Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Sólveig Halla Kristjánsdóttir

Sorgin og jólin

Þegar næðir í mínu hjarta og í huga mér engin ró.

Og ég þrái að sjá hið bjarta sem að áður í mér bjó

þá er lausnin alltaf nálæg, ef um hana í auðmýkt bið

og með bæninni kemur ljósið og í ljósinu finn ég frið.

Aðventan líður og bráðum kveikjum við á fjórða kertinu, jólin eru handan við hornið. Við jólaundirbúning á aðventu, hef ég vanið mig á að gefa sjálfri mér tíma, í einveru, leyft huganum að reika til baka, til fyrri jóla. Stundum læðist fram bros á varir, mér hlýnar í hjartanu, en það gerist líka stöku sinnum að það er eins og herpist um hjartað og ég þorna í hálsinum. Þá leyfi ég tárunum að renna. Af því að minningarnar geyma bæði gleði og sorg. Fyrir 14 árum undirbjó ég jólin með föður mínum og systkinum, í fyrsta sinn án mömmu, sem var bráðkvödd í júní 2002. Fyrst eftir andlát hennar fór sú spurning um huga minn að kannski ætti ég aldrei eftir að finna jafn mikla gleði og ég hafði eitt sinn notið. Það var engin sálarró, aðeins hyldjúpur harmur, söknuður sem skar hjartað.

Síðan komu aðventa og jól. Mér fannst mikilvægt að halda í hefðirnar, að baka smákökurnar, þrífa og skreyta eins og hún…. En varð fljótlega ljóst að það var ekki raunhæft. Ég gat svo sem gert öll þessi sömu verk, en„jólaandinn“ var ekki sá sami, ég var ekki sú sama.

Ó, svo dapur er dagur vaknar, dægurþrasið svo fjarri er.

Mundu þegar þú sárast saknar og sólin skín hvergi nærri þér

að í bæn er falin máttur er þig magnar þúsundfalt

því með bæninni kemur ljósið og í ljósinu lagast allt.

Ég lærði síðan að það er í lagi að hlutirnir séu ekki nákvæmlega eins og„þeir höfðu alltaf verið“ og það er á vissan hátt léttir fólginn í því að hafa minni væntingar en meiri. Ég man að ég hafði enga matarlyst og kom engu niður, þegar sest var niður við matarborðið á aðfangadagskvöld, kannski var það þreytan, kannski sorgin. Við hjálpuðumst síðan öll að við að ganga frá. Opnuðum pakkana, það var sérstaklega ánægjulegt að hafa litlu frænkurnar mínar hjá okkur um jólin og fylgjast með þeim undrast yfir gjöfunum og leika sér. Það hjálpaði, létti á hjartanu. Að lesa jólakortin var ljúfsárt, góðar kveðjur og hugsanir ástvina yljuðu þó, mér fannst ég umvafin hlýju, samkennd og væntumþykju. Þegar ég lít til baka, var samt ef til vill dýrmætast að við gátum öll verið saman, systkinin og pabbi, mágur minn og litlu frænkur mínar. Það var ljósið í aðstæðunum. Og við bárum gæfu til þess að geta sýnt hvert öðru þolinmæði, hver og einn verður að fá að syrgja á sinn hátt.

Stundum var gott að vera öll saman, jafnvel bjóða stórfjölskyldunni og halda jólaboð, en svo komu stundir þar sem gott var að fara afsíðis og vera ein. Það var líka hjálplegt að dreifa huganum og fara bara í fjós, mjólka, gefa kindunum, hlusta á útvarpið, hugsa…. Mér fannst við kannski ekki eiga svo óskaplega Gleðileg jól, þetta árið, en mér fannst við eiga Góð jól. Þeim fylgdi angurværð, hlýja og jafnvel von, því innst inni vissi ég að þetta yrði ekki alltaf svona sárt, ég myndi ganga í gegnum þessi jól og þessa reynslu, og halda áfram. En þarna, á þessum tíma var það á sárt og ég viðurkenndi það…Svo hafa árin liðið.

Ég vil mæta þessum degi, fagna öllu sem fyrir ber

og ég bið þess að ég megi njóta alls sem hann gefur mér.

Ef ég bið á hverjum degi, hef ég von sem aldrei deyr

því með bæninni kemur ljósið og í myrkri ég geng ei meir.

Ég var svo lánssöm að eiga góðar og gleðiríkar minningar um jól. Með árunum hef ég haldið í margar af gömlu hefðunum, þær sem lyfta sálinni og gleðja. Ég hef líka skapað nýjar hefðir með eiginmanni mínum, börnum og tengdafjölskyldu. Með það að markmiði að gefa og njóta og safna í minningafjársjóðinn, einkum fyrir börnin mín. Ég held að það sé engin ein rétt leið til að halda jól í fyrsta sinn eftir að við höfum misst ástvin. Við bara erum, tökum á móti tilfinningunum og hugsunum eins og þær koma, stundum eins og flóðbylgjur. Finnum styrk hjá hvert öðru og sýnum hvert öðru þolinmæði og skilning, engir tveir syrgja eins. Já það getur verið gott að sýna sjálfum sér mildi og bara vera, án allrar kröfu um að vera svona eða hinsegin. Jólin koma og þau fara, eins og annar tími. En ég vona og bið að þessi tími verði góður. Með óskum um góð jól.

Höfundar ljóðs: Páll Óskar Hjálmtýsson og Brynhildur Björnsdóttir.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2505.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar