Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Skammvinn og léttbær

14. maí 2003

Fyrir því látum vér ekki hugfallast. Jafnvel þótt vor ytri maður hrörni, þá endurnýjast dag frá degi vor innri maður. Þrenging vor er skammvinn og léttbær og aflar oss eilífrar dýrðar sem stórum yfirgnæfir allt. Vér horfum ekki á hið sýnilega, heldur hið ósýnilega. Hið sýnilega er stundlegt, en hið ósýnilega eilíft. 2.Kor.4. 16-18

Góð systkin

Þessi morgunlestur byrjar á hvatningunni að láta ekki hugfallast þó að við , - sérstaklega við sem eldri erum, - finnum að vor ytri maður hrörnar. Við eldumst og líkaminn lætur ekki að stjórn með sama hætti og þegar við vorum börn og unglingar.

Þessi hvatning kemur ekki óvænt í bréfi Páls, heldur hefur hún afmarkaða og alveg skýra forsendu. Orðin: Fyrir því - vísa beint í versið á undan:

Vér vitum, að hann, sem vakti upp Drottin Jesú, mun einnig uppvekja oss ásamt Jesú og leiða oss fram ásamt yður. Allt er þetta yðar vegna, til þess að náðin verði sem mest og láti sem flesta flytja þakkargjörð Guði til dýrðar. (v. 14-15).

Þessi síðasta setning er nú alveg tilsniðin sem áminning til miðvikudagssafnaðarins hér að muna eftir því að skipta með sér verkum svo að sem flest okkar komist að með það sem við höfum hvert og eitt fram að færa. Látið okkur líka vita hvort þið viljið annast hugleiðingu, bæn, útdeilingu eða forsöng, eða söfnunarkörfuna.

Þrenging vor er skammvinn og léttbær, segir postulinn.

Það sem hér er sagt um ævi og örlög mannsins og líkama hans í jarðvist sinni er um það þegar hin ytri hrörnun virðist lama kraftinn til verka og hinn ytri maður, hrörnar.

En einmitt það getur orðið að skapandi og ávaxtaríkum kringumstæðum. Það verður hjá þeim sem beina sjónum ekki að hinu stundlega og sjáanlega og forgengilega, - að því sem eyðist og hrörnar og deyr, heldur horfa á hið ósýnilega og eilífa.

Þá vex upp úr hinum sífellda deyjanda hins gamla og ytra manns, hinn innri nýji maður, hinn endurnýjaði maður. Í honum er Kristur að verki sem hinn heilagi sköpunarkraftur og lífskraftur hins nýja lífs.

Það er hið nýja líf sem við erum fædd til í heilagri skírn.

Viljinn til að vakna í morgunn, til að mega ganga á fund Drottins hér við borð hans í Hallgrímskirkju, er viljinn til að mega meir og meir umbreytast til myndar hans. Það er erindi okkar til messu.

Aðeins í sannfæringunni um þessa umbreytingu sem er umbreyting alls hins forgengilega yfir í hið ósýnilega, hið komandi og hið varananlega, aðeins í þeirri sannfæringu getum við sagt:

Þrenging vor- hver sem hún er- er skammvinn og léttbær.

Dýrð sé Guði, Föður og Syni og Heilögum Anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2663.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar