Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Þórhallur Heimisson

Jóga - Fjórði hluti

30. mars 2017

Hér er haldið áfram að skoða trúarlegan bakgrunn jóga í þessum fjórða pistli mínum um efnið. Þeim sem vilja setja sig inn í efni pistilsins er benta á hina pistlana þrjá sem hafa komið á undan hér á tru.is.

Alls verða þeir 5.

Í manninum býr samkvæmt jógaheimspekinni brot af því guðlega efni er myndaði heiminn með því að sökkva inn í hann í upphafinu, kallað atman. Sá kraftur er því efni fylgir nefnist „Kundalini“ og þýðir það í raun „slöngukrafturinn“. Á fornum indverskum myndum er Kundalini ætíð hugsað og teiknað sem sofandi slanga innst í manninum, enda slangan heilagt dýr. Kundalini sefur í Muladharachakra, neðstu orkustöð líkamans. Markmið jógans er að vekja þennan kraft í manninum, senda hann upp í gegnum orkustöðvarnar að Lotuschakranu, hinni æðstu orkustöð, þar sem hann rennur saman við hinn guðlega uppruna sinn. Út frá kenningunni um mikro/makro cosmos getur jóginn þá stjórnað öllum hinum ytra heimi um leið og hann nær stjórn á sínum innra heimi. Markmiðið er þó ekki að stjórna öðrum í kringum sig, heldur hitt, að stíga feti framar og stöðva hjól endurfæðingarinnar með því að hafa fullkomna stjórn á sjálfum sér.

Þannig er aðeins hægt að sigrast á lífinu með afli lífsins, slökkva lífsneistann með lífsneistanum.

Lítum nú á hvað gerist á vegferð Kundalini gegnum orkustöðvarnar.

Á fyrsta stigi tantrajóga er Kundalini vakið til lífsins þar sem það sefur í Muladharachakra . Lögð er höfuð áhersla á ögun líkamans og reynt að ná stjórn á vöðvum líkamns. Þannig er Kundalini smátt og smátt, með ákveðinni vöðvastjórnun þrýst upp í næsta chakra. Muladharachakra er að finna rétt fyrir aftan kynfærin.

Þá tekur við Swadistanachakra. Þar nær Kundalini stjórn á blóði, slími og sæðisfrumum líkamans. Kynlifslöngun er afneitað og kynkrafturinn stundum notaður til að flýta ferð kundalini. Ýmsar aðferðir eru notaðar til þess. Meðal annars er líkaminn ertur kynferðislega, en haldið aftur af fullnægingunni. Hún er þá hugsuð sem einskonar innri fullnæging sem þrýstir Kundalini áfram. Þannig er t.d. Shiva, guð jóga hjá indverjum, gjarnan málaður í eilífum samförum við Shakti, hinn kvenlega mótleikara sinn.

Næsta orkustöð á vegferð Kundalini er Naphichakra. Þar er eldurinn beislaðar, eða tilfinningarnar. Það er gert með „mudras“, æfingum og ástundun helgisiða. Gjarnan er líkaminn pyntaður um leið og jóginn leiðir kvalirnar hjá sér.

Í Anahatachakra er loftið beislað. Það er gert með öndunaræfingum „prana-yama“. Æfingin felst í að halda andanum í lengstu lög og er mjög hættulegt, getur jafnvel valdið köfnun. Þegar jóginn, eða sá sem stundar jóga, stjórnar loftinu, getur hann flogið samkvæmt kenningunni, hann er þá óháður náttúrulögmálunum.

Styttist nú í endalok vegferðarinnar. Þegar Kundalini rennur upp í Vishuddichakra er „rýmið“ sjálft beislað. Það er gert með því að hugleiða hjartslátt alheimsins , með því að fara með möntru hans „AIM“, „AM“, „AUM“, eða „OHM“. Aum er samkvæmt fornri speki Indverja, það hljóð sem heyrist þegar alheimurinn dregur andann. Um leið og mantran, þ.e. galdraorð alheimsins, er sungið lokast á öll skilningarvitin. Hugleiðslan leitast við að útiloka alla skynjun, kæfa alla hugsun og þá fyrst kemst Kundalini upp í 6. orkustöðina. Meðan mantran er flutt, flyst sjálfið milli „rýma“/ „plana“ .

Lokastöð líkamans er Ajnachakra. Þegar þangað er komið hefur leitandinn öðlast fullt vald á öllu þessa heims, líkama, anda og sál. hann er orðin óháður öllum frumefnum alheims og manns.

EN……………. hann er enn bundinn við samsara. Samsara er óreiða lífsins, það sem veldur því að allt breytist og getur ekki staðið í stað. „Allt streymir“ sögðu grikkir til forna og er það sama hugsun. Það er því ekki nóg að ná valdi á öllum alheimnum. Enn getur þú glatað öllum ávinningun í samsara.

Þú þarft því að sleppa undan samsara og flytja Kundalini upp í 7. chakra, Lotuschakra eða Sahastrachakra, sem er staðsett utan líkamans, rétt ofan við hvirfilinn. Sumir myndu efalaust kalla þessa orkustöð uppsprettu árunnar.

Til að ná upp í 7. chakra, þar sem frelsið bíður, þarf hjálp gurusins. Án hans er það ekki hægt! Guruinn opnar þriðja auga líkamans og hleypir orku alheimsins inn til Kundalini þar sem það stendur á barmi frelsisins. Þannig og aðeins þannig losnar jóginn úr hringrás samsara. Vald guruins er algert. Hann er ómissandi. Guruinn er því miklu meira en aðeins kennari eða leiðbeinandi um lendur jóga. Hann er „endurlausnarinn“, frelsarinn, og stundum tilbeðinn sem slíkur hjá Indverjum.

Tökum sem dæmi brot úr hinu indverska helgikvæði „Gurugitan“- lofsöngi til gurusins:

Miskunn guðs kemur og fer, hún skiptir ekki öllu. En án miskunnar Satgurus erum við glötuð. Ég get svikið guð minn, en eigi mun ég yfirgefa guruinn minn að eilífu.

Sjöunda orkustöðin er utan líkama og heims. Hún er „moksha“, frelsunin. Sá er þangað nær þarf ekki lengur að endurfæðast, er laus undan endurfæðingu og þar með endurdauða.

Atman sameinast Brahmann, guðaneisti manns og heims verður eitt.

Leitinni lýkur og leitandinn hverfur inn í nirvana.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2017 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 451.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar