Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Karl Sigurbjörnsson

Jól

24. desember 2001

Blessa, Drottinn, jólafögnuð og jólafrið, og signdu jólasorg og söknuð barna þinna, í Jesú nafni. Amen.

Guð gefi þér gleðileg jól!

Það eru börnin í Langholtskirkju í Reykjavík sem flytja englasönginn inn til okkar á þessu helga kvöldi. Aldrei er ómur jólanna tærari en af vörum barnanna og birta jólaljósa aldrei yndislegri en þá hún blikar af augum hinna ungu. Guð blessi börnin öll og barnsins glaða jólahug. Og Guð blessi þá foreldra, kennara og uppalendur sem kenna börnunum að þekkja Jesú og biðja í nafni hans. Ekkert er mikilvægara, ekkert er dýrmætara en það. Það gefur skjól í allri vá, návist í einsemd, gleði og frið í gæfunni, lýkur upp fyrir birtu vonarinnar og afli kærleikans. Staðbetra veganesti til lífsferðar í ótryggum heimi er ekki til. Bænin og trúin á Jesú Krist gefur guðsmynd og mannskilning og lífssýn sem sjá líf og heim, atvik og örlög öll í birtu jólanna og páskanna, í mildu skini fyrirgefningar syndanna og sigurs lífsins yfir dauðanum.

Nú er heilög jólanótt og við fáum að hugleiða saman frásögn jólaguðspjallsins. Við þekkjum hana öll frá barnæsku, kunnum, og elskum. Hún er svo einföld og látlaus að hvert barn fær skilið, og svo djúp er hún og há að enn og aftur getum við heyrt og skynjað nýjar víddir og greint nýja hljóma í henni. Svona er Guðs orð. Það er orð frá hjarta til hjarta. Og jólin eru sannarlega sú hátíð sem hjartanu er skyldust, eins og Steinn Steinarr orðaði það.

Það var ys og erill í Betlehem þetta kvöld sem við köllum nóttina helgu, örtröð og allt fullt út úr dyrum. Þau fundu fyrir því, Jósef og María, þegar þau leituðu gistingar, örsnautt aðkomufólk. Þeim var úthýst. Þau urðu að láta fyrirberast í fjárhúsinu. Þar fæddist barnið litla, Jesús, frelsari heimsins. Utangarðsbarn, eins og ótal börn í heiminum okkar fyrr og síðar. Guð tók sér stöðu með þeim valdalausu og niðurlægðu. Hann fæddist í fjárhúsinu, lagður í jötu, í hálm og hey, og þar voru uxi og asni og sauðfé, eins og vænta má í gripahúsum. Á niðdimmum næturhimni blikar stjarna. Taktu eftir þessu: Jólin eru að segja okkur að Kristur er ekki aðeins frelsari manna, heldur alls heimsins, líka dýranna og allrar náttúrunnar, allra heima og geima. Svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn, heiminum til lífs. Þennan heim sem er svo særður og sundraður og spilltur, þetta líf sem er ógnað og svívirt vill Guð lækna og frelsa, reisa upp og ummynda. Trúin sem Guð vill laða fram í okkur á að vera afstaða og líferni sem hefur áhrif á það hvernig við komum fram við börnin og dýrin og hina „dauðu náttúru“. Virðing, lotning fyrir lífinu og umhyggja fyrir öðrum.

Það komu gestir í fjárhúsið þessa helgu nótt, fjárhirðar utan úr haga - og vitringarnir frá Austurlöndum, þú manst eftir þeim? - Hirðarnir í haganum voru utangarðsmenn, þóttu fávísir og illalyktandi og lítið að marka þá. Þeir fengu fyrstir allra að heyra boðskap jólanna, og þeir fengu fyrstir að sjá Jesú, frelsarann. Guð hefur velþóknun á þeim, sem heimurinn smáir, og vill frelsa og lækna öll sín börn á sinni víðu jörð. Hirðarnir hlýddu boði engilsins og veittu barninu lotningu, og meir en það, þeir fóru og sögðu öðrum frá því sem þeir höfðu heyrt og séð.

Vitringarnir frá Austurlöndum sem fylgdu birtu stjörnunnar að jötunni og færðu barninu gjafir sínar, -jólamyndirnar sýna þá sem konunga, framandi útlits, einn frá Afríku og annan frá Indlandi og þann þriðja enn austar frá Asíu. Þeir eru fulltrúar mannkynsins í allri sinni fjölbreytni en sem Guð hefur velþóknun á, elskar alla jafnt. Þess vegna gaf hann son sinn, orðið hans og ljós á erindi við heiminn allan, og skal tengja allar þjóðir og kynþætti, menningarheima í einum samhljómi friðar og sáttargjörðar. Þetta eru jólin að segja.

Jesús fæddist í fjárhúsi og var lagður í jötu. Það var ekkert rúm handa örmagna móður í mannabústöðum Betlehem. Fólkið þar lokaði á hin sjálfkrafa viðbrögð þess hjarta þar sem kærleikurinn á skjól, umhyggjan vakir. Og lokaði á Guð. Það er skelfilegt ef Guði er úthýst, ef vilja hans er hafnað, ef ljósi hans og gleði er hafnað. Það er síendurtekin saga: Ljósið skín í myrkrinu, en myrkrið hefur ekki tekið á móti því. Þetta er alltaf að gerast. Því miður. Enn er friðnum úthýst í heiminum okkar, enn eiga mannúðin, mildin og miskunnsemin í vök að verjast. Vantrúin og guðvana kuldinn, kaldhæðnin og kæruleysið ráða svo víða för, hatur og hefndarhugur, illskan og ofbeldið. Þessi jól eru í skugga hernaðar og hermdarverka. Betlehem býr við umsátursástand, íbúarnir hafa verið fangar í eigin landi, eigin borg, og líða margvíslega nauð og skelfilegar þjáningar. Valdbeitingin og vopnaskakið mun aldrei leiða til varanlegs friðar og öryggis, keðjuverkun ofstækis og haturs hefur læst fólk inn í vítahring sem ekkert virðist geta rofið. Jú, eitt. Gleymum því ekki! Það er einmitt erindi jólanna:

Englarnir sungu yfir Betlehemsvöllum nóttina helgu um frið á jörðu. Söng þeirra og fyrirheit enduróma jólin. Hlustaðu eftir því í kvöld. Þar heyrum við og skynjum að lífið á jörðu er hluti ástarsögu, sögu kærleikans eilífa sem leitar skjóls í mannheimi, og viðbragða hjartna og huga og handa að hjálpa, semja sátt og flytja frið, elska Guð og náungann. Guð er að leita þín til að frelsa þig og heiminn sinn. Ekki með valdi heldur varnaleysi barnsins, umhyggjunnar, kærleikans. Þetta er jólaguðspjallið, þetta er kristin trú. Guð er að benda þér á svarið við ráðgátu þjáningarinnar og rúnum syndarinnar, leiðina um torleiði ævinnar, brúna yfir hyldýpi heljar, máttinn sem brýtur ekki brákaða reirinn því hann þekkir veikleik manns, hann er að benda þér á veginn til friðar, á valdið sem rýfur vítahring illviljans og hatursins með fyrirgefningu syndanna, á kraftinn sem veltir steini af gröf og vekur von og framtíðarsýn. Jesú, frelsara heimsins, frelsara þinn.

Minnstu þess líka þú sem átt jól í skugga saknaðar, sorgar og kvíða: Barnið sem hún María fæddi í heim, vafði reifum og lagði í jötu, Jesús er hjá þér, frelsari þinn. Sorgina sem þér í sálu býr þekkir hann og skilur, og hann vill fá að leggja líkn sína yfir sárin þín og láta ljósið sitt lýsa þér og huggun sína og frið vera þinn. Treystu honum, trúðu aðeins, og láttu þá trú og það traust bera uppi bænir þínar og stýra skrefum þínum til birtunnar og gleðinnar. Gleðileg jól.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2117.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar