Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Ólöf I. Davíðsdóttir

Baráttan um vatnið - djáknaþjónustan í kirkjunni

Vídeó með Jóhannesarguðspjalli 5.1-9 https://youtu.be/IzLbn1HasHQ

Sumir spá því að hinsta heimstyrjöldin verða barátta um vatnið. Kannski eiga einhverjir erfitt með að sjá það fyrir sér því síðustu áratugina virðast mörg stríð vera háð vegna olíu. Vatn og olía blandast ekki. Fleiri orkugjafar hafa verið þróaðir og enn fleiri eru í farvatninu svo olían verður ekki lengur úrslitakosturinn fyrir alla. Það er uggvænlegt fyrir þá sem byggja vald sitt og efnahag á olíulindum. Heilu samfélögin munu þá riðlast, líkt og gerðist með kolanámubæina á síðustu öld.

Ferskt og heilnæmt vatn er óvíða aðgengilegt. Fólk, dýr og gróður lifa ekki af án vatns. Sumir hafa þó gengið svo langt að halda því fram á opinberum vettvangi að vatn falli ekki undir réttindi fólks þó það sé lífsnauðsynlegt. Þessir vilja einoka vatn, tryggja sér einkarétt á rennsli þess, takmarka aðgang fólks að neysluvatni og selja því vatn. Ef það yrði ekki nóg til að hefja stríð þá yrðu örugglega stríð ef uppspretta vatns færi þverrandi. Fólk hefur orðið flóttafólk vegna þess að vatnið þraut. Íslendingar fá nú nasaþefinn af flóttamannastraumi. Þó hann stafi ekki af vatnsskorti yrði flóttamannastraumurinn ekkert öðruvísi ef flóttinn stafaði af þurrki. Niðurstaðan yrði sú sama. Fólk hefði ekki athvarf, viðurværi, öryggi né framtíð.

Vatn hefur í sjálfu sér engan töframátt en það tryggir samt lífsgæði í nútíð og viðheldur von um framtíð. Þar sem vatnið er, safnast fólk saman, þar verður samfélag. Í Jóhannesarguðspjalli segir frá fólki sem safnaðist saman við vatn. Það hafði trú á að þetta vatn byggi yfir mætti til að græða mein þess svo fólk gæti endurheimt líf sitt. Sögurnar af þessari græðandi lind gáfu fólki von um framtíð. Jafnvel þó ekkert hefði verið hæft í því að vatnið hefði lækningamátt þá verður ekki litið framhjá áhrifum þessarar tiltrúar. Enn í dag eru reknar heilsulindir og oft kostar fólk miklu til að komast niður í þær. Við getum því ekki afskrifað þessa biblíusögu sem vísbendingu um forna mýtu og hindurvitni, þó svo tiltrúin á þessa tilteknu heilsulind hafi liklega ekki verið annað en það, þjóðtrú.

Jesús kom að þessari lind sögunnar, hugsanlega oftar en einu sinni. En það er aðeins sagt frá einni heimsókn og önnur guðspjall hafa hana ekki eftir. Skýringin sem frásögnin gefur á því að þar hafi veikt fólk safnast saman var þjóðsaga um að himneskar verur hrærðu í vatninu svo sá sem fyrstur færi ofan í laugina á eftir yrði heill. Guðspjallið segir ekkert um hvað Jesú fannst um þessa þjóðsögu eða hvort hann trúði þeirri skýringu á ólgunni í lindinni. Eigum við hvort eð er nokkuð að trúa furðusögum? Margir biblíufræðingar telja þessa skýringu seinni tíma viðbót í frásögnina og vantar hana í sum handrit textans. Það hefur líka þótt óviðeigandi að setja gamla þjóðsögu inn í helgirit. Þjóðsaga eða heilagur sannleikur, það liggur á milli hluta. Hún segir okkur samt af hverju allt þetta veika fólk safnaðist saman á einum stað. Það var vegna vatnsins sem vakti þeim von.

Þá erum við komin að fílnum í stofunni. Hvernig tengist djáknaþjónusta kirkjunnar furðusögn um vatnagaldur? Tilefni þessa pistils er málþing um djáknaþjónustu í kirkjunni, haldið 23. október 2015. Þjóðkirkjan ákvað á sínum tíma að kærleiksþjónusta og fræðslustörf væru sérsvið djáknans. Djáknaþjónusta skyldi vera fagleg og því var komið á fót fagmenntun, djáknanámi, við guðfræðideild Háskóla Íslands. Fyrstu nemendurnir útskrifuðust frá HÍ árið 1994.  Þaðan hafa 98 manns lokið djáknanámi auk 5 til viðbótar sem menntuðust erlendis. Helmingur djáknamenntaðra hefur fengið djáknavígslu. Af þeim eru 22 starfandi djáknar á Íslandi í dag og einungis 6 þeirra eru í fullu starfi. Þetta eru uggvænlega lágar hlutfallstölur. Það er mikilvægt að söfnuðir viðhaldi djáknastöðum til langframa svo þekking og reynsla af kærleiksþjónustu viðhaldist innan safnaðanna. Þetta þarf að tryggja með eðlilegri nýliðun og atvinnuöryggi sem grundvalla verður á langtímaáætlun í safnaðarstarfi. Með því nær kærleiksþjónustan annars vegar að víkka starfssvið sitt sem skyldi út á við til þeirra sem ekki hafa burði eða tækifæri til að koma í kirkjuhúsið og hins vegar að mynda varanleg tengsl við markhópa. Það er varasamt að fækka djáknum. Það er brýnt að þjóðkirkjusöfnuðir skilgreini kærleiksþjónustu sem afmarkað starfssvið en setji ekki allar góðgerðir sínar undir sama hatt og kalli það díakóníu. Það getur líka verið varasamt að safna saman hrærigraut af ólíkum verkefnum og ráða svo djákna til að halda þeim á floti. En þá er hætt við að viðkomandi takmarkað sinnt eiginlegri kærleiksþjónustu. Það er hætt við að dag einn fari fólk að halda að djáknar séu bara þjóðsaga um kærleiksengla sem af og til busluðu í helgidóminum.

Djáknar eru ekki himneskar verur. En þau sem sinna kærleiksþjónustu eiga þátt í því að færa fyrirheit himninsins inn í jarðneskan veruleika og láta þau rætast. Djáknar eru ekki göldróttir. Kærleiksþjónusta bætir ekki erfiðar aðstæður fólks með góðum hugmyndum heldur aðgerðum. Kærleikserindi kirkjunnar varðar velferð og velfarnað fólks í raunverulegum aðstæðum. Djákninn er sendur til þeirra sem ekki hafa aðgengi eða burði til að sækja sér styrk í samfélagi þar sem kirkjunnar fólk kemur saman. Söfnuðir þurfa að huga að því að kærleiksþjónustu felur í sér leitarstarf meðal þeirra sem lifa á jaðrinu í einhverjum skilningi. Stundum virðist safnaðarstarf snúast um að hafa ofan af fyrir þeim sem koma í kirkjuhúsið. Það er praktískt, eðlilega, því starfsemi þarf staðsetningu og þá er hægt að sinna mörgum í einu. Uppskeran er mikil en verkamennirnir fáir, er haft eftir Jesú við annað tækifæri. Söfnuðir finna upp á ýmsum áhugaverðum nýjungum í safnaðarstarfi til að fá fólk til að koma og vilja halda áfram að koma. Það er gott. Það hefur aðdráttarafl, eins og laugin sem Jesús kom að. En erum við þá upptekin af því að fólk fari ofan í ólgandi vatnið til að hafa gagn af því? Trúum við því að það sé vatnið sem geri fólk heilt? Trúum við að vatnið sé aðeins innan kirkjunnar? Ef við höfum tröllatrú á vatninu, viljum við þá að minnsta kosti fara með það þangað sem þörf er fyrir líknandi vökvun?

Í sögunni fer Jesús þangað sem þörfin er, svipast um og snýr sér að manni sem bar með sér að hafa lifað lengi við þjáningu. Þjáning rýrir lífið. Jesús spurði manninn hvort hann vildi verða heill. Maðurinn svarar á þá leið að það væri ekki á færi hans að verða heill. Hann kæmist ekki í laugina. Jesús lýsir þá manninn heilan svo maðurinn gengur sjálfur burtu af þessum stað bjargarleysis.  Jesús hjálpar honum ekki ofan í laugina heldur gerir hann heilan þar sem maðurinn var. Maðurinn verður burðugur gerandi í eigin lífi. Þegar lesið er lengra í frásögninni kemur í ljós að sjúki maðurinn vissi ekki einu sinni hver Jesús var. Sjúki maðurinn þurfti ekki að trúa til að kærleikurinn gerði sér erindi til hans.

Stundum er rætt um fólksflótta úr kirkjunni því hlutfall landsmanna skráðra í þjóðkirkjuna hefur lækkað. Þjóðfélagið hefur breyst á þeim 20 árum sem liðin eru síðan fyrstu djáknanemarnir útskrifuðust hér á landi. Á vettvangi fjölmiðla og samfélagsmiðla virðist bera á því að fólki finnist kirkjan ekki eiga erindi til þess. Samt hefur það væntingar til hennar og kallar eftir  viðbrögðum í orði og verki þegar á reynir. Kærleiksþjónusta djákna og annarra getur verið aflið sem hrærir í lífsvatni kirkjunnar þar sem áhrif og ávextir verkanna vekja von og byggja samfélag fólks. Kirkjan á erindi og fólkið sem sinnir því í hennar nafni leggur sig fram af bestu getu til að sinna því vel. En það er þörf á að skerpa á áherslum og forgangsraða í þágu kærleiksþjónstunnar því það er hún sem flytur fólki þá líkn og græðslu sem umbreytir, eflir og sættir í erfiðum aðstæðum lífsins. Kærleiksþjónusta kirkjunnar er sendiför og hún verður ekki farin í ómönnuðu geimfari.

Um höfundinnEin viðbrögð við “Baráttan um vatnið - djáknaþjónustan í kirkjunni”

  1. Djáknafélag Íslands | skrifar:

    […] Þessi stutti trúðleikur af fluttur á málþinginu “Hrærum vatnið! Djáknaþjónusta í kirkjunni”. Hann sækir innblástur í frásögn Jóhannesarguðspjalls 5.1-9 um lækningu sjúks manns. Á tru.is var einnig birtur pistill byggður á sömu hugmynd. […]

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2931.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar