og þeirrar gjafar sem jólin minna á, gjafarinnar sem Guð gaf til lausnar þeim heimi sem hann elskar. Munum eftir söfnunarbaukum Hjálparstarfsins. Leggjum fram okkar skerf til hjálpar, - við sem höfum svo margt að þakka. “Skiljum ekki börnin eftir ein!” er hvatningin sem baukunum fylgir nú, styðjum þau og það fólk sem er að hjálpa þeim.

Hér að lokinni prédikun verða körfur látnar ganga milli, þar sem söfnuðurinn fær að leggja fram gjafir til Hjálparstarfs kirkjunnar. Ég vil sérstaklega minna á og þakka þennan þátt í öflugu guðsþjónustulífi Hallgrímskirkju, að fólk fær þannig tækifæri til að leggja fram gjafir sínar til líknar og mannúðarmála og þarfa safnaðarins, og leggja þær gjafir fram í bæn á altari kirkjunnar. Þar gefst tækifæri til að tjá þökk og gleði, og samhug og samstöðu. “Til Guðs þakka.” Í bæninni munum við líka biðja fyrir þeim gjöfum sem berast munu í jólasöfnun hjálparstarfsins, þeim sem njóta munu, og þeim sem láta gjafir af hendi rakna til góðs. Því Guð elskar glaðan gjafara, þau hjörtu sem stýra gjafmildri mund, þá hugi sem í þökk og trú gefa af sínu. Guði sé lof fyrir það fólk allt. Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda um aldir alda. Amen.

Karl Sigurbjörnsson er biskup Íslands. Flutt í Hallgrímskirkju, á 1. sunnudegi í aðventu, 30/11/2003.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2953.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar