Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Karl Sigurbjörnsson

Leifturmyndir frá ferð lausnarans

29. júní 2003

Nú fullnaðist brátt sá tími, er hann skyldi upp numinn verða. Beindi hann þá augum til Jerúsalem, einráðinn að fara þangað. Og hann lét sendiboða fara á undan sér. Þeir fóru og komu í Samverjaþorp nokkurt til að búa honum gistingu. En þeir tóku ekki við honum, því hann var á leið til Jerúsalem. Þegar lærisveinar hans, þeir Jakob og Jóhannes, sáu það, sögðu þeir: Herra, eigum vér að bjóða, að eldur falli af himni og tortími þeim?

En hann sneri sér við og ávítaði þá og sagði: Ekki vitið þið, hvers anda þið eruð. Mannssonurinn er ekki kominn til að tortíma mannslífum, heldur til að frelsa. Og þeir fóru í annað þorp.

Þegar þeir voru á ferð á veginum, sagði maður nokkur við hann: Ég vil fylgja þér, hvert sem þú ferð.

Jesús sagði við hann: Refar eiga greni og fuglar himins hreiður, en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla. Við annan sagði hann: Fylg þú mér!

Sá mælti: Herra, leyf mér fyrst að fara og jarða föður minn.

Jesús svaraði: Lát hina dauðu jarða sína dauðu, en far þú og boða Guðs ríki.

Enn annar sagði: Ég vil fylgja þér, herra, en leyf mér fyrst að kveðja fólk mitt heima.

En Jesús sagði við hann: Enginn, sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur, er hæfur í Guðs ríki. (Lúk. 9, 51 – 62)

Nú fullnaðist brátt sá tími, er Jesús skyldi upp numinn verða. Beindi hann þá augum til Jerúsalem, einráðinn að fara þangað. Og hann lét sendiboða fara á undan sér. Þeir fóru og komu í Samverjaþorp nokkurt til að búa honum gistingu. En þeir tóku ekki við honum, því hann var á leið til Jerúsalem. Þegar lærisveinar hans, þeir Jakob og Jóhannes, sáu það, sögðu þeir: „Herra, eigum vér að bjóða, að eldur falli af himni og tortími þeim?“

En hann sneri sér við og ávítaði þá [og sagði: „Ekki vitið þið, hvers anda þið eruð. Mannssonurinn er ekki kominn til að tortíma mannslífum, heldur til að frelsa.“] Og þeir fóru í annað þorp. Þegar þeir voru á ferð á veginum, sagði maður nokkur við hann: „Ég vil fylgja þér, hvert sem þú ferð.“

Jesús sagði við hann: „Refar eiga greni og fuglar himins hreiður, en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla.“ Við annan sagði hann: „Fylg þú mér!“

Sá mælti: „Herra, leyf mér fyrst að fara og jarða föður minn.“ Jesús svaraði: „Lát hina dauðu jarða sína dauðu, en far þú og boða Guðs ríki.“ Enn annar sagði: „Ég vil fylgja þér, herra, en leyf mér fyrst að kveðja fólk mitt heima.“ En Jesús sagði við hann: „Enginn, sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur, er hæfur í Guðs ríki.“

• • •

Lúkas bregður upp leifturmyndum frá ferð lausnarans upp til Jerúsalem. Við skulum hlusta eftir því sem hann er að segja, af því að ferðasaga hans snertir lífssögu okkar, öll erum við á ferð. Við heyrum af fólki sem verður á vegi Jesú. Við heyrum um mann sem kemur til hans og biður þess að fá að fylgja honum.- en sem Jesús hafnar. Við heyrum um aðra tvo, sem Jesús kallar á, og sem bregðast jákvætt við, en með fyrirvara þó. Við heyrum um fólk, sem hafnar Jesú, og reiði lærisveina hans yfir því, sem minna okkur á hve oft við erum fljót að dæma hart, og minna Guð á skyldur hans að bregðast við, hegna, refsa öðrum. Við heyrum svör Jesú í þesum mismunandi aðstæðum, sem vekja furðu okkar, því að þau virðast stangast á og vera mótsagnakennd. Og við verðum ráðvillt og hissa. “Hvað meinar maðurinn?”

„Ég vil fylgja þér hvert sem þú ferð.“ Jesús lætur hann heyra hvað það getur kostað. Hvurslags markaðsetning boðskaparins er þetta? Hann fer að minna á að meistarinn er heimilislaus, Mannssonurinn er utangarðs og allsvana. Jatan var fyrsta hæli hans og krossinn hið hinsta hér á jörðu. Og hins sama geti fylgjendur hans vænst.

Jesús varar þennan velviljaða mann við, mann sem hefur heillast af boðskap Jesú og lífi og viljað fylgja honum á sigurför hans og njóta þeirrar blessunar sem fylgdi skrefum hans. Hann fær að heyra, að þessi sigurför er leið niðurlægingar, þjáningar, dauða. Og orð Jesú um fátækt og umkomuleysi mannssonarins lýsa djúpum sársauka. Sársauka kærleikans, sem þráir að frelsa, en veit að hjálp hans er afþökkuð, honum hafnað. Vegna þess kærleika, umhyggju, afsalaði mannssonurinn sér öllu og og gjörðist fátækur vor vegna. Það var vegna þess að svo elskaði Guð heiminn. Hann, allt vald er gefið á himni og á jörðu, hann afsalaði sér öllu og axlaði byrðar þess sem ekkert á og allt hefur misst, til að gefa það allt margfalt, líf sem eilíft er, líf í fullri gnægð.

„Fylg þú mér!“ segir Jesús við annan mann. Sá svarar aftur á móti: „leyf mér fyrst að fara og jarða föður minn!“ Svar Jesú er svo óskiljanlega hart og kalt: „Lát hina dauðu jarða sína dauðu“. Nú ætlaði maðurinn aðeins að fullnægja sjálfsagðri frumskyldu við fjölskyldu sína. Jesús lætur hann heyra að krafa Guðsríkisins er algjör og hefur forgang. Þessi óbilgirni er óþol kærleikans, sem sér að um líf og dauða er að tefla. Orðin eru jafnframt dómur yfir þeim sem lifa í viðjum vanans og hefða og heyra ekki né skilja að tíminn er fullnaður og Guðsríki er í nánd og allt er orðið nýtt þar sem LÍFIÐ SJÁLFT, stendur til boða. Náðarstund kallast það og hjálpræðisdagur, þetta andartak þegar örlög ráðast, því eilífðin er ekki „seinna“ eða “ sjáum til“ eða “kannski, ef…” heldur þetta andartak sem er, þar sem Guð og maður mætast NÚ. Og að hika þar er sama og að tapa.

Trúarlíf margra er aðeins minning um eitthvað sem var, sem maður ornar sér við á góðri stund, eða vænting til einhvers í óræðri framtíð. Og þó eigum við ekkert nema andartakið sem er nú. Hið liðna er okkur úr greipum gengið og enginn veit hvort önnur stund gefst. Það er hægt að missa af, “Í dag við skulum skipta um skjótt skal synd á flótta rekin. Hver veit nema sé nú í nótt náðin á burtu tekin.” Segir í Passíusálmunum.

Þessar myndir sýna okkur að á vegi trúarinnar feta ekki allir sama stíg. Jesús hefur séð og skynjað það að baki bjó beiðnum og viðbrögðum þessara manna, og hann veit hvað þeim er fyrir bestu. Það ræður svörum hans og viðbrögðum.

• • •

Leifturmyndir frá langri ferð lausnarans til krossins, og áfram lengra, til upprisunnar. Ef til vill hafa þessi leiftur varpað ljósi á einhverja mynd frá þinni ferð, lífs för þinni og ævileið. Þar hefur hann verið í nánd, kallað þig til fylgdar, heyrt játningar þínar, séð viðbrögð þín. Hugsanlegt er að þú hafir heyrt orð hans eða skynjað þögn hans sem höfnun, og áföllin sem reiðarþrumu og refsidóm. Nei, mannssonurinn er kominn til að líkna, en ekki refsa, hann var ekki að hafna þér eða vísa þér á bug. En ef til vill var hann að benda þér á nauðsyn þess að vaxa í trúnni, dýpka skilning þinn, glæða kærleik þinn. Minnast þess að eitt er nauðsynlegt.

Guðspjall dagsins er gott og heilnæmt veganesti til okkar á þeim vegamótum sem við stöndum á hér í dag, við djákna og prestsvígslu. Kirkjan gleðst með ykkur og gleðst yfir ykkur, kæru vígsluþegar, og við samfögnum ástvinum ykkar og söfnuðunum, sem fá ykkur sem þjóna, hirða og samverkamenn. Guð sem kallaði ykkur á þennan veg fylgi ykkur í því sem framundan er með náð sinni og friði.

Það eru tímamót á vegferð kirkjunnar þegar nýir liðsmenn eru kvaddir til verka. Þið, ungu konur, prestar og djákni, gefa fyrirheit um framtíð biðjandi, boðandi og þjónandi kirkju. Hlustið á hvað Jesús segir í guðspjalli dagsins. Orðin hörðu og óvægu, og orðin mildu og hlýju. Orð mannssonarsins sem gaf líf sitt heiminum til lífs. Mannssonarins sem kom til að leita að hinu týnda til að frelsa það, nema staðar hjá hinu hrjáða til að lækna og reisa á fætur, taka börnin sér í faðm og blessa þau, ganga raunaveginn á enda, axla syndagjöldin, líða dauðans kvöl á krossi.

“Fylg þú mér!” segir hann við þig, þig sem hann hefur verið að kalla allt frá móðurlífi. Skírnin þín minnir á það. “Ég vil fylgja þér, hvert sem þú ferð!” segir þú nú við hann, mannssoninn sem á hvergi höfði sínu að að halla. Jú, þar sem umhyggjan er styrkur og sál trúarinnar og beinir skrefum manns, huga og hönd, þar á hann athvarf. Þar sem fyrirgefningin er, mildin og miskunnsemin, Þar á hann heima. Stýri Drottinn skrefum okkar á þann veg í frelsarans Jesú nafni. Amen.

Karl Sigurbjörnsson er biskup Íslands. Flutt við prests- og djáknavígslu í Dómkirkjunni, á 2. sunnudegi eftir þrenningarhátíð, 29. júní 2003. Þá var Arna Grétarsdóttir, vígð prestur í Seltjarnarnesprestakalli, Ragnheiður Karítas Pétursdóttir, sóknarprestur í Ingjaldshólsprestakalli og Magnea Sverrisdóttir, djákni til Hallgrímskirkju.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2806.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar