Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Karl Sigurbjörnsson

Fagnaðarerindi eða hagnaðarerindi?

1. desember 2002

Amen, kom þú, Drottinn Jesús. Náðin Drottins Jesú sé með öllum. Amen

„… Síðan lukti hann aftur bókinni og sagði „Í dag hefur ræst þessi ritningargrein í áheyrn yðar!“ Jesús er staddur í heimabæ sínum, Nasaret, í samkunduhúsinu, sóknarkirkjunni sinni. Þar fær hann það hlutverk að lesa ritningarlestur dagsins úr spádómsbók Jesaja. Það er vel þekktur texti, fögur fyrirheit fornra spádóma. Orð huggunar og vonar sem voru hluti lífs og sögu, minninga, drauma þjóðar hans: „Andi Drottins er yfir mér, af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins.“

Síðan lukti hann aftur bókinni og sagði „Í dag hefur ræst þessi ritningargrein í áheyrn yðar!“

Uppfylling fyrirheitanna

Hann er að segja að hann sé uppfylling þessara fyrirheita. Kristin kirkja játar það, og fullyrðir að öll fyrirheit, spámæli, framtíðarsýn heilagrar ritningar rætist í honum. Ekki aðeins einu sinni endur fyrir löngu. Hann er hér á jörð oss nær, hann flytur enn fátækum gleðilegan boðskap. Og í dag rætast þessi fyrirheit í áheyrn okkar sem hér erum samankomin í sóknarkirkjunni okkar í dag.

Aðventan, jólafasta er gengin í garð. Það er tími minninga, bernskuminninga og barnatrúar, minninga um ástvini sem einu sinni tendruðu okkar jólaljós: „hver sælustund sem þú þeim hafðir hjá í hjarta þínu byrjar ljúft að tala,“ eins og Hannes Hafstein segir. Og aðventa er tími óska og drauma, það er tíminn þegar við leitumst með sérstökum hætti við að draga himininn niður á jörðina, ekki aðeins með ljósadýrð og skarti, heldur líka með gleði, fegurð, góðvild og öðru því sem minnir á birtu himinsins í mannlífinu og líf í samræmi við vilja höfundar síns og herra.

Kristin siðmenning

Indverska frelsishetjan Mahatma Gandhi var eitt sinn spurður um álit sitt á kristinni siðmenningu. „Ég held að kristin siðmenning væri góð hugmynd,“ svaraði hann. Gandhi var einn þeirra spámanna 20. aldar sem settu stórt spurningamerki við vestræna kristni og spyrja hvers vegna við iðkum ekki það sem við játum. Hann hafði ekki svörin fremur en aðrir, en við verðum að hlusta á spurningarnar. Þær eru öðrum þræði bergmál spámanna Gamlatestamentisins og orða Jesú sjálfs. Orð og áminningar um trú sem á að birtast í verkum okkar. Það ætti að vera síðstæð hvatning til okkar að standa vörð um þann trausta grundvöll siða og samfélags sem kristindómurinn er og iðkun og þjónusta Þjóðkirkjunnar á helgum og hátíðum í sóknarkirkjum og heimilum um land allt stuðlar að. Orð og atferli sem ber vitni um lausn, sýn og fögnuð í nafni frelsarans. Og er uppbygging siðmenningar á grundvelli fagnaðarerindis hans. Það skulum við hugfesta á fullveldisdegi.

Í guðspjalli dagsins segist Jesús sendur af Guði „… til að flytja fátækum gleðilegan boðskap …“

Ísland er auðugt land, sjöunda auðugasta land í heimi. En hér er samt fátækt. Líkamleg fátækt sem hrópar á réttlætið. En hin sálarlega og andlega fátækt er líka sár og er óháð efnahag. Fátækt í viðjum sjálflægninnar, fátækt í viðjum græðginnar, fátækt í viðjum tímaleysisins og streitunnar. Allt of mörg börn hér á landi líða fyrir þá fátækt, afskiptalaus börn, agalaus börn, ofdekruð börn. Hvað er að gerast í okkar samfélagi, þar sem ofbeldið vex, ofbeldisdýrkun veður uppi, harka og hrottaskapur, sem ógnar siðmenningu okkar og samfélagi? Hvers vegna? Og horfum í eigin barm. Því við erum ekki aðeins áhorfendur. Við erum þátttakendur. Einelti þjakar fjölda barna um land allt. Þökk sé þeim sem hafa skorið upp herör gegn því víti með eftirminnilegum hætti og virkjað skóla, heimili og samfélag, sem allt þarf að haldast í hendur. En einelti og annað ofbeldi barna ber oft vitni um innibyrgða reiði, vanmáttarkennd. Hvers vegna er það? Hvers vegna eru börnin á Íslandi iðulega svo afrækt sem raun ber vitni? Hvers vegna finna æ fleiri foreldra sig öryggislausa gagnvart uppeldisskyldum sínum, og veigra sér við að setja mörk?

Hún er nöpur sagan af ungu hjónunum sem voru í leikfangaverslun á Þorláksmessukvöld að leita að jólagjöf handa litlu dóttur sinni. Það mátti kosta talsvert, sögðu þau við afgreiðslustúlkuna, og bættu við: „Við erum alltaf að vinna, aldrei heima. Við vildum gefa henni eitthvað sem gleður hana, hefur ofan af fyrir henni og styttir henni stundirnar þegar hún er ein.“ „Því miður“ svaraði afgreiðslustúlkan og brosti vingjarnlega. „Við seljum ekki foreldra.“

Þegar þú verður stór …

Maður nokkur sagði frá því að hann hefði rætt við grunnskólabörn um hvað þau vildu verða. Flest þeirra sögðust vilja verða rík og eiga flottan jeppa. Er þetta framtíðarsýnin sem börnin okkar eiga, er gott líf það að eiga flottan jeppa? Og hvernig skyldi standa á þessu gildismati hinna ungu? Hver kennir þeim hverju þau eiga að trúa, hvernig þau eiga að breyta og hvers þau mega vona? Öflugustu kraftar samtímans segja þeim hvernig þau eiga að líta út og hvað þarf til að hafa það gott og hvernig þau geta flúið sársaukann í lífinu. Og eiturvilpur og nöðruholur vímufíknar og lífsflóttans laða.

Streitan og stressið, tímaleysið og hraðinn kæfir mannleg samskipti og ruglar dómgreind og gildismat og veldur blindu, blindu á hið góða. Þeir eru svo margir sem stynja: „Ég er alveg að drepast úr stressi!“ Ég hef svo mikið að gera að ég má ekki vera að því að lifa. Hvað þarf til að blind augu okkar opnist fyrir því hvar hin sönnu verðmæti er að finna?

Það er sem allt leggist á eitt að halda að þeim ungu lífsstíl hinna ríku og frægu. En hvernig væri að leitast við að líkjast þeim ánægðu og heilbrigðu? Fólk sem vinnur meðal hinna fátækustu þessa heims ber vitni um undraverðan sálarstyrk og von og hugrekki meðal þeirra, mitt í allri eymdinni og mannlegri niðurlægingu- og þau verða vitni að trú, sem er þeim fátæku aflgjafi til átaka í þágu lífsins, umhyggju og vonar. Ég hef sjálfur séð það á kristniboðsakrinum og starfsvettvangi Hjálparstarfs kirkjunnar í Afríku og á Indlandi. Það er vissulega hrífandi. En meðal hinna auðugu finnum við einatt lífsleiða, tómleika og firringu sem er eitt alvarlegasta þjóðfélagsmein okkar heimshluta.

Það er fátækt á Íslandi. Fátækt fólk, ungt og gamalt, - og það sem alvarlegast er, iðulega einstæðar mæður - , fólk sem hefur lent utan við öryggisnet velferðarinnar. Það er alvarlegt og æpir á okkur. Og hrópar upp í himininn. Það er líka mikil auðsæld á Íslandi, aldrei meiri en nú. Aldrei hefur Ísland átt eins marga milljarðamæringa og nú. En auðugt líf, raunverulegt ríkidæmi er samlíðan, ábyrgðarkennd og virðing. Það sýnir Jesús Kristur og fagnaðarerindi hans. Það stendur gegn „hagnaðar-erindi“ samtímans sem boðar hamingju sem er föl fyrir fé. Samkvæmt fagnaðarerindinu er hin sanna auðlegð ekki að eiga mikið, heldur þurfa lítið. Hin sanna auðlegð er sú sem góður maður ber fram úr góðum sjóði hjarta síns. Gott líf er ekki að hafa það gott heldur að láta gott af sér leiða.

Kristin siðmenning væri góð hugmynd, meir en það. Hún hefur verið uppistaða þjóðarvefs Íslendinga, mælikvarði og mynstur siðar og breytni. Hún birtist þar sem Kristur er, þar sem fyrirheit hans rætast. Hvar sem bönd umhyggjunar eru sett um sjálflægnina, hvar sem gullna reglan ræður för, hvar sem mildin og miskunnsemin er leidd til öndvegis, hvar sem fyrirgefning og umhyggja mótar trú, viðhorf og samskipti.

Lítill drengur í Mozambík

Þessa dagana kemur baukur inn um bréfalúgur okkar með mynd af litlum dreng í Mozambík. „Hann er alveg að drepast úr þorsta“ segir hranaleg og hrjúf yfirskriftin. Á bak við þennan hrjúfa og lágkúrulega talsmáta okkar býr skelfileg staðreynd í lífi þessa litla drengs.

Þorstinn, vatnsskortur, ógnar lífi milljóna barna í heiminum, og þau deyja, eins og skepnur, og við viljum helst ekki sjá né af vita. Sex þúsund börn á degi hverjum. Bara að við, sem erum að „drepast úr stressi“ og ofneyslusjúkdómum alls konar, myndum sjá og finna að við getum leyst þessar viðjar og létt þessari þjáningu. Ef andi Drottins kæmist að hjá okkur og næði að vekja og lífga hjörtu okkar og vilja.

Þær eru margvíslegar viðjarnar. En kraftar náðarinnar eru að verki, lausn og líf, af því að Kristur er enn á ferð. Og í dag rætast fyrirheitin, himinninn lýkst upp, lífið fagnar.

Það er átakanlegt en undursamlegt viðtal í Morgunblaðinu í dag við eiginmann alzheimersjúkrar konu. Og mér komu í hug hrífandi orð sem ég las eitt sinn. Kona skrifar: „Ég spurði hana ömmu í dag: hvernig geturðu verið svona æðrulaus þó að hann afi hafi alveg gleymt þér? Svar hennar var látlaust og einfalt: Afi þinn hefur ekki gleymt mér. Minningarnar eru allar vandlega geymdar í sál hans, Drottinn gætir þeirra þar þangað til hann kemur til himna. Þá verða þær gjöf Guðs til hans alveg eins og að blindir fá sýn og haltir ganga, daufir heyra og dauðir upprísa. Að hugsa sér gleðina á himnum! Og svo brosti hún amma og kyssti hann afa á ennið.“ Svo mörg voru þau orð. – Já, að hugsa sér gleðina á himnum!

„Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“ Amen, kom þú, Drottinn Jesús. Amen.

Karl Sigurbjörnsson (biskup@kirkjan.is) er biskup Íslands. Flutt í Hallgrímskirkju, á fyrsta sunnudegi í aðventu 2002. Guðspjall Lk. 4.16-21.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2798.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar