Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Sigurður Pálsson

Börnin og mengun hugarfarsins

1. júní 2003

Á þeirri stundu komu lærisveinarnir til Jesú og spurðu: „Hver er mestur í himnaríki?“ Hann kallar til sín lítið barn, setti það meðal þeirra og sagði: „Sannlega segi ég yður: Nema þér snúið við og verðið eins og börn, komist þér aldrei í himnaríki. Hver sem auðmýkir sjálfan sig eins og barn þetta, sá er mestur í himnaríki. Hver sem tekur á móti einu slíku barni í mínu nafni, tekur við mér. Matt. 18. 1-5

Húsið mitt

Ég sat með dótturdóttur mína í fanginu og var að lesa fyrir hana bók sem nýlega hafði borist inn á heimilið. Bókin hét Húsið mitt og var kynnt sem liður í forvarnarstarfi. Forseti lýðveldisins ritar formála og fyrrverandi menntamálaráðherra ritar eftirmála, báðir hvetja foreldra til meðvitundar um uppeldi barna sinna og þau áhrif sem til heilla mega horfa.

Húsið mitt stendur fyrir líkamann og í bókinni er hvatt til þess að ganga þrifalega um þetta hús og hleypa þar engu inn sem geti spillt ágæti þess eða veikt stoðir þess. Hreinlæti og holl næring er dagskipanin. Allt var þetta í sjálfu sér gamalkunnugt, en mikilvægt eigi að síður. Það vakti hins vegar athygli mína að einnig var þarna rætt um það sem óhreinkar hugann. Söguhetjan horfir á kvikmynd í sjónvarpi sem bönnuð er börnum og myndin veldur barninu andvöku. Hugur þess hafði verið óhreinkaður og það olli barninu angri og skelfingu. Og síðan segir móðir barnsins:

„Reyndu að hætta að hugsa um þetta, það var bara bíómynd.“
„Hún er föst inni í höfðinu á mér, snökti Steini.“
„Við skulum fara með bænirnar, þá líður þér betur,“ sagði mamma.

Morguninn eftir fer hann aftur að hugsa:

„Þetta vonda sem skemmir og óhreinkar húsið mitt getur líklega bæði komið inn um augun og eyrun.“

Síðan tekur hann mynd sem hann hafði teiknað af húsinu sínu og teiknar á hana varðmenn við gluggana og segir: „Þið eigið að passa að ég horfi ekki á neitt ljótt og hlusti ekki á neitt andstyggilegt.“

Þetta minnti mig á gamlan barnasöng sem ég hef ekki heyrt lengi.

Gættu að þér litla eyra hvað þú heyrir.
Gættu að þér litla auga hvað þú sérð.
Gættu að þér litli munnur hvað þú segir o.s. frv.,
því að Guð vor himnum á horfir litlu börnin á, gættu að þér o.s. frv.

Kannski hefur þessi barnasöngur þagnað vegna þess að ekki hefur þótt heppilegt að gera Guð að njósnara sem börnin óttuðust. Það má enda rétt vera. En skilaboðin eru hin sömu.

Allt um það, þá kvað þarna í bókinni við tón sem hefur ekki verið ýkja vinsælt að slá í uppeldisumræðunni og þaðan af síður í þjóðfélagsumræðunni, en það er umræða um mengun hugarfarsins. Umræða um ill áhrif sem móta viðhorf og gildismat og líkleg eru til að brjóta niður fremur en byggja upp, spilla fremur en bæta.

Mengun hugarfarsins

Oftar en ekki, þegar kirkjan hefur kvatt sér hljóðs um þessi efni, hefur hún verið púuð niður fyrir þröngsýni og afturhaldssemi. Sem dæmi má taka þegar kirkjan varaði við fylgifiskum kynlífsbyltingarinnar og var púuð niður og sökuð um fjandskap gegn lífinu og frelsinu. Nú hafa róttækir feministar brýnt raustina í andófi gegn kynlífsvæðingu auglýsinga- og afþreyingariðnaðarins og tískufataiðnaðarins. Þær sjá í þessum straumi tímans kvenfyrirlitningu, hlutgervingu kvenlíkamans og brenglun á afstöðu hugarfarsins til konunnar og til kynlífsins, sem hvort tveggja hefur verið gert að söluvöru, og þær benda á þetta sem fjandskap við lífið og frelsið.

Það er vel að mengun hugarfarsins skuli komin á dagskrá.

Með sunnudagsblaði Morgunblaðsins barst okkur nú um helgina sérprent sem nefnist Andaðu léttar. Þetta er áróðurs- og fræðslurit gegn reykingum, gegn mengun andrúmsloftsins. Það er langt síðan þeim skilaboðum var komið á framfæri að reykingar væru ekki einkamál reykingamanna, þeir væru einnig að menga andrúmsloft þeirra sem í kringum þá eru og margs konar hömlur hafa verið settar á möguleika reykingamanna til að menga andrúmsloftið fyrir náunga sínum. En mengunarvarnir hugarfarsins eru skemmra á veg komnar og vitund þeirra sem trúað er fyrir börnum hefur ekki vaknað að sama skapi til verndar hugarfarinu.

Uppeldishlutverk fjölskyldunnar

Norskir uppeldisfræðingar, sem ég hef verið að glugga svolítið í undanfarin ár og hafa einkum sérhæft sig í uppeldishlutverki fjölskyldunnar, hafa í ritum sínum sett fram athyglisvert hringlaga líkan um fjölskylduuppeldið. Í innsta kjarna er barnið og utan um það er tvöfaldur hringur, skyggður, sem á að tákna fjölskyldu barnsins og þá skyldu foreldranna að vernda barnið fyrir hverjum þeim áhrifum sem geta verið því óheillavænleg. Fjölskyldan er þannig táknuð sem eins konar mengunarvörn.

Grundvöllur hugmynda þeirra er að barnið er á ábyrgð foreldra sinna eða nánustu fjölskyldu fyrst og fremst Foreldrarnir hafa þá skyldu að næra barnið til líkama og sálar þannig að það vaxi upp sem heilbrigður einstaklingur til líkama og sálar og verði fært um að fóta sig í veröldinni sem sjálfstæður einstaklingur og tekið við eða varist áhrifum frá umhverfinu þegar verndarhlutverki fjölskyldunnar lýkur.

Hlutverk uppalandans er fyrst og fremst að hafa þroska- og heillavænleg áhrif, skapa hreint og heilnæmt andrúmsloft, gefa barninu færi á að anda að sér viðhorfum og gildismati sem gera það að heilsteyptum einstaklingi og síðan að draga úr vernd sinni eftir því sem barninu eykst þroski og dómgreind. Þetta eru í sjálfu sér ekki ný sannindi en þarft að minna á þau sífellt, jafnvel þótt við vitum öll að fleira ræður farnaði barna okkar en heimilisuppeldið. Það er þó það veganesti sem drýgst er og best dugar sé til þess vandað.

Mér finnst sem djarfi fyrir vitundarvakningu í íslensku þjóðfélagi, vitundarvakningu um mikilvægi fjölskyldunnar í uppeldi uppvaxandi kynslóðar. Baráttan fyrir jöfnum rétti fólks til menntunar og starfa sem hugurinn stendur til, óháð kynferði, hefur á liðnum áratugum að mínu mati skilið eftir utan garðs baráttuna fyrir rétti barnsins til umönnunar og uppeldis í skjóli fjölskyldu sinnar. Réttur barnsins til foreldra sinna og fjölskyldu hefur oftar en ekki vikið fyrir kröfunni um rétt foreldranna til að njóta sín. Þannig hafa börnin oft og tíðum orðið afgangsstærð í íslensku þjóðfélagi liðinna áratuga.

Að tengjast annarri manneskju

Á síðustu árum hafa svo kallaðar tengslakenningar orðið æ fyrirferðarmeiri innan tiltekinna greina sálfræðinnar. Þær ganga út frá þeirri forsendu að meginviðfangsefni manneskjunnar sé ekki, eins og gjarnan var sett á oddinn áður fyrr, að fá frumhvötum sínum fullnægt, heldur að fá fullnægt þörf sinni fyrir að tengjast annarri manneskju. Grundvöllurinn að þessum tengslum er lagður í nánu tilfinningasambandi foreldra og barns. Slík tengsl komast ekki á nema þeim sé sinnt og þau ræktuð. Til þess þarf tíma, mikinn tíma. Í tímasnauðu og strekktu þjóðfélagi þarf að forgangsraða viðfangsefnunum. Í þeirri forgangsröð eiga börnin að vera efst á blaði. Við getum ekki framselt öðrum þessar skyldur að rækta tengslin við afkvæmi okkar.

Grundvöllur heilbrigðrar sjálfsmyndar liggur í þessum tengslum, grundvöllur siðgæðisins liggur í því hvaða lífsviðhorfum, gildismati og siðferði er miðlað með þessum tengslum, í þessum samskiptum. Forsenda sjálfstæðis síðar meir grundvallast á því öryggi sem slík tengsl veita í frumbernsku. Réttur barnsins er fyrst og fremst réttur þess til tilfinningalegra tengsla og öryggis í skjóli sinna nánustu. Slík tengsl ásamt hollu andlegu viðurværi eru áhrifaríkustu mengunarvarnir hugarfarsins.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna orðar þetta meðal annars svona: „Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna að til að ná fullum samstilltum þroska persónuleika síns eigi börn að alast upp innan fjölskyldu við hamingju, ást og skilning.“ Og síðar í sáttmálanum segir að þessi ríki hafa sett sér að: „…stuðla að því að mótaðar verði viðeigandi leiðbeiningareglur um vernd barna fyrir upplýsingum og efni sem skaðað getur velferð þeirra.“

Þessar mengunarvarnir hugarfarsins eru vandmeðfarnar, en drýgstar eru þær ef samstillt almenningsálit líður ekki að siðferðilegum óhroða sé hellt yfir börnin okkar í nafni frjálsrar fjölmiðlunar.

Jesús og börnin

Hver sem tekur á móti einu slíku barni í mínu nafni, tekur á móti mér, sagði Jesús Kristur í guðspjallinu sem lesið var. Í tilefni þessa dags barnanna á kirkjulistahátíð, tók ég mig til og rifjaði upp rit sem gefið var út af heimsráði kirkna í tilefni af alþjóðlegu ári barnsins árið 1979. Ritið heitir Jesús og börnin. Viðfangsefni þess er að rýna í þá texta í Nýja testamentinu sem fjalla um þetta efni, Jesús og börnin, bæði samskipti Jesú við börn og þá ritningarstaði þar sem Jesús talar um börnin.

Í ljósi gyðinglegra hefða og í ljósi þeirra viðhorfa sem ríktu í grísk- rómverskri menningararfleifð á dögum Jesú og á fyrstu öldum kristninnar, staðhæfir höfundur að Jesús hafi komið með alveg nýtt viðhorf til barnsins, þ.e. að viðurkenna barnið á forsendum þess sjálfs sem barns, en ekki á forsendum þess sem það á eftir að verða. Og það sem meira er, höfundurinn staðhæfir að það sé einstakt, hvernig Jesús undirstrikar að börnin séu á sérstakan hátt fulltrúar hans. „Hver sem tekur á móti einu slíku barni í mínu nafni, hann tekur á móti mér,“ - slík er sérstaða barnins í kristinni trú. Höfundurinn óttast að jafnvel enn í dag hafi kirkjan ekki skilið til fulls hvað þetta merkir í raun og veru.

En þrátt fyrir það, er ljóst að kirkjan tekur barnið fullgilt sem meðlim safnaðarins, um það ber barnaskírnin vitni. Til að vera fullgildur meðlimur hins kristna safnaðar þarf ekki að uppfylla tiltekin þroskaskilyrði. „Leyfið börnunum að koma til mín, því að slíkra er Guðs ríki.“ Flóknara er það ekki. Kirkjan þarf sífellt að minna sig á þetta.

Kölluð til að vera börn í leik og gleði

Á sinni tíð andmælti Marteinn Lúther samtíma viðhorfum hins kristna húmanisma að börn fæðist ekki manneskjur heldur verði að ala þau upp til að verða manneskjur. Lúther undirstrikaði að barnið hefur manngildi í sjálfu sér. Og í köllunarguðfræði sinni segir Lúther að barnið hafi þá köllun frá Guði að vera barn og sinnir þeirri köllun sinni í leik og gleði. Barnið er skapað til að leika sér og köllun þess er að gera einmitt það.

Það er hátíð barnanna í Hallgrímskirkju í dag. Ég er glaður yfir því. Þau bera uppi helgihald dagsins með list sinni og leik sem fullgildir meðlimir hins kristna safnaðar. Við sjáum það í barnastarfi og tónlistarstarfi kirkjunnar að börnunum getur orðið það jafntamt að taka þátt í kristnu helgihaldi og stíga spor á dansgólfi, fái þau tækifæri til að iðka það, eða finnst ykkur nokkur viðvaningsbragur á því sem þessi börn leggja hér fram til helgihaldsins í dag?

Tengd í skírn

Ég valdi texta dagsins með hliðsjón af því að þetta er dagur barnanna. Textinn úr Gamla testamentinu var frásagan af Hönnu, sem þráðí ekkert heitar en að eignast barn. Þegar bæn hennar var heyrð, færði hún Guði drenginn sinn til þjónustu. Hvað gerum við flest þegar okkur hafa gefist börn? Við færum þau Guði í heilagri skírn, merkjum þau honum, leiðum þau til fundar við hann í bæn og trú. Tengjum þau honum með því að kenna þeim bænir og ala þau upp í trausti til hans, sem sagði: „Leyfið börnunum að koma til mín.“

Og kaflinn sem lesinn var úr seinna Tímóteusarbréfi minnti okkur á mikilvægi hins trúarlega uppeldis. Hin trúarlega uppeldismótum Tímóteusar var arfur frá ömmu hans og móður. Börn verða aldrei alin upp til trúar, aðeins í trú - og hinar trúarlegu erfðir skipta máli, um það vitnar reynsla kynslóðanna og einnig fræðilegar rannsóknir.

En rannsóknir benda einnig til að þeir sem alast upp í trú eiga á margan hátt erfiðara með að varðveita arfinn sinn að heiman en þeir sem alast upp í guðleysi. Hvers vegna skyldi það vera? Margt bendir til að það sé vegna þess að þau áhrif sem sterkust eru í menningarumhverfinu styðji illa við hinn trúarlega þátt. Hér hefur kirkjan verk að vinna, að stuðla að því að hið heilnæma andrúmsloft kristinnar trúar sé börnunum okkar tiltækara en sú stybba siðleysis og guðleysis sem mengar andrúmsloftið í samtíðinni. Þegar um er að ræða gildismat og lífsviðhorf í uppeldi, er ekkert hlutleysi til. Við erum undir öllum kringumstæðum að miðla sjálfum okkur og eigin viðhorfum til til barnanna okkar, ýmist beint eða óbeint. En menningarumhverfið er því miður oftar en ekki mengað, það spillir.

Hreinsun andrúmsloftsins

Kirkjan skuldar íslenskum foreldrum stuðning í viðleitni þeirra til að hreinsa það andrúmsloft sem börnin alast upp í og hún skuldar þeim stuðning í viðleitni þeirra til að börnin varðveiti þá fylgd við Krist sem hófst þegar barnbörnin voru færð honum í heilagri skírn. Sá stuðningur er þeim mun brýnni sem andrúmsloft samtímans verður mengaðra af guðlausu lífsviðhorfi og bregnluðu gildismati. Ég á mér þann draum að kirkjan verði í forystu þeirra sem berjast fyrir rétti barna til þess að alast upp í siðferðilega ómenguðu andrúmslofti.

Í Lesbók Morgunblaðsins í dag er viðtal við breskan heimspeking, sem sagður er meðal athyglisverðustu heimspekinga Bretlands nú um stundir. Af viðtalinu má ráða að hann sé meðal annars í sínum fræðum að fást við spurninguna um merkingu lífsins. Haft er eftir honum að heimspekin nú á dögum grundvallist á vonbrigðunum sem við urðum fyrir þegar við glötuðum trúnni og merkingunni sem hún gaf lífinu. Nú snúist heimspekin um að ljá lífinu einhverja aðra merkingu. - Og heimspekingurinn segir: „Þegar við höfum misst trúna, þá stöndum við frammi fyrir merkingarleysinu. Í stað þess að fyllast angist eða vonleysi frammi fyrir þessaari staðreynd þá vil ég halda því fram að merkingarleysið sé ákveðinn áfangi.“

Helst er á þessum merka heimspekingi að skilja að fagnaðarerindi heimspeki hans sé að sætta manninn við merkingarleysið. Fagnaðarerindi kristninnar er hins vegar sem fyrr að benda manninum á að lífið hefur þá merkingu helsta að þjóna Guði og náunganum í kærleika. Þá merkingu vill kristin kirkja og kristnir foreldrar að börnin þeirra taki í arf. Ég hef þá trú að maðurinn sætti sig aldrei við merkingarleysi veru sinnar. Ég hef hins vegar ekki þá trú að nútíma heimspekistefnur leysi fagnaðarerindi kristinnar trúar af hólmi fremur en aðrar heimspekistefnur sem koma og fara.

Það er tekist á um börnin okkar, lífsviðhorf þeirra og gildismat. Kirkjan á að vera virkur þátttakandi í þeim átökum, barnanna vegna, sannfærð um að erindi hennar sé börnunum okkar til góðs og dýrmæt vörn gegn mengun hugarfarsins. Við þurfum sífellt að minna okkur á orð Jesú Krists: „Leyfið börninum að koma til mín,“ og „hver sem tekur á móti einu slíku barni í mínu nafni tekur á móti mér.“

Sigurður Pálsson (sigurdur.palsson@hallgrimskirkja.is) er sóknarprestur í Hallgrímskirkju. Þessi prédikun var flutt í messu á degi barnanna á Kirkjulistahátíð, 1. júní 2003.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3566.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar