Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Þórhallur Heimisson

Jóga - Fyrsti hluti

17. mars 2017

Ferðamaður sem á leið um Suð-Austur-Asíu, tekur fljótt eftir sérkennilegum súlum við hof og fjölmenna staði. Þessar súlur eru margskiptar og margar hverjar litskrúðugar og gleðja augað. Sumar eru nýjar en aðrar eld-fornar. Þetta eru stúpurnar svokölluðu sem tengjast búddismanum sérstaklega.

Stúpurnar eða súlurnar eru reyndar misþróaðar og misfullkomnar að gerð og útliti. Þær eru líka ólíkar frá einu landi til annars, því búddisminn, sem þær tengjast, hefur þróast eftir mörgum leiðum.

Súlur þessar tákna hvorki meira né minna en alheiminn sjálfan í allri sinni dýrð. Þær eru einskonar smækkuð mynd af alheiminum, bæði hinum ytri sem hinum innri, jarðneskum og andlegum. Þær eru ætlaðar til að leiðbeina fólki sem vill öðlast dýpri skilningi á heiminum og sjálfu sér, á þroskaferli sálarinnar ef svo má að orði komast. Sá sem þekkir leyndardóm stúpunnar á að geta notað hana sem kort eða leiðarvísi á vegferð sinni um lendur andans og sínar innri lendur. Þannig er stúpan holdtekning jóga-hugsunarinnar.

Hvernig má það vera?

Hugtakið jóga þýðir vegurinn. Jóga er vegurinn, vegferðin, en stúpan sýnir þá vegferð sem jóga vill leiða okkur, þann veg sem við þurfum að ganga ef svo má að orði komast. Stúpan er því einskonar kortabók eða áttaviti og leiðbeinir okkur um hugmyndakerfi og heimsmynd jógans. Spurningin er síðan hvert leiðinni er haldið og af hverju við þurfum að ganga þessa leið?

Skoðum þá gerð og mynd stúpunar aðeins nánar. Neðst er súlan eins og ferningur í laginu, þar á stendur hringur, því næst þríhyrningur, svo hálfmáni og loks einskonar dropi eða perla sem fellur í hálfmánann. Þessar myndir tákna hver fyrir sig eitt af frumefnum eða eiginleikum alheimsinssamkvæmt jóga: jörð, vatn, eld, loft og „rými“ (sem er það svið sem við erum stödd á andlega og líkamlega, mætti líka kallast „plan“ ). Ferningurinn táknar jörð, hringurinn táknar vatn, þríhyrningurinn táknar eld, hálfhringurinn táknar loft og dropinn/ perlan táknar rýmið.

Þessi frumefni eru það sem alheimurinn samanstendur af samkvæmt kenningunni. Hvert frumefnanna táknar síðan mismunandi mikið magn af öllum eiginleikum hinna mismunandi sviða alheimsins.

Nú kann einhver glöggur lesandi að mótmæla og spyrja: Er það vísindalega rétt að halda slíku fram, að heimurinn sé samansettur úr aðeins 5 frumefnum? Vísindin hafa kennt okkur að heimurinn er þvert á móti gerður úr fjölmörgum frumefnum sem aftur skiptast í atóm og atómin í enn minni einingar, kvarka.

Hið vísindalega varnaðarorð er vissulega rétt. En mennirnir hófu að rannsaka og íhuga alheiminn og frumefni hans, löngu fyrir daga hinna svokölluðu náttúruvísinda. Þegar fólk hér fyrrum rannsakaði alheiminn, notaðist það fyrst og fremst við eigin skynjun á raunveruleikanum. Það mat heiminn út frá því hvernig það upplifði hann og hvernig trúin kenndi því að upplifa hann. Ef við skoðum heiminn með skynfærunum einum saman, hljótum við að verða viðurkenna að frumefni hans virðast samanstanda af föstu efni (jörð, bein) , fljótandi efni (vatn, slím, blóð), hita (eldur) lofti (loft) og rými (rými). Þannig hafa menn upplifað alheiminn og þannig upplifum við hann enn og túlkum hann daglega. Segjum við til dæmis ekki að sólin komi upp í austri og setjist í vestri, þrátt fyrir þá vísindalegu staðreynd að það er jörðin sem snýst í kringum sólina en ekki öfugt? Og kennum við ekki börnunum okkar vísuna góðu…“blessuð sólin elskar allt, allt með kossi vekur…..“ þó svo að vísindin segi okkur að sólin sé aðeins helíumhnöttur, sneyddur öllum ástarbrima? Í ljósi þessa má halda því fram að stúpan sé mun betri leiðarvísir um heim raunskynjunarinnar heldur en vísindin því hún túlkar heiminn eins og hann snertir okkur.

Og þar með jógað!

Þann leiðarvísi skoðum við nánar í næsta pistli.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2017 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 358.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar