Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Nýmæli

5. mars 2003

Þegar þér fastið, þá verið ekki daprir í bragði, eins og hræsnarar. Þeir afmynda andlit sín, svo að engum dyljist, að þeir fasta. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín.En nær þú fastar, þá smyr höfuð þitt og þvo andlit þitt,svo að menn verði ekki varir við, að þú fastar, heldur faðir þinn, sem er í leynum. Og faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.

Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu, þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela.Safnið yður heldur fjársjóðum á himni, þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela. Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera.Mt.6. 16- 21

Kæri Öskudagssöfnuður.

Hér og nú fer af stað nýtt tilbrigði í helgihaldi borgarinnar. Og ég býð ykkur hjartanlega velkomin til þessa upphafs. Mjór er mikils vísir segir máltækið og við viljum láta það sannast.

Þetta fyrsta skipti er auðvitað ekki allt komið í það horf sem verður og væntanlegt er. Meiningin er að hér leggist margar hendur á eitt og að helst verði aldrei færri en fimm í liði þeirra sem eitthvað hafa fram að færa, - kannski sjö.

Nýmæli í messuhaldi eru hér í raun engin. Þó leggjum við áherslu á tvennt sem er fremur sjaldgæft hér hjá okkur. Við ætlum að deila út friðarkveðjunni og heilsa hvert öðru með orðum Jesú sjálfs að kveldi upprisudagsins. Við gerum það með þeim hætti að við leggjum báðar hendur í hendur hans eða hennar sem við heilsum, - til að aðgreina þessa kveðju frá venjulegu handabandi.

Hitt sem því miður er enn sjaldgæft í guðsþjónustu okkar hér á Íslandi er fórnin, eða samskotin (til hinna heilögu).

Við skjótum saman fyrir brauði og osti te og kaffi, sem við neytum saman hér á eftir og þegar við eigum afgang látum við það renna til góðs málefnis, - við munum geta þess hverju sinni hérðan í frá - ekki núna, - því að líkast til er enginn með eyri á sér þennan morguninn – frekar en við erum vön þegar við förum til messu.

Ég sagði fimm sem leggja saman. Það er vegna þess að það þarf einn að hafa auga með dyrunum, - vegna þess að sum þeirra sem vilja koma geta ekki komið stundvíslega kl. átta, - einhver þarf að lesa lestur dagsins og hugleiða hann, einhver þarf að vera forsöngvari og velja sálma, einhver þarf að taka til fyrirbæn dagsins eða semja hana, og einhver þarf að taka fórnina og aðstoða við útdeilinguna, og svo þarf þar fyrir utan einhver að vera presturinn. Meðhjálpari gætir að stólum og bókum og blöðum og tekur til efni og áhöld altarisgöngunnar.

Þannig getum við deilt með okkur ábyrgðinni og axlað hana saman. Það er hollt fyrir okkur öll.

Messan sjálf á ekki að taka nema hálfa klukkustund. Það á því að vera meginregla að hugleiðingin taki til jafnaðar ekki nema þrjár mínútur. Þau sem eru vön vita að það er miklu erfiðara að semja svo stutta hugleiðingu, en það gerir hlutverk predikarans bara ennþá meira krefjandi og spennandi.

Ástæðan fyrir því að messan er svona stutt er að við viljum eiga saman stund til líkanlegrar næringar eftir hina andlegu. Við förum yfir í safnaðarsalinn sunnanmegin og fáum einfaldan morgunverð áður en við höldum til annarra verkefna og starfa kl. níu. Það þarf ekki mikla spádómsgáfu til að segja fyrir um að það samfélag sem skapast með messu og morgunverði verður öllum þeim sem taka þátt í því afar mikilvægt.

Kæri söfnuður. Þetta var auðvitað ekki hugleiðingin. Hún verður að vera mjög stutt á þessum morgni því að þrjár mínúturnar eru þegar liðnar:

Hugvekja þessa morguns öskudagsins getur líka vel verið stutt. Í guðspjallinu sem lesið var eru tvö megin þemu, - við látum hið fyrra liggja kjurt en snúum okkur að hinu:

Safnið yður fjársjóðum á himni, segir Jesús. Samt lætur hann ekkert uppi um það hvernig það skuli fara fram.

Það er þá líka alveg leyfilegt að spyrja: Er ekki nóg að eiga þann eina fjársjóð á himni sem máli skiptir, - sem er Jesús Kristur.?

Til þess að eignast þann fjársjóð er bara ein leið : Að vera í Kristi. Um það fylgja greinargóðar leiðbeiningar í pistli öskudagsins:

Leggið þess vegna alla stund á að auðsýna í trú yðar dyggð, í dyggðinni þekkingu,í þekkingunni sjálfsögun, í sjálfsöguninni þolgæði, í þolgæðinu guðrækni,í guðrækninni bróðurelsku og í bróðurelskunni kærleika.
Kostið þess vegna því fremur kapps um, bræður, að gjöra köllun yðar og útvalning vissa. Ef þér gjörið þetta, munuð þér aldrei hrasa.
Á þann hátt mun yður ríkulega veitast inngangur í hið eilífa ríki Drottins vors og frelsara Jesú Krists. (2.Pét. 1.2-11).

Þannig skrifar Pétur.

Hið fyrra tema guðspjallsins fær þá einnig svar hjá honum. Hin sanna fasta er ekki fólgin í ytri táknum heldur í innri einlægni þess sem játar að Kristur er Drottinn, og lýtur honum í auðmýkt.

Dýrð sé Guði, Föður og Syni og Heilögum Anda, svo sem var frá upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2487.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar