Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Þórhallur Heimisson

Jóga - Þriðji hluti

23. mars 2017

Þá er komið að þriðja pistlinum mínum hér um jóga, uppruna þess og kenningar.

Endurholdgunin er hinn trúarlegi útgangspunktur í jóga. Án endurholdgunar væri ekkert jóga.

En um hvað snýst endurholdgunarkenning jóga? Samkvæmt bæði hindúisma og búddisma er maðurinn bundinn hinu jarðneska, bundinn karma,  og þarf því að fæðast aftur og aftur. Það eru hin hræðilegu örlög okkar.

Karmalögmálið veldur þessu og ræður hvernig næsta endurholdgun gengur. Karma er í raun samansafn alls þess sem maðurinn gerir. Geri maðurinn gott, fæðist hann í góðum málum í næsta lífi. Geri maðurinn illt, fæðist hann í vondum, jafnvel í víti. Karmalögmálið er hið fullkomna orsakalögmál. Geri maðurinn „A“ í þessu lífi er afleiðingin „A“ í því næsta. Af því að maðurinn gerir eitthvað gott eða vont, endurfæðist hann. Geri hann ekkert hlýtur hann að hætta að fæðast Menn geta að vísu fæðst mishamingjusamir eftir því hvernig karma þeirra lítur út, en best er að þurfa alls ekki að endurfæðast.

Því sérhver fæðing er í raun fæðing til hrörnunar og dauða.

En hvernig má forðast endurfæðinguna? Fyrst og fremst er það gert með því að stunda jóga. Jóga er aðferðin eða leiðin til þess að ná stjórn á lífsneistanum, lífsaflinu, orkunni er streymir í gegnum alheiminn, og slökkva með lífsneistanum lífsneistann.

Það eru margar leiðir (jóga) sem geta leitt manninn út úr hringrás endurfæðingarinnar samkvæmt hindúisma og búddisma.
Við getum nefnt nokkur dæmi:

Bahkti-jóga er leið kærleikans og tilbeiðslunnar. Við biðjum guð/Búddah að hjálpa okkur og treystum á leiðsögn hans.

Karma-jóga er leið athafnanna. Þá er átt við helgiathafna. Með því að stunda réttar helgiathafnir nærð þú tökum á lífsþorstanum og getur slökkt hann.

Prana- jóga er leið öndunarinnar. Rétt öndunartækni temur sálina í brjósti þér. Markmiðið er að verða eitt með alheimsönduninni og sleppa úr hringrás endurfæðingar og dauða.

Rayja- jóga er leið orkustjórnunar, aðferð til að ná stjórn á orkustraumum alheimsins.

Hatha - jóga  (líka kallað tantra/raja-jóga) er leið líkamsstjórnunar og Kundalini.

Oft er það svo að hinum ýmsu afbrigðum jóga er blandað saman og er þá hugtakið einskonar sameiningartákn fyrir allar leiðirnar að markinu.      
Hinns vegar verður lesandinn að hafa það í huga, að sjaldnast fá „leitendur“ að vita af öllum þessum trúarhugmyndum er að baki búa, þegar sóttir eru tímar í jóga hér á Vesturlöndum. Oftast er  jóga kynnt sem aðferð til þess að komast í betra andlegt og líkamlegt jafnvægi. En hitt býr í raun að baki. Þú þarft að ná tökum á anda og líkama til þess aftur að geta fylgt leiðinni áfram, gengið jóga (vegferðina) burt frá heiminum.

Í tantrajóga kemur hinn duldi  skilningur fram sem lagður er í frumefnasúluna er við skoðuðum hér  í fyrri pistlum.

Maðurinn er frumefnasúla.

Frumefnasúlan, stupan, greinist niður í orkumiðstöðvar sem endurspegla hver og ein frumefni alheimsins. Frumefnasúla mikro-cosmos mannsins endurspeglar þannig frumefnin í makro-cosmos heimsins. Orkustöðvarnar kallast „chakras“ á sanskrít, hinu forna trúarmáli indverja. Þær liggja með vissu millibili eftir hryggjarlengju mannsins samkvæmt kenningunni. Ósýnileg  leiðsla er heitir „Sushuma“ tengir þær saman. Það má segja að „jóga“ sé „Sushuma“ því leiðin liggur eftir Sushuma til æðri stiga. Reyndir bætist nú sjötta frumefnið við þegar tantra er stundað. Það er esoteriskt, dulið og aðeins opinberað hinum upplýstu. Það er hin æðri, yfirnáttúrulega meðvitund er menn geta öðlast þegar þeir hafa sigrast á öllum orkustöðvunum. Að sigrast á orkustöðvum líkamans merkir aftur að ná taki á frumefnunum hverju af öðru. Við munum að frumefnin eru misguðleg, eftir því hversu miklu af atman alheimsins þau búa yfir. Í hvert sinn sem leitandinn nær að fá vald yfir einu frumefnanna, lyftir hann sér nær hinum guðlega upphafspunkti. Þannig snúa menn aftur að  guðlegum uppruna sínum gegnum orkustöðvarnar sex. Sá sem nær því marki að öðlast hina sjöttu yfirnáttúrulegu meðvitund, hefur í raun allt vald í hendi sér, er guð í líki manns.

Um þessa fullkomnun segir í Svetasvatara Upanishad, einu af Upanishada ritum Indverja,frá því um 600 f.kr:

Þegar jóginn (gúrúinn) hefur náð fullri stjórn á likama sínum og hinum fimm frumefnum hans, fær hann nýjan líkama andlegs elds sem er handan sjúkdóma, aldurs og dauða.

Jóginn verður í raun að guði.

Samkvæmt búddismanum er Búdda hinn æðsti jógi og því gjarnan sýndur í jógastellingum eða í hugleiðslu. Af því sjáum við hversu mikið vægi jóga hefur í búddismanum.

En hvað af manninum er það sem verður guð?

Ef maðurinn er stupa og gerður úr frumefnunum fimm, hvað er það þá í manninum sem á vissan hátt óháð manninum getur leitað upp stöðvarnar og sigrast á  frumefnunum og alheiminum og gert mannin guðlegann?

Það er Kundalini-Slöngu krafturinn!

Um hann verður fjallað í næsta pistli

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2017 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 597.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar