Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Sjöfn Jóhannesdóttir

Safnaðarferð og messa í Reading

22. maí 2017

Kór-og sóknarnefndarfólk og makar frá Stöðvarfirði, Breiðdal og Djúpavogi fóru í safnaðarferð til Reading í Englandi dagana 28. apríl - 1. maí. Dvalið var í borginni í góðu yfirlæti og einnig farin skoðunarferð í Windsor kastala, sem er ekki langt frá borginni. Sunnudaginn 30. apríl söng kórinn undir stjórn Daníels Arasonar kórstjóra við messu í kirkju heilagrar Maríu.

Fyrir tæpum tveimur árum fórum við prestar í Djúpavogs- og Heydalaprestakalli ásamt prófasti sr. Davíð Baldurssyni í heimsókn til Reading til að kynna okkur kirkju- og safnaðarstarf í borginni. Þá kynntumst við sr. Steven Pullin, en hann skipulagði ferð okkar þá og tók á móti austfirsku prestunum og kynnti þeim það helsta í kirkjustarfinu hjá þeim. Sr. Steven er einmitt prestur við Maríukirkjuna þar sem kórinn söng og við messuna prédikaði Gunnlaugur og Sjöfn las bænir og flutti þakkarorð. Þessi íslenska messa var auglýst hjá Íslendingafélaginu í Bretlandi og það var ánægjulegt að nokkrir Íslendingar komu langt að til vera við messuna, þar á meðal kona sem býr í London en á ættir að rekja í Breiðdalinn.

Margir Bretar spurðu af hverju við hefðum valið að koma til Reading. Þá sögðum við að sjálfsögðu að allir á Austurlandi þekktu borgina og ekki síst fótboltaliðið eftir að Stöðfirðingurinn Ívar Ingimarsson lék knattspyrnu með Reading liðinu í nokkur ár og bjó þar ásamt konu sinni Hrefnu Arnardóttur frá Breiðdalsvík og börnum þeirra. Þannig getur fótbolti og kirkja tengst og Bretum fannst gaman að heyra það. Nokkrir af ferðafélögunum í messuferðinni fóru einmitt á völlinn og sáu leik með Reading liðinu.

Þetta var góð og fróðleg ferð og mikilvægt að fara á nýjar slóðir og kynnast kirkjustarfi í öðrum löndum.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2018 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1685.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar