Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Hjálmar Jónsson

Í anda og sannleika

27. október 2002

Þá sagði Jesús við Gyðingana, sem tekið höfðu trú á hann: Ef þér eruð stöðugir í orði mínu, eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.

Þeir svöruðu honum: Vér erum niðjar Abrahams og höfum aldrei verið nokkurs manns þrælar. Hvernig getur þú þá sagt: Þér munuð verða frjálsir?

Jesús svaraði þeim: Sannlega, sannlega segi ég yður: Hver sem syndina drýgir, er þræll syndarinnar. En þrællinn dvelst ekki um aldur í húsinu, sonurinn dvelst þar um aldur og ævi. Ef sonurinn gjörir yður frjálsa, munuð þér sannarlega verða frjálsir. Jh. 8. 31-36

Hér mætast mannlíf og trúarlíf

Tvö börn sem voru í barnastundinni á kirkjuloftinu um daginn áttu afmæli. Annað var 2ja ára hitt 6 ára. Dómkirkjan er nú 206 ára. Hún er ung kirkja. Glaðar barnsraddir fylla hana reglulega – og þá er kirkjan ekki deginum eldri en þau. Þau eru kirkjan eins og við öll, samfélag, sem metur gildi kristinnar trúar og áhrifavald kærleikans í heimi okkar.

Í dag sækjum við hins vegar í arfinn, - messusöngurinn er eins og þegar kirkjan var vígð. Gömlu meistararnir sem þá voru á dögum og fyrr eiga sönglögin. Messan er afmælissöngur í dag – við upphaf Tónlistardaganna hér í Dómkirkjunni.

Dómkirkjan hefur verið umgjörð guðsþjónustunnar, safnaðarlífsins, og sterkur þáttur þjóðlífsins í 206 ár. Hér mætast mannlífið og trúarlífið. Þessar tvær hliðar lífsins. Kirkjan öll er meginstraumur og viss trygging fyrir góðum og göfugum áhrifum Krists á þjóðlífið. Öryggi fyrir því að þjóð okkar, börn okkar fari ekki á mis við að þekkja Guð og þann sem hann sendi Jesú Krist. Megi kirkjan gegna því hlutverki sínu um mörg ókomin ár.

En svo er hitt líka satt sem skáldið sagði:

Ekki við staði og stundir
stíluð er Drottins náð.
Guð er andi og sannleikur – ekki hús og híbýli.

Efnið má ekki bera andann ofurliði. Þó verður því varla neitað að það gerist í ríkum mæli.

Jesús Kristur minnir á sig

Guð starfar og lifir í heiminum – andi hans og sannleikur er víða að verki. Enginn annar samtímamaður hefur viðlíka áhrif á lífið í veröldinni og Jesús Kristur. Hann lætur svo sem ekki skorða sig við helgihaldið hversu gott og fjölbreytt sem það er. Hann er alls staðar að verki, í anda sínum og sannleika.

Mér fannst hann víða að minna á og áminna núna í vikunni.

Ég heyrði hann t.d. í orðum Bubba Morthens í sjónvarpi þegar hann talaði um þá ímynd sem við seljum börnum og unglingum í síbylju tónlistarmyndbandanna. Hversu varasamt það sé að ala þau upp við heim glansmyndanna sem birtast í fullkomnu útliti fáklæddra fyrirsætna með hringa í nefi, nafla og Guð veit hvar.

Ímyndin skiptir meira máli heldur en það sem er, það að sýnast en ekki vera. Við horfum upp á það aðgerðalaus að farið sé að líta á unglingana sem sérstakan og öflugan neysluhóp, markhóp, sem auki við markaðsstærð framleiðenda vöru og þjónustu. Meðan þau eru áhrifagjörn, opin og leitandi eru þau látin mótast af til þess að verða nytjadýr markaðarins í framtíðinni. Ekki aðeins með neysluhyggju heldur nautnahyggju. Sömu aðferðum beitt eins og gilda um hverja aðra ávanabindandi fíkn.

Hingað kemur klámmyndaleikari og fjölmiðlar gera úr honum hetju. Í staðinn fyrir að aumka þennan vesaling leynir sér ekki lotningin.

Hvaða brenglun er þetta eiginlega?

Eruð þið brjálaðir, fjölmiðlamenn?

Sprungur í glansmyndinni

Mér fannst Guð tala í grein Freysteins Jóhannssonar í Morgunblaðinu. Vinur hans hafði fyrirfarið sér. Hættumerkin fundust ekki, hinn duldi sársauki, tómleikinn, vonleysið, dimman, vegna þess að okkur tekst svo vel að dylja sársaukann innra með okkur, í þjóðfélagi þar sem ímyndin og útlitið er allt. Í heimi þar sem það er í tísku að vera ungur, ríkur – og fallegur.

Og síðan segir í greininni, sem heitir Sprungur í glansmyndinni: „En þegar ég lít í kringum mig þá sé ég, að hann var ekki einn að berjast við ofureflið. Það er engu líkara en mörg okkar hafi misst haldreipið í lífinu, hrakizt út á eitthvert berangur, þaðan sem engin von er um griðland.“ Hann spyr hvernig það hafi gerst, að þjóð, sem fyrir ekki löngu taldist bjartsýnasta fólk jarðarkringlunnar skuli næsta dag vera að alltof stórum hluta ofurseld eiturlyfjum, ofbeldi, misnotkun. Við tölum um streituna og kvíðann, eineltið, offituna, hjartasjúkdóma, reykingar. Við vitum að hjá okkur, einni ríkustu þjóð í heimi, er ekki allt með felldu. Enda leitum við leiða til úrbóta, leitum og leitumst við að takast á við vandann. En lausnirnar eru í allt of stórum stíl stundarlausnir. Og stundarlausnir gefa bara stundarfrið.

Góðir vinir. Við erum komin af leið. Þetta er ekki hægt svona lengur. Það er allt of margt í ólagi og ég held að það sé okkur flestum ljóst. Það er að skapast undiralda í samfélagi okkar. Við erum ekki sátt við allt sem aflaga fer og viljum meiri festu og samfellu í tilveruna. Við viljum skapa okkur betri heim, börnunum okkar betri skilyrði til lífshamingju, okkur sjálfum fyllra og fegurra líf með meiri tilgangi og innihaldi.

Merki þessa er víða að finna. Stundum koma þau fram í óskilgreindri óánægju. Stundum beinist hún að gagnslausum stjórnmálamönnum. Þeir séu vonlausir og með allt of gular, rauðar, grænar og bláar hendur. Sé svo þá sýnir það ekki annað en það að dómgreind þjóðarinnar hafi brugðist þegar þeir voru valdir. Stjórnmál og stjórnmálamenn ráða heldur ekki svona miklu. Hamingjan í lífi þínu veltur ekki svo mikið á þeim. Og þeir kippa ekki lífi þínu í lag þó að þeir beri mikla ábyrgð í að setja ytri rammann.

Við skulum ekki gleyma okkur í því að tala í sífellu um umbúðirnar, skurnina, hjómið. Og verum ekki að kenna öðrum um. Leitum inn á við og spyrjum spurninganna í alvöru: Fyrir hvað lifi ég? Og hvernig vil ég móta líf mitt og umhverfi mitt? Hugsum um það að enginn er áhrifalaus, allir skipta máli, eitt og sérhvert okkar hefur mikið fram að færa. Og lífið er fyrst og síðast hverjum einstökum verkefni sem hann verður sjálfur að vinna. Og þú verður að vilja það finna sjálfan þig, eiga sjálfa þig.

Danski heimspekingurinn Sören Kierkegaard segir það á þessa leið: Það verður ekki mikið uppnám í heiminum þótt þú glatir sálu þinni. Sjálfið er það sem minnst er spurt um í heiminum. Hin mesta hætta, sú að glata sjálfum sér, getur gerst í heiminum svo hljótt sem ekkert væri. Ekkert annað tjón getur farið jafn hljótt.

Aðstoð án skuldbindinga

Það er til hjálp sem engum manni bregst sem biður um hana. Og hún er veitt skuldbindingarlaust. Ég bendi þér á hjálpræði trúarinnar. Hún er í því fólgin að tileinka sér andann og sannleikann sem Kristur boðar. Sannleikurinn býr ekki í manni sjálfum og maður er ófær um breyta sér sjálfur.

Það getur aðeins sá sem sagði: Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Og breytingin verður í krafti trúarinnar. Ekki með valdboði, ekki með tilskipunum. Kristur lifir og lætur aldrei hjálp sína bresta. Hann gerir ekki þakklæti að skilyrði fyrir hjálp sinni við fólk í nauðum. En hann hryggist vegna þess hvað við getum gert þetta líf okkar fátæklegt. Þegar vitundin um hann er ekki til staðar er það til marks um líf undir andlegum fátæktarmörkum.

Gegnum hið daglega starf og umsvif er fólk kallað til guðsþjónustu sunnudagsins. Og þannig gerist það að við túlkum og skiljum lífið sem undur sköpunar Guðs – og tilbiðjum hann í anda og sannleika.

Trúin birtist í náungakærleika, í afstöðunni til annars fólks. Ekki í einstökum gustukaverkum heldur í því að við styðjum hvert annað til þess að öðlast sjálfstæði. Í þessu skyni verður maður aðeins auðmjúkur hjálparmaður. Kærleikurinn er hversdagslegt viðfangsefni því í öllum okkar nánu samskiptum höfum við áhrif á þroskaskilyrði annarra.

Lifandi kristni sættir menn ekki við heiminn eins og hann er heldur opnar þeim nýja tilveru. Trúarsannindin ljúkast upp í baráttu okkar við að lifa vel og leitast við að verða heilar manneskjur.

Kristin trú er aðferð til að lifa lífinu. Og með því að láta trúna hafa áhrif á líf sitt skýrist um leið fyrir manni eðli og inntak kristinnar trúar. Það gerist þegar trúin er lifuð. Þá er hún okkur líf og sannleikur.

Þess vegna komum við aftur og aftur í musterið, í kirkjuna, til þess að heyra Guðs orð og varðveita það.

Í Jesú nafni. AMEN.

Hjálmar Jónsson (hjalmar@domkirkjan.is) er prestur í Dómkirkjunni. Þessi prédikun var flutt á Siðbótardeginum, 27. október 2002. Lexía Jer. 31. 31-34, Pistill Rm. 3. 21-28, Guðspjall Jh. 8. 31-36.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3139.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar