Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Árni Svanur Danielsson

Tvö veisluborð

9. júlí 2003

„Þá langaði hann að seðja sig á drafinu, er svínin átu, en enginn gaf honum. … Þá sagði faðir hans við þjóna sína: Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum. Sækið og alikálfinn og slátrið, vér skulum eta og gjöra oss glaðan dag.“ (Úr Lk 15.11-24)

Morgunlestur þessa dags er fyrri hluti frásögunnar er syninum týnda í Lúkasarguðspjalli. Reyndar hefur þessi frásögn líka verið nefnd öðrum nöfnum: Góði faðirinn – tveir synir. Mig langar hér í dag að leggja til eitt nafn enn: Tvö veisluborð.

Guðspjallamaðurinn leggur mikið á sig til að draga fram öfga í frásögunni og öfgarnir snúast öðrum þræði um þessi tvö veisluborð. Hið fyrra gætum við kallað veisluborðið handan Guðs, það síðara veisluborðið hjá Guði.

Sonurinn yfirgefur fjölskyldu sína, fer út í heim að freista gæfunnar, skellur kylliflatur á andlitið, mistekst. Og hann endar í svaðinu hjá svínunum. Og vistinni þar er meðal annars lýst með þessum orðum: „Þá langaði hann að seðja sig á drafinu, er svínin átu, en enginn gaf honum.“

Þótt við höfum kannski gleymt því á okkar tímum hvað Gyðingunum þótti um svín þá megum við vera viss um að týndi sonurinn þekkti til fordæminga lögmálsins: „Bölvaður sé sá sem hirðir um svín.“

Niðurlægingin var algjör. Skömmin meiri en orð fá lýst.

Og þá sneri hann heim. Og fékk hinar allrabestu mótttökur. Faðir hans kom á móti honum og sagði við þjóna sína: „Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum. Sækið og alikálfinn og slátrið, vér skulum eta og gjöra oss glaðan dag.“

  • „Sækið alikálfinn og slátrið, vér skulum eta og gjöra oss glaðan dag.“
  • „Þá langaði hann að segðja sig á drafinu, er svínin átu, en enginn gaf honum.“

Er hægt að hugsa sér meiri mun?

Saddur eða svangur, svínastía eða borðstofa, eymd eða gleði, einmana eða í fjölmenni, að heiman eða heima. Þetta eru andstæðurnar. Þetta er munurinn á þessum tveimur veislusölum. Og til hinnar góðu veislu hjá Guði er okkur boðið. Hann stendur og býður, með opinn faðm, tilbúinn að hlaupa á móti hverjum sem „kemur til sjálfs sín“ og snýr sér til hans.

Flutt í árdegismessu, miðvikudaginn 9. júlí 2003.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 4654.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar