Trúin og lífið
Lífið og tilveran


Leita

Páll Ágúst Ólafsson

Rekstrarform prestsembætta

Í starfsreglum þjóðkirkjunnar er kveðið á um greiðslur til presta og prófasta vegna rekstrarkostnaðar embætta þeirra. Reglurnar eru nr. 819/1999 með síðari breytingum. Um er að ræða kostnað sem skiptist í aksturs, skrifstofu, póst, síma og fatakostnað. Fjárhæðir taka mið af fjölda íbúa í hverju prestakalli auk sérstakrar álagsgreiðslu til prófasta og til presta erlendis. Akstursgreiðslur skiptast niður eftir því hvernig prestakall er samansett landfræðilega. Biskupsstofa skal útvega prestum hempu og kraga auk þess sem greiddur er kostnaður vegna búferlaflutninga þegar svo ber undir. Loks er greiddur ferðakostnaður vegna prestastefnu og vegna starfa í fastanefndum kirkjunnar.

Ár hvert skal ríkið greiða ákveðna fjárhæð til kirkjunnar til reksturs prestsembætta sem verðbætist árlega sbr. 3. gr. í samningi ríkis og kirkju frá 4. september 1998, um rekstrarkostnað o.fl. vegna prestsembætta og prófasta. Kirkjuþing skal setja reglur um nánari útfærslu og ráðstöfun fjárins.

Við blasir og er óumdeilt að því fylgir kostnaður að reka prestsembætti og er þjóðkirkjunni í sjálfsvald sett að ákveða form og ráðstöfun. Það virðist þó alveg hafa gleymst við málsmeðferð Kirkjuþings að taka afstöðu með formlegum hætti til þess í hvaða formi eða með hvaða hætti prestsembætti skuli vera rekin.

Núverandi fyrirkomulag er að hvert og eitt prestsembætti er rekið á einstaklingskennitölu hvers prests. Ekki er kveðið á um hvernig prestembætti skuli vera rekin á neinum stað í lögum, reglugerð eða starfsreglum kirkjunnar. Embættiskostnaður er því greiddur með launum presta til þeirra mánaðarlega, sundurliðaður á launaseðlum þeirra og launamiðum í lok árs.

Þetta fyrirkomulag kann að hafa einhverja kosti en vankantarnir eru umtalsverðir. Í því felst að opinber embætti eru rekin á kennitölu einstaklinga en ekki lögaðila eins og eðlilegt væri. Blandast þannig saman bókhald einstaklings við rekstur opinbers embættis. Þetta fyrirkomulag er óheppilegt. Að auki kemur þetta rekstrarfyrirkomulag í veg fyrir að þeir fjármunir sem prestum eru greiddir til reksturs sinna embætta séu nýttir með sem hagkvæmustum hætti eins og skylt er við meðferð opinbers fjár. Það rekstrarform sem embættin eru klædd í býr að auki til þversögn milli reglna og framkvæmdar þar sem með þessu er prestum gert ómögulegt að gæta ýtrustu hagkvæmni við rekstur embættisins eins og 3. mgr. 3. gr starfsreglna um presta nr. 1110/2011 kveður á um. Til þess að fjármunirnir geti nýst sem best þyrftu prestsembætti að geta nýtt sér svonefnda rammasamninga Ríkiskaupa en það er einvörðungu hægt með rekstri lögaðila. Einstaklingskennitölur falla augljóslega ekki undir þann flokk.

Hér gætir ósamræmis við annan rekstur innan þjóðkirkjunnar þar sem t.d. Kirkjumálasjóður ásamt öðrum sjóðum, Biskupsstofa, prófastsdæmi og héraðsssjóðir auk allra sókna kirkjunnar eru reknar hver og ein sem sjálfstæðir lögaðilar með eigin kennitölu. Þessir aðilar hafa því tækifæri til þess að ráðstafa þeim fjármunum sem þeim er úthlutað með sem hagkvæmustum hætti sem mögulegur er.

Af því sem að framan greinir er ljóst að endurskoðunar og samræmingar er þörf á umgjörð og umfangi prestsembætta ásamt greiningu á þörfum á hverjum og einum stað svo fjármunum sé ráðstafað með sem hagkvæmustum hætti á hverjum tíma.

Höfundur er kjaramálafulltrúi Prestafélags Íslands.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 1427.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar