Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristinn Ágúst Friðfinnsson

Byrjaðu nú nýtt líf, mín kæra

13. júlí 2003

Snemma morguns kom hann aftur í helgidóminn, og allur lýður kom til hans, en hann settist og tók að kenna þeim. Farísear og fræðimenn koma með konu, staðna að hórdómi, létu hana standa mitt á meðal þeirra og sögðu við hann: Meistari, kona þessi var staðin að verki, þar sem hún var að drýgja hór. Móse bauð oss í lögmálinu að grýta slíkar konur. Hvað segir þú nú? Þetta sögðu þeir til að reyna hann, svo þeir hefðu eitthvað að ákæra hann fyrir. En Jesús laut niður og skrifaði með fingrinum á jörðina.

Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann, rétti hann sig upp og sagði við þá: Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana. Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina. Þegar þeir heyrðu þetta, fóru þeir burt, einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Jesús var einn eftir, og konan stóð í sömu sporum. Hann rétti sig upp og sagði við hana: Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?

En hún sagði: Enginn, herra.

Jesús mælti: Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar. (Jóh 8:2-11)

I

Flest höfum við vafalaust einhvern tíma átt þá ósk heitasta að geta byrjað aftur, eiga nýja von, ný tækifæri. Guðspjall þessa drottins dags, sem er að margra áliti eitt hinna fegurstu í Biblíunni, fjallar einmitt um hvernig miskunn, samúð og fyrirgefning, sem rætur eiga í sönnum kærleika, veita nýja von og möguleika fyrir nýtt upphaf.

Guðspjallið segir frá því þegar fræðimenn og farísear reyndu að flækja í orðum og freista Jesú til að þeir gætu síðan ákært hann með því að leiða fram fyrir hann konu sem staðin hafði verið að hórdómi og vitna í lögmál Gyðinga sem boðaði að grýta skyldi
slíkar konur. Um leið og þeir spurðu þessa var þeim vel kunnugt um að lögmál Gyðinga og lög hins rómverska ríkis stönguðust hér á. Samkvæmt lögum hins rómverska ríkis hefði það ekki gengið að fara að boði hins gyðinglega lögmáls og lífláta konuna. Í fljótu
bragði hefði því mátt ætla að Jesús væri lentur í vanda sem hann gæti ekki komið sér út úr. Andstæðingar Jesú beittu því allri sinni kænsku og viti – og ekki í fyrsta sinn - til að hann yrði sekur við önnur hvor lögin og þannig yrði loks grundvöllur til að handtaka
hann og víkja honum úr vegi hins andlega og veraldlega valds sem illa þoldi návist hans, boðskap og verk. Og í framhaldi af þessu höfum við fyrir augunum mjög fagra mynd af Jesú þar sem lýtur niður og ritar í sandinn. En þeir héldu nú samt áfram að spyrja
hann og hann rétti sig upp og skoraði á þann sem syndlaus væri að kasta fyrsta steininum að konunni. Þeir fóru. Úthugsuð leikflétta þeirra brást vegna þess að þeir mættu kærleiksríkum manni sem elskaði syndarann þó hann réttlætti ekki syndina. Eftir stóð Jesús og konan, annars vegar skilningsríkur, næmur og nærgætinn maður sem kennir okkur að rita misfellur og um ófullkomleika okkar í sandinn og hins vegar sakbitin og vondöpur kona sem átti að nota. Sakfelldi enginn þig? Enginn herra. Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú, syndga ekki upp frá þessu. Byrjaðu nú nýtt líf, mín kæra.

Og við sjáum svo margt fleira í þessari áhrifamiklu og fögru mynd, þessari einstæðu mynd, mynd sem er í rauninni lífsmyndin sjálf. Við sjáum hvernig tvær andstæður mætast, annars vegar digurbarkaleg vandlæting, sjálfsréttlæting og mannfyrirlitning, sem
vill notfæra sér hrösun konu til að ryðja ímyndaðri ógnun úr vegi og hins vegar elskuríka, fölskvalausa, einfalda framkomu Jesú með einfalda spurningu og milt augnaráð, sem sigrar að sjálfsögðu. Annars vegar aumar og fláráðar mannskepnur, hins vegar göfuga
tign og hreinleika kærleikans, sem tekur sér stöðu með hinu hrjáða og smáða, ekki til að lumbra á mótstöðumönnunum og fagna sigri, heldur til að minna á að öll erum við með einhverjum hætti ófullkomin og breysk og þegar upp er staðið eru brestirnir ritaðir í sand en ekki höggnir í stein. Lögin dæma syndarann, en ekki syndina. Slíkt hefur m.a. viðvörunargildi í ófullkomnum heimi lögbrota og voðaverka, eins og við þekkjum úr
samfélagsumræðunni um þessar mundir, og er sannarlega ill nauðsyn. Kristur dæmir hins vegar syndina sjálfa, en gefur syndaranum hvatningu og von um nýtt upphaf. Er það ekki einmitt þannig sem við bætum mannlífið og þá sem misstíga sig með einhverjum hætti í lífinu?
II

Þessi fagra og merkilega saga um miskunn kennir okkur ótal margt um afstöðu Jesú til okkar ófullkomins fólks. Hún kennir okkur að þrátt fyrir að hvert mannlegt ríki þurfi að búa yfir lögum og reglum til að stemma stigu við andfélagslegri hegðun og glæpum
er enginn svo fullkominn að geta fordæmt aðra eða útskúfað með einhverjum hætti. Guð elskar syndarann, en fyrirlítur syndina. Í öðru lagi kennir sagan okkur að gæta orða okkar og sýna varúð, hófsemi og miskunnsemi í öllu lífi okkar. Í þriðja lagi kennir sagan
okkur að fyrirgefningin er ekki eitthvað sem við eigum að nota af léttúð. Að fyrirgefa er að viðurkenna staðreyndir. Ég hef stundum tekið eftir því þegar ég hef verið að ræða við fólk sem hefur átt í einhverjum vanda og ég hef hvatt það til að fyrirgefa, að það er eins
og skilningurinn á fyrirgefningunni sé ekki alltaf fyrir hendi. Að fyrirgefa er ekki bara að beygja sig. Að fyrirgefa er vissulega að viðurkenna staðreyndir og horfast í augu við þær, horfast í augu við að rangt hefur sannarlega verið gert eða komið til leiðar, en
ákveða jafnframt að við ætlum að halda áfram þrátt fyrir það sem upp hefur komið. Hluturinn hefur gerst. Samt ætlum við að halda áfram saman á lífsleiðinni. Slík fyrirgefning er í senn raunsæ á mannlegt eðli og hvetjandi til nýs upphafs. Við eigum að gefa fólki tækifæri ef mögulegt er til að sýna sig og sanna aftur því öll hrösum við einhvern tíma og einhvern veginn og leiðbeina og vara við ef þörf krefur. Við eigum að vera miskunnsöm og viljug að sjá og skilja sáran vilja annarra til að bæta ráð sitt.

Kristin trú er ekki bara tilfinningaleg afstaða. Kristin trú er fyrst og fremst lífsafstaða, lísskoðun, sem óhjákvæmilega birtist í daglegu lífi og hefur, ef betur er að gáð, mótað heilu samfélögin, heilu heimsálfurnar.

Dómsjúkur maður og sá sem illa talar um aðra er í reynd litlu betri en morðinginn. Munurinn er bara sá, að fórnarlamb morðingjans liggur á 7 fetunum, en fórnarlamb mannorðsmorðingjans gengur lifandi dauður á meðal fólks, sem hefur rangar hugmyndir um hann og skilur ekki aðstæður hans. Stærsta dóminn fær svo að lokum sá, sem ranglega dæmdi, sá sem ekki sá bjálkann í eigin auga, en sá flísina í auga náungans.

Allt, sem máli skiptir er þetta: hin einlæga ást til Guðs og manna. Stjórnarskrá guðsríkis er þessi: elskið, elskið Guð og náungann. Málið er í rauninni ekki flóknara en það. Eins mætti orða þetta á annan hátt og segja: Sönn ást á Guði leiðir óhjákvæmilega til elsku meðal manna og í sannri ást eru fólgnir allir þeir aðrir þættir, sem leiða til farsældar og friðar í hverju mannlegu samfélagi: fyrirgefning, björt og hrein sólarsýn, umburðarlyndi, gleði, ljúflyndi, gjafmildi, hjálpsemi og yfirleitt allt, sem er lífsins og ljóssins megin í lífinu. Þess vegna hljóta hugleiðingar okkar um ástina alltaf að vera samofnar hugleiðingum okkar um rétt mannsins til að njóta sannmælis, vera ekki dæmdur af öðrum og til að vera það sem hann er. Af guðlegri ást leiðir krafan um að gæta mildi í dómum um aðra.
III

Guðspjall þessa Drottins dags gerir miklar kröfur til okkar kristinna manna. Enn sem fyrr er Jesús að fást við lögmál gyðinga, sem honum fannst svo oft að væri fyrst og fremst blind löggjöf, sem nánast væri unnt að framfylgja á kaldrifjaðan hátt, gera af
skyldurækni það sem bókstafurinn, forskrift dygðugs lífernis, heimtaði og sýnast svo bara góður og vera bara nokkuð ánægður með sjálfan sig í stað þess að láta góðverkin vaxa fram sem ávöxt trúar, lítillætis og að ég tali nú ekki um sem ávöxt kærleika. Hann
var alltaf að kalla okkur til að vera heil í lífi okkar, trúa fyrst og umskapa þannig eigið sálarlíf til lítillætis og kærleiksríkrar afstöðu til náungans. Og það er greinilegt að hann telur að verk okkar gagnvart öðrum og gagnvart samfélaginu þurfi að spretta fram af
þessari innri afstöðu eða eins og oft er sagt, koma frá hjartanu. Jesús er því í rauninni að berjast gegn yfirborðsmennsku og sýndarmennsku hverskonar, hegðun sem segir okkur að innra fyrir býr eitthvað allt annað en það sem á yfirborðinu sést. Er það ekki
umhugsunarvert að einmitt hinir harðsvíruðustu skúrkar temja sér oft fáguðustu framkomuna og eru oft duglegastir við að láta allt sýnast svo gott og fullkomið hjá þeim sjálfum? Það finnst að minnsta kosti mörgum sem eru orðnir þroskaðir og hafa séð
ýmislegt um dagana. Það er spurt um heilindi og mennsku í dag og góðverk sem eru árangur þeirra lífsins eiginleika, en ekki skraut til að hylja hroka og dómsýki sem undir býr. Hin hulda manneskja skiptir öllu máli, manneskjan sem við sjáum ekki alltaf, manneskjan sem grætur ef til vill í koddann sinn á kvöldin og það er um hana sem spurt er að leikslokum.

Þennan nýja boðskap og þessa nýju kröfu Jesú má einnig finna hjá spámönnum G.T. þegar þeir benda þjóðinni á tvískinnungshátt þeirra sem hafa lífin tvenn, dýrka Guð með vörum, en hatast svo út í náungann og eru með blóðbragð í munninum af heift og grimmd. Öll erum við að einhverju leyti sek á þessu sviði og þurfum sannarlega að skoða huga okkar vel og vera ærleg í afstöðunni til okkar sjálfra, vera tilbúin til að gagnrýna okkur sjálf, viðurkenna eigin bresti, biðja samferðarfólk okkar fyrirgefningar þegar það á við og æfa okkur í þeirri list, að biðja fyrir þeim sem okkur finnst við eiga sökótt við. Ég held að ég geti fullyrt að sjálfsskoðun af þessu tagi sé einnig grundvöllur hins sanna þroska. Heilsteyptar, andlega heilar og þroskaðar manneskjur eru einmitt oft
skemmtilega hreinskilnar um sjálfar sig, galla og kosti, og geta fjallað um líf sitt af kímni og hlegið að sjálfum sér. Kímnin getur sýnt að viðkomandi manneskja geti horft á sjálfa sig eins og hún er og sé búin að sættast við sjálfa sig. Sá sem getur gert grín að sjálfum sér er líka fær um að horfa á eigið líf á raunsæjan hátt. Kristinn maður á að skoða bresti sína og viðurkenna þá og ef hann temur sér það lærir hann hlutlæga hugsun og hefur þá
væntanlega tilhneygingu til að taka sjálfan sig ekki of alvarlega.

Mér kemur æ ofan í æ í huga sú staðhæfing og aldna speki sem segir að sá sem skilji aðstæður annarra fyrirgefi fúslega. Það er t.d. ljóst að uppeldisaðstæður fólks eru misjafnar, sumir alast upp við harðneskju og óréttlæti og hugsa náunganum þegjandi þörfina upp frá því og gera svo einhvern óskunda, stundum svo mikið að varðar við lög ríkisins. Aðrir fá útrás fyrir heift sína með því að naga og narta í náungann og enn aðrir eru stöðugt á varðbergi og telja að ætíð sé verið að sækja að þeim, sitja um þá og reyna að koma þeim á kaldan klaka í litlu sem stóru. Aðrir fá laka fyrirmynd, enn aðrir eru nánast fyrirfram gerðir að vandamálum, ómeðvitað látnir strax í æsku ganga inn í hlutverk sem vinnur gegn þeim. Uppeldisáhrif, fyrirmyndir og innri og ytri aðstæður skipta hér mjög miklu máli. Fólk er oft í aðstöðu, sem er því ekki meðfædd eða
sem það hefur ekki á yfirvegaðan hátt valið sér sjálft. Það ættum við að muna.

Við ættum því að forðast að dæma fólk, í fyrsta lagi af því að við þekkjum ekki allar aðstæður þess, í öðru lagi vegna þess að það er oft ekki hægt að vera óhlutdrægur í dómum um aðra og í þriðja lagi vegna þess að í sjálfu sér er enginn nógu góður til að setjast í dómarasæti yfir náunganum. Það er enginn tilbúinn að kasta fyrsta steininum. Setjum okkur því í spor náungans og reynum að skilja vanda hans. Þannig verðum við miskunnsöm.

Sagan segir að þegar Grikkir þurftu að dæma í flóknum og viðkvæmum málum hafi dómur verið haldinn í myrkri, þannig að hvorki dómari né kviðdómur gátu séð hinn ákærða. Þannig átti að firra þá öllum óþarfa utanaðkomandi áhrifum og um leið gera
þeim kleift að íhuga málavexti óhlutdrægt. Þannig væri okkur einnig hollt að horfa á málefni hvers annars.
IV

Í dag er samúð og miskunn gagnvart hvert öðru á dagskrá. Án samúðar og miskunnsemi væru engin sjúkrahús til, án samúðar væri engin félagsleg aðstoð til, án samúðar væri engin þróunar- eða neyðarhjálp til, án samúðar væru engin lög til sem verja rétt og hindra órétt, án samúðar væri öllum sama um allt og alla, án samúðar væri allt í kalda koli. Án samúðar væri maðurinn einn og yfirgefinn í tilgangslausri naflaskoðun. Án samúðar værum við ekki mennsk. Í samúðinni verðum við að manneskjum og finnum
tilgang lífsins. Samkenndin, samhygðin, samúðin og tengslin við annað fólk vekja með okkur hina einu réttu tilfinningu fyrir lífinu sjálfu, því lífi sem er einhvers virði. Guð býr einmitt mitt í tengslum fólks. Við finnum Guð í samkenndinni með öðrum og hann kemst
að fólki með hjástoð okkar við hvert annað.

Á samúðin undir högg að sækja í okkar samfélagi? Það er eðlilegt að spyrja þannig þegar rætt er um samúð og miskunnsemi. Í stofnunum samfélags okkar eru að verki þeir eiginleikar sem vinna á grundvelli boðunar kirkjunnar um samúð og kærleika. Gleymum því ekki að í stjórnarskrá Íslands er tryggt að stjórnvöld vinni á grundvelli hins forna einingarbands þjóðarinnar, kristinnar siðfræði. Það er því gott að búa á Íslandi. Það er gott að vera Íslendingur. Kristin lífsviðhorf, kristið gildismat og siðferði eru hornsteinar hins íslenska samfélags. Ef brestir koma í þá hornsteina eða ef þeir hverfa er hætt við að þeir komist til valda sem dæma hart og af miskunnarleysi, jafnvel í nafni trúar, og þá er
líka hætt við því að íslenskt samfélag dali. Íslenskt samfélag er byggt á grundvelli kristinnar trúar og kristinna lífsviðhorfa, kristinnar siðfræði og í samfélaginu hefur miskunnin vinninginn þegar á reynir þó einn og einn dragi sig út úr og dæmi af hörku og
miskunnarleysi. Stundum – og þetta þurfum við að muna vel – eru það við sjálf sem erum miskunnarlaus gagnvart okkur sjálfum. Við þurfum líka að fyrirgefa sjálfum okkur og vera miskunnsöm og taka þeirri fyrirgefningu og því tilboði sem við fáum um að byrja upp á nýtt. Við þurfum stundum að vera ofurlítið betri við okkur sjálf. Hættan er líka sú, að við sjálf sofnum á verðinum, verðum eins og svefngenglar vanans. Sífelt hraðari og beinni fréttaflutningur beint inn í stofu af hörmungum í stríðshrjáðum löndum kann að deyfa með okkur þá hugsun að við eigum að aðhafast eitthvað. Samúðin getur þannig orðið að tilfinningunni einni, sem við sitjum uppi með án þess að geta nokkuð gert.

Mér sýnist líka margt í menningu okkar um þessar mundir stuðla beinlínis að eigingirni og vissri einangrun. Vægðarlaus verslunarmennska með þaulhugsuðum auglýsingum getur
stundum leitt af sér þá hyggju, að við eigum bara að hugsa um okkur sjálf og sennilega þarf nokkurn þroska og innri staðfestu til að standast gylliboðin mörgu. En fyrr eða síðar komast nú flestir að því að hamingjan og farsældin eru eftir allt saman fólgin í að tengjast öðru fólki, vera vinur í raun, gleðjast með glöðum og gráta með sorgbitnum, í einu orði: samúð.

Gætum að því sem við tökum inn í líf okkar. Við eigum að sækjast eftir því sem hefur eilíft gildi og lýsa upp líf okkar með fordómalausri ást og samkennd með náunganum. Allt slíkt stenst tímans tönn og safnast upp sem raunverulegur fjársjóður. Slíkan fjársjóð fær hvorki mölur né ryð grandað. Slíkur fjársjóður verður ekki tekinn frá okkur.

Boðskapur dagsins er því þessi: Lítum í eigin barm áður en við dæmum aðra eins og fræðimennirnir og farísearnir neyddust til að gera og munum að enginn er svo endanlega forsmáður og dæmdur að hann geti ekki fyrir samúð og miskunnsemi snúið við blaðinu, byrjað nýtt líf og öðlast ný tækifæri í sátt við Guð og menn eins og sagan um konuna í guðspjalli dagsins greinir frá.

Ræðan var flutt 13. júlí 2003 í útvarpsmessu frá Þingvallakirkju, á 4. sunnudegi eftir þrenningarhátíð. Sr. Kristinn er sóknarprestur í Hraungerðisprestakalli í Flóa og er að
auki settur í sumar til aukaþjónustu í Þingvallaprestakalli. Þessi ræða var að nokkru flutt út frá minnispunktum, en ekki orðréttum texta. Textinn byggir á hljóðupptöku RÚV og er á nokkrum stöðum vikið ofurlítið frá hljóðupptöku. Höf.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3301.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar