Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Þórhallur Heimisson

Jóga - Annar hluti

20. mars 2017

Þá held ég áfram að velta fyrir mér inntaki og uppruna jóga í þessum öðrum pistli af fimm sem ég mun birta hér á tru.is um efnið.

Stóri / litli (mikro/makro)

Í austrænum trúarbrögðum er mikið gert af því að notast við „analogiur“ eða heimfærslur. Það er, að telja hluti sem líkjast hvor öðrum á einhvern hátt tengda eða skylda. Svo dæmi sé tekið af upplifun og skynjun hjá börnum, þá líkist leikfangabíll raunverulegum bíl og barnið telur að um bíl sé að ræða. Barnið býr til analogiu eða heimfærslu. Í raun er leikur barna ekkert annað en röð af slíkum analogium eða heimfærslum.

Ef við beinum skilningarvitunum að hinum innra heimi okkar og berum hann saman við umhverfið, líkist maðurinn á margan hátt alheiminum. Í heimi analogiunnar erum við mennirnir gerð úr sama efni og alheimurinn, söm alheiminum, af því að margt í okkur líkist honum. Þetta er tjáð innan jóga og hinduisma/búddisma, með því að kalla heiminn „hina stóru raunveru“ (makro-cosmos) en manninn „hina litlu raunveru“ (mikro-cosmos). Maður og heimur eru þannig spegilmynd hvors annars. Hægt er að setja þessa hugsun upp í smá jöfnu til skýringar og lítur hún þá þannig út.

EF:
Makrocosmos = Mikrocosmos

OG:

Heimur = Maður

ÞÁ ER:

jörð = Kjöt, bein
vatn = blóð, slím, sæði
eldur = hiti líkamans, ást/hatur
loft = andardrátturinn
rýmið = samband okkar og tengsl við umhverfið

Þannig samsvarar ytri raunvera heimsins innri raunveru mannsins. Súlan góða sem myndar frumefnin fimm, stúpan, táknar þá ekki aðeins heiminn, heldur líka og ekki síst, manninn sjálfan, frumefni mannsins. Tilgangur súlunnar er þannig að sýna okkur samhengi og markmið frumefnanna. Hún er vegferð um alheiminn (makrokosmos) eins og fyrr segir, en hún er sömuleiðis landabréfi yfir manninn (mikrokosmos).

Þegar frumefnin losna úr samhengi hvert við annað, gerast hörmungar og ógnir. Þau losna úr samhengi ef eitthvað verður til þess að trufla orkustreymið (prana á sanskrít, fornmáli Indverja ) er tengir þau saman. Margt getur valdið slíkri truflun og má þar nefna sjúkdóma, slys, mengun og aðra óáran. Þegar maðurinn ræðst að samhenginu í heiminum með rányrkju, órétti og græðgi, truflast orkustreymið. Það eru hin raunverulegu Ragnarök.

Hlutverk trúarbragðanna er að koma frumefnunum aftur í réttar skorður, að láta „harmoniu“, „ying og yang“, „tao“ , eða með öðrum orðum samhengi ríkja í heiminum.

Hlutverk jóga samkvæmt hindúisma og búddisma er að kenna okkur leiðina að samhenginu, simfóníu alheimsins. Hlutverk „jógans“, kennarans, er að kenna okkur að rata leiðina.

Hvaða þýðingu hafa frumefnin þá í jóga?

Í hinum indversku Taittirya Upanishadaritum frá því um 600 f.kr. má lesa eftirfarandi um tilurð heimsins:

„Frá Atman - Brahman kom rýmið. Frá rýminu kom loftið. Frá loftinu kom eldurinn, frá eldinum kom vatnið, úr vatninu reis jörðin“.

Eða með öðrum orðum. Vegna flæðis hins guðlega Atman-Brahman niður og inn í heiminn verða frumefnin til. Atman er hin ópersónlulega alheimssál sem býr í algyðinu Brahman. Atman fellur inn í heiminn samkvæmt trú hindúa og við fallið skapast veröldin. Flæðið á upphaf sitt á hinu andlega sviði og endar í því jarðneska. Frumefnin 5 eru þannig mistengd hinu andlega, misfyllt, hinu guðlega. Því nær sem þau standa Atman, því fyrr sem Atman fyllti þau á leið sinni niður í efnið, því guðlegri eru þau.

Úr því að manneskjan er gerð úr sömu efnum og alheimurinn, hefur hún einnig myndast á sama sama hátt, við fall eða niðurstreymi Atmans, frá hinu andlega til hins líkamlega.

Tökum eftir því hér, að um flæði niður á við er að ræða. Sköpun heimsins er neikvætt fyrirbrigði, fall frá hinu guðlega til hins jarðneska. Jörðin og allt sem henni tilheyrir, þar á meðal líkami mannsins, er því botninn, það sem lengst stendur frá hinu guðlega. En maðurinn sem slíkur er myndaður úr frumefnunum 5, eins og alheimurinn. Munurinn á manni og steini er þá sá, að steinninn er aðeins gerður úr frumefninu jörð, en tilvist mannsins grundvallast á mörgum stigum, sviðum, eða frumefnum. Maðurinn er því nær hinu guðlega en steinninn. Steinninn er á leiðinni að verða mannlegur. Maðurinn er á leiðinni að verða guðlegur. Það er takmark mannsins, að verða guð.

Maðurinn er því frumefnasúlan holdi klædd.

Og jógað kennir manninum að ferðst gegnum frumefnasúluna, orkustöðvarnar, og til guðs sem býr í eigin barmi og ert þú.

Þú ert það og það ert þú.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2017 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 375.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar