Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Árni Svanur Danielsson

Orðið sem hljómar

24. september 2003

“Frá yður hefur orð Drottins hljómað … skrifar postulinn í upphafi bréfsins til safnaðarins í Þessalóníku. Páll hrósar söfnuðinum fyrir trúfesti og fyrir boðun fagnaðarerindisins. “Frá yður hefur orð Drottins hljómað …

Í bókinn Þorðu að vera foreldri segir sálfræðingurinn Alf B. Svensson frá sænskri rannsókn á samskiptum foreldra og barna. Þar koma fram sláandi upplýsingar um tímann sem meðaljóninn og -gunnan gefa sér í samtal við börnin sín.

Ef undanskildar eru stuttar skipanir, kvabb eða annað slíkt eins og

“Farðu núna í skóna þína … eða “Borðaðu matinn þinn …

þá tala foreldrar barna í leikskólum og yngri bekkjum grunnskóla í Svíþjóð að meðaltali við börnin sín í þrjár og hálfa mínútu á dag. Þrjár og hálfa mínútu. Þetta er ekkert hrós heldur áfellisdómur samfélags yfir sér.

Þótt þessi könnun hafi verið gerð í Svíþjóð þá geymir hún áminningu til okkar Íslendinga. Hversu miklum tíma eyðum við daglega í uppbyggileg samskipti við okkar nánustu? Við börn okkar og maka, foreldra, systkini, barnabörn?

Það má líka spyrja í kjölfarið og tengja þá við Pál: Getur orð Drottins hljómað þar sem enginn tími er gefinn fyrir samtalið? Er nokkuð rými fyrir það samtal sem boðun fagnaðarerindisins er (í orðum og verkum - í krafti, heilögum anda og sannfæringu) þegar ekkert annað samtal fær að eiga sér stað? Hefur sá sem á aðeins þrjár og hálfa mínútu fyrir barnið sitt nokkurn tíma fyrir Guð? Hefur hann nokkurn tíma til að hlusta á hann eða til að segja öðrum frá, láta orð Drottins hljóma?

Vissulega er hægt að gera heilmargt á þremur mínútum. Til að mynda er aðeins teknar þrjár mínútur í að útleggja morgunlesturinn í árdegismessunum hér í Hallgrímskirkju. En líklega eru samt fáir sem draga það í efa að þrjár og hálf mínúta á dag duga skammt þegar kemur að uppbyggingu samfélags á heimili - eða uppbyggingu samfélags við Guð.

Og nú eru þessar þrjár mínútur miðvikudagsmorgunsins næstum liðnar. Og enn er margt sem þarf að ræða. Við skulum því gera tilraun og fresta þessu samtali framyfir máltíðina hér við altarið, en halda henni áfram að því loknu og ræða þá saman um samband samtalsins við fólkið okkar, við Guð og þess hvernig orð Drottins getur hljómað í okkar söfnuðunum.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2985.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar