Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Samfélagið og einstaklingurinn

6. ágúst 2003

Hlusta á þessa ræðuHlusta á þessa prédikun

Ef nokkurs má sín upphvatning í nafni Krists, ef kærleiksávarp, ef samfélag andans, ef ástúð og meðaumkun má sín nokkurs, þá gjörið gleði mína fullkomna með því að vera samhuga, hafa sama kærleika, einn hug og eina sál. Gjörið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillátir og metið aðra meira en sjálfa yður. Lítið ekki aðeins á eigin hag, heldur einnig annarra. (Fil 2.1-4)

Góð systkin.

Markaðstorg tækifæranna stækkar og stækkar. Möguleikar þess vaxa og vaxa. Jafnvel sá sem situr einn í djúpum dal með langt til næstu bæja getur verið staddur í miðri hringiðu þess torgs. Markaðstorgið leitar viðskipta við einstaklinga fremur en samtök.

Falboðið er miklu fleira en söluvarningur í venjulegum skilningi þess orðs. Líka skoðanir, pólitískar áherslur, trúarbrögð eða trúarskoðanir. Markaðstorg tækifæranna og möguleikanna nærist á einstaklingum og nærir einstaklingshyggju. Sterkasti andstæðingur einstaklingshyggjunnar er samfélagið. Samt styrkir samfélagið einstaklingana meir en nokkuð annað. En það styrkir ekki einstaklingshyggjuna. Þvert á móti.

Það er hægt að vera mjög einmana í mikilli fólksmergð. Líkast til eru meiri líkindi til raunverulegs einmanaleika í þéttbýli en í strjálbýli. Helsta næring einmanaleikans er höfnunin. Ég er einmana vegna þess að mig skortir tengingu við annað fólk. Það er ekki víst að það sé annað hvort vegna þess að ég hef sjálfur klippt á tenginguna eða aðrir hafi gert það. Ef til vill tókst mér aldrei að skapa tengingu til annarra.

Mesti einmanaleikinn verður til þegar mig skortir tengingu við sjálfan mig.

Höfnunin þarf alls ekki að vera að frumkvæði hinna. Hún getur fæðst í mér.

Höfnunin og einmanaleikinn eru farvegur þeirra sem reyna að ná völdum í lífi einstaklinga í eiginhagsmunaskyni. Forsendur þeirra eru oftar en ekki af neikvæðum (illum) hvötum, vegna þess að manneskjan sem fyrir verður fær ekki að vera manneskja. Hún er tæki til afnota.

Það þarf ekki lengi að ganga með Jesú Kristi, hlusta á hann og horfa á hann til að sjá hverskonar samfélag hann skapar.
Þó kallar hann einstaklinga.

Morgunlesturinn á þessum degi er mjög afdráttarlaus. Að skilningi bréfritarans eru alveg ákveðin einkenni hins kristna safnaðar.
Skýrasta einkennið er samfélagið. Trúin er samfélagsmótandi. Samfélagið við Guð kallar á samfélag við trúsystkin.
Samfélag við Guð og við trúsystkin í nafni Jesú Krists er skjól og vörn.

Einkenni þess eru talin upp í morgunlestrinum:
Upphvatning í nafni Krists,
kærleiksávarp,
samfélag andans,
ástúð og meðaumkun.

(Við skulum)
vera samhuga,
hafa sama kærleika,
hafa einn hug og eina sál.

(Við skulum)
ekkert gera af eigingirni
eða hégómagirnd.

(Við skulum)
vera lítillát
og meta aðra meira en okkur sjálf.
Og við skulum ekki aðeins líta á eigin hag, heldur einnig annarra.

Gjörum þetta. Þá erum við samfélagið sem Kristur kallar til.

Flutt í árdegismessu í Hallgrímskirkju, miðvikudaginn 6. ágúst 2003.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3952.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar