Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Haraldur Hreinsson og Sigurjón Árni Eyjólfsson

Guðfræðilegur grunnur biskupsembættisins

Andspænis fjölbreytileika og fjölhyggju í trúarhugsun og trúarmótun nútímans verður vart við kröfu á kirkjuna um skýra stefnu og leiðsögn í lífi einstaklinga. Í slíkum aðstæðum má greina ýmiss konar væntingar til biskupsembættisins og þeirra sem því gegna. Ef þessar væntingar eru athugaðar nánar kemur í ljós að þær fela í sér einkum þrennt. Fyrir það fyrsta ber að nefna kröfuna um að biskup sé n.k. „forstjóri“ kirkjunnar. Efnahagur og skipulag kirkjunnar hefur tekið stakkaskiptum og eru kirkjur og söfnuðir nú stórar „rekstrareiningar“. Í samræmi við það vilja allmargir sjá biskupsembættið sem n.k. „forstjóraembætti“ og líta svo á að biskupinn eigi að hafa fullt vald á rekstri þess „stórfyrirtækis“ sem þjóðkirkjan „á“ að vera. Í annan stað hefur áherslan á prestslega þjónustu biskupsins gagnvart prestum og söfnuðum verið miðlæg í starfi biskups (t.d. í vísitasíum). Þó nokkra þörf er að finna fyrir biskupinn sem sálusorgara presta, annarra starfsmanna kirkjunnar og þjóðarinnar í heild. Í því hlutverki á biskup að koma fram sem fremstur meðal jafningja. Loks verður maður var við kröfuna um að biskup verði að vera merkur guðfræðingur sem verji játningu kirkjunnar og taki skýra afstöðu til þjóðfélagsmála í ljósi hennar. Ef við tökum allar þessar væntingar saman þá er ljóst að engin ein manneskja getur risið undir þeim og óneitanlega bera þær einkenni „messíanskra“ vona enda má segja að þær kallist á við þrjú embætti Krists: hið konunglega þar sem hann er leiðtogi og stjórnandi, hið prestlega þar sem hann er hirðir, huggandi og styrkjandi, og hið spámannlega þar sem hann boðar vilja Guðs skýrt og skorinort. Líta má á þá umfjöllun sem hér fer á eftir sem guðfræðilegan bakgrunn fyrir þá umræðu sem höfundar telja að þörf sé á í kringum biskupsembættið en mikilvægt er að öll umræða um mótun og (eftir atvikum) endurmótun biskupsembættisins hvíli á slíkum grunni.

Biskupar í Nýja testamentinu
Orðið biskup er leitt af latneska orðinu episcopus en að baki því liggur gríska orðið episkopos sem má finna á fáeinum stöðum í Nýja testamentinu. Grunnmerking orðsins vísar til þess að horfa yfir eða á (gr. epi-skopeo) en almennt, t.d. í Septúagintu og í klassískri grísku, vísar það til ólíkra tilsjónar- eða forstöðuhlutverka, t.d. innan ríkja, félaga eða í her. Í Nýja testamentinu kemur orðið fimm sinnum fyrir. Í 1Pét 2.25 vísar episkopos til Krists sem er, skv. íslensku biblíuþýðingunni frá 2007, þar nefndur „hirðir og biskup sálna“ þeirra sem áður voru villuráfandi. Í hin fjögur skiptin vísar það einstaklinga sem gegndu ábyrgðarstöðu innan kristinna samfélaga, ábyrgðarstöðu sem er meðal þeirra hlutverka sem virðast hafa verið í mótun þegar rit Nýja testamentisins voru rituð. Á þeim tíma voru slíkir tilsjónarmenn margir á hverjum stað og voru kallaðir jöfnum höndum öldungar biskupar (episkopoi) og (presbyteroi) en það orð kemur mun oftar fyrir í Nýja testamentinu en orðið biskup.
Í upphafi Filippíbréfisins (1.1) segir Páll, skv. 2007-þýðingunni íslensku, að hann biðji að heilsa „öllum heilögum í Filippí, sem eru í Kristi Jesú, ásamt biskupum þeirra og djáknum (gr. episkopois kai diakonois)“. Í ljósi þess hversu ólíka skírskotun orðið „biskup“ hefur í nútímamáli er orðið þýtt í mörgum erlendum biblíuþýðingum með almennari hætti sem vísar fremur til umsjónarhlutverks í söfnuði og þar með reynt að forðast þau hugrenningatengsl sem orðið „biskup“ vekur vegna sögu embættisins. Orðið kemur síðan aftur fyrir í Postulasögunni sem var rituð áratugum eftir að Páll skrifaði Filippíbréfið, sennilega undir lok 1. aldar eða í byrjun 2. aldar. Á þeim tímapunkti sögunnar (20.17) er Páll staddur í Efesus í Litlu-Asíu og er sagður kalla saman öldunga safnaðarins (gr. tous presbyterous tes ekklesias) til þess að ávarpa þá og leggur höfundur textans honum m.a. eftirfarandi orð í munn: „Hafið gát á sjálfum ykkur og allri hjörðinni sem heilagur andi fól ykkur til umsjónar (gr. eþeto episkopous). Verið hirðar kirkju Guðs sem hann hefur aflað sér með sínu eigin blóði“ (Post 20.28). Af þessum tveimur textum verður ekki mikið ráðið um hlutverk þeirra sem gegndu slíku umsjónarhlutverki annað en að það voru fleiri en einn einstaklingur sem gegndu slíkri ábyrgðarstöðu, einfaldlega vegna þess að í báðum tilvikum er orðið í fleirtölu.

Öðru máli gegnir um þau tvö skipti sem orðið „biskup“ kemur fyrir í tveimur af þremur svonefndum hirðisbréfum, Fyrra Tímóteusarbréfi og Títusarbréfi. Þar er mun nánari útlist¬un að finna á þeim siðferðilegu kostum sem skyldu prýða þann sem gegndi slíkri stöðu. Rétt er að minna á að mikill meirihluti fræðimanna lítur svo á að þessi bréf séu skrifuð seint á 1. öld (undir fölsku höfundarnafni Páls) til kristinna safnaða þegar agavald og félagslegt taumhald innan safnaðanna hefur aukist til muna frá því fyrr á öldinni og umgerð þeirra tekið á sig fastari mynd. Í 1Tím 3.2 er biskupsstarfið (gr. episkope) sagt vera „göfugt hlut¬verk“ eða „góður starfi“. Sá sem því gegnir verður að vera „óaðfinnanlegur“ í allri breytni og á eftir fylgir langur listi þeirra kosta sem hann skulu prýða, s.s. einkvæni, bindindi, hógværð, hátt¬prýði, gestrisni, o.s.frv. Hann skal vera „góður fræðari“ og heimili hans og fjölskylda skal vera til fyrirmyndar samkvæmt hinu hefðbundna fjölskyldumynstri fornaldar. Hið sama er uppi á teningnum í Tít 1.6–9 en þar er „biskup“ m.a. sagður vera „ráðsmaður Guðs“ (gr. þeou oikonomos) og enn fremur er ætlast til þess að hann sé „fastheldinn við hið áreiðanlega orð, sem kennt hefur verið, til þess að hann sé fær um bæði að uppörva með hinni heilnæmu kenningu og hrekja þá sem móti mæla.“ Á grundvelli þessara lýsinga hirðis¬bréfanna tveggja hafa margir bent á að þar megi greina hliðstæðu milli stöðu „biskupsins“ í húsi Guðs, þ.e. söfnuðinum, og heimilisföðurins (lat. paterfamilias) í grísk-rómversku heimilishaldi og túlka hlutverk hans í ljósi slíkra líkinda.

Af ofangreindu má ljóst vera að í textum Nýja testamentisins er ekki að finna nein bein merki um „biskupsembætti“ í þeirri mynd sem það átti síðar eftir að taka á sig, þ.e. þar sem einn biskup er leiðtogi safnaðar á tilteknu svæði og enn síðar sem hluti af útfærðu stigveldi og valdakerfi (þ. Monepiskopat). Hlutverk biskupsins var í mótun eins og allt safnaðarfyrirkomulag á þessum tíma en gera má ráð fyrir að þar hafi verið um talsverða fjölbreytni að ræða. Ef marka má ýmsar lýsingar úr bréfum Páls má ætla að fyrst um sinn hafi fyrirkomulagið sums staðar verið frjálslegt og farið eftir tengslum hvers og eins við hinn heilaga anda (1Kor 12.7 o.áfr.). En eftir því sem leið á 1. öldina, svo að ekki sé talað um þegar komið er fram á 2. öld, voru söfnuðir kristins fólks knúnir til að bregðast við þeirri staðreynd að endurkoma Krists og endir tímanna virtist láta á sér standa. Smám saman tók fólk að horfast í augu við það sem koma mundi á daginn að kristnir söfnuðir þyrftu að dveljast hér á jörðu mun lengur en apókalyptískar væntingar frumkristninnar gerðu ráð fyrir. Því var ekki annað í stöðunni en að koma á skipulagi. Mikilvægt er að hafa í huga að slík skipulagning var ekki einungis praktískt viðfangsefni heldur einnig trúarlegt. Skipulagið hlaut að kallast á við þann grundvöll sem trúin byggðist á og víst er að ýmsar hugmyndir voru á sveimi meðal hinna kristnu, t.a.m. áðurnefnd tengsl við heilagan anda en ekki síður hugmyndin um tengsl við lærisveina og postula.

Biskupsembættið að evangelísk-lútherskum skilningi
Ef hugað er að skilningi evangelísk-lúthersku kirkjunnar á biskupsembættinu er nauðsynlegt að skoða hvað stendur um það í játningarritum hennar þ.á m. Ágsborgarjátningunni og þeim ritum sem henni tengjast. Þegar þessir textar eru rannsakaðir ber að gæta þess, að þeir taka mið af biskupsembætti samtíðar sinnar og þar með þeim forréttindum, réttindum og skyldum sem bundnar voru embættinu á þeim tíma. Í játningunni er fyrst gerð grein fyrir eðli prédikunarembættisins og síðan biskupsembættinu sem útfærslu þess. Það útskýrir gagnrýnina á biskupsembættið í áðurnefndum textum. Á tímum siðbótarinnar var ekki til staðar nein heildarkenning um eðli og umfang biskupsembættisins í kaþólsku kirkjunni. Hún var fyrst sett fram innan rómversk-kaþólsku kirkjunnar eftir langa þróun í textum Annars Vatíkansþingsins um kirkjuna í „Lumen gentium“ frá 21. nóv. 1964. Í Ágsborgarjátningunni er fyrst og fremst fjallað um kenni- og skipunarvald biskupa (lat. potestates jurisdictionis; potestates ordinis). Þar er ekkert sagt um óslitna postullega vígsluröð biskupa sem siðbótarmenn höfnuðu.

Samkvæmt ofangreindum ritum siðbótarmanna er mikið fjallað um þá viðleitni biskupa að réttlæta stöðu og vald sitt með tilvísun í ritningartexta. Fyrir valinu verða gjarnan staðir þar sem postulunum eða lærisveinum er veitt vald eða kennivald af Jesú, sem biskupar tengja beint við sjálfa sig og embætti sitt. Gegn þessari túlkun mælir margt, segja siðbótarmenn. Í fyrsta lagi er í þessum textum ekki verið að setja reglur um alla framtíð, hvað þá að veita almennt vald, heldur sé um að ræða almenna tilskipun um að boða fagnaðarerindið og veita skriftaþjónustu. Vonlaust verk sé að leiða af þessum ritningarstöðum hugmyndir um rétt biskupa t.d. til að skilgreina hvað sé dauðasynd og hvað ekki. Hvað þá að biskupar hafi vald til að setja lög og reglur sem söfnuðum beri að lúta og hóta þeim banni sé þeim ekki fylgt.

Í annan stað benda siðbótarmenn á að þessar ritningargreinar fjalli um vald sem kirkjunni allri er veitt eða söfnuði trúaðra í krafti almenns prestsdóms, en ekki sérstöku embætti. Allir skírðir hafa lyklavaldið og vald til að fyrirgefa syndir en innan safnaðarins, við embættisverk og í guðþjónustum, er venjan þó sú að vissum aðila er falið að sinna því fyrir söfnuðinn. Ef hans nýtur ekki við, þá er það hvers safnaðarmeðlims að sinna lyklavaldinu. Í kristni er ekki til einhver andleg staða, æðri en sú sem hver kristinn einstaklingur öðlast í skírn. Sérstakt prestsembætti er stofnað til að tryggja reglulega boðun og veitingu sakramenta. Það embætti er leitt af almennum prestdómi og er rökleg afleiðing hans. Embættið hefur því ekkert að gera með sérstaka vígslu, sem hefur það markmið að hefja prest og/eða biskup yfir söfnuðinn eða aðgreina hann frá honum. Prests- og biskupsembættin eru mun fremur útfærsla á hinum almenna prestdómi og bæta engu sérstöku við hann. Hér ráða hagnýt sjónarmið ferðinni.

Í játningarritum evangelísk-lúthersku kirkjunnar eru sígild hlutverk biskups (lat. potestas jurisdictionis og potestas ordinis) löguð að áherslum siðbótarinnar. Samkvæmt rómversk-kaþólskri kenningu snýr vígsluvald biskupa, þ.e. potestas ordinis, að vígslu presta, kirkna, sakramentis o.s.frv. En potestates jurisdictionis snýr að kenningunni og lyklavaldinu m.a. annars í sálusorgun. Melanchton tengir þessi hlutverk saman í skýringum sínum við Ágsborgarjátninguna og segir: „Þannig ber biskupi […] að boða fagnaðarerindið og veita sakramentin. Hann hefur einnig vald til að beita aga og má útiloka úr kristnum söfnuði þá sem gerast sekir um alvarleg brot og taka aftur inn þá sem iðrast hafa.“ Um vígsluvald biskupa er ekki sérstaklega fjallað en áherslan er skýr og hvílir á prédikunarembættinu, veitingu sakramenta og lyklavaldinu, þ.á m. á hlutverki biskups sem sálusorgara. Vígsluvald biskupa, m.a. innsetning presta í embætti, er hér samofið prédikunarembættinu. Þessi skilningur liggur til grundvallar 28. grein Ágsborgarjátningarinnar, en þar segir að biskupsvaldið „sé samkvæmt fagnaðarerindinu vald eða boð frá Guði um að prédika fagnaðarerindið, leysa og binda syndina og þjóna með sakramentunum.“ Í riti Melanchtons Ritgerð um páfans vald og forræði er hnykkt á þeim skilningi að enginn eðlismunur sé á embætti biskups og prests. Munurinn á embættunum er hagræðingar vegna og byggist á mannlegri skipan. Prestsvígsla er því kirkjuréttarleg athöfn og staðfesting á vali safnaðarins. Ef biskupar verða ekki við ósk safnaðarins um að setja inn í embætti eða vígja viðkomandi, þá hafa safnaðarmeðlimir rétt til að setja eða vígja hann eða hana í embætti.

Hlutverk biskupa og presta er að sjá til þess að prédikunarembættinu sé sinnt með því að tryggja reglu og almennt starf safnaðarins. Þetta á sérstaklega við um guðþjónustuhald á sunnudögum og öðrum helgum dögum. Í 28. grein Ágsborgarjátningarinnar segir því: „Hvað á þá að segja um drottinsdaginn og álíka kirkjusiði? Því svara þeir til, að biskupum eða prestum sé leyfilegt að setja skipanir, til þess að allt fari skipulega fram í kirkjunni, en ekki til þess að vér fullnægjum fyrir syndirnar með þeim eða samviska manna sé skylduð til að álíta, að þær séu nauðsynleg guðsdýrkun […] Söfnuðunum sæmir að gæta slíkra tilskipana vegna kærleikans og friðarins og halda þær, til þess að enginn hneyksli annan, en allt fari skipulega fram í söfnuðinum og án ófriðar. Umfram allt má ekki íþyngja samvisku manna með því að halda þeim fram sem nauðsynlegum til sáluhjálpar“. Vissulega hafa biskuparnir veraldlegt vald en þar lúta þeir þeim reglum og venjum sem um það gilda á hverjum tíma. Þar er þó aðallega litið til laga og reglna sem tengjast kirkjunni varðandi hjónabandið o.s.frv. og tekið fram að eigi megi rugla þeim saman við svið fagnaðarerindisins í samræmi við tveggjaríkjakenninguna.

Í játningarritunum er prédikunarembættið mælikvarði og farvegur biskupsembættisins. Biskupar hafa því ekkert sérstakt andlegt vald eða umboð fram yfir það. Þess vegna er í kirkju-skipunum evangelísk-lúthersku kirkjunar í Þýskalandi tekið fram að biskupsembættið sé prestsembætti og leitt af almennum prestsdómi.

Umfjöllun Lúthers um biskupsembættið
Lúther kemur oft inn á eðli og hlutverk biskupsembættisins í skrifum sínum. Það gefur að skilja að athugasemdir hans eru litaðar af þeirri umræðu, þeim aðstæðum og átökum sem hann á í. Hér er ætlunin að veita eilitla innsýn í þessi skrif og reyna að draga fram nokkrar útlínur í skilningi hans á embættinu.

Í riti Lúthers Til hins kristna aðals frá 1520 er fjallað um biskupsembættið og vísað til Ritningarinnar og í umfjöllun Híerónýmusar (d. 420). Þar er Lúther að vinna með sömu texta og vitnað var í hér að framan og ber túlkun hans merki þeirra átaka sem hann átti í á þeim tíma. Eins og í öðrum siðbótarritum sem hér hefur verið fjallað um leggur hann þunga áherslu á biskupsembættið sem prédikunarembætti og jafnframt möguleika klerka og þ.a.l. biskupa til að ganga í hjónaband og stofna fjölskyldu. Í einni ritdeilu dregur Lúther fram að samkvæmt Postulasögunni (Post 20.27–28) sé prédikunarembættið inntak þess starfs sem öldungar, prestar og biskupar sinna innan safnaðarins. Hér er sem sé um sama embættið að ræða þótt útfærsla þess geti verið á ýmsa vegu. Að greina á milli embætta kirkjunnar með einhvers konar stigveldishugmyndum er þar með andstætt vitnisburði Ritningarinnar. Í röksemdafærslum sínum grípur Lúther til almenns prestdóms sem forsendu prests- og biskupsembættisins en dregur einnig fram að embættið sé sérstaklega stofnað af Guði (Tít 1.5–7). Í Ritningunni komi fram að það séu ekki stofnanir eins og kirkjan eða háskólar sem velji og skipi í embættin, heldur heilagur andi. Hann sjái til þess að söfnuðir öðlist dugandi menn og nýti að sjálfsögðu til þess stofnanir kirkjunnar og háskóla. Afgerandi er þó að Ritningin kenni að biskupsembættið er ekki embætti valds og valdboðs sem sett sé yfir kristið fólk, það er embætti hirðis sem tryggir boðun og veitingu sakramenta (1Pét 5.1–4; Lúk 22.24–30). Kirkjan sem andlegt ríki Krists er eðlisólík ríkjum heimsins þó að stofnanir hennar lúti svipuðum lögmálum og þau.

Guðfræðingurinn Martin Brecht dregur áherslur Lúthers saman og segir að að mati hans séu „[k]ristnir biskupar virðulegir eldri menn, giftir, jafnvel leikmenn, en lærðir í Guðs orði og sannleika. Sérstakur munur á leikum og lærðum er ekki til staðar hjá honum.“ Val á biskupum er því í höndum safnaða, presta og annarra biskupa í umboði safnaða. Lúther er sannfærður um að fylgja hér venjum fornkirkjunnar. En túlkun hennar er í greinilegri andstöðu við þá valdstjórn sem búið var að binda við biskupsembættið á siðbótartímanum.

Lúther fjallar einnig um umsjónarstarf biskups með söfnuðum og prestum. Það embætti er starf hirðis sem fyrirmyndar og ekki öllum gefið. Lúther telur eitt meginhlutverk biskups að gæta kenningarinnar og sjá til þess að fagnaðarerindið sé réttilega boðað af þjónum kirkjunnar. Þeir þurfa að verja söfnuðinn fyrir boðskap sem er í andstöðu við fagnaðarerindið og beita agameðulum innan kirkjunnar í því skyni. Það krefst af biskupum að þeir séu vel að sér í Ritningunni, í ritskýringu og kenningunni. Lúther gerir ráð fyrir að biskup eigi að kalla til aðila sem geta stutt hann í þjónustu við söfnuðina ef hann er ekki öruggur á einhverju sviði starfs síns. Lúther fylgir hér í meginatriðum þeim áherslum sem koma fram í Ágsborgarjátningunni.

Af ofangreindu er ljóst — samkvæmt Ágsborgarjátningunni og Marteini Lúther sem merkum fulltrúa úr hópi guðfræðinga siðbótarinnar — að biskup er ekki staðgengill Krists, heldur fylgir Kristi eins og allir trúaðir. Samkvæmt Lúther og Ágsborgarjátningunni er biskupsembættið prestsembætti. Eitt meginverkefni siðbótarinnar á sínum tíma var að gera skýran greinarmun á þessu hlutverki og öllu veraldarvafstrinu sem einkennt hafði biskupa þess tíma (Ágsborgajátningin 28). Í ljósi þess væri rétt að binda starf biskups við boðun og eftirlit (vísitasíur) og ítreka stöðu biskups sem tilsjónarmanns sem hafi það verkefni að tryggja að innan kirkjunnar sé orðið boðað og sakramentunum útdeilt með réttum hætti (sbr. 5. og 14. gr. Ágsborgarjátningarinnar). Þetta eru meginstoðir biskupsembættisins sem þarf að laga að aðstæðum samtímans hverju sinni.

Lokaorð
Á umliðnum áratugum hefur kirkjan þurft að mæta nýjum viðfangsefnum, tímarnir hafa breyst, þjóðkirkjufólki fækkar. Þess vegna hefur kirkjan þurft að skilgreina sig í vaxandi mæli sem ein af mörgum stofnunum samfélagsins, ólíkt því sem áður var þegar litið var á þjóð og þjóðkirkju sem eina samstæða heild. Í ljósi þessarar þróunar og þess sem rakið hefur verið hér að framan má spyrja hvort ekki megi fela öðrum sum þeirra verkefna sem alltaf eru tengd biskupi, t.d. daglegan rekstur, stjórnun o.s.frv. Slík verkaskipting og valddreifing samræmist nútímaþjóðfélagsgerð og evangelísk-lútherskri trú, þar sem gengið er út frá fjölbreytileika í stjórnarháttum og ytra fyrirkomulagi kirkjunnar. Verkefni kristinna manna er ætíð hið sama: að koma inntaki fagnaðarerindisins um Krist skýrt á framfæri í orði og verki. Það getur þjóðkirkjan einungis gert í gegnum samræðu við samtímann, samræðu sem biskup Íslands á að hvetja til og styðja. Því er nauðsynlegt að draga úr óraunhæfum væntingum og beina sjónum að því sem embættið á að standa fyrir samkvæmt þeirri túlkun ritningarinnar sem birtist í játningum evangelísk-lútherskrar kirkju.

Þjóðkirkjufólk þarf að taka afstöðu til þessa guðfræðilega grundvallar og þeirrar útfærslu sem samtíminn kallar eftir. Hér stendur kirkjan ekki ein. Á tímum Lúthers var gripið til þeirra stjórnunarhátta sem þá voru í mestum blóma og furstarnir, sem voru leikmenn, voru gerðir að biskupum til þess að stjórna kirkjunni. Að mörgu leyti leystu þeir það verkefni vel af hendi. Í upphafi 19. aldar aðlagaði Friedrich D. E. Schleiermacher (1768-1834) að lýðræðisþróun og þjóðernisstefnu og hið sama gerði íslenska þjóðkirkjan á 20. öld. Í þeim samtíma sem kirkjan stendur í getur hún óhrædd gripið til ríkrar biblíulegrar hefðar og útfærslu hennar í aldanna rás án þess þó að gleyma því að allar þessar útfærslur eru sögulega skilyrtar. Af því leiðir að kirkjan sem samfélag trúaðra eða þjóðkirkja getur ekki höfðað til horfinnar fortíðar til að fría sig ábyrgð af því að móta stefnu og stjórnun kirkjunnar sem tekur mið af veruleika samtímans. Það er kirkjunnar að taka hér frumkvæðið. Hún hefur ekki lengur neinn fursta til að halla sér að eða ríkisvald sem sér um hennar mál og þaðan af síður er rétt að varpa vandamálinu í fang biskups sem á að leysa allan vanda. Biskupsembættið sameinar ekki prests-, konungs-, og spámannsembætti Krists heldur byggist á prédikunarembættinu eins og öll embætti kirkjunnar. Verkefnið snýr að öllum meðlimum þjóðkirkjunnar, bæði í söfnuðum, kirkjustjórn eða hvar svo sem þeir kjósa að staðsetja sig.

„Ítarlegri útgáfu af þessari grein með tilvísunum er að finna í síðustu útgáfu Ritraðar guðfræðistofnunar 44/1 (2017): 21-32. Hún er aðgengileg á eftirfarandi vefslóð:
https://ojs.hi.is/ritrodgudfraedistofnunar/article/view/2626/1417″

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 1588.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar