Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Þórhallur Heimisson

Burt með Gamla testamentið!

30. apríl 2017

Ég var að horfa á ónefndan viðtalsþátt á Rúv fyrir skömmu, sem ekki er í frásögur færandi. Ágætur þáttur og oft áhugaverður.

Nema hvað, í þessum þætti var gerð hörð hríð að Gamla testamenti Biblíunnar, sem viðmælendur stjórnenda fundu allt til foráttu. Þar væri ekkert að finna nema morð og stríð og reiðan Guð. Best væri að hafa sem minnst með þetta rit að gera.
Um þetta voru allir á sama máli og hlegið dátt að vileysunni í þessu forna riti.

Það er reyndar furðu oft sem þannig er talað um Gamla testamentið. og ekki skrítið, því það meira að segja lengi vel tíska innan kirkjunnar að lesa helst ekkert úr því í messum – og hafa sem minnst með það að gera.

Sjálfur er ég reyndar mjög hrifinn af GT eða Gamla testamentinu, og langar því til að bera fram örlitla vörn því til handa.

Það er mikilvægt að muna bæði Gamla og Nýja testamentið eru hluti af Biblíu kristinna manna.
Biblían er reyndar sérstök og einstök bók. Í raun er hún ekki ein bók heldur safn bóka, enda þýðir orðið Biblía margar bækur og frá henni er komið útlenda orðið Biblíótek eða bókasafn. Biblían er safn bóka er varð til á löngum tíma og stendur því á gömlum merg. Elstu bækur Biblíunnar, ritaðar á hebresku, geyma sögur og munnmæli frá því um árið 1300 fyrir Krist og var þeim safnað í Gamla testamentið ásamt yngri spádómsritum Ísraelsmanna. Þessi söfnun fór fram um það leyti sem Jesús fæddist

Elstu hlutar Biblíunnar eru því þrjú þúsund ára gamlir eða meir. Yngstu ritin eru frá því fáum áratugum eftir krossfestingu Krists og upprisu. Allar götur síðan hefur Biblían verið ein af stoðum menningarinnar í veröldinni. Hvort sem menn nú trúa því sem í Biblíunni stendur eða ekki. Myndlist og tónlist, skáldskapur og byggingarlist, kvikmyndir og leiklist sækja að nokkru leyti í brunn Heilagrar ritningar. Siðferði og samfélagssnið eiga sama uppruna, að ógleymdum trúarhugmyndum manna og tilverugrundvelli hvarvetna þar sem kristnin hefur skotið rótum í aldanna rás.
Sá sem vill vera læs á fortíð sína og samtíð, umhverfi og rætur, ætti að gera sér far um að lesa Biblíuna og brjóta hana til mergjar eftir því sem hann hefur tök á.

Ekki má heldur gleyma áhrifum allrar Biblíunnar á tungumálið, til dæmis öllum þeim málsháttum og orðtökum sem komin eru til okkar þaðan, þó við höfum gleymt uppruna þeirra. Ég mun draga fram nokkur dæmi um þetta síðar í bókinni.

Gamla testamentið greinir frá sögu og reynslu Ísraelsþjóðarinnar fyrir fæðingu Jesú. Úr hebresku Biblíunni eins og gyðingar kalla þetta rit, er lesið í samkunduhúsum gyðinga. Tengir það okkur saman, kristna og gyðinga, og er sameiginlegur arfur okkar. Þegar við kristnir menn lesum Gamla testamentið, þá lesum við það í ljósi Jesú og leggjum höfuðáherslu á þær bækur þess sem hann lagði áherslu á. Má þar sem dæmi nefna Davíðssálma og spádómsbók Jesaja.

Svona lítur Gamla testamentið út í stuttu máli:
Mósebækurnar eru fimm og kallast Torah. Pentateuk er hið latneska heiti á Mósebókunum en það þýðir Bækurnar fimm, eða Fimmbókarritið á íslensku. Torah þýðir í raun og veru lögin og í Mósebókunum fimm er falið lögmál gyðinga. Stundum er Torah notað sem hugtak fyrir alla Hebresku biblíuna.

Mósebækurnar hafa allar sitt heiti þó svo að lítið sé um það vitað hér á landi. En við könnumst við nöfnin um leið og við heyrum þau, alla vega fyrstu tvö sem eru fræg í poppsögunni.
Fyrsta Mósebók nefnist Genesis á latínu – sem merkir upphafið. Þar er að finna sköpunarsöguna, sögurnar um Paradís og syndafallið, Adam og Evu, Kain og Abel, Nóa og syndaflóðið, Abraham, Söru, Ísak, Hagar, Ísmael og þá Jakob og Jósef og bræður hans. Þar er líka sagt frá borgunum Sódómu og Gómorru.

Önnur Mósebók nefnist Exodus á latínu – sem merkir brottförin. Þar segir frá Móse og ferð Ísraelsmanna yfir Rauða hafið, sáttmálanum og hvernig Móses fékk töflurnar með boðorðunum tíu. Þar er líka sagt frá dansinum kringum Gullkálfinn, Mírjam systur Móse, Manna sem féll frá himnum og mörgu öðru.

Þriðja Mósebók nefnist Leviticus á latínu – sem merkir eiginlega það sem tengist prestunum. Hér er að finna hreinsunarlögin svokölluðu, yfirlit yfir hvað telst hreint og hvað óhreint og aðrar reglur og margvísleg lög sem tengjast helgihaldinu í musterinu í Jerúsalem til forna. Hér er til dæmis forskrift að því hvaða matur er hreinn sem er undirstaðan undir kosher mat gyðinga í dag – sem er sú fæða sem sanntrúaðir mega eta.

Fjórða Mósebók nefnist Numeri á latínu – sem merkir tölur eða fjöldi. Hér segir frá göngu Ísraelsþjóðarinnar í gegnum Sínaíeyðimörkina og ættbálkunum 12.

Fimmta Mósebók nefnis Deuteronomium á latínu – sem merkir einfaldlega fimmta bókin. Þar er einnig að finna boðorðin tíu og önnur lög og reglur. Fimmtu Mósebók lýkur með dauða Móse.
Eftir Mósebækur taka við rit sem einu nafni kallast Sögulegu bækurnar. Þær lýsa sögu, lífi og tilveru hinna fornu Ísraelsmanna, konuga, dómara og spámanna. Ein og ein kona ratar þarna með. Í þessum flokki er að finna Jósúabók, Dómarabókina, Konungabækurnar og Kronikubækurnar svo dæmi sé tekið. Job, Davíðssálmar, Orðskviðirnir, Predikarinn og Ljóðaljóðin teljast til Ljóðrænna bókmennta. Þar er að finna nokkra af mestu fjársjóðum tungunnar, finnst mér alla vega. Meðal Spámannaritanna eru spádómsbækur eins og Jesaja, Jeremía, Amos og Malakí. Spámennirnir hafa áhyggjur af því hvernig lýðurinn víkur af braut trúarinnar - og konungarnir og þeirra ”hyski” með. Þeir, spámennirnir, vara við afleiðingunum, hóta, hræða og hugga. En oft með litlum árangri. Eftir Spámannaritin tekur Gamla testamentið venjulega enda.

En í nýju Biblíuþýðingunni íslensku frá árinu 2007 getur að lesa 11 bækur sem bætast aftan við bækur Gamla testamentisins. Þessar bækur kallast Apókrýfu ritin. Það merkir leyndu, geymdu, duldu ritin.
Í Biblíunni fáum við að heyra um það hvernig Guð hefur talað til manna, sem aftur miðla upplifun sinni til okkar. Og þeir segja okkur líka frá því hvernig Guð hefur gripið inn í söguna. Þannig eru rit Biblíunnar verk manna, skrifuð af mönnum og þess vegna er nauðsynlegt að rannsaka þau sem slík, hvernig þau urðu til og hvers vegna, hvert samhengi þeirra er og svo framvegis. Og það þarf líka að rannsaka heimildagildi þeirra með aðferðum vísindanna eins og gert er á fræðastofnunum víða um heim. Öll rit Biblíunnar lesum við kristnir menn fyrst og fremst í ljósi Jesú Krists. Þess vegna köllum við hebresku Biblíuna Gamla testamentið, því hún segir frá hinum gamla sáttmála Guðs við mennina. Jesús er aftur á móti hinn nýi sáttmáli, hið Nýja Testamennti. Við túlkum lögmál Gamla testamentisins út frá orðum Jesú og við njótum Davíðssálmanna í ljósi hans. Þegar við t.d. lesum sálminn “Drottinn er minn hirðir” sem saminn var löngu fyrir fæðingu Jesú, hugsum við þá ekki alltaf um hirðinn Jesú? Og þannig mætti lengi telja. Því allan boðskap Biblíunnar má draga saman í boðskap Jesú. Í orðum hans lífi hans og dauða, kom Orð Guðs til okkar. Postularnir predikuðu fagnaðarerindið um Jesú og vitnuðu í spádóma Gamla testamentisins til að útskýra um hvað þeir voru að tala. Í þeirra huga snerist öll Biblían um Jesú einan. Og enn í dag túlkum við kristnir menn orð ritningarinnar í ljósi hans. Þess vegna hefur boðskapur hennar haft eins mikil áhrif og raun ber vitni. Umhyggja okkar fyrir þeim sem minna mega sín er rakin til orða Jesú, Gullnu reglunnar og Tvöfalda kærleiksboðorðsins svo tvö dæmi séu nefnd.

Oft á tímum hefur orð GT orðið til þess að velta um koll óréttlátu þjóðfélagskerfi og gefa mönnum kjark til að sækja fram til frelsis og réttlætis. Biblían og GT líka er nefnilega byltingarrit öðru fremur.
Þess vegna hefur hún löngum verið bönnuð þar sem harðstjórn ríkir. Því kúgararnir vilja vinna verk sín í myrkrinu þar sem enginn sér til, en orð Biblíunnar lýsir upp myrkrið og opinberar verk myrkursins. Biblían hefur líka haft úrslitaáhrif á varðveislu tungu okkar og menningar. Íslendingar hafa verið handgengnir henni frá því á miðöldum. Kapítular og erindi úr því mikla ritsafni sem Biblían er voru þýdd á íslensku fyrir einum átta hundruð árum eða meir. Allar götur síðan hefur Orð Guðs átt þátt í að móta tungu landsmanna. Á sextándu öld voru Nýja testamentið og síðan Ritningin öll gefin út á íslensku. Það voru siðbótarmennirnir svokölluðu sem það verk unnu. Eða siðbreytingarmennirnir, allt eftir því hvaða augum maður lítur verkin þeirra. Með þessu móti áttu siðbótarmenn meiri þátt í því en nokkrir aðrir að þróa tungu okkar á síðari öldum. Það sést best á frændum okkar Norðmönnum sem áttu Biblíuna ekki á eigin tungu – og hafa glatað tugumáli sínu.

Biblían er samansett úr 66 bókum. 39 þeirra er að finna í Gamla testamentinu en 27 í hinu nýja. Orðið ”testamenti” þýðir “sáttmáli” eins og ég nefndi hér fyrr, og vísar til sáttmála Guðs við Móse (þegar Móses fékk steintöflurnar með boðorðunum 10) og til lífs, dauða og upprisu Jesú.
Heimur GT er óravíður. Hann spannar þúsundir ára. Í textum GT endurspeglast margskonar menningarheimar og trúarbrögð fornaldarinnar, þar eru nefnd ríki, lönd og þjóðtungur sem flest eru horfin fyrir löngu. Frásagnir GT gerast í Miðausturlöndum fornaldar, í Norður-Afríku, Rómaveldi og heimsveldum Grikklands, Egyptalands og Mesópótamíu. Sögur GT gerast í Jerúsalem, Aþenu, Róm, Babylon, Damaskus og meðal Faraóa, svo aðeins örfá dæmi séu nefnd.

Þar með læt ég þessu lokið í bili um fjársjóði Gamla testamentisins –

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2017 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 970.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar