Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Guðrún Eggertsdóttir

Hlýðnin við boðorðin

22. október 2003

Sértu því að færa fórn þína á altarið og minnist þess þar, að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér, þá skaltu skilja gjöf þína eftir fyrir framan altarið, fara fyrst og sættast við bróður þinn, koma síðan og færa fórn þína. Vertu skjótur til sátta við andstæðing þinn, meðan þú ert enn á vegi með honum, til þess að hann selji þig ekki dómaranum í hendur og dómarinn þjóninum og þér verði varpað í fangelsi. Sannlega segi ég þér: Eigi munt þú komast út þaðan, fyrr en þú hefur borgað síðasta eyri. (Mt. 5.23-26)

Hér grípum við niður í Fjallræðunni, kaflann þar sem Jesús er að tala um hlýðnina við boðorðin.

Stuttu áður hafði hann fullvissað áheyrendur sína um það að hann væri ekki kominn til þess að afnema lögmálið, heldur þvert á móti til þess að uppfylla það, og hann segir að ekki einn einasti stafkrókur muni falla úr lögmálinu þar til himinn og jörð líða undir lok.

En hann lætur ekki þar við sitja. Hann segir við fylgjendur sína: “Ef réttlæti yðar ber ekki af réttlæti fræðimanna og farísea, komist þér aldrei í himnaríki.”

Þetta kunna okkur að finnast hörð orð. En hvað með þau sem voru með Jesú á fjallinu og hlýddu á þau?

Farísear og fræðimenn voru jú þeir sem kunnu lögmálið og þeir lögðu metnað sinn í það að fara í alla staði eftir boðum lögmálsins, og þar voru boðorðin tíu að sjálfsögðu undirstaðan.

Að krefjast þess af fylgjendum sínum að breytni þeirra bæri af breytni faríseanna og fræðimannanna var því engin smá krafa.

Þegar hér var komið í ræðunni geri ég mér í hugarlund að sumir áheyrendur hafi farið að ókyrrast.

Hvað er maðurinn að fara?

Það er ekki hægt að breyta betur eða vera réttlátari en farísearnir og fræðimennirnir.

Hvað er það eiginlega sem hann ætlast til af okkur?

Jesús skynjar óróleika þeirra og útskýrir betur fyrir þeim hvað hann er að fara. Og úr þeirri útskýringu eru einmitt versin sem eru texti okkar í dag.

Hann minnir áheyrendur sína á boðorðin, eitt af öðru, og bætir síðan við kröfurnar sem þau setja fram.

Þú skalt ekki morð fremja – en ekki bara það heldur skaltu gæta þess að hegða þér í hvívetna þannig að það særi engan samferðamann þinn í lífinu.

Það að gerast lærisveinn Jesú og fylgja honum losar þig ekki undan boðorðunum, heldur eykur kröfurnar sem til þín eru gerðar. Hegðun þín á að endurspegla hegðun Krists. Þú átt að vera fullkomin(n) eins og faðir þinn á himnum er fullkominn.

Það er ekki lítið sem farið er fram á.

En er það mögulegt?

Já, það er mögulegt, en ekki af eigin mætti. Einungis með því að gefast Guði algjörlega, fylgja honum og treysta handleiðslu hans er mögleiki á að það takist.

Eftirfylgdin er ekki auðveld, og oft vill gleymast að kallið til fylgdar felur í sér kröfu um að ganga í fótspor Krists.

Það virðist stundum svo miklu auðveldara að halda sig bara við boðorðin. “Þú skalt ekki morð fremja.” Það er í sjálfu sér ekki svo erfitt að fara eftir því, í okkar tiltölulega örugga samfélagi. En það er erfiðara að gleyma því ekki að hugsanir, orð og athöfn geta sært, jafnvel banasári.

Náðin er aldrei ódýr. En hún er okkar, ef við bara viljum taka við henni.

Amen

Hugleiðing á miðvikudagsmorgni í Hallgrímskirkju. 22.10. 2003.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2546.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar