Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Arna Grétarsdóttir

„Auk oss trú …“

26. janúar 2003

Postularnir sögðu við Drottin: Auk oss trú!

En Drottinn sagði: Ef þér hefðuð trú eins og mustarðskorn, gætuð þér sagt við mórberjatré þetta: Ríf þig upp með rótum og fest rætur í sjónum, og það mundi hlýða yður.

Hafi einhver yðar þjón, er plægir eða hirðir fénað, segir hann þá við hann, þegar hann kemur inn af akri: Kom þegar og set þig til borðs? Segir hann ekki fremur við hann: Bú þú mér kvöldverð, gyrð þig og þjóna mér, meðan ég et og drekk, síðan getur þú etið og drukkið.Og er hann þakklátur þjóni sínum fyrir að gjöra það, sem boðið var? Eins skuluð þér segja, þá er þér hafið gjört allt, sem yður var boðið: Ónýtir þjónar erum vér, vér höfum gjört það eitt, sem vér vorum skyldir að gjöra. Lúk.17.5-10

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Á dögunum var ég á göngu um Heiðmörkina í góðra vina hópi. Yndisleg ganga í fallegu en köldu veðri. Snjór lá yfir öllu og grenitrén sveigðust undan snjóþunga. Snævi þaktir göngustígar voru erfiðir yfirferðar en gleði- og frelsistilfinning sem umlukti mig á göngunni var erfiðinu yfirsterkari og gerði því gönguna mun léttari en ella. Ekki spillti að vera á ferð með lífsglöðum vinum sem kunnu svo sannarlega að slá á létta strengi og gera daginn eftirminnilegan. Á svona stundum fyllist hjartað ótrúlegum mætti og krafti, gefur orku sem svo sannarlega er þörf á í svartasta skammdeginu. Já, kraft til að ganga að hinu daglega amstri með gleði. Hjartað fyllist af trú og trausti sem gerir það að verkum að ekkert er yndislegra en að syngja skaparanum lof og dýrð fyrir alla hluti. Já, þessi dagur í Heiðmörkinni var einn af þeim dögum sem Guð gaf, til að auka trú mína.

Postularnir, í guðspjallinu sem lesið var áðan, sögðu við Drottinn Jesú: “Auk oss trú”. Þeir gerðu sér grein fyrir því að trú þeirra var veik, hún var of veik til að þeir treystu sér til að breyta eftir orðum Jesú, slíkur var boðskapur fagnaðarerindisins.

“Auk oss trú” báðu postularnir. Jesús svarar þeim eins og honum var svo tamt, með líkingu. “Ef þér hefðuð trú eins og mustarðskorn gætuð þér sagt við mórberjatré þetta: “Ríf þig upp með rótum og fest rætur í sjónum” og það mundi hlýða yður.” Með þessum orðum gefur Jesús okkur nýja hugsun, nýja vídd. Sú trúardýpt sem postularnir báðu um, næst aðeins með því að sleppa takinu, fara aðeins lengra, með því að trúa hinu óskiljanlega og ómögulega. Mórberjatré eru stór tré sem hafa gríðarlegt rótarkerfi og er því mjög erfitt að rífa það upp með rótum, hvað þá að rækta það í sjó. Jesús er því þarna að benda okkur á það hvað það þýðir að dýpka trúna, að auka trú okkar. Trú sem færa má fjöll úr stað, trú sem þjónar Guði. Eða eins og segir í Hebreabréfinu: “Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá”.

Jesús heldur áfram að útskýra fyrir postulunum hvernig trúin birtist í þjónustunni, þjónustu okkar hvert við annað og þjónustunni við Guð. Jesús gerir okkur það alveg ljóst að við erum ónýtir þjónar ef við gerum aðeins skyldu okkar og ekkert fram yfir það. Við byrjum fyrst að þjóna Guði þegar við, vegna trúar okkar, vinnum ekki aðeins verk okkar eftir starfslýsingu heldur seilumst lengra. Setjumst ekki niður þegar við ljúkum okkar verki, heldur bjóðumst til þess að létta undir með samstarfsfélögunum. Það er fyrst þá, þegar skylduverkum okkar er lokið að hjálpsemin, greiðasemin og lipurðin tekur við, að við erum farin að þjóna náunganum og þjóna með því Guði. Þannig birtist trúin í þjónustu okkar hvert við annað, í kærleika manna á milli og í þeirri von um Guðs náð sem við berum sameiginlega í brjósti okkar.

Sú áhersla ritningarinnar sem Lúther dró svo skýrt fram um að við réttlættumst vegna trúar en ekki verka á því svo sannarlega við hér.

Það er vegna trúar, sem við biðjum til Guðs í trausti þess að hann heyri bænir okkar.

Það er vegna trúar að við komum hér saman í dag og lofum nafn Drottins. Það er vegna trúar, að við tökum á móti fyrirgefningu Guðs, í þeirri von að við getum örugg staðið frammi fyrir Guði er ævinni lýkur. Við stöndum öll jöfn frammi fyrir Guði vegna trúarinnar. Guð situr ekki í sínu hásæti og telur góðu verkin sem við vinnum. Guð spyr heldur ekki um það hvernig við trúum, heldur spyr hann hvort við trúum. Trúin á skaparann og lausnarann verður til þess að við viljum seilast lengra, ganga örlítið lengra í því að gera betur, bæði í þjónustunni við Guð og menn.

“Auk oss trú” er því bón hins trúaða einstaklings. “Auk oss trú” er sameiginlegt bænakall allra kristinna manna. Hvar sem við erum stödd á vegi trúarinnar, hvernig sem við komum þessari bæn til skila til Drottins, þá kviknar hún aðeins í trúuðu hjarta.

Prestar og starfsmenn þjóðkirkjunnar heyra þetta ákall hátt og skýrt á hverjum degi. Í hvert skipti sem foreldrar bera fram barn sitt til skírnar þá fylgir þessi bæn, auk oss trú. Öll fermingarbörnin sem ganga til kirkju til að staðfesta skírnarheitið og fjölskyldur þeirra bera einnig fram þessa bæn. Það að hjón láti gefa sig saman í kirkjunni og biðja sér blessunar Guðs, er kall um að auka trú þeirra. Aðstandendur sem leita þjónustu kirkjunnar er ástvinur deyr hrópa “auk oss trú”. Öll börnin og unglingarnir sem koma í starf í kirkjuna sína í viku hverri eiga þessa bæn í hjarta sér. Sú þjónusta, fræðsla, sálgæsla og leiðsögn sem fólk leitar eftir í kirkjum landsins er eitt af svörum Guðs við þessari bæn þjóðarinnar. “Auk oss trú”. Hið góða fólk sem starfar innan þjóðkirkjunnar veit að við hvert skref sem það tekur í boðun trúarinnar, tekur Guð tuttugu á móti og þess vegna lifir kirkjan vegna hjálparans mikla, heilags anda. Þar sem mannlegur máttur endar, tekur heilagur andi við. Þegar uppi er staðið er það svo hver og einn sem verður að opna hjarta sitt fyrir Guði, sleppa takinu og seilast lengra.

Við byggjum lifandi og kröftuga kirkju hér á Íslandi og allar raddir sem heyrast í aðra átt eru raddir vanþekkingar, vanþekkingar á innra starfi kirkjunnar.

Mig langar að segja ykkur litla sögu úr þorpi í Austur – Afríku. Þar var til skamms tíma kirkja með blómlegu safnaðarstarfi. Söfnuðurinn var feiknar stór og fólkið trúði á hinn lifandi son Guðs, Jesú Krist og kom oft saman í kirkjunni til að styrkjast í trúnni. Svo gerðist eitt og annað sem varð þess valdandi að fólkið hætti að mæta eins vel í kirkjuna og það hafði áður gert. Það komu færri og færri. Alls konar afsakanir heyrðust fyrir því að fólk hætti að mæta. Það er ekkert nauðsynlegt að fara til kirkju, maður getur alveg verið kristinn án þess að mæta í kirkju, aðrir vildu frekar sofa út á sunnudögum, enn aðrir sögðu að þeir myndu nú mæta ef kirkjan væri ekki full af hræsnurum. Það voru ótal afsakanir sem fólk tíndi til. Sannleikurinn var sá að fólkið var hætt að hugsa um son Guðs, hugsaði bara um sjálft sig og hafði í raun týnt trúnni á frelsarann í öllu amstri hversdagsins.

Einn sunnudaginn þegar örfáir voru í kirkjunni, stóð presturinn upp og sagði: “kirkjan ykkar er dáin, útförin fer fram næstkomandi sunnudag. Ég væri þakklátur ef þið mynduð láta það berast til allra í þorpinu svo þeir sem vilja geti verið viðstaddir útför kirkjunnar.”

Næsta sunnudag var kirkjan troðfull. Forvitnin var svo mikil að fólkið mætti, allir þorpsbúar og enginn lét sig vanta. Presturinn hafði sagt að kirkjan væri dáin. Það hljómaði mjög undarlega og fólkinu stóð nú ekki á sama. Þrátt fyrir allt þá var þetta kirkjan sem börnin þeirra voru skírð og unglingarnir fermdir.

Athöfnin hófst og presturinn gekk inn kirkjuna með litla kistu á öxlinni en ekkert lok var á henni. Presturinn lagði kistuna fyrir framan gráturnar rétt við altarið og sagði alvarlegum rómi: “Kirkjan ykkar er dáin, ég vænti þess að þið viljið kveðja hana hinstu kveðju.” Hver kirkjugesturinn á fætur öðrum gekk fram og horfði niður í kistuna. Og hvað ætli hafi komið í ljós? Jú, þessi snjalli prestur hafði sett spegil í botninn á kistunni og fólkið sá sitt eigið andlit þegar það leit ofan í kistuna. Hver og einn þurftu að horfast í augu við sjálfan sig og segja: “Ég er hin dauða kirkja”. (höf.sögu: Gurli Vibe Jenssen)

Kirkjan er fólkið sjálft og á meðan fólkið sækir kirkjuna, kemur saman til að lofa Drottinn, sameinast í trúnni á Jesú Krist, uppbyggjast í Orðinu og samfélaginu hvert með öðru, þá byggjum við lifandi kirkju. Fólk sem gengur inn í Guðs hús og segir með þeirri athöfn einni “Auk oss trú”. Það er fólk sem lætur sig lífið varða. Hvert skref sem stígið er í frelsi en ekki nauðung eða skyldu er skref sem góðir þjónar Guðs taka. Það er enginn skyldugur að þiggja þjónustu kirkjunnar, það koma allir af fúsum og frjálsum vilja og eru því góðir þjónar. Kirkjan er öllum opin sem vilja koma og bera bæn sína og lofgjörð fram fyrir Guð. Þeir einstaklingar sem næra trú sína með því að hlýða á Orðið og í samtali við Guð með bæn, byggjast upp sem sterkir einstaklingar sem eiga gott samfélag við aðra menn. Þeir leitast eftir því að vera náunganum Kristur og spyrja í öllum aðstæðum “Hvað hefði Jesús gert?”.

Fullvissa trúarinnar er að upplifa það að Guð er með í hverri göngu sem farið er í, hvort sem gengið er um Heiðmörkina í fallegu vetrarveðri í samfélagi góðra vina, eða í sjálfri lífsgöngunni í gleði og sorg. Að geta sagt í fullvissu trúarinnar: “Hvar sem ég er, hvert sem ég fer, Guð er þar, Hann kemur á mót mér”.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen.

Arna Grétarsdóttir er æskulýðsfulltrúi í Seltjarnarneskirkju. Þessi prédikun var flutt í útvarpsguðsþjónustu í Seltjarnarneskirkju 26.janúar 2003.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3173.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar